Afbygging dýrðarljómans

Afbygging dýrðarljómans

Afbygging dýrðarljómans

Myndlistarkonan Erla Haraldsdóttir er búsett í Berlín en sýnir reglulega á hinum ýmsum stöðum á landinu. Um þessar mundir sýnir hún tuttugu óhlutbundin málverk í Gallerí Gróttu á Seltjarnarnesi og ber sýningin titilinn „Memory of Colour“. Það kemur á óvart að Erla sé að sýna óhlutbundin verk. Hún er þekktust fyrir mikið útpæld fígúratív málverk en einnig hefur hún verið með verkefni sem snúast meira um að gera listræna ferlið sýnilegt.

Skemmst er að minnast sýningarinnar „Tree / Difficulty of Freedom / Freedom of Difficulty“ sem sett var upp haustið 2013 í Nýlistasafninu. Sýningin var hópsýning sem efnt var til sem hluti af rannsóknarferli Erlu, „Tree of Life“, sem fjallaði um kerfi sem þróuð eru til að ramma inn hið listræna ferli. Fyrir sýninguna voru listnemar og listamenn paraðir saman og látnir senda leiðbeiningar hvor til annars í gegnum tölvupóst. Listaverkin sem komu út úr þessu samstarfi voru svo sýnd í Nýlistasafninu. Sýningunni fylgdi bókaútgáfa sem sýndi aðferðirnar og ferilinn á bak við verkin og varpaði nýju ljósi á verk og aðferðir forsprakkans sjálfs, Erlu. Núna fimm árum síðar hefur Erla ákveðið að gera þetta aftur en með öðrum hætti. Í Gallerí Gróttu gefur að líta óvenjulega smá verk miðað við þau fígúratívu verk hennar sem flestir þekkja. Þau eru abstrakt og skiptast í seríurnar „Spill“, „Án titils“ og „Hönd“ og svo eru tvö stök verk sem heita „Að innan“ og „Að utan“ sem eins og nöfnin gefa til kynna eru tengd. Í tilefni af sýningunni var Erla tekin tali.

Erla, í sýningarskránni skrifa listfræðingurinn Craniv A. Boyd að kalla megi verkin „B-hliðar“. Geturðu útskýrt það nánar?

Já, ég vinn verkin á sama tíma og ég er að vinna þessi stóru fígúratívu málverk og „B-hliðarnar“ vísa til þess að ég hafði ekki beint hugsað mér að sýna verkin almenningi. Þetta er úrgangurinn úr þessum fígúratívu málverkum – það sem kemur út úr ferlinu. Kannski litur sem ég er að blanda mjög lengi, og það er eins og ég þurfi á þessum fígúratívu málverkum að halda til að geta gert þessi abstrakt málverk. Þannig eru þau B-hliðar. Þetta er í rauninni úrgangur. „Spills“ er úrgangur á sænsku. Ég held líka á ensku. Þetta er soldið það sem er eftir. Verkin sem koma út úr því að á meðan ég er að mála þá fær maður helling af hugmyndum. Ein hugmynd getur verið að nú langar mig að nota þennan lit og rosalega þykkan pensil og sjá hvað skeður. Það er einhvern veginn svoleiðis. Líka þegar ég er að mála þessi fígúratívu málverk þá er ég með ákveðnar myndir í huganum þegar ég byrja að mála og svo er maður í díalóg við málverkið.

“Spill“ og “Án titils“ seríurnar á veggnum í Gallerí Gróttu á Setljarnarnesi.

“Hönd“ serían í Gallerí Gróttu, Seltjarnarnesi.

“Að utan“ til hægri og “Að innan“ til vinstri. Gallerí Grótta, Seltjarnarnes.

Í þessu dæmi þá er verkefnið einhvern veginn að setja lit, málningu á striga án þess að vera með einhverja mynd í huga. Kannski er þetta eins og tilraunir í að prufa að mála eitthvað sem þarf ekki að verða neitt. Ég nota kannski liti sem ég er ekki sérstaklega hrifin af, sem stinga í augun á mér, til að sjá hvernig það kemur út. Til þess að hafa gert það. Ég hef verið að vinna eitthvað smávegis á hverjum degi með þessi málverk – sérstaklega kannski á morgnana áður en ég byrja á stóra málverkinu. Í vinnustofunni er ég með stórt hlutbundið málverk á veggnum og þessi eru soldið til hliðar, á gólfinu, á borðinu. Þau geta snúið einhvern veginn í allar áttir, það er ekkert upp og niður.

Hvaða þýðingu hafa þessi verk fyrir þig?

Þetta tengist frelsi. Þegar ég er svo lengi að mála þessi hlutbundnu, þá kemur eitthvað svona yfir mig þar sem ég verð að gera öðruvísi. Þar sem ég verð að fara út úr þessum hlutbundna ramma. Fá að fara út og gera eitthvað sem er ekki hlutbundið, ekki eitthvað sem ég er búin að ákveða áður. Þýðingin er frelsi og ferli semsagt; að fá að gera eitthvað sem er allt öðruvísi. Fá að prufa einhverja hugmynd sem ég er með og það má bara koma út einhvern veginn. Þarf ekki að koma út á einhvern sérstakan hátt. Efnið ræður því hvernig það kemur út.

Craniv talar einnig um það í textanum að þessi afhjúpun sem felst í sýningu þessara verka sem áður voru einungis fyrir þig, opni á hættuna á að listræna ferlið missi dýrðarljóma sinn. Þessi dýrðarljómi hefur verið mikilvægur til að gefa myndlist dulúð og vægi en undanfarna áratugi hafa margir listamenn unnið á móti þessu. Geturðu sagt okkur frá því?

Óhlutbundnu málverkin vísa einnig í módernisma og þessa ofurtrú á myndlist sem opinn glugga inn í þetta guðdómlega. Sko það er þetta mannlega séní. Einhvers konar skilaboð að ofan sem segja að karlmaður að mála módernískt sé snillingur í beintengingu við einhvers konar snilligáfu. Þess vegna eru módernistarnir svona upphafnir. Það er til dæmis það sem maður les um Mark Rothko. Það er ekki beint verið að tala um ferli. Margir af þessum módernistum, Pollock til dæmis, þessir amerísku eftirstríðsáralistamenn, de Kooning, Barnett Newman, það er verið að halda þessu við. Þessari „karlmaðurinn sem snillingur“ hugmynd. Snillingur sem er í einhvers konar algeru blissi í vinnustofunni að gera stórkostleg málverk. Listræn gáfa er að mínu áliti hinsvegar frekar eins og suðupottur en ekki gjöf frá einhverjum allsráðandi guði. Feðraveldið er með rætur sínar kyrfilega bundnar við eingyðistrúarbrögð þar sem eins konar snillingakölt einkennir skrif í vestrænni myndlistarsögu. Takk fyrir að spyrja um þetta – það er akkúrat þetta sem ég er að takast á við. Á næstu sýningu kem ég til með að sýna bæði hlutbundin og abstrakt málverk saman og þá sést þetta vel, tengingin og ferlið. Ég hef gert þetta einu sinni áður og sýndi í Galleri Konstepidemin í Gautaborg árið 2016. Það var svo sýnt aftur í Dómkirkjunni í Lundi.

Að lokum, Erla, langar mig að spyrja þig út í eitt sem þú hefur oft minnst á við mig en það er að þú lítir á málverkið sem gagnrýninn miðil, á svipaðan hátt og myndbönd, gjörningar og aðrir svokallaðir nýmiðlar. Hvað áttu við með því?

Af því að það er algerlega einstaklingsbundið. Þetta er bara tungumál einstaklingsins. Það getur enginn gert eins málverk. Þetta er algerlega þín tjáning. Þannig verður það pólitískt. Þú gefur þér leyfi til að tjá þig algerlega á þinn hátt. Þótt það skipti ekki máli hvort það sé hlutbundið eða abstrakt þá kemur það algerlega úr þér sem manneskju. Öll myndlist er þannig en svo fékk málverkið þennan stimpil á sig á níunda og tíunda áratugnum að það væri dautt og svo komu allar þessar nýju deildir. Það er soldið mín kynslóð. Þegar ég var í námi var þessi umræða allsráðandi. Málverkið var dautt og ef maður málaði var maður „kommersíal“. Þá væri maður ekki að spyrja neinna spurninga um hvað væri myndlist. En ég spyr: af hverju getur málverkið ekki verið með þegar á að vera krítískur? Saga myndbandslistarinnar er núna orðin löng. Stafrænar ljósmyndir hafa líka orðið langa sögu. Verk með mikla handavinnu að baki geta líka verið pólitísk rétt eins og hugmyndalist. Málverk geta líka verið byggð á konsepti. Þetta er soldið marglaga spurning. Hægt að ræða þetta endalaust en ég held að svarið sé einfaldlega að maður gefur manneskjunni leyfi á að tjá sig. Það er pólitískt í dag.

Hulda Rós Guðnadóttir


Sýningunni lýkur 28. október 2018.

Ljósmyndir af verkum: Með leyfi listamanns.
Aðalmynd: Helga Óskarsdóttir

Vefsíða Erlu: erlaharaldsdottir.com

Jaðar ímyndunaraflsins

Jaðar ímyndunaraflsins

Jaðar ímyndunaraflsins

Um þessar mundir sýnir Anna Líndal verkið Jaðar (2000) á sýningunni Geographies of Imagination á SAVVY Contemporary í Berlín. Verkið var fyrst sýnt í sinni endanlegu mynd á Gwangju tvíæringnum árið 2000 eftir að hún hafði verið búin að vinna að því í tvö ár og hefur síðan verið sýnt í hinu ýmsu samhengi víða um heim. Verkið er vídeóskúlptúr sem er einskonar innsetning í heimilislega IKEA hillu með fjórum sjónvörpum sem sýna sitthvort vídeóið. Eitt vídeóið sýnir upptökur Önnu af eldgosi í Grímsvötnum árið 1998; annað vídeó sýnir upptöku hennar í fyrstu ferð hennar með Jöklarannsóknarfélaginu í Grímsvötn skömmu áður og sýnir vísindamenn að störfum; þriðja vídeóið sýnir hennar eigin fætur busla í vatni út í náttúrunni; og síðasta vídeóið sýnir stúlku á fermingaraldri lesa upp úr Njálu. Á hillurnar er síðan raðað plöntum og ýmsum kunnuglegum skrautmunum eins og fjölskyldumyndum í römmum, styttum af rjúpum og selum og glerjuðum keramikskálum eins og þekkist víða á íslenskum heimilum.


Gestur virðir verk Önnu fyrir sér.

SAVVY Contemporary er merkileg listamiðstöð sem lítur frekar á sig sem rannsóknarstofu en sýningarstað. Með 27 þverfaglega starfsmenn í teyminu og þar af þrjá listræna stjórnendur skilgreina þau starfsemi sína sem vettvang til könnunar á hvað það sé sem byggir undir viðhorf um hvað telst vestrænt og hvað ekki. Markmiðið er að skilja betur og afbyggja hugmyndafræði og hugmyndir sem liggja að baki slíkum viðhorfum. Í þessu samhengi staðsetja þau SAVVY sem stað fyrir þekkingarfræðilegan fjölbreytileika og hafa lagt mikla áherslu á afbyggingu nýlenduhugsunar í þeim fjölmörgu verkefnum, úgáfum og sýningum sem þau hafa staðið að.

Sýningastjórarnir Antonia Alampi og Bonaventure Soh Bejeng Ndikung sem jafnframt eru bæði listrænir stjórnendur SAVVY Contemporary ásamt Elena Agudio. Í bakgrunni sést opnunarverk sýningarstjóranna sjálfra.


Foropnunargestir hlusta á opnunarræðu sýningastjóranna Antonia Alampi og Bonaventure Soh Bejeng Ndikung. Í bakgrunni sést opnunarverk sýningarstjóranna sjálfra.

Hér á landi er það helst listahátíðin Cycle sem hefur tekið sér þá stöðu að vera svipuð rannsóknarstofa með þriggja ára þverfaglega dagskrá sem hófst í fyrra og tekur inn samfélagsleg, pólítísk og akademísk sjónarhorn í rannsókn sinni á fyrirbærunum nýlenda, þjóðernishyggja, samheldni og hverjir fá að vera með. Í samhengi Cycle hefur m.a. verið skoðað hvernig menningarsagnfræðingurinn Ann-Sofie Gremaud hefur borið kennsl á Ísland sem dullendu í nýlegri doktorsritgerð sinni og það ástand jafnframt skoðað í samhengi við reynslu annarra á hinu Vest-Norræna svæði. Hugtakið dullenda er þýðing á hugtaki mannfræðingsins Michael Herzfeld og vísar í óljós mörk eða grátt svæði í nýlendu- og menningarsögunni þar sem staða nýlendunnar eða fyrrum nýlendurnar er ekki alltaf mjög skýr. Með því að koma með þessa umræðu inn í íslensku samtímalistasenuna hefur Cycle unnið mikið afrek.

Anna Líndal ásamt myndlistarkonunum Huldu Rós Guðnadóttir til vinstri sem búsett hefur verið í Berlín í um áratug og Rebecca Moran sem dvelur í Berlín í um nokkurra mánaða skeið.

Opnunargestir dvelja í verki Önnu Líndal Jaðar frá árinu 2000.

Hingað til hefur það almennt verið feimnismál að skoða Ísland og Norðvestrið í samhengi eftirnýlendukenninga. Veruleiki Norðvestursins hefur ekki verið tekinn inn í atburði tengdum skoðun á eftirnýlendutímum innan Evrópu jafnvel þó opnast hafi fyrir að slíka skoðun annars staðar í Evrópu. Árið 2016 þegar aðstandendur írska tvíæringsins Eva buðu sýningarstjóranum Koyo Kouoh að setja upp sýningu sem rannsakaði eftirnýlenduástand á Írlandi þá voru nágrannarnir í norðvestri ekki teknir með svo dæmi sé tekið. Still (the) Barbarians var áhugaverð sýning þar sem reynsla Íra var í fyrsta skipti skoðuð sem nýlendu- og eftirnýlenduástand í samhengi við reynslu Afríkubúa og var mikil eftirsjá að ekki hefði verið ákveðið að skoða fyrirbærið í stærra Vestnorrænu samhengi.

Geographies of Imagination er hluti af stærra rannsóknarverkefni SAVVY Contemporary Dis-othering: Beyond Afropolitan and other labels sem er samstarfverkefni SAVVY við Bozar safnið í Belgíu. Það er mikil ánægja að sjá að SAVVY ákvað að taka íslenskt verk með í sýninguna. Þetta er líklega í fyrsta skipti sem stofnun sem helgar sig eftirnýlendurannsóknum í víðu alþjóðlegu samhengi gerir slíkt. Í sýningunni Geographies of Imagination gefur að líta verk eftir 17 listamenn sem flestir tengjast afrísku listasenunni eða afrísku díasporunni ásamt nokkrum öðrum sem fjalla um framandgeringu á sjálfum sér í því samhengi sem þau búa eða réttara sagt afbyggingu á þessari framandgeringu.

Í bakgrunni sést verkið Estonian Race eftir myndlistarkonuna Tanja Muravskaja. Í forgunni verk myndlistarmannnsins Oscar Murillo.

Sýnendurnir eru flestir virkir í alþjóðlega myndlistarheiminum með þátttöku í hinum ýmsum tvíæringnum og sýningum eins og Dokumenta. Í umfjöllun sinni um Jaðar eða Borders (2000) í sýningarskránni vitna sýningastjórarnir beint í Önnu Líndal sem segist sjá IKEA hilluna sem tákn heimilisins sem stofnun og rýmis þar sem menningarskilyrðing á sér stað og birtist. Sýningarstjórarnir sjá tengsl þar á milli og innrás náttúru og menningar inn í einkalífið á heimilinu eins og það birtist í verkinu. Fyrir þeim fjallar verkið um leit að sjálfsmynd í gegnum náttúru, vísindi og hefðir og alltaf með djúpri meðvitund um sjálfið í þessum raunverulegu eða ímynduðu rýmum. Verkið sé ákveðið ferli sem tengist rannsókn á sjálfsmynd og rými þar sem listamaðurinn skoðar tengsl sín við náttúruna, greinir vísindalegar aðferðir og nálganir á þessa sömu náttúru og hvernig þesar ólíku nálganir stjórnunar og stjórnleysis takast á.

Sjáf nálguðust sýningarstjórarnir sitt hlutverk með því að teikna upp línulegt kort á gangana í inngangi sýningarinnar sem sýnir kortafræðilegt vald í gegnum aldirnar og gerir þannig sýnilega menningarlega, pólitíska og sálfræðilega þætti sem byggðu undir framandgeringu stór hóps mannkyns. Í greinargóðum sýningartextanum sem fylgir sýningunni komast þau að þeirri niðurstöðu að framandgering snúist ekki um hvað sér öðruvísi í sjálfu sér eða mikilvægi þess heldur snúist þetta alltaf um vald og valdbeitingu. Það að leggja áherslu á það ólíka sé tæki til að fremja arðrán – til að stjórna – og þetta hafi í raun skipt heiminum í tvennt, hina ríku og hina fátæku. Segja má að síðan Ísland var ekki lengur skilgreint sem þriðja heims land árið 1974 höfum við sem samfélag verið í miklu kapphlaupi til að komast í ríka hópinn. Í hóp valdhafa jarðarinnar. Að koma hlutunum undir stjórn.

Stór hluti af þessu kapphlaupi hefur verið að gleyma fortíðinni eða réttara sagt búa til sögu um hana sem hentar stjórnanda. Í því verkefni passar ekki að bera sig saman við aðra en aðra valdhafa sem við viljum líkjast sem mest. Þessu hefur að sjálfsögðu fylgt hinar ýmsu mótsagnir. Við erum hinsvegar ekki einstök með okkar reynslu af því að hafa verið undirokuð af nýlenduherrum og getum lært margt með því að vera í samtali við fólk með sambærilega reynslu.

Það sem sýningarstjórarnir eru að reyna að gera með sýningunni er að skoða hvernig ímyndunaraflið hefur verið notað til að framandgera, hvernig landafræði hefur verið notuð sem valdtæki og hvernig vilji til valds er kjarninn í framandgeringunni. Þannig sjá þau sýninguna sem rými fyrir listamenn að koma saman og vefa mögulegar leiðir til að svara spurningunni um hvernig við getum sem mannkyn fundið til samheldni sem nær lengra en til okkar nánasta hóps, til mannkyns alls, eða jafnvel til jarðarinnar sem heild. Hvernig getum við stoppað þráhyggju okkar fyrir því að vilja eiga og stjórna öðrum? Hvernig getum við komist út úr þægindaramma þess að framandgera aðra?

Hulda Rós Guðnadóttir


Aðalmynd með grein: Jaðar (2000)
Ljósmyndir: Patrik Bablo og Raisa Galofre.

Geographies of Imagination er opið til 11. nóvember 2018: Vefsíða Savvy
Annar hluti af rannsóknarverkefni Cycle mun opnast almenning í síðustu viku október með listahátíðinni Cycle á ýmsum stöðum í Kópavogi og Reykjavík: Vefsíða Cycle

Plánetugarðurinn.: Í rækt eða órækt?

Plánetugarðurinn.: Í rækt eða órækt?

Plánetugarðurinn.: Í rækt eða órækt?

Fyrir þá sem ekki þekkja til er Manifesta evrópski ferða-tvíæringurinn sem haldinn er í nýrri evrópskri borg annað hvert ár. Í ár opnaði hann laugardaginn 16. júní undir heitinu ‘A Planetary Garden: Cultivating Coexistence’ (‘Plánetugarðurinn: Ræktun Sambúðar’) á mörkum Evrópu, Afríku og Miðausturlanda á eyjunni Sikiley í Miðjarðarhafi. Staðsetningin var álitin hvorki meira né minna en sjálf miðja jarðar í þeirri heimsmynd sem ríkti þegar hafið hlaut nafn og saga og lýðfræði eyjunnar markast mjög af miðjusetningunni.

Borgarstjóri Palermo, Leoluca Orlando, kallar borgina ‘borg farandsfólks’ og staðsetur borgarpólitíkina í kjarna átakanna á Ítalíu, og Evrópu í víðara samhengi, um flóttamannabátana sem leita um þessar mundir vinveittra hafnaborga. Á meðan að Ítalía sjálf hefur lokað á báta arkar Orlando niður að höfn og heilsar fólki á flandri með handabandi. Þetta minnir á gamla tíma í Reykjavíkurhöfn þegar farþegabátum var fagnað eins og þjóðhátíð væri. “Hér í Palermo – og þetta er óbreytanleg ákvörðun okkar – eru engir innflytjendur. Þeir sem koma til borgarinnar verða Palermobúar. Yfirlýsingin ‘Ég er manneskja’ er hluti af stjórnarskrá Palermoborgar og krefst viðurkenningar á rétti fólks til alþjóðlegs hreyfanleika sem grundvallarmannréttindi’, segir Orlando í texta sýningarskrárinnar. Við hefðum átt að setja svipaða málsgrein í okkar reykvísku stjórnarskrá á meðan tækifæri gafst og bátakomur vöktu fögnuð.

Titill sýningarinnar er fenginn úr smiðju franska landslagsarkitektsins Gilles Clément sem notaði hugtakið plánetugarðurinn til að lýsa mannkyni sem garðyrkjumönnum jarðarinnar. Hugtak Clément er innblásið af þekktu 19. aldar málverki sikileyska málarans Francesco Lojacono sem sýnir grasagarð borgarinnar þar sem allar tegundirnar eru aðfluttar og þykir verkið og garðurinn vera myndlíking fyrir lýðfræði og sögu borgarinnar. Þessi saga einkennist af reki fólks og plantna með bátum hvaðanæva að og þar sem Palermo hefur haft það hlutverk að vera festi fyrir fólk og plöntur á reki. Það var einmitt mikill áhugi blaðamanns á garðyrkju og reki og festu fólks og plantna að hún dróst að Manifesta í ár. Áhuginn vaknaði við að hafa unnið að vinningstillögu samkeppni Faxaflóahafna um útilistaverk við miðbæjarhöfnina – villigarði á mörkum sjávar og lands, festi fyrir reka á beinan en einnig táknrænan hátt. ‘Garden of Flows’ (‘Flæðisgarðurinn’) er eitt af þrem þemum tvíæringsins í ár.

Annað þema er ‘Out of Control Room’ (‘Stjórnlausa Rýmið’) sem vísar í staðsetningu eyjarinnar og þátttöku í þeim landfræðilegu og pólítísku breytingartímum sem við lifum í dag. Þriðja þemað er ‘City on Stage’ (‘Borg sem Svið’) og byggir á forrannsókn sem hátíðarstýran Hedwig Fijen pantaði af hollenska arkitektafyrirtækinu ‘Office for Metropolitan Architecture (OMA)’ (‘Skrifstofa Stórborgar Arkitektúrs’) á menningarlegum, félagslegum, landfræðilegum og pólitísku flækjustigi borgarinnar og sem skapar ramma tvíæringsins. Sýningarstjórarnir fjórir tóku sér þessa rannsókn sem upphafspunkt en einn þeirra er einmitt sikileyski arkitektinn Ippolito Pestellini Laparelli sem búsettur er í Rotterdam og er meðeigandi í OMA arkitektafyrirtækinu. Metnaðarfullt markmið Orlando borgarstjóra andar þarna sterkt inn en það takmarkast ekki við að setja á svið nokkra mánuði af listviðburðum heldur lítur hann á tvíæringinn sem tæki til að breyta borginni sjálfri og þróa með menninguna að vopni. Þó falleg sé og sjarmerandi er borgin augljóslega að mörgu leiti í niðurníðslu.


What Is Above Is What Is Below. ‘Cooking Sections’ í Giardino dei Giusti garðinum. ‘Garden of Flows’ hluti tvíæringsins.

Áður en farið er nánar út í það er vert að fjalla aðeins um aðaláhugamál blaðamanns, garðyrkjuhlutann. Með þá reynslu í farteskinu að hafa búið um hríð í Norður-Afríku varð blaðamanni það ljóst frá fyrstu mínútu að kerfisbundið áhorf og skipulögð rýni væri ekki möguleg í Palermo heldur væri málið að fylgja flæðinu og sjá hvað kæmi í fangið. Þetta reyndist mjög árangursrík aðferð og í takt við flæðisgarðinn sem líkt og plöntur og menn jarðar og reyndar tvíæringurinn sjálfur flæddi yfir borgina á mjög lýðræðislegan hátt með enga sérstaka aðalsýningu á einum stað. Fyrir þá sem þekkja ekki til er eitt aðalvandamál Sikileyjar þurrkur sem er afleiðing þess að undir lok 30 ára stríðsins í Þýskalandi 17. aldar þá var fólki gefið leyfi til að leggja undir sig aukið landsvæði til ræktunar og búsetu til þess að fjármagna stríðsreksturinn.

Límónutré ‘performerar’ í verkinu What Is Above IS What Is Below úr ‘Garden of Flows’ hluta tvíæringsins.

Eitt af þessum landsvæðum var Sikiley og skóglendi var rutt til að koma fyrir kornökrum. Þetta, og síðari tíma þróun, olli því að rakinn sem trjáræturnar héldu í jörðu hefur horfið mikið til. Það var því áhugavert að skoða innsetningar og gjörningaverk lúndunarbúanna Alon Schwabe og Daniel Fernández Pascual ‘Cooking Sections’ (‘Eldunar Hlutar’) en það fólst í tilraun til að rækta tvö límónutré í garðinum á Chiesa di S. Maria dello Spasimo höllinni án þess að vökva þau með því að festa raka í terra cotta múrsteinum sem umluktu tréin og vökvuðu þau með nærveru sinni. Önnur tilraun í Giardiono dei Giusti garðinum var að festa raka í fiskinetum sem umluktu hávaxinn tré sem þar voru fyrir. Tvíæringurinn er stútfullur af fleiri áhugaverðum verkum sem rýna í, bregðast við eða kallast á við staðbundinn og oft á tíðum um leið hnattrænan veruleika.

Af þáttöku Íslendinga var það helst að frétta að menningarfrömuðurinn Sara Löwe Daðadóttir tók þátt í 5 x 5 hliðardagskránni en 5 galleríum í Evrópu sem starfa á jaðri þess að vera verkafnamiðuð frekar en hrein sölugallerí var boðið að taka þátt í dagskrá sem stóð yfir á foropnunardögum og opnunarhelgi hátíðarinnar. Þátttaka Söru var hluti af dagskrá berlínska gallerísins Exile á Balero markaðnum og fólst í útgáfu ‘Utopian Union’ (‘Útópíu Samtökin’) á ‘Year one (1)’ (‘Ár eitt (1)’) heimildarbókinni. Íslendingar þekkja vel ‘Utopian Union’ sem m.a. tók þátt í Cycle listahátíðinni í Kópavogi á síðasta ári með hlutverkaleik. Útgáfan var í nafni Reflektor M, netvettvangs fyrir samtímalist sem staðsettur er í Munich og er undir stjórn María Inés Plaza Lazo sem einnig er annar stjórnanda Exile gallerís.

5 x5 var ný hliðardagskrá á Manifesta í ár. Fimm galleríum var boðið að koma til Palermo og vera í samtali við fagfólk úr lista- og menningarheimi borgarinnar með því að setja um ‘pop-up’ sýningar. Galleríin voru aðallega frá Ítalíu en einnig var Annet Gelink í Hollandi og Exile í Berlín boðið að taka þátt. Exile valdi að vera með ‘sumarbúðir’ á Balero markaði borgarinnar á foropnunardögum og opnunarhelgi tvíæringsins. Hér sérst Sara Löve Daðadóttir undirbúa bókaútgáfu ‘Utopian Union’ og ‘Reflektor M’ á Balero markaðnum.

Í bókinni er farið yfir atburði sem ‘Utopian Union’ hefur haldið á Feneyjartvíæringnum í tengslum við þýska sýningarskálann; stórfund listamanna, Rojava búa og fleiri í Berlín á síðasta ári; vinnustofu í Kaupmannahöfn; hlutverkjaleiki á vegum UU; og margt fleira. Annað verkefni sem Sara tekur þátt í sem skipuleggjandi var einnig á markaðnum á vegum Exile en það var verk pólsku listakonunnar Kinga Kielczynska sem fjallar um afdrif síðustu leifa hins upprunalega Evrópuskóglendis, Bialowieza skógarins, sitthvoru megin við landamæri Póllands og Hvíta Rússlands. Kinga var með staðbundna innsetningu samansettri af gróðurafskurði úr grasagarði borgarinnar troðnum inn í bíl en einnig af teikningum annars staðar á markaðnum sem kölluðust á við nýlega sýningu hennar í Exile.

Verk pólsku listakonunnar Kinga Kielczynska á vegum Exile gallerí á Balero markaðnum.

Viðamesta verkefnið tengt Íslandi á tvíæringnum er án efa verkefni íslensk/svissneska listamannsins Christoph Büchel sem haldið er samsíða tvíæringnum. Þátttaka hans er viljandi gerð mjög óræð en hvergi er minnst á nafn hans í sýningarskránni eða á korti hátíðarinnar. Orðrómur um þátttöku ásamt nafni hans á taupoka hátíðarinnar er eina sem gefur til kynna að verk hans sé einhvers staðar á eyjunni. Það var fyrir tilviljun að fyrsta manneskja sem blaðamaður rakst á eftir að hafa stigið út úr rútunni frá Catania flugvelli var Nína Magnúsdóttir sýningarstjóri og skipuleggjandi með meiru. Hún var stödd á dæmigerðu Palermortorgi ásamt Úu dóttur sinni að safna stuðningsundirskriftum fyrir verkefnið ‘Barca Nostra’ (‘Skipið Okkar’). Verkefnið snýst um að flytja skipsflak frá Palermo til Brussel til heiðurs frelsis mannkyns til hreyfanleika og reisa úr skipinu ‘Minnismerki um Evrópusambandið’.

Skipið sjálft fórst með þúsund flóttafólk innbyrðis árið 2015 og verkefnið er kynnt sem frumkvæði fólks á flandri og hvergi er minnst á nafn forsprakkans sjálfs Christoph Büchel. Undirskriftarborðið er látlaust og ekki merkt á Manifesta kortið og söfnunin lítur ekki út fyrir að hafa neitt með tvíæringinn að gera. Ruglaðar raddir á foropnunardögunum hvísluðu sín á milli “Hvar er verkið hans Christophs?“ Að rugla í fólki á þennan hátt virtist vera hluti af verkinu og gengið var ennþá lengra með skipulagðri heilsdagsferð ‘Dream in Progress’ (‘Draumur í Framförum’) á ‘Manifesto Gibellina Nuova‘ upp í fjöllum Sikileyjar. Prentaður bæklingur sem fylgdi var alveg laus við nafn Christophs og fáir voru tilbúnir að treysta því að ferðin, sem leit út fyrir að vera túristaferð svipaðri kanarískri grísaveisluferð, væri verkið.

Miði í ferðina Manifesto Gibellina Nuova upp í fjöll Sikileyjar.

Blaðamaður artzine ákvað að fara að ráðleggingum Nínu og fara í ferðina, sleppa hræðslunni við að missa af að sjá lykilverk í Palermo, treysta á flæðið og skella sér út í óvissuna. Eftir að hafa misst af moskunni í Feneyjum var ekki málið að missa af uppátækjum Christophs á Manifesto í Trapani héraði í Sikileyjarfjöllum.

Ferðafélagar í ‘Dream in Progress’ ferðinni klóra sér í hausnum í rústum bæjarins sem lagðist í eyði í jarðskjálftunum 1968. Fyrir miðju er leiðsögumaður úr héraði. 

Eins og Manifesta þá deildi Manifesto sér niður í þrjú meginþema: ‘Archaeology of the future – collateral damage’ (‘Fornleifafræði framtíðarinnar – tryggt tjón’) sem rannsakar hið ókláraða og í rústum í hnattrænu flæði samtímans með því að heimsækja rústir bæja sem orðið höfðu illa úti í jarðskjálfta árið 1968 en einnig veigamikið landslistaverk ítalska listamannsins Burri sem gleypt hefur rústir eins þorpsins undir nafninu ‘Cretto’.

Ferðafélagar djúpt í iðrum Cretto landlistaverks Burri sem staðsett er yfir þeim stað sem bærinn Gibellina var áður. Fremst á myndinni er Nína Magnúsdóttir sýningarstjóri að ræða við ferðafélaga.

Form og línur Cretto kallast ekki einungis á við sprungumálverkin sem listamaðurinn er þekktur fyrir heldur einnig ‘arkitektúr’ í landslagi landbúnaðahéraðsins í kring.

Sýn hins mikla listamanns er fyrirferðarmikil og verkið var sett upp á sínum tíma í óþökk syrgjandi þorpsbúanna sem töpuðu þarna áttum í gamla heimabænum sem steypt hafði verið yfir. Annað þema var ‘Concrete Utopia’ (‘Steypt Útópía) og einblíndi á samband lista og arkitektúrs og samtal þessa greina við bæinn Gibellina Nuova, samfélög innan þess, hefðir og almenningsrými. Gibellina Nuevo er bær sem byggður var til að hýsa íbúanna 2000 sem lifðu af jarðskjálftanna í bænum sem landslagsverk Burri hefur gleypt. Hin nýja Gibellina er byggð með framtíðina í huga eða margfalt stærri íbúafjölda og var á 9. áratugnum fyllt af tugum risastórra vanræktra útilistaverka og ókláraðra stórmenningarbygginga undir stjórn stórmennis bæjarins sem hafði þá framtíðarsýn að byggja stórbæ á grundvelli listar og arkitektúrs. Í dag er mjög eyðilegt um að litast á tómum torgunum og í kringum verkin sem mörg hver eru börn síns tíma. Enginn veit hver borgaði fyrir þetta allt saman.

Ókláruð risastór glæsibyggingin sem átti að vera leikhús bæjarins minnir helst á martröð um ofvaxið bílastæðahús í Reykjavík. Þriðja þema Manifesto er ‘Uncultivated garden of coexistence – the third landscape’ (‘Óræktaði garður sambúðar – þriðja landslagið’) og kjarnast um heimsókn í grasagarð Gibellina Nuova, risastórt moldarflæmi sem kallast á við óhirt listaverkin og ókláruðu byggingarnar í bænum en einnig við titil og um leið langtíma ásetning Manifesta tvíæringsins sjálfs.

Arkitekt OMA tekur hér mynd af ókláraðri leikhúsbyggingu Gibellina Nuova.

I Feneyjum tókst Christoph að ganga inn í kjarna goðsögunnar um hið frjálslynda verslunarsamfélag og um leið ganrýna afstöðu samtímalistasenunnar. Það varð ekki bara allt vitlaust á borgarskrifstofum Feneyjaborgar heldur lokuðu líka áhrifamiklir listamenn, hér heima og alþjóðlega, á umræðu í kringum verkið. Christoph hafði hitt á marga viðkvæma punkta en hafði ekki gerst sekur um framandgeringu né að skreyta sig með menningu annarra á óviðeigandi hátt. Hann var í góðu og miklu samstarfi við íslamska samfélagið á Íslandi og í Feneyjum og það skilaði sér í umræðu á þeim vettvangi, sem og á fræði- og pólitískum vettvangi á alþjóðavísu, varðandi vaxandi íslamafóbíu og fleira, þó aðilar í samtímaheiminum sem ekki vildu rugga bátnum hefðu þagnað eða reynt að þagga niður. Verk í íslenska skálanum hefur sjaldan haft jafn mikið vægi alþjóðlega eða sett íslenska myndlistarsenu jafn rækilega á kortið.

Á Manifesto vinnur Christoph aftur í beinu samstarfi við ákveðinn samfélagshóp sem hefur verið jaðarsettur og vanræktur. Í þessu tilfelli eru það íbúar í Trapani landbúnaðarhéraðinu á Sikiley. Að vera íbúar í gleymdu héraði eða svæði er reynsla sem íbúar margra héraða Evrópu eiga sameiginlegt og því hefur samstarfið víðtækari vísun. Á Sikiley stofnar Christoph til kjarnyrts samtals og leggur fram gagnrýna spurningu við yfirlýst markmið Manifesta í Palermo og borgaða þátttöku hollenska arkitektafyrirtækisins OMA til að stunda rannsóknir á veruleika Palermo. Falið undir fallegum ásetningi í texta sýningaskrárinnar er sú staðreynd að rannsóknin gefur OMA mikilvægt forskot þegar útboð hefjast í þeirri langtíma framfarauppbyggingu sem Orlando borgarstjóra sér sem framtíð borgarinnar.

Með því að sýna bæinn Gibellina í nýrri og eldri gerð undir upprunalegri ferðamannaleiðsögn fólks á staðnum tekst Christoph að leggja fram metarýni á fyrirbærið tvíæringa í sjálfu sér og sérstaklega Manifesta í Palermo en engin fordæmi eru fyrir slíkri forrannsókn arkitektafyrirtækis. Í ljósi þess að Hedwig Fijen hefur lýst yfir að slík forrannsókn arkitektafyrirtækis sé framtíð Manifesta fær verk Christops aukna vigt. Það verður hrifnæmum nauðsynlegt til að halda sér á jörðinni nálægt því sem er.


Ferðafélagar á torgi fyrir framan borgarskrifstofur Gibbelina Nuova. Á myndinni sást brot af stórum og vanræktum útilistaverkum bæjarins og einnig aðkeyptum arkitektúr.

Þegar Manifesta var næstum því haldin á Íslandi

Manifesta sem ferða-tvíæringur getur sannarlega virkað sem tæki til að flýta fyrir heldrunarferli í höndum réttra aðila hvort sem þeir gera það af góðum ásetningi eða til þess að hagnast eða eru ómeðvitaðir um hver kostnaðurinn er. Í þessu samhengi er gott að rifja upp hvernig Manifesta varð næstum því haldið á Íslandi undir lok síðasta áratugar. Um miðjan áratuginn var þýska sýningarstjóranum Christian Schöen falið það verkefnið að stofna íslenska kynningarmiðstöð myndlistar og koma myndlistarmálum í faglegan jarðveg. Um svipað leiti árið 2005 var haldin Listahátíð í Reykjavík sem beindi sjónum að íslenskri myndlist á hátt sem ekki hafði þekkst áður.

Mikilvægt fólk úr miðju listheimsins flyktist til landsins og var flogið á milli myndlistarsýninga Listahátíðar í öllum landshlutum. Þetta var hátíðin sem kom íslenskri myndlist á kortið. Christoph Büchel var hluti af þessari bylgju sem myndaðist í kjölfarið og sem listamannavinnurýmið Klink og Bank var miðlægt í. Nína Magnúsdóttir var einmitt stjórnandi Klink og Bank á þessum tíma og lykilmanneskja í tengslanetamyndun í kringum það.

Christian var mjög metnaðarfullur fyrir hönd íslenskrar myndlistar og vildi nýta þetta tækifæri sem athyglin á Listahátið 2005 var. Hann notaði tengsl sín við stjórnanda Berliner Liste listamessunnar til að Klink og Bank yrði boðin þátttaka þar og vann einnig nótt og dag við að sannfæra áhrifafólk í íslenskum nefndum um að það væri málið að styrkja íslenska listamenn eins og Egil Sæbjörnsson til vinnustofudvalar í Künstlerhaus Bethanien í Berlín. Christin fylgdi svo athyglinni eftir með því að bjóða hópi af Manifesta sýningarstjórum til Íslands með það í huga að undirbúa jarðveginn fyrir það að Manifesta yrði haldin fljótlega á Íslandi.

Hedwig Fijen var mjög hrifin af þeirri hugmynd og lagði sérstaka áherslu á að sýningarstjórarnir færu til Íslands til að velja íslenska listamenn til þáttöku á Manifesta. Það varð úr að listamennirnir Margrét Blöndal, Ragnar Kjartansson og Ólafur Ólafsson/Libia Castro tóku þátt árið 2008. Íslenska ríkið tók líka vel í hugmyndina og samningur um að hýsa Manifesta lá á borði Mennta- og menningarmálaráðherra til undirskriftar þegar Lehmann bræður urðu gjaldþrota. Þegar Ísland varð síðan nær gjaldþrota í kjölfarið stóð valið á milli þess að heiðra tvo samninga sem lágu á borðinu og heiðursþátttaka Íslands í bókamessunni í Frankfurt varð ofan á.

Eftir langt ferli og uppbyggingu til að koma þessum mikilvæga atburði til Íslands þá voru þetta að sjálfsögðu mikil vonbrigði. Reykjavíkurborg og íslenska ríkið höfðu vissulega ekki sömu sýn á myndlistarviðburð sem eitthvað sem hægt væri að byggja á eins og Orlando borgarstjóri Palermo gerir í dag eða stórhugar 9. áratugarins gerðu í Gibellina Nuova. Heldrunarferli er flókið og marglaga fyrirbæri sem eins og nýlenduferlið kjarnast um að einn þjóðfélagshópur tekur yfir rými annars og því fylgir umbreyting á fagurfræði og ásýnd og margt fleira. Ákveðnir hópar hagnast og hagur þeirra vænkast á meðan aðrir hópar eru jaðarsettir.

Myndlistarheimurinn er ekki laus við að vera staðsettur í þessari hringrás og hafa ákveðið hlutverk. Oft bætist hagur myndlistarsenu í upphafi slíks ferils, húsnæði býðst til dæmis á góðum stað á góðu verði, en á síðari stigum kemur oft annar hópur og tekur yfir og myndlistarsenunni er ýtt út á jaðarinn. Þetta er ákveðinn mekanismi sem hefur sinn ryðma, sín tannhjól, sem þarf að gefa gaum í umhverfi sem gefur sig út fyrir að vera gagnrýnið. ‘Follow the money’, hvíslar Nína að mér og horfir kíminn á einn þátttakanda í Draumaframfaraferðinni, arkitekt frá OMA sem virðist ekki gera sér neina grein fyrir gagnrýnu viðhorfi verksins til hans eigins fyrirætlanna og sjónarmiða. Blaðamaður er á báðum áttum. Vissulega yrði það stórkostlegt tækifæri fyrir íslenska myndlistarsenu að fá Manifesta til Íslands en ljóst er að mikilvægt er að vera meðvitaður um hver séu helstu tannhjólin og hverju sé verið að fórna og hverjir séu að hagnast þegar rætt er um samspil heldrunarferils, fasteigna- og borgarþróunar og myndlistar- og menningaratburða.

Hulda Rós Guðnadóttir

 


Ljósmyndirnar í greininni eru birtar með leyfi Huldu Rósar Guðnadóttur, mynd af miða er birt með leyfi Fondazione Manifesto

Hlekkir sem tengjast efni greinarinnar:

http://m12.manifesta.org

www.cooking-sections.com

www.fondazionemanifesto.org

http://oma.eu/

http://exilegallery.org/

http://www.utopianunion.org/

http://www.kingakielczynska.com/

https://barcanostra.eu/

Grein í New York Times: Italy’s New Populist Government Turns Away Ship With 600 Migrants Aboard

Myndlistarrannsókn og tilraun vinnur Kvikmyndahátíðina í Berlín

Myndlistarrannsókn og tilraun vinnur Kvikmyndahátíðina í Berlín

Myndlistarrannsókn og tilraun vinnur Kvikmyndahátíðina í Berlín

Kvikmyndahátíðin í Berlín er fyrsta alþjóðlega kvikmyndahátíðin í A flokki á hverju ári. Í ár átti hún sér stað 15. til 25. febrúar. Ef dæma á af myndum og umfjöllun í meginstraumsfjölmiðlum mætti halda að hátíðin snerist um töfraljóma rauða teppisins. Það er hinsvegar ekki málið fyrir fagfólk og áhugafólk um kvikmynda- og myndbandslist. Hátíðin er mikilvæg miðstöð á þýsku og alþjóðlegu senunni um myndabands- og kvikmyndalist myndlistarmanna.

Kvikmyndirnar í aðalkeppninni um Gullbjörninn taka mjög mismunandi afstöðu gagnvart miðlinum og hægt er að líta á þær að hluta sem sýnishorn af hinum fjölmörgu flokkum hátíðarinnar. Í ár vann tilraunakennd rannsóknarmynd sem auðveldlega væri hægt að segja að sé fulltrúi Forum flokksins. Forum gæti útleggst á íslensku sem opinn samræðuvettvangur. Það var mynd leikstýrunnar og myndlistarkonunnar Adina Pintilie ‘Touch Me Not’ sem vann. Það má ekki horfa framhjá því að þessi ákvörðun hefur mikið menningarlegt og pólitískt mikilvægi. Hún er afgerandi yfirlýsing hinnar alþjóðlegu dómnefndar um hvert þau vilja að hátíðin stefni eftir að stjórnandi hennar Dieter Kosslick hættir árið 2019.

Þetta er yfirlýsing sem er mjög mikilvæg fyrir myndlistarmenn í kvikmyndagerð, sérstaklega í ljósi opinbers bréfs sem margir af helstu leikstjórum Þýskalands skrifuðu undir síðastliðinn nóvember og sem kallaði á áherslu á stærri nöfn og meiri töfraljóma frekar en áherslu hátíðarinnar á rannsókn á mismunandi afstöðum og möguleikum kvikmyndanna. Formaður dómnefndar, Tom Tykwer, skýrði ákvörðun dómnefndar með því að þau vildu ekki verðlauna það sem kvikmyndalistin gæti þegar gert vel heldur mikið frekar hvert kvikmyndalistin gæti farið í framtíðinni. Hann er að tala um möguleika kvikmyndarinnar. Stefnan er í átt tilraunarinnar.


Frá innsetningunni ‘A Mechanism Capable of Changing Itself’. Frá vinstri til hægri: ‘Strange Meetings’ eftir Jane Jin Kaisen, ‘Pink Slime Ceasar Shift’ eftir Jen Liu og ‘Café Togo’ eftir Musquiqui Chihying og Gregor Kasper.

Þetta eru ekki ný átök eða umræður. Tilraunaflokkur hátíðarinnar, Forum, var upprunalega stofnaður sem ‘Hinn alþjóðlegi umræðuvettvangur um nýja kvikmyndalist’ á umrótsárunum í lok 7. áratugarins, sem mótvægi við Kvikmyndahátíðina í Berlín. Stofnhópurinn sem síðar varð að Arsenal, þýsku stofnuninni um kvikmynda- og myndabandslist, vildi umbreyta kvikmyndalistinni í vettvang uppbyggilegrar menningarlegrar umræðu og skoðanaskipta. Það var svo árið 1970, í kjölfar mikilvægra breytinga á Kvikmyndahátíðinni í Berlín, sem Forum flokkurinn var innlimaður í hátíðina sem vettvangur fyrir kvikmyndir sem eiga heima á mörkum myndlistar og kvikmyndalistar og þar sem heimildarmyndir og skáldaðar myndir eru metnar á jafnræðisgrundvelli. Frá upphafi vildi Forum flokkurinn standa utan við keppnisandann og er ekki með nein opinber verðlaun. Hinsvegar eru fjöldinn allur af sjálfstæðum verðlaunum. Í ár voru kvenleikstjórar mjög sigursælar í flokknum.

Forum flokkurinn er hinsvegar aðallega helgaður myndum í fullri lengd og það var árið 2006 sem stjórnarformaður Arsenal stofnunarinnar, Stefanie Schulte Strathaus ásamt sjálfstæða kvikmynda- og myndlistar sýningarstjóranum Anselm Franke, stofnaði ‘Forum Expanded’ undirflokkinn – hinn útvíkkaði umræðuvettvang. Þar fá styttri myndir og einrása myndbandsverk að taka þátt ásamt innsetningarverkum og gjörningum. Afstaða Forum Expanded er að bjóða upp á gagnrýni og útvíkkaða skynjun á fyrirbærinu kvikmynd.


Stilla úr ‘Today Is 11th June 1993’ eftir Clarissa Thieme.

Þessi rýni tekur á sig form hópsýningar á innsetningaverkum ásamt röð kvikmyndasýninga í hefðbundnum kvikmyndasal. Forum hefur frá upphafi verið helgað tilraunakenndum frásagnarleiðum, óháð tegundaflokkunum, þar sem meiri áhætta hefur verið tekin en í öðrum flokkum hátíðarinnar og áhersla hefur verið á annars konar valmöguleika eða sýn á annars samþykktri kvikmyndasögu. Það sem gerir hinn útvíkkaða undirflokk sérstakan er að hann er vettvangur þar sem heimildarmyndir, skáldað efni, tilraunaefni, blendingar, einrása og margrása verk og innsetningar, kvikmynda- og myndbandsverk eru flokkuð saman og skoðuð í samhengi við hvort annað. Vettvangurinn er ekki bara einstakur, í sambandi við að horfa framhjá hefðbundnum tegundaflokkunum og merkimiðum eftir sýningarsniði, heldur er hann einnig einstakur að því leiti að í honum taka sýningastjórarnir ákveða afstöðu eða réttara sagt leggja í ákveðinn rannsóknarleiðangur með ákveðið sýningarheiti eða spurningu að leiðarljósi. Í þeirri rannsókn rúmast bæði heimsfrumsýningar á verkum og mikilvæg eldri verk ásamt nýlegum verkum af tvíæringum og öðrum sýningum. Í flokknum eru engin verðlaun.


Kvikmyndagerðar og myndlistakonan Clarissa Thieme.

Árið 2018 er Forum Expanded ennþá rekið í samstarfi Kvikmyndahátíðarinnar í Berlín og Arsenal stofnunarinnar með Stefanie fremsta í flokki jafningja en Anselm Franke er meira á hlíðarlínunni þar sem hann er í dag yfirmaður kvikmynda- og myndlistardagskrá Húss Menninga Heimsins (‘Haus der Kulturen der Welt’) í Berlín. Auk Stefanie stendur að baki sýningunni 2018 sýningarstjórateymi sem samanstendur af sýríska kvikmynda og myndbandslistamanninum Khaled Abdulawahed, þýska tilraunakvikmynda sýningarstjóranum Ulrich Ziemons og listakonunni, sýningarstjóranum og einum af stofnanda ‘Contemporary Image Collective’ í Kairó, Maha Maamoun. Saman skipa þau teymi sem segir sögu af áherslunni á fjölbreytilega afstöðu í menningarpólitík Þýskalands.

Þetta árið var heiti sýningarinnar bein tilvitnun í spássíunótu Maya Deren frá 1947 um eiginleika Marxisma: ‘Kerfi sem er fært um að breyta sjálfu sér’ (‘A Mechanism Capable of Changing Itself’) og vísar í tilfelli sýningarinnar til kvikmyndalistarinnar sem er ekki aðeins fær um að koma af stað breytingum eða breytast heldur hefur einnig í sér getuna til að skapa ný skynjunarform. Samkvæmt Stefanie vísar heitið auk þess í stofnanarammann sjálfan sem verkin eru sýnd í. Kvikmyndafræðingurinn Ute Holl hélt ræðu á opnun Forum Expanded sýningarinnar um kenningalegan bakgrunn rannsóknarspurningarinnar og titilsins. ‘‘Eins og Maya Deren gerði ráð fyrir að sérhvert móttökuform kvikmyndarinnar umbreytti líka viðtakendum á sama tíma þá lýsir hugmynd hennar um kvikmyndalistina samáhrifum stýrikerfis þar sem tæknilegir, félagslegir og fagurfræðilegir þættir ásamt skynþáttum eru í stöðugu umbreytingarferli sem á sér stað á gagnkvæman hátt: ‘Kerfi sem er fært um að breyta sjálfu sér’,“ hélt Ute fram og hélt áfram: “Það var ósk Maya Deren að kvikmyndalistin myndi staðsetja okkur í sambandi við hið óþekkta frekar en að færa okkur undir stjórn hins staðlaða eða dæmigerða‘.’ Þetta er viðhorf sem bergmálar ekki aðeins í sýningarstjórninni á Forum / Forum Expanded í ár heldur er einnig hvatinn á bakvið ákvörðun hinnar alþjóðlegu dómnefndar sem veitti Gullbjörninn.

Eins og undanfarin ár átti sýningin sér stað bæði sem hópsýning í Akademie der Künste eða Akademíu listarinnar við Hansetenweg í Berlín og sem kvikmndasýningar þar og í Arsenal stofnunni við Potsdamer Platz. Í sýningunni virðast sýningarstjórarnir, eins og hin alþjóðlega dómnefnd, vera að leita að nýrri sýn á fortíðinni og leið til að umbreyta henni í nýja sýn á möguleikum framtíðarinnar þar sem lykilinn er áhersla á framtíðarmöguleika kvikmynda- og myndbandlistarinnar frekar en að verðlauna þaulreyndar aðferðir. Listamönnunum sem var boðið eru 58 talsins. Ný verk voru vanalega eftir yngri kynslóðina á meðan eldri verk voru valin úr sögu avant-garde kvikmyndagerðar, vanalega frá miðbiki 20. aldarinnar í Bandaríkjunum. Þegar litið er á afrekaskrá yngri listamanna kemur í ljós að þeir hafa flestir tekið virkan þátt í starfi mikilvægra þýska eða berlínskra liststofnanna, ýmist með því að sýna verk, taka við styrk, verið í námi eða eru á skrá hjá belínsku eða þýsku gallerí. Fáein verk koma úr stórum tvíæringum á síðasta ári.


Anouk de Clercq ásamt kollegum sínum fyrir utan Akademie der Künste.

Einn listamannanna er hin þekkta myndbandslistakona Anouk de Clercq sem heimsfrumsýndi nýjasta verk sitt ‘It’ í kvikmyndasal í Arsenal stofnuninni. Verkið er samstarfsverkefni með ljósmyndaranum Tom Callemin.’It’ eins og fyrri verk Anouk tekur sér sterka fagurfræðilega stöðu á milli myrkurs og ljóss og kannar hvað gerist þar á milli. Anouk, sem búsett er í Berlín, er mjög sýnileg í belínsku senunni en á sama tíma var hún að sýna myndbandsverk á tveim öðrum virtum sýningarstöðum í Berlín: í Künstlerhaus Bethanien í Kreuzberg og ACUD gallerí í Mitte hverfi. Einhverjir á Íslandi þekkja e.t.v. til verka Anouk en hún var handhafi SIM vinnustofudvalar árið 2006 og tók þátt í sýningu í Safni á Laugavegi undir sýningarstjórn Birtu Guðjónsdóttur. Síðan þá hefur Anouk ferðast átta sinnum til Íslands og jafnvel búið til verk sem eru innblásin af tíma hennar og ferðalögum á landinu.

Anouk er ein af stofnendum Auguste Orts, belgísks framleiðslu- og dreifingarfyrirtækis fyrir hljóð-og myndverk myndlistarmanna sem falla á milli flokkunarkerfa tegunda og forma. Verk Anouk eru framleidd af þessu fyrirtæki og fjármögnuð af flæmska Hljóð-og myndverkasjóðnum og einnig af rannsóknarsjóði Listaháskólans í Ghent en Anouk er með rannsóknarstöðu við þann skóla. Ég hitti hana stuttlega daginn fyrir frumsýninguna og spurði hana hvað vettvangurinn Forum Expanded þýddi fyrir hana sem listamann: “Það er algerlega frábært að sjá verk samferðamanna í listinni í sýningarstjórnuðu samhengi, sem er mjög sjaldgjæft fyrir stórar hátíðir. Venjulega einblína hátíðir á það nýjasta af því nýjasta, frumsýningar os.fr.v en hér blanda þeir nýju efni við eldri verk og leita eftir flæði í hverjum dagskrárlið. Og svo má nefna að vinir mínir og samferðamenn í kvikmyndalistinni búa út um allan heim og hérna fáum við tækifæri til að hittast aftur og skiptast á skoðunum um myndirnar sem við höfum séð, myndirnar sem við erum að undirbúa, o.sfr.v.’‘ Tilfinningin um að búa í tveim aðskildum heimum er eitthvað sem allir listamenn sem vinna með kvikmyndir og myndbönd þurfa að fást við. Það er mismunur á fjármögnun, tegundaflokkun, samhengi, umræðu og væntingum.

Ég spyr Anouk hvernig það hefur verið fyrir hana að tilheyra tveim mismunandi heimum: “Ég byrjaði bæði í myndlistarheiminum og í kvikmyndaheiminum á sama tíma: þessir tveir heimar mættust sjáldan. Á síðustu tveim árum eða svo hefur orðið til merkimiði fyrir það sem ég og samferðamenn mínir gera: ‘kvikmyndir myndlistarmanna’ (‘artist film’) eða hreyfimyndir myndlistarmanna (‘artist moving image’) þannig að flæðið á milli þessara tveggja heima hefur orðið betra. Það hefur orðið til sena sem er stöðugt að styrkjast og senan er með fótinn inn fyrir dyrnar bæði í kvikmynda- og myndlistarheiminum.


Sýningarstjórateymi Forum Expanded 2018. Frá vinstri til hægri: framkvæmdastjórinn Stefanie Schulte Strathaus, sýningarstjórinn og með-stofnandi  ‘Contemporary Image Collective’ í Kaíró, Maha Maamoun, Sýrlenski kvikmyndagerðar/video-listamaðurinn Khaled Abdulawahed og þýski tilraunakvikmynda sýningarstjórinn Ulrich Ziemons.

Söfn hafa orðið opnari og forvitnari um kvikmyndir og myndbönd, kvikmyndahátíðir eru að leita eftir nýjum leiðum í kvikmyndagerð og þannig komu þær auga á kvikmyndagerð myndlistarmanna. Það virðist vera að þessi sena af myndlistarmönnum sem eru að gera kvikmyndir, virki æ meir eins og brú á milli þessara tveggja heima.’

Anouk hefur sjálf verið virk í að brúa bilið en á árunum 2015 – 2017 skipulagði Auguste Orts verkefnið ‘On and For Production’ eða ‘Um og fyrir framleiðslu’, frumkvöðlaverkefni sem samanstóð af röð funda víðsvegar um Evrópu þar sem málefni tengd framleiðslu og fjármögnun á kvikmyndagerð myndlistarmanna voru rædd með þátttöku leiðandi fagfólks og fjármögnunaraðila úr báðum heimum. Christina Nord, fyrrverandi kvikmyndarýnir hjá ‘die tageszeitung’ dagblaðinu í Berlín og núverandi yfirmaður í menningardagskrárdeild Goethe stofnunarinnar, skrifaði grein um blendingsmyndir í sýningarskrá Forum / Forum Expanded, þar sem hún vitnar í orð kvikmyndagerðamannsins Marcin Malaszczak varðandi þetta: “Fyrir kvikmyndagerðamenn, fyrir verkið sjálft, skipta tegundaflokkaskipanir ekki máli. Þessar tegundaflokkanir eru aðeins nauðsynlegar þegar verið er að sækja um styrk, þegar þú vilt vinna í kerfinu. Þá þarf að stimpla allt. Sama á við um flestar hátíðir.“ Þetta er hvatinn á baki verkefni Anouk að færa saman fjármögnunaraðlia í myndlistar- og kvikmyndaheiminum til að hefja samræður og skoðanaskipti, til að brúa þessa tvo heima.


Akademie der Künste – einn af stöðunum þar sem Forum Expanded á Berlinale Film Festival fór fram.

Annar listamaður sem heimsfrumsýndi einrása verk í kvikmyndasal Akademíunnar er þýska tilraunakvikmyndagerðakonan Clarissa Thieme, fyrrverandi aðstoðarprófessor við Listaháskólann í Berlin og nýlega handhafi rannsóknarstöðu við berlínsku rannsóknarmiðstöðina fyrir æðri rannsóknir í listum og vísindum (‘BAS’). Myndin hennarToday Is 11th June 1993′ var þróuð í ramma myndlistarrannsóknarstyrks við stofnunina sem Clarissa hefur fengið til að rannsaka myndbandsupptökur úr myndbandssafni Hamdija Kresevljakovic í Sarajevo.

Myndin er fyrsta listræna niðurstaðan úr rannsóknarverkefninu en meira er á leiðinni fljótlega, gjörningur og myndbandsinnsetning. Myndbandssafnið samanstendur af upptökum sem teknar voru á meðan á fjögurra ára umsátri um Sarajevo stóð yfir, og var tekið bæði af Kreševljakovic bræðrum og safnað frá frá fólki sem bjó í borginni á þessum tíma. Í mynd Clarissu situr þýðandi í lokuðum bás fyrir framan vörpun á myndbandsupptöku úr safninu sem sýnir heimagerða vísindaskáldsögu þar sem hópur af ungu fólki ímyndar sér að flýja umsátrið með hjálp tímavélar. Þetta er einhvers konar framtíðarútópíu ímyndunarfantasía og þess vegna frumlegt efni til að nota fyrir pólítíska og félagslega umræðu.

Í Spurningum&Svörum eftir sýninguna benti Clarissa á að safnið sýnir sjónarhorn sem er mjög ólíkt umfjöllun meginstraumsfjölmiðla frá þessum tíma og geti það því þjónað sem einskonar gluggi aftur í þennan tíma. Hvernig eigi að sýna og upplifa efni úr söfnum er ríkt svið til að gera tilraunir með og Clarissa gerir þetta á mjög áhugaverðan hátt með þvi að búa til brú á milli þá og nú með því að endurtaka í bergmáli fyriráætlanir hinna upprunalegu kvikmyndagerðamanna.

Myndin, sem virðist í fyrstu vera einföld sviðsetning á efninu, er marglaga og kveikir á hugrenningum og tengingum hjá áhorfandanum, ekki aðeins um hvernig umsátrið um Sarajevo var sett fram með almennum stöðluðum hætti árið 1993 og síðar, heldur einnig um hvernig umsátur í samtímanum eru sýnd í meginstraumsfjölmiðlum dagsins í dag. “Forum Expanded er blendingsvettvangur þar sem kvikmyndalist og myndlist mætast. Og það lýsir mjög mínu eigin starfi. Á mjög áhugaverðan hátt þá er vettvangurinn listræn tilraun í sjálfu sér sem spyr spurninga um merkingu kvikmyndalistar í samtímanum og hvað hún gæti orðið. Spurningar vaknar ekki einungis vegna verkanna sem sýnd eru heldur einnig vegna áhorfenda. Þetta er mjög dýrmætur hugsunartankur og rannsóknarstofa“, svarar Clarissa þegar ég spyr hana af hvað það sé sem gerir það mikilvægt að sýna verkið hennar á hátíðinni. “Mér finnst það mjög áhugavert að Forum / Forum Expanded sé staðsett sem flokkur í Kvikmyndahátíðinni í Berlín, kvikmyndahátíð í A-flokki með svo marga aðra flokka og með evrópska kvikmyndamarkaðinn í Martin Gropius Bau safninu sem er með þúsundir mynda sem eru ekki einu sinni á lista í sýningarskrá hátíðarinnar.

Á vissan hátt eru Forum Expanded og evrópski kvikmyndamarkaðurinn á sitthvorum enda ‘öfganna’. Með mjög mikilli einföldun má auðvitað segja að þar sé að finna muninn á milli myndlist og söluvænna kvikmynda. Ég held að við getum ekki litið framhjá þeirri staðreynd að mismunandi dreifingar- og fjármögnunarleiðir hafa mikil áhrif á verkin okkar. Ég sé þetta ekki svona svart og hvítt. Ég hef til dæmis mikinn skilning á dreifingu í kvikmyndaheiminum sem hefur það að markmiði að eins margt fólk og mögulegt er sjái verkið. Þetta er mjög ólík þeirri einkaréttar nálgun sem felst í að búa til aðeins fimm eintök sem seld eru sem listaverk. Það eru jákvæð og neikvæð áhrif sem koma úr báðum þessum áttum að mínu viti. Mér finnst gott að skoða þetta mjög gaumgæfilega. Oftast höfum við ekki algerlega frjálst val hvernig við framleiðum og sjósetjum verkin okkar. En auðvitað sem myndlistarmaður eða kvikmyndagerðamaður þá þarftu að þekkja vel hinar ólíku leiðir til þess að geta stefnt að því sem er best fyrir verkið sem þú ert að vinna að á hverri stundu. Segjum að það séu mjög ólíkir kvikmyndaheimar undir þaki Kvikmyndahátíðarinnar í Berlín. Í tíu daga þá segir fólk þér að það geri kvikmyndir og þau gera það líka öll. En þetta er eins og hittingur mismunandi vetrarbrauta. Þar sem ég nýt skoðanaskipta í fremstu röð og þar sem þú finnur í sérhverjum þessara mismunandi kvikmyndaheimum fólk sem sannarlega elskar kvikmyndir og myndlist og brennur fyrir því sem það gerir, þá nýt ég þess mjög að Forum / Forum Expanded sé staðsett innan Kvikmyndahátíðarinnr í Berlín og finnst vettangurinn veita bæði innblástur og koma stöðugt á óvart.“

Hulda Rós Guðnadóttir


Aðalmynd með grein: Frá innsetningunni ‘A Mechanism Capable of Changing Itself’. 2-rása video innsetning ‘Third Part of the Third Measure’ eftir The Otolith Group.

Ljósmyndir: með leyfi höfunds greinarinnar og listamanna.

Myndlistarrannsókn og tilraun vinnur Kvikmyndahátíðina í Berlín

Visual art experiment wins the Berlinale

Visual art experiment wins the Berlinale

The Berlinale film festival is the first international film festival of the A-level status in the festival calendar each year. This year it took place during the 15th to the 25th of February. Judging from mainstream media pictures and coverage one might think that the festival is all about glamour and red carpet. That is however not the case for film and video art enthusiasts and artists who look at the festival as an important hub on the German and international expanded film and video art scene. The films in the main competition for the prestigious Golden Bear take very different positions and can partly be looked at as a showcase of the many festival sections.

This year an experimental film, that could easily be said to be a representative of the Forum section, won the award. This is the film Touch Me Not by Adina Pintilie. It should not be overlooked that this decision has an important cultural-political significance. It is a decisive statement from the international jury about where they would like the festival to head after the director Dieter Kosslick quits in 2019. It is a statement that is very important for film artists, especially in the light of a public letter signed by the most established German film directors last November, calling for more bigger names, more glamour, rather than the festival emphasize on investigation on different positions and expanding cinema. Head of jury, Tom Tykwer, explained the jury´s decision by stating that they did not want to award what cinema could already do but where cinema could head in the future. He is talking about the possibility of cinema. The direction is the one of the experiment.

Installation view from ‘A Mechanism Capable of Changing Itself’. From left to right: ‘Strange Meetings’ by Jane Jin Kaisen, ‘Pink Slime Ceasar Shift’ by Jen Liu and ‘Café Togo’ by Musquiqui Chihying and Gregor Kasper

The Forum is mostly dedicated to the feature length, however, and it was in 2006 that a chairperson of the Arsenal Institute, Stefanie Schulte Strathaus, together with independent film and visual art curator, Anselm Franke, founded ‘The Forum Expanded’ side section where shorter films and videos together with installation work and performative works could join the debate. The position of Forum Expanded is to provide a critical perspective and expanded sense of cinematography. It takes the shape of an installation group exhibition and row of cinema screenings of clusters of films. The Forum has from the beginning been dedicated to experimental narrative forms, regardless of genre labels, where more creative risks have been taken than in the other sections of the festival and emphasize is put on an alternative cinematic canon. What makes the expanded section special is that it is a platform where documentary, fiction, experimental, hybrid, single-channel and multi-channel works and installation film and video works are categorized and viewed in context with one another. The platform is however not only unique, in defying conventional genre categorization and labels by screening formats, but rather in that it takes a curatorial position under an investigative title and does include both world premiers and older works of significance for the curatorial question each time.

Still from ‘Today Is 11th June 1993’ by Clarissa Thieme.

In 2018 Forum Expanded still runs as a collaborative effort of the Berlinale film festival and the Arsenal institute under the leadership of Schulte Strathaus but Anselm Franke has taken on a consultancy role while heading the film and art program of the Haus der Kulturen der Welt in Berlin. In addition to Schulte Strathaus the curatorial team consisted of Syrian filmmaker/video-artist Khaled Abdulawahed, German experimental film curator Ulrich Ziemons and artist and curator and co-founder of ‘Contemporary Image Collective’ in Cairo, Maha Maamoun. They made a team which constellation told a story about a drive for a diverse position but also cultural-political position of Germany.

This year the curatorial title was a direct quotation of Maya Deren´s 1947 marginal note on Marxism: ‘A Mechanism Capable of Changing Itself’ referring, in the case of the program, to cinema that is not only capable of change but also holds capacity to create new form of perception and additionally according to Schulte Strathaus refers to the institutional framework within which the works are being shown. Film theorist Ute Holl gave a speech at the opening reception of the Forum Expanded exhibition about the theoretical background of the title. “As Maya Deren assumed that every form of reception in the movie theatre also transformed the receptors at the same time, her concept of cinema characterized a cybernetic aggregate whose technical, sensory social and aesthetic elements were permanently changing in reciprocal fashion: A mechanism capable of changing itself.“, she continues: “It was Maya Deren´s wish that cinema should place us in a relationship with the unknown rather than subjugate us to a norm’‘, a sentiment echoed not only in the programming of Forum / Forum Expanded this year but the motivation behind the decision of the main international jury.

Filmmaker and visual artist Clarissa Thieme.

As for the past years the exhibition took place both as a group exhibition at Akademie der Künste on Hansetenweg and cinema screenings that also took place at the Arsenal Institute. Judging by the exhibition the curators seemed to be, as the main international jury, searching for a new take on the past and a way to transforme it into a new vision for possibilities for the future where the key is focus on the future possibility of cinema and video art rather than rewarding tried out gestures. The artists that were invited were 58 in total. The new works were usually by the younger generation while the older works where a chosen selection from the canon of avant-garde cinema, usually from the mid 20th century scene in the United States. When looking at the achievements of the younger artists it became very clear that they had been spotted by their participation at significant German or Berlin art institutions by means of exhibition or being grant recipients or receiving a higher degree or being represented by a gallery. Few of the works had been spotted at major international biennials.

One of the artists was the well known video artist Anouk de Clercq that enjoyed a world premier of her latest work It at the Arsenal institute. The work is a collaboration with photographer Tom Callemin. It like her previous works shows a strong aesthetic position in darkness and light and what happens in between. De Clerq, who is based in Berlin, is very visible on the Berlin art scene but at the same time she was showing video works at two different prominent venues in Berlin: Künstlerhaus Bethanien in Kreuzberg and ACUD galerie in Mitte. Some people in Iceland might know de Clercq´s work but she was a recipient of SIM residency award in 2006 and took part in an exhibition at the Reykjavik edition of Safn collectors room of Petur Arason and Ragna Robertsdóttir with curator Birta Gudjónsdóttir. Since then she has travelled eight times to Iceland and even made works inspired by her time and travels there. De Clercq is one of the founders of Auguste Orts a Belgian production and distribution platform for audiovisual art projects in between genres and formats. Her works are produced by this company and funded mainly by the Flemish Audiovisual Fund but also commissions of research funds at the School of Arts University College Ghent to which de Clercq is affiliated.

Anouk de Clercq chatting with colleagues outside Akademie der Künste.

I met her briefly a day before the premier and asked her about what the Forum Expanded platform meant for her as an artist: “It’s absolutely brilliant to see works of my colleagues in a curated context, which is quite rare for big festivals. Usually a festival focuses on the newest of the new, premieres, etc. but here they combine new work with old work, and look for a flow in each program. And to conclude, my film friends and colleagues live all over the world so here we get chance to see each other again and exchange about the films we’ve seen, the films we are preparing, etc.“

The feeling of living in two worlds is certainly an issue for all artists that work with film and video art. There is difference of funding, of labelling, of context, discourse and expectations. I ask her how it has been for her to belong to two different worlds: “I started off in both the visual arts and in film but indeed in a parallel way: the two worlds rarely met. Since recent years though, there’s a label for what I and my colleagues do: artist film or artist moving image and so the flow between the two worlds works more easily since a couple of years. There’s a scene now which is growing stronger and it has a foothold in both film and visual arts.

Museums have become more open and curious about film and video, film festivals are looking for new ways of cinema making and so artist film came into view. It seems that this scene of artists making films, is bridging both worlds more and more.“ De Clercq herself has been very active in bridging those worlds but in the years 2015 -2017 Auguste Orts organised the project ‘On and For Production’, an initiative that was a series of meetings across Europe where issues of artists’s film production and funding were discussed with participation of leading professionals and funders of both worlds.

Christina Nord, former film editor at the Berlin newspaper ‘die tageszeitung’ and currently one of the heads of Goethe Institute´s cultural program, indeed quotes, in her article about hybrid films in the Forum / Forum Expanded catalogue, the words of filmmaker Marcin Malaszczak regarding this issue. “For filmmakers, for the work itself, the distinction doesn´t matter. These categories are only necessary when you’re applying for funding, when you want to work in the system. Then everything has to be labelled. The same applies to most festivals.“ This is the motivation for why de Clercq is bringing together financiers in the artist and the cinema film worlds, to initiate a dialogue and exchange, to bridge these two worlds.

The curatorial team of Forum Expanded 2018. From left to right: the director Stefanie Schulte Strathaus, curator and co-founder of ‘Contemporary Image Collective’ in Cairo, Maha Maamoun, Syrian filmmaker/video-artist Khaled Abdulawahed and German experimental film curator Ulrich Ziemons.

Another artist who premiered a single-channel work in the Akademie´s cinema hall is German experimental filmmaker Clarissa Thieme, a former assistant professor at the UdK and since recently a research fellow at the Berlin Center for Advanced Studies in Art and Science (BAS). Her film Today Is 11th June 1993 was developed in the frame of her artistic research fellowship at BAS that deals with the video footage contained in the Library Hamdija Kresevljakovic Video Arhive in Sarajevo. The film is one output of the research project and more artistic outputs are coming soon, a performance and video installation.

The archive consists of video footage shot during the four years of the siege of Sarajevo, both by the Kreševljakovic brothers themselves and collected from the people that lived in the city at the time. In Thieme´s film a translator sits in a booth in front of a projection of an archive footage of a homemade science fiction film in which a group of young people imagine fleeing the siege of Sarajevo by means of time machine. It is some kind of future utopia fantasy and thus an original resource for a political and social discourse. In the Q&A after the screening Thieme points out that the archive shows a perspective that is in stark contrast to the mainstream media coverage of the time and thus can serve as a window to this time.

Akademie der Künste – one of the Forum Expanded venues at the Berlinale Film Festival

How to show and experience archival footage is a rich field to experiment with and Thieme does this in a very interesting way creating a bridge between then and now by echoing the intentions of the original filmmakers. The film, that appears as a simple presentation, is multi-layered and provokes connections and reflections, not only about how the Sarajevo siege was presented in generic stereotypical terms during 1993 and later but also about how current sieges are portrait in the mainstream media of today. “Forum Expanded is a hybrid platform. It´s an intercrossing of cinema and art. And this meets very much my own practice. In a very interesting way it is an artistic experiment in itself asking what cinema means nowadays and what it could be.

This emerges not just from the shown works but also from the people attending. It is a very precious think tank and laboratory“, Thieme answers when I ask her about what makes it important to show her work at the festival. “I find it very interesting that Forum / Forum Expanded is embedded in Berlinale, an A-level Film Festival with so many other sections and with a Film Market at Martin Gropius Bau of thousands of films not even listed at the regular catalogue. In a way Forum Expanded and the Film Market are two extremes. And simplifying one could say it is of course the difference between art and commercial cinema. I think we can’t ignore the fact that the different formats of distributing and financing works has a huge impact on our works. I don’t see it black & white. I have for instance a huge sympathy for distribution in the film world that aims for as many as possible people to watch your work. That is a very different approach to the exclusivity you invent by 5 editions only in which you sell an art piece.

There are positive and negative effects coming with both options in my opinion. I like to study these very carefully. Most often we don’t have the complete free choice how we produce and launch our work. But of course as an artist or filmmaker you should know the different scenarios very well to aim for what is best for the very piece you are working on now. Let’s say there are very different film bubbles under the roof of Berlinale.

For ten days people tell you they do film and they all do. But it’s like a meeting of different galaxies. Since I enjoy the edgy parts of exchange and since you find in every of these film bubbles people who truly love film and art as much as they burn for what they do Forum / Forum Expanded inside of Berlinale is a very inspiring and surprising venue for me.“ 

Hulda Rós Guðnadóttir

 


Featured image: Installation view from ‘A Mechanism Capable of Changing Itself’. 2-channel video installation ‘Third Part of the Third Measure’ by The Otolith Group.

Photos: Courtesy of the Artist

 

UA-76827897-1