Röskum tilverunni

2.05. 2020 | Umfjöllun, Video

Kollektífið RASK, hefur það að markmiði að brúa bilið milli listar og tækni. Þau fylgja þeirri mörkuðu stefnu í nýjustu sýningu sinni, RASK#3, en eins og nafnið gefur til kynna er þetta þriðji viðburðurinn sem RASK heldur. Viðburðurinn var skipulagður af Sóleyju Sigurjónsdóttur, Ida Juhl, Guðmundi Arnalds og Örlygi Steinar Arnalds. Vefsíðuna gerðu Guðmundur Arnalds og Ása Júlía Aðalsteinsdóttir.

Sýningin, sem er eingöngu rafræn, opnaði þann 9.apríl síðastliðinn og hægt er að nálgast hana til 30. á nýrri heimasíðu RASK: www.raskcollective.com  sem opnuð var samtímis sýningunni. Verk eru eftir listamennina Hákon Bragason, Ásdísi Birnu Gylfadóttur, Halldór Eldjárn og Germán Greiner.

Flest verkin, að undanskildu einu, eiga þau sameiginlegt að taka fyrir samskipti með einum eða öðrum hætti. Möguleikarnir í listsköpun í gegnum rafræna miðla eru nær endalausir og það skemmtilegasta við sýninguna var það hversu ólíkt hvert og eitt verk var frá hverju öðru. Tvö þeirra eru  gagnvirk, þ.e.a.s áhorfandinn tekur þátt í verkinu (og stjórnar hvað gerist upp að vissu marki) á meðan hin tvö eru með aðeins hefðbundnara sniði. 

Einmanaleikinn birtist í öllum verkunum og er einn helsti rauði þráður sýningarinnar að mínu mati. Mér fannst ég þurfa að setjast niður með sjálfri mér til þess að njóta verkanna og það er einmitt það sem ég gerði. Settist niður ein og skoðaði þau. Í samræmi við það þema sem ég fann mun ég ræða verkin í röð; frá hinum mesta einmanaleika yfir í snertingu við aðra. 

Fyrsta verkið spyr okkur hversu ein getum við verið án þess að kafna úr eigin sjálfi? Það er verk Hákonar Bragasonar: Bubble Vision. Í verkinu er allur viðbúnaður tölvunnar/símans sem þú notar tekinn inn í reikninginn (mæli samt með því að skoða verkið í síma því þá hreyfist verkið í takti við staðsetningu símans). Hákon notar þessa tækni til að kalla fram einhverja tilfinningu; í mér kallaði það fram einmanaleika. 

Allt við Bubble Vision hrópar óþægileg einvera, frá bleiku undirtónum veggjanna til  sápukúlnanna sem innihéldu mig sjálfa með undirhöku. Þetta kallaði fram innilokunarkennd hjá mér, þó kannski ekki hjá öllum. Að vera í herbergi með ekkert nema tölvuskjá og skrifborð – tákn vinnunnar? – og sjálfa mig að horfa yfir öxlina á mér fékk mig til þess að hugsa um allt það sem á átti eftir að gera. Ég varð að komast út. Kannski er ég ekki tilbúin til þess að horfast í augu við mig sjálfa. Eða kannski er of mikil sjálfskoðun óheilbrigð?

Í verki Halldórs Eldjárns fylgist áhorfandinn með klukku ganga og dagsetningu sett fjórum dögum áður. Fyrir hverja sekúndu sem gengur kemur nýr hljómur – og þó stundum enginn. Þannig getur áhorfandinn fylgst með tímanum líða. Verkið minnti mig á hversu tilkomumikið það er að finna fyrir tímanum líða og hvernig ég er sjaldan eins meðvituð um tímann og þegar mér leiðist eða er að bíða eftir einhverju. En hverju er ég að bíða eftir núna? Ég gæti verið að bíða eftir vorboðanum, afléttingu á samkomubanninu eða jafnvel bara að telja sekúndur út í óendanleikann. 

Ásdís Birna Gylfadóttir

Verk Ásdísar Birnu Gylfadóttur, icelandic conversation in multiple languages, spilar á aðra strengi. Verkið er hefðbundið vídeóverk þar sem hið hljóðræna spilar stóra rullu. Hljóðupptökurnar eru allar teknar á heimili hennar í Enschede, Hollandi, núna á undanförnum vikum. Upptökurnar eru ýmist símtöl við ástvini, ættingja og vini en einnig tónlist og umhverfishljóð. Hljóðin í verkinu minntu mig á þær raddir sem við heyrum dagsdaglega og það sem við heyrum inni á heimilum okkar: meðleigjendur, fjölskylda, vinir, nágrannar, útvarp, sjónvarp. Það sem við heyrum í gegnum vegginn en getum ekki greint. Þekkjum ekki samhengi samræðnanna né erum þátttakendur í þeim. Hlutverk þessara hljóða og radda er alveg magnað og gríðarlega áhrifaríkt. Því þegar það er ekkert hljóð í kring og við heyrum ekkert þá finnum við virkilega fyrir því. Orðin, talið, býr til ákveðinn öryggishjúp sem ég gæti sjálf ekki lifað án. Barn að segja ,,ha?’’ Tónlist í fjarska. Nánd í fjarska.

Sjónræni hluti verksins er einnig á áhugaverðan hátt andstæða þess hljóðræna en upptökurnar í myndbandinu eru úr veðurmyndavélum utan að landi sem sýna frá stormi sem gekk yfir Ísland í kringum 9. desember síðastliðinn. Þegar veðrið er það slæmt að innivera er æskileg förum við öll í svipaðar stellingar og við erum í núna. Við liggjum uppi í sófa, drekkum kaffi eða kakó og höfum það rólegt. Náttúran segir okkur að halda okkur heima. Við erum of viðkvæm og lítil til þess að takast á við veðrið. Við höldum okkur heima og bíðum af okkur storminn. Ekki ósvipað því sem er í gangi núna. Við gerum það þó saman, með kveikt á RÚV eða útvarpinu. 

German Greiner Distant Touch

Síðasta verkið í sýningunni, verk German Greiner, brýtur svo upp hinn rauða þráð einmanaleikans. Bindur hnút á endann á honum og gefur möguleika á að spila tónlist með óþekktum aðila í gegnum skjáinn. Forritið leyfir þannig tveimur einstaklingum að eiga nokkurskonar samskipti í gegnum tónlistina. Manneskjan hinum megin er algjörlega óútreiknanleg. Eins og manneskjur eiga það til að vera. Fjarlæg snerting er aðal þema þessa verks og slær á ótrúlega áhugaverða strengi um hvað það er sem þarf til þess að eiga samskipti. Verkið gefur dæmi um það að samskipti þurfa ekki að vera flókin til þess að eiga sér stað og getur einföld rafræn snerting sem þessi dugað. 

Sýningin í heildina setti svip sinn á lífið í seinustu viku, raskaði hversdagsleikanum og fékk mig til að hugsa. Nú þegar öll söfn og sýningarrými eru lokuð var ótrúlega magnað að sjá hversu hratt var skipt um gír og sýning var sköpuð eins og skot á algjörlega nýjum forsendum. Listin er að minnsta kosti ekki þræll formlegrar staðsetningar, sýningarrýma né nokkurskonar efnislegs pláss.

 

Eva Lín Vilhjálmsdóttir

Myndskeið: Hluti af opnun sýningarinnar þar sem Rave-að var heima í stofu. DVDJ NNS, Áslaug Magnúsdóttir & Mia Ghabarou og Geigen.

UA-76827897-1