Lús í góðu skapi: Nervescape í Helsinki
Sýningin Nervescape VIII er nafnið á sýningu Hrafnhildar Arnardóttur, eða Shoplifter, í Kiasma, nýlistasafn í miðborg Helsinki. Nervescape VIII er áttundi hluti sýningarraðarinnar sem einkennist af litríkum uppsetningum af gervihári sem gjörbreytir rýminu í litríkt landslag tauga.
Gleði yfir litadýrðinni er sú tilfinning sem ég fann er ég labbaði inn í rýmið seinnipart föstudags. Mikið var af fólki á efstu hæð Kiasma og það var ekki þögn eins og á hinum hæðunum, heldur ljúfur kliður. Ótrúlegt magn af gervihári í öllum regnbogans litum var búið að hengja þvers og kruss um rýmið í formum sem minna á taugakerfi. Börn hlupu um og knúsuðu hárið sem náði næstum niður á gólf. Í miðju sýningarinnar voru púðar á gólfinu þar sem hægt var að liggja og njóta litanna líkt og við gerum þegar við setjumst niður og komum okkur fyrir til þess eins að njóta útsýnis.
Á meðan ég labbaði um rýmið fékk ég sterka löngun til þess að snerta, finna fyrir því hvernig það væri. En mér til mikillar furðu var það ekki mjúk og góð tilfinning sem mér bar við fingurgóma heldur minnti áferðin mig helst á gamla trúðahárkollu sem ég átti þegar ég var barn. Örlítil klígjutilfinning læddist að mér, en ég held að hún sé alveg eðlileg. Venjulegt hár framkallar svipaðar tilfinningar. Það ógeðslegasta sem ég geri er að tæma niðurfall sem er fullt af hári, jafnvel þótt það sé bara mitt eigið hár, en á hinn boginn stend ég fyrir framan spegilinn á hverjum einasta morgni og tek “listræna” ákvörðun um hvernig ég vilji hafa hárið mitt þann daginn.
Við hugsum öll óheyrilega mikið um hárið okkar þótt að sum okkar væru frekar til í að sleppa því. En þessar vangaveltur um hégómleika okkar gagnvart okkar eigin hári blikna í samanburði við það magn af hári sem umkringdi mig á efstu hæðinni í Kiasma. Í fyrri verkum Hrafnhildar vann hún meira með hégómleikann í tengslum við alvöru hár en í Nervescape seríunni notast hún við gervihár sem er í raun skoplegt því allt þetta hár hangandi úr loftinu er eingöngu framleitt til þess að bæta við eða upp fyrir venjulegt hár, til hárlenginga og skreytinga á okkur sjálfum.
Þannig vakti litadýrðin upp hugsanir um þann fjölda af ákvörðunum sem mögulegt sé að taka. Hvernig sköpun okkar getur þanist út í það óendanlega og táknrænir möguleikar einhvers eins hversdagslegs og hárs séu í raun ótæmandi. Allt sem mér myndi mögulega geta dottið í hug væri hægt að framkvæma eingöngu ef viljinn væri fyrir hendi, það virðist yfirþyrmandi. Enda segist Hrafnhildur, í viðtali við Grapevine [1], breyta áhorfandanum í lús og ég tek undir það með henni; lús í góðu skapi.
En hver er tengingin á milli hárlenginga og tauga? Í spjalli við sýningarstjóra á Listasafni Íslands, vegna sýningarinnar Nervescape VII sem var árið 2017 [2], minnist hún á það hvernig við gleymum því oft hvað við erum með magnað landslag innra með okkur. Við eyðum oft svo miklu púðri í hið ytra, til dæmis hárið, en taugarnar ná yfir allan líkamann, nema og færa boðin. Hér er taugakerfið túlkað, stækkað og málað upp í nýjum skala. Vísindamenn nota einnig margvíslega liti til þess að tákna greinarmun hinna mismunandi tauga í heilanum og sú mynd sem þau skapa er alls ekki ólík Nervescape.
Eins og fyrr hefur komið fram er Nervescape hér í Helsinki númer 8 í sýningarröðinni en hugmyndin ætti að vera kunnugleg þeim sem fóru að sjá hana á Listasafni Íslands fyrir tveimur árum. Nervescape serían samanstendur alltaf af sama efni, en tekur öllum rýmum með mismunandi hætti þannig verður hver og ein sýning einstök enda rýmin misjöfn. Efsta hæð Kiasma er til að mynda gríðarstórt og bjart rými með stórum gluggum og þar af leiðandi fallegri dagsbirtu. Það verður því spennandi að sjá hvað hún, ásamt sýningarstjóra Birtu Guðjónsdóttir sem hefur meðal annars unnið með Shoplifter að nokkrum fyrri Nervescapes, munu gera með íslenska skálann á Feneyjartvíæringnum í sumar. [3] Það má búast við litadýrð og gervihári en líklega allt öðrum tilfinningum en í björtu Kiasma.
Eva Lín Vilhjálmsdóttir
Ljósmyndir birtar með leyfi Kiasma safnsins.
[1] https://grapevine.is/culture/art/2017/06/01/hypernature-shoplifter-showers-the-world-with-colour/