Veröld út af fyrir sig – Samfélag skynjandi vera í Hafnarborg

Veröld út af fyrir sig – Samfélag skynjandi vera í Hafnarborg

Veröld út af fyrir sig – Samfélag skynjandi vera í Hafnarborg

Sýningin Samfélag skynjandi vera í Hafnarborg leikur sér með hinn breiða heim skynjunarinnar og mismunandi blæbrigði samfélagsins. Undir yfirskriftinni að hvetja til róttækrar samkenndar (e. radical empathy) sem og að gefa ósögðum sögum rödd býður sýningin upp á veröld upplifana út af fyrir sig. Sýningastýrð af Wiolu Ujazdowska og Hubert Gromny, er hún ellefta haustsýning Hafnarborgar, en haustsýningarnar gefa nýjum sýningarstjórum kost á að sýningastýra.

Alls taka tuttugu listamenn þátt í sýningunni og hún nær yfir öll rými Hafnarborgar. Hópnum tilheyra þau Agata Mickiewicz, Agnieszka Sosnowska, Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir, Angela Rawlings, Anna Wojtyńska, Dans Afríka Iceland, Freyja Eilíf, Gígja Jónsdóttir, Hildur Ása Henrýsdóttir, Hubert Gromny, Kathy Clark, Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir, Melanie Ubaldo, Michelle Sáenz Burrola, Nermine El Ansari, Pétur Magnússon, Rúnar Örn Jóhönnu Marinósson, Styrmir Örn Guðmundsson, Ufuoma Overo-Tarimo og Wiola Ujazdowska.

Sýningin er fjölþætt og yfirgripsmikil; sem endurspeglast í metnaðargfullum og víðfeðmum markmiðum hennar. Eitt slíkt markmið er að hvetja til endurhugsunar sýningargesta gagnvart heiminum, vandamálum nútímans sem og sambandi okkar við náttúruna. Markmiðinu er fylgt eftir með ríkri áherslu á skynjunina en öll verk sýningarinnar endurspegla hvað listamennirnir túlka sem skynjun og hvað það sé að vera skynjandi vera. Í rýminu er stigið út fyrir ramma tungumálsins og sýningargestir eru hvattir: „hlustið með fótunum“.

Er ég gekk í gegnum sýninguna fann ég að verkin ein og sér mynduðu litla króka og kima sjálfstæðra sagna eða skilaboða. Jafnharðan og ég hafði áttað mig á einu verki var mér kippt út úr því með öðrum skilaboðum. Við fyrstu sýn virtust verkin ótengd vegna þess að rauður þráður sem batt þau saman var ekki bersýnilega til staðar. Það rann þó upp fyrir mér að það væri birtingarmynd hins eiginlega samfélags sýningarinnar. Samfélagið sem hér birtist er ekki einsleitt, stílhreint né velur það sér hvaða málefni er mikilvægast, heldur er það margbreytilegt, fjölskrúðugt og getur haldið fjölda málefna á lofti í senn.

Mörg verk sýningarinnar eru gagnvirk og leggja ríka áherslu á þátttöku: listamennirnir bjóða upp á verkefni, að stíga inn í hugarheim og dvelja þar um stund. Gígja Jónsdóttir safnar tárum í Tárabrunn, Anna Wojtyńska og Wiola Ujazdowska gefa plöntur í verki sínu Við þörfnumst öll sólar, Styrmir Örn Guðmundsson og Agata Mickiewicz bjóða gestum í hugleiðslu í verkinu Upphafið í eimingarflösku og Nermine El Ansari teiknar á landamæri í Exercise. Gagnvirknin dró mig aftur og aftur að sýningunni; þú sem sýningargestur ert skynjandi vera og þú tekur virkan þátt í að móta samfélagið sem á sýningunni birtist.

Nermine El Ansari

Agata Mickiewicz og Styrmir Örn Guðmundsson

Saman mynda verk sýningarinnar margbrotna mynd af samfélagi sem er flókið og ruglingslegt. Sýningin undirstrikar fremur en að skýra þá upplifun. Að átta sig, fóta sig í nútímanum er erfitt og sýningarstjórarnir leggja gestum ekki lið við að botna eða átta sig á því hvað fer fram að hverju sinni. Sýningartextinn er skrifaður með skapandi hætti og segir lítið sem ekkert sem getur „hjálpað“ sýningargestum við að átta sig á einstaka tengingum milli verka. Mögulega er það viljandi og af ásetningi gert.

Nokkrar paranir verka stóðu upp úr og vöktu athygli mína og umhugsun: fékk mig til þess að lifa mig inn í samfélag skynjandi vera og undirstrikuðu markmið sýningasrtjórana í mínum augum.

Melanie Ubaldo

Pólitískt verk Melanie Ubaldo „Þú ert ekki íslensk. Nafnið þitt er ekki íslenskt.“ talar sínu eigin máli. Skýli reist á sandi, sem minnir á lítið Christo og Jeanne-Claude verk, er umvafið neyðarteppi og gefst gestum kostur á að staldra við inni í skýlinu, finna lyktina af sandinum og dvelja í merkingu verksins. Skýlið er byggt samkvæmt stöðlum Sameinuðu þjóðanna um stærð slíkra neyðarskýla. Þrúgandi veruleiki nútímans er óumflýjanlegur, það er aðkallandi óleystur vandi til staðar. Vandanum er þó velt fyrir sér í fjarlægð frá flóttamönnunum, innan listasafnsins, þannig er viss fjarlægð er til staðar sem minnir á hvernig við horfum á slík mál heiman frá okkur í gegnum netið eða dagblöðin.

Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir

Verkið er staðsett á efri hæð aðalrýmis Hafnarborgar við hlið annars verks sem kallar á þveröfugt hugarfar. ASMR hvísl og slakandi raftónlist má hlusta á sitjandi á gæru sem breidd er yfir bekk úr steypu. Verkið kallast RAW PURENESS—SELF LOVE og er eftir Katrínu Ingu Jónsdóttur Hjördísardóttur. Við upplifun verksins var ég færð inn í einbýlishús mögulega staðsett í Garðabænum. Ég var ekki viss um hvort að hér væri á ferðinni kaldhæðni eða grafalvarleg skilaboð um mikilvægi þess að stunda sjálfsást. En parað með verki Melaniu virkar það eins og einskonar refsing eða sjálfshatur. Sjálfsástin sem ég stunda persónulega heima hjá mér á þriðjudagskvöldum er orðin þrúgandi, á samt sem áður rétt á sér í sínu eigin rými sem inniheldur reyndar enga gæru. Hér virkar hún kaldranaleg, jafnvel kaldhæðin. Er hún það? Þetta er ekki sýning með svör. Kannski er sjálfhverft að stunda sjálfsást á gæru og kannski er virk iðkun sjálfsástar eina leiðin framávið, það er erfitt að segja. Það gildir þó einu að báðar hliðar eru hlutar samfélags skynjandi vera og það er leyfilegt að draga iðkunina í efa og virða hana fyrir sér í stærra samhengi.

Með þessu sniði leika sýningarstjórarnir sér með innhverfa og úthverfa þætti mannlegrar tilveru. Það er erfitt að fóta sig, að ná fókus í tilverunni og um leið og ég náði fótfestu í einu verki var mér kippt úr henni í skiptum fyrir önnur skilaboð, fleiri sögur og enn fleiri verkefni.

Rúnars Arnar Jóhönnu Marínóssonar

Gígja Jónsdóttir

Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir

Anna Wojtyńska og Wiola Ujazdowska

Á neðri hæð Hafnarborgar birtist slík upplifun mér með skýrum hætti: tár, leikur og náttúra fá þar að raungerast í sama rými. Í verki Andreu Ágústu Aðalsteinsdóttur Eldur og flóra brennur náttúran vegna gróðurelda en Við þörfnumst öll sólar leggur áherslu á hinn glóandi eldhnött sem veitir okkur og öllu lífríki líf. Við grátum eins og Tárabrunnur minnir á en samt sem áður er rými fyrir leik í þessu samfélagi skynjandi vera, þar sem leikföng geta öðlast líf eins og í verki Rúnars Arnar Jóhönnu Marínóssonar Sjúga og Spýta lifa og starfa.

Í innsta rými Hafnarborgar má finna tvö verk sem einnig leika sér með innhverfa hugsun og úthverfa tengingu okkar við náttúruna eða jörðina. Agata Mickiewicz er með textílverk sem kallast Schumann-ómun og er myndræn framsetning slíkrar ómunar. Schumann ómun á sér rætur að rekja til rafbylgja sem myndast út frá eldingum og eiga sér stað víðs vegar á jörðinni. En slík ómun samkvæmt ýmsum vefheimildum (sem ég get þó ekki staðfest að séu áreiðanlegar) hefur róandi áhrif á líkama okkar. Í sama rými er mynbandsverkið Upphafið í eimingarflösku: í myndbandinu er litríkum formum varpað á ófrískan maga, sem eflaust táknar upphaf og nýja byrjun og litlir kollar eru dreifðir um herbergið og gefst gestum kostur á að hugleiða við handleiðslu raddar sem hljómar í rýminu. Þessi pörun verka var einstaklega vel heppnuð og kallar á mikla umhugsun. Annars vegar er geta okkar til að slaka á og róa okkur sjálf og hins vegar er hin mögulega geta náttúrunnar til þess að hafa slík áhrif á okkur utan frá.

Heildarskynbragð sýningarinnar er yfirþyrmandi. Þó er yfirþyrmandi heldur neikvætt orð yfir upplifun mína sem best væri lýst með áreynslunni við að reyna að velta fyrir sér mörgu í einu. Og þar sem það er ekki nauðsynlega áreynslulaust að fara á listsýningu þá rann upp fyrir mér að mögulega eru ein skilaboð af mörgum sem taka má með sér af sýningunni þau að svoleiðis séu samfélög í raun og veru.

Í viðtali við Víðsjá lýsir Wiola samtímanum eins og að vera með marga glugga í vafranum sínum opna í einu sem passar vel við upplifun mína af Samfélagi skynjandi vera. Það var sem ég væri að reyna að ná utan um margar mismunandi hugsanir í senn, (sem vissulega kemur oft á tíðum fyrir mig) nema að í sýningunni var sú upplifun sett í efnislegt form og það heppnaðist einkar vel þegar ég náði að sleppa tökum á því að reyna að finna einn rauðan þráð, þema eða eitthvað eitt haldreipi sem myndi leiða mig í gegnum sýninguna.

Hugarfarið sem ég þurfti að temja mér við að melta sýninguna var þar af leiðandi gerólíkt því sem ég hef þurft að temja mér í minni eigin akademísku hugsun. Frá minni eigin reynslu af heimspeki að dæma, eina akademíska sviðið sem ég hef sjálf reynslu af, er ómögulegt að taka fyrir Samfélag skynjandi vera í einu verki. Það hefur verið gert en oftar en ekki er það í formi doðranta sem spanna mörg hundruð blaðsíður og eru verk sem taka lífstíð að lesa og botna eitthvað í. Því takast nútíma heimspekingar oftast á við sitt eigið sérsvið. Stóru spurningarnar eru smættaðar niður í viðráðanlegar einingar og tengsl þeirra á milli er svo hugsuð sem eining í sjálfri sér. Flokkanir og skilgreiningar gera viðfangsefnið viðráðanlegt, skiljanlegt og mótanlegt.

Út frá upplifun minni af því að hugsa um allt í senn, túlka ég lokaorð sýningaskrárinnar „Það má merkja að einlægur samhugur og róttæk samkennd, fremur en rökhyggja og vísindi, veita okkur inngöngu í samfélag skynjandi vera“ sem boð um að sleppa taki á flokkun og skilgreiningum vísinda og rökhugsunar, leyfi til þess að sjá einstaka sögur í stærra samhengi og í beinum tengslum við aðrar.

Þannig stígur sýningin út fyrir rökhyggjuna sem oft helst í hendur við flokkun innan vísinda og fræðimennsku og tekst á við nútímann í formi margbreytileika innan sama rýmis. Þannig má líta á markmið sýningarinnar ekki sem andspyrnu gegn vísindum og rökhyggju heldur sem boð um að stíga út fyrir fræðilegu takmörkin sem vísindi og fræðimennska verða að setja sér og sjá verkin sem hluta af neti eða einfaldlega sem Samfélag skynjandi vera.

Eva Lín Vilhjálmsdóttir


 

Ljósmyndari: Kristín Pétursdóttir

  • [1] https://hafnarborg.is/exhibition/samfelag-skynjandi-vera/
  • [1] Tekið úr sýningarskrá
  • [1] https://www.pressreader.com/iceland/frettabladid/20210908/282080574951335
  • [1]https://www.nasa.gov/mission_pages/sunearth/news/gallery/schumann-resonance.html
  • [1] https://www.ruv.is/utvarp/spila/vidsja/23618/7hquuc
Erling Klingenberg í Marshallhúsinu

Erling Klingenberg í Marshallhúsinu

Erling Klingenberg í Marshallhúsinu

Yfirlitssýningin Erling T.V. Klingenberg er nú til sýnis í Marshallhúsinu. Hún inniheldur verk frá síðastliðnum 25 árum af ferli Erlings. Erling er einn stofnandi gallerísins Kling & Bang sem nú er í Marshallhúsinu og hefur verið virkur þátttakandi í listasenunni á Íslandi sem og erlendis í þau ár sem tímabil sýningarinnar gefur til kynna.

Í verkum sínum og á hinum mismunandi tímabilum sem sýningin spannar tekst Erling á við hin ýmsu þemu. Eitt af þemum sýningarinnar er sjálfskoðun þess að vera listamaður og samhengi listamannsins. Í því þema birtast mér ýmsar skírskotanir til sálgreiningar og karlmennskunnar í hreinni mynd, út frá sjálfi Erlings.

Í mörgum verkunum, ef ekki öllum, tekst Erling á við sjálfsskoðun í gegnum húmor, einlægni og kaldhæðni. Kaldhæðnin spilar sterkan sess í einlægri sjálfshæðni sem virkar vel og er fyndin í verkunum. Til að mynda er það sterkt í verkum Erlings að bendla sjálfan sig við aðra listamenn, bræða sér jafnvel saman við þá eins og sjá má í verkinu á myndinni hér að ofan. Í því er Erling búinn að steypa/blanda andlitu sínu saman við andlit annarra listamanna og fólks innan listasenunar sem hann lítur upp til. Þar af leiðandi kemst hann nær þeim, máir út skilin á milli sín og þeirra – verður þau. Sjálfsmyndin er þannig þanin út fyrir hann sjálfan og er það auðvitað drepfyndið.

Í sama rými er Erling búin að setja upp borð með munum eftir ýmsa fræga listamenn. Rannsókn á myndlistarmönnum. Einskonar safngripum sem hann hefur gripið með sér og safnað að sér í gegnum tíðina, þar eru hlutir sem listamenn hafa snert eða átt, til dæmis vínglas sem Jeff Koons drakk úr og sokkur sem Ragnar Kjartanson átti einhvern tímann. Yfir því tróna myndir af Erlingi sjálfum og lítið rautt skilti stafar Erling Klingenberg. Bendlunin er algjör. „Sjáðu hvað ég hef hitt marga fræga listamenn og það gerir mig milliliðalaust meira frægan sjálfur,“ virðist verkið segja. Á meðan er staðsett til hliðar við borðið myndband af fólki sem allt segir nafn hans „Erling Klingenberg“ og má líta á sem einskonar tilraun til að staðfesta tengingu hlutana við hann sjálfan í undirmeðvitundinni. Það er ekki hægt að skoða hlutina án þess að hugsa um Erling Klingenberg enda myndi það ganga gegn tilgangi verksins.

Útþennsla sjálfsmyndarinnarinnar og afmörkun hennar birtist því sem þema í báðum verkunum, hver er ég án tenginar eða samanburðar við aðra? Virðist listmaðurinn spyrja. Hver er listamaðurinn án samhengis? Og er mögulegt að skapa þetta samhengi sjálfur? Í gegnum eitthvað eins ómerkilegt og sokk? Án þess samanburðar sem er eða virðist oft vera órjúfanlegur hluti túlkunar á list?

Andstætt þessu verki hanga andlitsgrímur af honum sjálfum sem upphaflega þjónuðu þeim tilgangi að vera fyrir sýningargesti til þess að þau gætu orðið hann sjálfur. Eins konar speglun á sér stað í verkunum, hann speglar sig og myndar úr sér mót af sjálfum sér. Endurskapar sjálfan úr vaxi, Tvífarinn, og nær þannig að búa til sjálfan sig út fyrir sig sjálfan, skoðaðan frá grímum, afmyndunum af honum sjálfum. Þetta minnir óneitanlega á hugmynd Lacans um The Mirror Stage þar sem sjálfsmyndin tekst á við að vera eitthvað til á öðrum stað í rýminu, innan spegilsins og fer að rýna í þennan dualisma. Hér er ég í líkama mínum og þarna sé ég mig í speglinum. Manneskjan verður tvöföld og áhuginn beinist út fyrir okkur sjálf til að líkamsmyndin okkar verði hluti af sjálfskilningi okkar og skoðun.

Verkin eru pöruð á Nýlistasafninu með rauðum vegg sem inniheldur gylltum ramma með silfurlitum striga sem ber nafnið Föstudagurinn langi. Ómögulegt er að spegla sig í verkinu en það er jafnframt ekki hægt að segja að verkið eigi að vera spegill. Spegillinn getur verið falinn í hverju sem er, en það er ekki hægt að spegla sig í hverju sem er.

Tvíhyggja spegilmyndarinnar á sjálfsmynd og líkama má einnig sjá í It‘s hard to be an Artist in a Rockstar Body þar sem sjálfmynd listamannsins sem listamaður skoðar sjálfan sig út frá líkama sínum sem rokkstjarna. Þar sem þessi tvö element eru rist í sundur og sjálfsmyndin passar ekki endilega við það sem birtist í speglinum sjálfum – Rokkstjarnan sem við þráum öll að einhverju leyti að vera.

 

Bendlunin heldur áfram í annarri mynd í Kling & Bang en þar sprettur svipað þema upp í verkinu Ég sýni ekkert í nýju samhengi sem er endurmynd af annarri sýningu, eftir aðra listamenn, sem hefur átt sér stað á öðrum stað í öðru rými. Nú á öðrum tíma í Kling & Bang. Skopstæling uppsetningarinnar felur þannig í sér einhversskonar grín að listinni og listheiminum en einnig honum sjálfum. Hver er frumleikinn? Enginn og þannig á það að vera. Það sem frumlegt er, er ekki til heldur eingöngu þversögn eða tálsýn.

Líkamleikinn fær svo meira pláss í sýningarrými Kling & Bang svo sem, Skúlptúr fyrir skapahár, Kóngur, Grafið og Skapa-sköpum, hafa það sameiginlegt að vera alveg gríðarlega fallísk.  Áhorfandi setur sig inn í hugarheim og sköpunarverk Erlings Klingenbergs og heim hans sem karlmaður og hann ræðir sínar fallísku upplifanir opinskátt með öðrum karlmönnum. Karlmennskan nær þannig ákveðinni hæð í sýningunni sem getur verið stuðandi. Yfirtaka á rýminu er hluti af því karlmannlega, því hugvitslega (sýningarskráin) og innan listsköpunarinnar sjálfrar. Á hinn boginn má sjá hana frá því sjónarhorni að hún er opið boð til þess að skoða hin fallíska sköpunarheim Erlings Klingenbergs. Því hann er jú með fallus og er mótaður af sinni upplifun sem karlmaður í umhverfi sem er oftar en ekki mjög karlmiðað.

 

Eina tilraunin sem gerð er til að breiða yfir þetta fallíska sjónarhorn má finna í inngangi sýningarskránnar sem skrifaður er af Dorothee Kirch þar sem hún segir: „Ég er ekki hrifin af sjarmerandi karlkyns listamanninum […]  þessum sem virðast greiða yfir ýmislegt með yfirþyrmandi narsissískum persónuleika og áorka hluti með því að vera mjög sjarmerandi og mjög karlkyns og alltof of oft mjög óviðkunnalegir. … Þá er Erling það einfaldlega ekki.“ Inngangurinn er til að mynda eini texti sýningarskránnar sem skrifaður er af konu en samanstendur af ellefu textum eftir menn sem hafa misjafnar tengingar við listamanninn. Þrátt fyrir að Erling sé viðkunnalegur, að sögn Dorothee, þá segir það ekki allt sem segja má um þetta fullkomna pulsupartý sem sýningarskráin er (en hefði ekki þurft að vera). Hver og einn áhorfandi/lesandi verður þar af leiðandi að dæma fyrir sig hvað þeim finnst um sýninguna sjálfa, sjálfskoðun listamannsins og karlmennskuna sem birtist í henni, óháð því hvernig persónuleiki Erlings sé.

Á köflum er sýningarskráin  alvarleg, tekur sér alvarlega, mögulega of alvarlega. Þó eru textarnir marvíslegir (eins og verkin) og stundum er hún er full af sjálfsháði, nákvæmlega eins og sýningin er sjálf. Sýningin er einlæg háði sínu á karlmennskunni. Nær ákveðnum tón af kaldhæðni í garð þessarar sömu karlmennsku sem virkar og er fyndin. Húmorinn er greinilega það sem Erling beitir í sköpun sinni og finna má í yfirbragði sýningarinnar sjálfrar. Það nægir þó ekki að fela sig bakvið húmor og kaldhæðni. En sýningin gerir það ekki og gerir það samt á sama tíma – hún er tvíhliða. Tekur sér stöðu beggja vegna  kaldhæðni og alvara. Sýningin er einlæg í karlmennskunni jafnvel það einlæg í henni að hún er berskjölduð og þolir því umræðu um þessa sömu karlmennsku sem í henni birtist.

Tvinna má saman þau tvö þemu sem ég hef rætt hingað til og leyft þeim að tala saman. Í heildina er sýningin samtal um sjálfsímynd, útþennslu sjálfmyndarinnar, spegilsins og sjálf Erlings Klingenbergs sem listamanns í ákveðnu menningarrými og tímabili. Karlmennska er því óneitanlegur hluti af þessari sjálfsmynd og veru hans í listheiminum. Hún getur virkað sem spegill listamannsins við hið víðara samhengi sem samfélagið okkar býr og þrífst í.

 

Eva Lín Vilhjálmsdóttir 

Photo credits: Vigfús Birgisson

Röskum tilverunni

Röskum tilverunni

Röskum tilverunni

Kollektífið RASK, hefur það að markmiði að brúa bilið milli listar og tækni. Þau fylgja þeirri mörkuðu stefnu í nýjustu sýningu sinni, RASK#3, en eins og nafnið gefur til kynna er þetta þriðji viðburðurinn sem RASK heldur. Viðburðurinn var skipulagður af Sóleyju Sigurjónsdóttur, Ida Juhl, Guðmundi Arnalds og Örlygi Steinar Arnalds. Vefsíðuna gerðu Guðmundur Arnalds og Ása Júlía Aðalsteinsdóttir.

Sýningin, sem er eingöngu rafræn, opnaði þann 9.apríl síðastliðinn og hægt er að nálgast hana til 30. á nýrri heimasíðu RASK: www.raskcollective.com  sem opnuð var samtímis sýningunni. Verk eru eftir listamennina Hákon Bragason, Ásdísi Birnu Gylfadóttur, Halldór Eldjárn og Germán Greiner.

Flest verkin, að undanskildu einu, eiga þau sameiginlegt að taka fyrir samskipti með einum eða öðrum hætti. Möguleikarnir í listsköpun í gegnum rafræna miðla eru nær endalausir og það skemmtilegasta við sýninguna var það hversu ólíkt hvert og eitt verk var frá hverju öðru. Tvö þeirra eru  gagnvirk, þ.e.a.s áhorfandinn tekur þátt í verkinu (og stjórnar hvað gerist upp að vissu marki) á meðan hin tvö eru með aðeins hefðbundnara sniði. 

Einmanaleikinn birtist í öllum verkunum og er einn helsti rauði þráður sýningarinnar að mínu mati. Mér fannst ég þurfa að setjast niður með sjálfri mér til þess að njóta verkanna og það er einmitt það sem ég gerði. Settist niður ein og skoðaði þau. Í samræmi við það þema sem ég fann mun ég ræða verkin í röð; frá hinum mesta einmanaleika yfir í snertingu við aðra. 

Fyrsta verkið spyr okkur hversu ein getum við verið án þess að kafna úr eigin sjálfi? Það er verk Hákonar Bragasonar: Bubble Vision. Í verkinu er allur viðbúnaður tölvunnar/símans sem þú notar tekinn inn í reikninginn (mæli samt með því að skoða verkið í síma því þá hreyfist verkið í takti við staðsetningu símans). Hákon notar þessa tækni til að kalla fram einhverja tilfinningu; í mér kallaði það fram einmanaleika. 

Allt við Bubble Vision hrópar óþægileg einvera, frá bleiku undirtónum veggjanna til  sápukúlnanna sem innihéldu mig sjálfa með undirhöku. Þetta kallaði fram innilokunarkennd hjá mér, þó kannski ekki hjá öllum. Að vera í herbergi með ekkert nema tölvuskjá og skrifborð – tákn vinnunnar? – og sjálfa mig að horfa yfir öxlina á mér fékk mig til þess að hugsa um allt það sem á átti eftir að gera. Ég varð að komast út. Kannski er ég ekki tilbúin til þess að horfast í augu við mig sjálfa. Eða kannski er of mikil sjálfskoðun óheilbrigð?

Í verki Halldórs Eldjárns fylgist áhorfandinn með klukku ganga og dagsetningu sett fjórum dögum áður. Fyrir hverja sekúndu sem gengur kemur nýr hljómur – og þó stundum enginn. Þannig getur áhorfandinn fylgst með tímanum líða. Verkið minnti mig á hversu tilkomumikið það er að finna fyrir tímanum líða og hvernig ég er sjaldan eins meðvituð um tímann og þegar mér leiðist eða er að bíða eftir einhverju. En hverju er ég að bíða eftir núna? Ég gæti verið að bíða eftir vorboðanum, afléttingu á samkomubanninu eða jafnvel bara að telja sekúndur út í óendanleikann. 

Ásdís Birna Gylfadóttir

Verk Ásdísar Birnu Gylfadóttur, icelandic conversation in multiple languages, spilar á aðra strengi. Verkið er hefðbundið vídeóverk þar sem hið hljóðræna spilar stóra rullu. Hljóðupptökurnar eru allar teknar á heimili hennar í Enschede, Hollandi, núna á undanförnum vikum. Upptökurnar eru ýmist símtöl við ástvini, ættingja og vini en einnig tónlist og umhverfishljóð. Hljóðin í verkinu minntu mig á þær raddir sem við heyrum dagsdaglega og það sem við heyrum inni á heimilum okkar: meðleigjendur, fjölskylda, vinir, nágrannar, útvarp, sjónvarp. Það sem við heyrum í gegnum vegginn en getum ekki greint. Þekkjum ekki samhengi samræðnanna né erum þátttakendur í þeim. Hlutverk þessara hljóða og radda er alveg magnað og gríðarlega áhrifaríkt. Því þegar það er ekkert hljóð í kring og við heyrum ekkert þá finnum við virkilega fyrir því. Orðin, talið, býr til ákveðinn öryggishjúp sem ég gæti sjálf ekki lifað án. Barn að segja ,,ha?’’ Tónlist í fjarska. Nánd í fjarska.

Sjónræni hluti verksins er einnig á áhugaverðan hátt andstæða þess hljóðræna en upptökurnar í myndbandinu eru úr veðurmyndavélum utan að landi sem sýna frá stormi sem gekk yfir Ísland í kringum 9. desember síðastliðinn. Þegar veðrið er það slæmt að innivera er æskileg förum við öll í svipaðar stellingar og við erum í núna. Við liggjum uppi í sófa, drekkum kaffi eða kakó og höfum það rólegt. Náttúran segir okkur að halda okkur heima. Við erum of viðkvæm og lítil til þess að takast á við veðrið. Við höldum okkur heima og bíðum af okkur storminn. Ekki ósvipað því sem er í gangi núna. Við gerum það þó saman, með kveikt á RÚV eða útvarpinu. 

German Greiner Distant Touch

Síðasta verkið í sýningunni, verk German Greiner, brýtur svo upp hinn rauða þráð einmanaleikans. Bindur hnút á endann á honum og gefur möguleika á að spila tónlist með óþekktum aðila í gegnum skjáinn. Forritið leyfir þannig tveimur einstaklingum að eiga nokkurskonar samskipti í gegnum tónlistina. Manneskjan hinum megin er algjörlega óútreiknanleg. Eins og manneskjur eiga það til að vera. Fjarlæg snerting er aðal þema þessa verks og slær á ótrúlega áhugaverða strengi um hvað það er sem þarf til þess að eiga samskipti. Verkið gefur dæmi um það að samskipti þurfa ekki að vera flókin til þess að eiga sér stað og getur einföld rafræn snerting sem þessi dugað. 

Sýningin í heildina setti svip sinn á lífið í seinustu viku, raskaði hversdagsleikanum og fékk mig til að hugsa. Nú þegar öll söfn og sýningarrými eru lokuð var ótrúlega magnað að sjá hversu hratt var skipt um gír og sýning var sköpuð eins og skot á algjörlega nýjum forsendum. Listin er að minnsta kosti ekki þræll formlegrar staðsetningar, sýningarrýma né nokkurskonar efnislegs pláss.

 

Eva Lín Vilhjálmsdóttir

Myndskeið: Hluti af opnun sýningarinnar þar sem Rave-að var heima í stofu. DVDJ NNS, Áslaug Magnúsdóttir & Mia Ghabarou og Geigen.

„Lucky Me?“ by Lucky 3 at Kling & Bang

„Lucky Me?“ by Lucky 3 at Kling & Bang

„Lucky Me?“ by Lucky 3 at Kling & Bang

In the exhibition Lucky Me? the art-collective Lucky 3, consisting of Darren Mark, Dýrfinna Benita Basalan, and Melanie Ubaldo, draws to attention their experiences that fall in between identification with- and marginalization of the Filipino community and culture. They invite, as they say in the catalogue, a mostly white audience (including me), to experience a reconstructed nostalgia that is not of the audience’s own—while serving as a celebration of the Filipino community in Iceland.  

Installations, videos, clothes, and karaoke are all parts of the engrossing whole that makes up the cultural reminiscence that Lucky Me? consists of. Situated in the white and cold space of Kling & Bang in Marshallhús, and taking place in the darkest days of winter; the exhibition is warm, welcoming, and personal while still being true to one of its core messages of displacement, and mixed feelings of self-identity. The experience of the contrasting elements were inviting and thought-provoking simultaneously. Which left me with the feeling of political awareness of the multicultural reality that we inhabit today in a good way. That is, the cultural breadth of a society is a gift worth appreciating, within an artistic context as well as outside of it.

The first room of the exhibition displays a kind of street imagination; a basketball court, punching bag, and sportswear hanging as if it drying after a wash. The space showcasing clothes and installations by Darren Mark instantly pulled me out of the Icelandic snowstorm raging outside. Where it’s practically impossible to enjoy basketball outdoors, into a context that’s warm and where the worries of daily life are completely different. It set the mood, a soft reminder that I was there as a viewer to let someone else influence me with their vision of what life entails.

The reminiscence continued in the next room but, was neither soft nor pleasant. A brick wall covered with broken glass met me and behind it a video of a flood—a most likely devastating flood—followed by children violently dancing and inmates following a choreographed routine. Confusion.

The brick wall almost barring entry while being curiously intriguing. In an interview with Menningin Melanie Ubaldo said that the brick wall represented a common sight in the Philippines, where they use broken glass for security against burglary.[1]

The wall could be seen as protecting the small “store” installed inside the gallery. The small „store“ functions as a tribute to a concept called sari-sari, a type of store that usually has for sale a variety of single-use items, such as soap or food, and sporting familiar brands such as Head & Shoulders, Nescafé and Palmolive. Thus, this struck me as a reminder of the unequivocal effect of mass consumer culture and how vastly the effects of it reaches, but at the same time it gave the sari-sari a faintly familiar air to it. On display in the sari-sari was the popular Filipino noodle brand Lucky Me! which the exhibition derives its name from. Lucky Me? is an almost ironic or cynical twist to the name of the noodle brand that brought up in me deep questions about self-identity, and belonging in the light of racism.

On the last wall, two artworks were displayed side by side. A small screen, situated opposite to the other screen in the room, showing a Filipino family, in a typical Icelandic house, eating dinner, and chatting sometime around Christmas. A casual scene which was relaxing to watch and listen to while not understanding the language while being in stark contrast to the active, and tragic scene on the other side of the room. Next to the family eating dinner was a big fan. Painted with a picture of what might express a feeling, probably not describable in words, of plants growing brutally out of a bleeding corpse lying comically with its tongue out to the side. Vile yet comic, the picture on the fan struck me with discomfort that most likely was intentional.

Karaoke, the crown jewel in the last room, served as a great reminder of playtime. Put on a song of your choice and enjoy it. I personally chose Heart of Glass, sang out of tune and enjoyed the hell out of it. In the room with karaoke was a sofa wrapped in plastic, not very welcoming and a big golden altar made of foam spray and candles, looking spectacularly fancy from afar while not so, up close.

The installations, by Lucky 3, complement each other to bring the audience into a new group-perspective, one that is not readily available for many members of the audience. The artistic expression of culture in this personal exhibition, therefore, becomes a vulnerable practice that can be felt and almost touched. In the catalogue, Lucky 3 expresses their hopes that the exhibition will be a learning experience, which for me it without a doubt was.

Eva Lín Vilhjálmsdóttir

 

[1] https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/menningin/27844/8l2s7i

Pictures courtesy of Kling & Bang and the artists.

Lús í góðu skapi: Nervescape í Helsinki

Lús í góðu skapi: Nervescape í Helsinki

Lús í góðu skapi: Nervescape í Helsinki

Sýningin Nervescape VIII er nafnið á sýningu Hrafnhildar Arnardóttur, eða Shoplifter, í Kiasma, nýlistasafn í miðborg Helsinki. Nervescape VIII er áttundi hluti sýningarraðarinnar sem einkennist af litríkum uppsetningum af gervihári sem gjörbreytir rýminu í litríkt landslag tauga.

Gleði yfir litadýrðinni er sú tilfinning sem ég fann er ég labbaði inn í rýmið seinnipart föstudags. Mikið var af fólki á efstu hæð Kiasma og það var ekki þögn eins og á hinum hæðunum, heldur ljúfur kliður. Ótrúlegt magn af gervihári í öllum regnbogans litum var búið að hengja þvers og kruss um rýmið í formum sem minna á taugakerfi. Börn hlupu um og knúsuðu hárið sem náði næstum niður á gólf. Í miðju sýningarinnar voru púðar á gólfinu þar sem hægt var að liggja og njóta litanna líkt og við gerum þegar við setjumst niður og komum okkur fyrir til þess eins að njóta útsýnis.

Á meðan ég labbaði um rýmið fékk ég sterka löngun til þess að snerta, finna fyrir því hvernig það væri. En mér til mikillar furðu var það ekki mjúk og góð tilfinning sem mér bar við fingurgóma heldur minnti áferðin mig helst á gamla trúðahárkollu sem ég átti þegar ég var barn. Örlítil klígjutilfinning læddist að mér, en ég held að hún sé alveg eðlileg. Venjulegt hár framkallar svipaðar tilfinningar. Það ógeðslegasta sem ég geri er að tæma niðurfall sem er fullt af hári, jafnvel þótt það sé bara mitt eigið hár, en á hinn boginn stend ég fyrir framan spegilinn á hverjum einasta morgni og tek “listræna” ákvörðun um hvernig ég vilji hafa hárið mitt þann daginn.

Við hugsum öll óheyrilega mikið um hárið okkar þótt að sum okkar væru frekar til í að sleppa því. En þessar vangaveltur um hégómleika okkar gagnvart okkar eigin hári blikna í samanburði við það magn af hári sem umkringdi mig á efstu hæðinni í Kiasma. Í fyrri verkum Hrafnhildar vann hún meira með hégómleikann í tengslum við alvöru hár en í Nervescape seríunni notast hún við gervihár sem er í raun skoplegt því allt þetta hár hangandi úr loftinu er eingöngu framleitt til þess að bæta við eða upp fyrir venjulegt hár, til hárlenginga og skreytinga á okkur sjálfum.

Þannig vakti litadýrðin upp hugsanir um þann fjölda af ákvörðunum sem mögulegt sé að taka. Hvernig sköpun okkar getur þanist út í það óendanlega og táknrænir möguleikar einhvers eins hversdagslegs og hárs séu í raun ótæmandi. Allt sem mér myndi mögulega geta dottið í hug væri hægt að framkvæma eingöngu ef viljinn væri fyrir hendi, það virðist yfirþyrmandi. Enda segist Hrafnhildur, í viðtali við Grapevine [1], breyta áhorfandanum í lús og ég tek undir það með henni; lús í góðu skapi.

En hver er tengingin á milli hárlenginga og tauga? Í spjalli við sýningarstjóra á Listasafni Íslands, vegna sýningarinnar Nervescape VII sem var árið 2017 [2], minnist hún á það hvernig við gleymum því oft hvað við erum með magnað landslag innra með okkur. Við eyðum oft svo miklu púðri í hið ytra, til dæmis hárið, en taugarnar ná yfir allan líkamann, nema og færa boðin. Hér er taugakerfið túlkað, stækkað og málað upp í nýjum skala. Vísindamenn nota einnig margvíslega liti til þess að tákna greinarmun hinna mismunandi tauga í heilanum og sú mynd sem þau skapa er alls ekki ólík Nervescape.

Eins og fyrr hefur komið fram er Nervescape hér í Helsinki númer 8 í sýningarröðinni en hugmyndin ætti að vera kunnugleg þeim sem fóru að sjá hana á Listasafni Íslands fyrir tveimur árum. Nervescape serían samanstendur alltaf af sama efni, en tekur öllum rýmum með mismunandi hætti þannig verður hver og ein sýning einstök enda rýmin misjöfn. Efsta hæð Kiasma er til að mynda gríðarstórt og bjart rými með stórum gluggum og þar af leiðandi fallegri dagsbirtu. Það verður því spennandi að sjá hvað hún, ásamt sýningarstjóra Birtu Guðjónsdóttir sem hefur meðal annars unnið með Shoplifter að nokkrum fyrri Nervescapes, munu gera með íslenska skálann á Feneyjartvíæringnum í sumar. [3] Það má búast við litadýrð og gervihári en líklega allt öðrum tilfinningum en í björtu Kiasma.

Eva Lín Vilhjálmsdóttir


Ljósmyndir birtar með leyfi Kiasma safnsins.

[1] https://grapevine.is/culture/art/2017/06/01/hypernature-shoplifter-showers-the-world-with-colour/

[2] https://www.youtube.com/watch?v=nvYpHfmlgDU

[3] https://icelandicartcenter.is/projects/venice-biennale/hrafnhildur-arnardottir-shoplifter-represents-iceland-at-58th-venice-biennale/

UA-76827897-1