Egill fer á Feneyjartvíæringinn fyrir Íslands hönd 2017

23.06. 2016 | Umfjöllun

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur tilkynnt um val dómnefndar á þeim listamanni sem fer fyrir hönd Íslands á Feneyjartvíæringinn 2017 og er það Egill Sæbjörnsson. Fagráð Kynningarmiðstöðvar sá um valið en í henni sitja að þessu sinni Björg Stefánsdóttir, Hlynur Hallsson, Sirra Sigrún Sigurðardóttr, Aðalheiður Guðmundsdóttir og Libia Castro.

Þrjú teymi listamanna og sýningarstjóra voru valin í forvali 29 umsækjenda til að vinna tillögur sínar fyrir Feneyjartvíæringin nánar og voru þar ásamt Agli, Gjörningaklúbburinn (Eirún Sigurðardóttir, Jóní Jónsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir) með sýningarstjórunum Nadim Samman og Anja Henckel og Margrét Blöndal með sýningarstjóranum Alfredo Cramerotti. Sýningarstjórinn sem Egill vinnur með er Stephanie Böttcher.

Egill Sæbjörnsson er fæddur árið 1973 og útskrifaðist hann úr Myndlista og handíðaskólanum árið 1997. Frá 1999 hefur hann að mestu leyti verið búsettur í Berlín þó tengsl hans við Ísland hafi ætið verið sterk. Myndlist hans samanstendur af blöndu ýmissa miðla og verður útkoman oft á tíðum mjög tilraunakennd þar sem gjörningur og innsetning koma saman. Egill hefur gert tónlist í gegnum tíðina og meðal annars gefið út nokkrar breiðskífur en tónlistin er samofin mörgum af hans verkum. Hann á að baki farsælan feril og var til að mynda tilnefndur til Carnegie verðlaunanna árið 2010.

Það verður áhugavert að fylgjast með útkomunni á næsta ári og óskum við Agli farsældar með árangurinn.

Júlía Marínósdóttir


Mynd með grein tók Ingibjörg Magnadóttir.

 

UA-76827897-1