Afbygging dýrðarljómans
Myndlistarkonan Erla Haraldsdóttir er búsett í Berlín en sýnir reglulega á hinum ýmsum stöðum á landinu. Um þessar mundir sýnir hún tuttugu óhlutbundin málverk í Gallerí Gróttu á Seltjarnarnesi og ber sýningin titilinn „Memory of Colour“. Það kemur á óvart að Erla sé að sýna óhlutbundin verk. Hún er þekktust fyrir mikið útpæld fígúratív málverk en einnig hefur hún verið með verkefni sem snúast meira um að gera listræna ferlið sýnilegt.
Skemmst er að minnast sýningarinnar „Tree / Difficulty of Freedom / Freedom of Difficulty“ sem sett var upp haustið 2013 í Nýlistasafninu. Sýningin var hópsýning sem efnt var til sem hluti af rannsóknarferli Erlu, „Tree of Life“, sem fjallaði um kerfi sem þróuð eru til að ramma inn hið listræna ferli. Fyrir sýninguna voru listnemar og listamenn paraðir saman og látnir senda leiðbeiningar hvor til annars í gegnum tölvupóst. Listaverkin sem komu út úr þessu samstarfi voru svo sýnd í Nýlistasafninu. Sýningunni fylgdi bókaútgáfa sem sýndi aðferðirnar og ferilinn á bak við verkin og varpaði nýju ljósi á verk og aðferðir forsprakkans sjálfs, Erlu. Núna fimm árum síðar hefur Erla ákveðið að gera þetta aftur en með öðrum hætti. Í Gallerí Gróttu gefur að líta óvenjulega smá verk miðað við þau fígúratívu verk hennar sem flestir þekkja. Þau eru abstrakt og skiptast í seríurnar „Spill“, „Án titils“ og „Hönd“ og svo eru tvö stök verk sem heita „Að innan“ og „Að utan“ sem eins og nöfnin gefa til kynna eru tengd. Í tilefni af sýningunni var Erla tekin tali.
Erla, í sýningarskránni skrifa listfræðingurinn Craniv A. Boyd að kalla megi verkin „B-hliðar“. Geturðu útskýrt það nánar?
Já, ég vinn verkin á sama tíma og ég er að vinna þessi stóru fígúratívu málverk og „B-hliðarnar“ vísa til þess að ég hafði ekki beint hugsað mér að sýna verkin almenningi. Þetta er úrgangurinn úr þessum fígúratívu málverkum – það sem kemur út úr ferlinu. Kannski litur sem ég er að blanda mjög lengi, og það er eins og ég þurfi á þessum fígúratívu málverkum að halda til að geta gert þessi abstrakt málverk. Þannig eru þau B-hliðar. Þetta er í rauninni úrgangur. „Spills“ er úrgangur á sænsku. Ég held líka á ensku. Þetta er soldið það sem er eftir. Verkin sem koma út úr því að á meðan ég er að mála þá fær maður helling af hugmyndum. Ein hugmynd getur verið að nú langar mig að nota þennan lit og rosalega þykkan pensil og sjá hvað skeður. Það er einhvern veginn svoleiðis. Líka þegar ég er að mála þessi fígúratívu málverk þá er ég með ákveðnar myndir í huganum þegar ég byrja að mála og svo er maður í díalóg við málverkið.
“Spill“ og “Án titils“ seríurnar á veggnum í Gallerí Gróttu á Setljarnarnesi.
“Hönd“ serían í Gallerí Gróttu, Seltjarnarnesi.
“Að utan“ til hægri og “Að innan“ til vinstri. Gallerí Grótta, Seltjarnarnes.
Í þessu dæmi þá er verkefnið einhvern veginn að setja lit, málningu á striga án þess að vera með einhverja mynd í huga. Kannski er þetta eins og tilraunir í að prufa að mála eitthvað sem þarf ekki að verða neitt. Ég nota kannski liti sem ég er ekki sérstaklega hrifin af, sem stinga í augun á mér, til að sjá hvernig það kemur út. Til þess að hafa gert það. Ég hef verið að vinna eitthvað smávegis á hverjum degi með þessi málverk – sérstaklega kannski á morgnana áður en ég byrja á stóra málverkinu. Í vinnustofunni er ég með stórt hlutbundið málverk á veggnum og þessi eru soldið til hliðar, á gólfinu, á borðinu. Þau geta snúið einhvern veginn í allar áttir, það er ekkert upp og niður.
Hvaða þýðingu hafa þessi verk fyrir þig?
Þetta tengist frelsi. Þegar ég er svo lengi að mála þessi hlutbundnu, þá kemur eitthvað svona yfir mig þar sem ég verð að gera öðruvísi. Þar sem ég verð að fara út úr þessum hlutbundna ramma. Fá að fara út og gera eitthvað sem er ekki hlutbundið, ekki eitthvað sem ég er búin að ákveða áður. Þýðingin er frelsi og ferli semsagt; að fá að gera eitthvað sem er allt öðruvísi. Fá að prufa einhverja hugmynd sem ég er með og það má bara koma út einhvern veginn. Þarf ekki að koma út á einhvern sérstakan hátt. Efnið ræður því hvernig það kemur út.
Craniv talar einnig um það í textanum að þessi afhjúpun sem felst í sýningu þessara verka sem áður voru einungis fyrir þig, opni á hættuna á að listræna ferlið missi dýrðarljóma sinn. Þessi dýrðarljómi hefur verið mikilvægur til að gefa myndlist dulúð og vægi en undanfarna áratugi hafa margir listamenn unnið á móti þessu. Geturðu sagt okkur frá því?
Óhlutbundnu málverkin vísa einnig í módernisma og þessa ofurtrú á myndlist sem opinn glugga inn í þetta guðdómlega. Sko það er þetta mannlega séní. Einhvers konar skilaboð að ofan sem segja að karlmaður að mála módernískt sé snillingur í beintengingu við einhvers konar snilligáfu. Þess vegna eru módernistarnir svona upphafnir. Það er til dæmis það sem maður les um Mark Rothko. Það er ekki beint verið að tala um ferli. Margir af þessum módernistum, Pollock til dæmis, þessir amerísku eftirstríðsáralistamenn, de Kooning, Barnett Newman, það er verið að halda þessu við. Þessari „karlmaðurinn sem snillingur“ hugmynd. Snillingur sem er í einhvers konar algeru blissi í vinnustofunni að gera stórkostleg málverk. Listræn gáfa er að mínu áliti hinsvegar frekar eins og suðupottur en ekki gjöf frá einhverjum allsráðandi guði. Feðraveldið er með rætur sínar kyrfilega bundnar við eingyðistrúarbrögð þar sem eins konar snillingakölt einkennir skrif í vestrænni myndlistarsögu. Takk fyrir að spyrja um þetta – það er akkúrat þetta sem ég er að takast á við. Á næstu sýningu kem ég til með að sýna bæði hlutbundin og abstrakt málverk saman og þá sést þetta vel, tengingin og ferlið. Ég hef gert þetta einu sinni áður og sýndi í Galleri Konstepidemin í Gautaborg árið 2016. Það var svo sýnt aftur í Dómkirkjunni í Lundi.
Að lokum, Erla, langar mig að spyrja þig út í eitt sem þú hefur oft minnst á við mig en það er að þú lítir á málverkið sem gagnrýninn miðil, á svipaðan hátt og myndbönd, gjörningar og aðrir svokallaðir nýmiðlar. Hvað áttu við með því?
Af því að það er algerlega einstaklingsbundið. Þetta er bara tungumál einstaklingsins. Það getur enginn gert eins málverk. Þetta er algerlega þín tjáning. Þannig verður það pólitískt. Þú gefur þér leyfi til að tjá þig algerlega á þinn hátt. Þótt það skipti ekki máli hvort það sé hlutbundið eða abstrakt þá kemur það algerlega úr þér sem manneskju. Öll myndlist er þannig en svo fékk málverkið þennan stimpil á sig á níunda og tíunda áratugnum að það væri dautt og svo komu allar þessar nýju deildir. Það er soldið mín kynslóð. Þegar ég var í námi var þessi umræða allsráðandi. Málverkið var dautt og ef maður málaði var maður „kommersíal“. Þá væri maður ekki að spyrja neinna spurninga um hvað væri myndlist. En ég spyr: af hverju getur málverkið ekki verið með þegar á að vera krítískur? Saga myndbandslistarinnar er núna orðin löng. Stafrænar ljósmyndir hafa líka orðið langa sögu. Verk með mikla handavinnu að baki geta líka verið pólitísk rétt eins og hugmyndalist. Málverk geta líka verið byggð á konsepti. Þetta er soldið marglaga spurning. Hægt að ræða þetta endalaust en ég held að svarið sé einfaldlega að maður gefur manneskjunni leyfi á að tjá sig. Það er pólitískt í dag.
Hulda Rós Guðnadóttir
Sýningunni lýkur 28. október 2018.
Ljósmyndir af verkum: Með leyfi listamanns.
Aðalmynd: Helga Óskarsdóttir
Vefsíða Erlu: erlaharaldsdottir.com