Asi og kyrrð, kliður og þögn í verkum Guðrúnar Bergsdóttur

Asi og kyrrð, kliður og þögn í verkum Guðrúnar Bergsdóttur

Asi og kyrrð, kliður og þögn í verkum Guðrúnar Bergsdóttur

Guðrún Bergsdóttir sýnir um þessar mundir einkasýningu í Safnasafninu en hún mun standa sumarið 2020. þar eru til sýnis verk frá ferli hennar en hann spannar frá árinu 2000 til 2018. Guðrún fæddist í Reykjavík árið 1970. Að lokinni formlegri skólagöngu sótti Guðrún ýmis námskeið hjá Fjölmennt símenntunar og þekkingarmiðstöð þar á meðal í vélsaumi. Hún er meðlimur í Perlu- festinni, sem er áhugafélag um leiklist og hefur starfað hjá Ási vinnustofu síðan árið 1994. Guðrún hefur frá árinu 2000 til ársins 2018 unnið með útsaum í sinni list og hefur hún þróað sérstakan stíl sem vekur aðdáun og höfðar til fólks á ólíka vegu en verk hennar tengjast bæði handverkshefðinni og geómetríski abstrakt list.

Guðrún byrjaði að gera myndlist eftir þrítugt, en þá fór hún að nota nál, garn og striga á persónulegan hátt og byrjaði að sauma þær myndir sem hún er hvað þekktust fyrir. Hún vinnur beint á strigann, spor fyrir spor, flöt fyrir flöt, án forskriftar.

Á 18 ára tímabili bjó Guðrún til 66 myndir. Verk hennar þróuðust frá beinum línum og stórum ferningum yfir í smærri og lífrænni form þar til formfestan nánast hvarf uns hún setti einungis eitt krosssaumsspor í hverjum lit á flötinn. Í yngstu verkum Guðrúnar iðar flöturinn af lífi og þegar rýnt er í verk hennar á augað erfitt með að festa sig við einn stað.

Úr fjarlægð þegar augað greinir ekki bilið á milli sporana, sér áhorfandinn þó útlínur forma aftur, festu innan þess sem virtist enga reglu hafa. Í horni sumra verka Guðrúnar má sjá vísi að næsta verki á eftir, örlitla kítlu eins og til að byggja upp eftirvæntingu. Verk Guðrúnar virðast vera úthugsuð þróun, þar sem hvert spor er í rökréttu framhaldi frá upphafi þó hún geti ekki lýst því af hverju hún vinnur eins og hún gerir og yppir brosandi öxlum ef hún er spurð.

Áður hafði hún saumað út eftir forskrift og unnið tússmyndir sem svipar um margt til útsaumsmynda hennar. Sem barn teiknaði Guðrún svona ,,kafla“ eða eins og skákborð að sögn móður hennar, svipað og í saumaskapnum seinna. Móðir hennar keypti í hannyrðabúðum áprentaða púðastramma, sem auðvelt var að sauma og Guðrún saumaði nokkra slíka. Einu sinni kom hún heim með rauðan java sem vinkona hennar hafði gefið henni og fór að sauma fríhendis rendur á flötinn. Þegar javinn var búinn keypti móðir hennar meira garn og auðan stramma og Guðrún hélt áfram að þróa saumaskapinn í það sem hún er þekkt fyrir í dag og vann eftir það ekki að listsköpun með öðrum efnivið.

Guðrún fór allra sinna ferða með Strætó. Meðferðis hafði hún ávalt listaverkin sín sem hún var að vinna að þá stundina og tók þau upp og hélt sér að verki hvort sem það var í kaffipásu í vinnunni, í heimsókn hjá foreldrum sínum eða í strætó á leið sinni milli staða. Það er skemmtileg sagan af því hvernig verk Guðrúnar rötuðu fyrst fyrir auglit almennings. Sigurbjörg Júlíusdóttir, kona með fjölskyldutengsl við Guðrúnu vann á bókasafninu í Gerðubergi og bauð henni að sýna í einu horni bókasafnsins, þar sem settar voru upp litlar sýningar á saumaskap og handavinnu. Þessi sýning Guðrúnar var á dagskrá fyrstu hátíðar í nafni Listar án landamæra, sem haldin var á Evrópuári fatlaðs fólks árið 2003. Í kjölfarið var Guðrún beðin um að sýna verkin sín á bókasafninu í Hafnarfirði.

Nokkrum árum síðar varð önnur tilviljun til þess að Guðrún sýndi aftur. Harpa Björnsdóttir myndlistarmaður var með vinnustofu í sama húsi við Reykjavíkurhöfn og faðir Guðrúnar var með skrifstofu. Þar hékk mynd eftir Guðrúnu sem hún hafði gefið honum og heillaðist Harpa af henni. Harpa vann þá í Gerðubergi og hafði umsjón með sýningum þar. Hún bauð Guðrúnu að halda einkasýningu, sem fékk nafnið “Hugarheimar” og var opnuð í nóvember 2006. Sýningin fékk mikla aðsókn og athygli og var framlengd til loka janúar 2007. Það hafði aldrei gerst að sýningar væru framlengdar og var mikið fjallað um hana í fjölmiðlum. Um sýninguna sagði í fréttatilkynningu, að hún væri ein allsherjarsinfónía fjölskrúðugra lita og forma; eins og íslensk brekka þakin berjum að hausti eða brúðarklæði frá Austurlöndum. Guðrún hefur sýnt víða frá þeim tíma.

Á árunum 2007 – 2013 hélt Guðrún 6 sýningar sem voru á dagskrá Listar án landamæra sem þá var undir stjórn Margrétar M. Norðdahl. Árið 2007 tók Guðrún þátt í samstarfssýningu hjá List án landamæra, sem haldin var í Norræna húsinu og vann og sýndi verk sín með Gjörningaklúbbnum, en hann skipuðu þær Eyrún Sigurðardóttir, Jóní Jónsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir.

Árið 2008 hélt hún einkasýningu á Mokka sem var einnig á dagskrá Listar án landamæra. Árið 2011 var Guðrún valin listamaður Listar án landamæra og sýndi verk sín ásamt myndlistarmanninum Ransú í Hafnarborg í Hafnarfirði en sýningin bar yfirskriftina “Abstrakt”. Árið 2012 sýndi hún ásamt Gauta Ásgeirssyni á sýningunni “Nál og hnífur” í Þjóðminjasafni Íslands. 2013 tók hún þátt í samsýningunni ,,Meistarar’’ í gallerí Listamenn og samsýningu í bíósal Duushúsa í Keflavík, en allar sýningarnar voru hluti af dagskrá Listar án landamæra.
Árið 2014 tók Guðrún þátt í verkefninu “Samsuða” í samstarfi við listmanninn Eggert Pétursson.
Guðrún sýndi einnig verk sín í Listasal Mosfellsbæjar á samsýningunni “Rjóminn” og í Öryggismiðstöðinni í Askalind sama ár. Allar sýningarnar utan þeirrar í Öryggismiðstöðinni voru á dagskrá Listar án landamæra undir stjórn Írisar Stefaníu Skúladóttur.

Verk Guðrúnar prýddu forsíðu rits Heimilisiðnaðarfélags Íslands “Hugur og hönd” árið 2008, forsíðu Sögu Styrktarfélags vangefinna 1958-2008, “Viljinn að verki” árið 2009 og almanak Þroskahjálpar árið 2013.

Guðrún sýnir á Safnasafninu í sumar (2020) Á sýningunni fá safngestir að sjá fyrstu myndina sem hún saumaði út í striga án forskriftar frá árinu 2000 og einnig þá nýjustu sem er frá árinu 2018.

Frá árinu 2014 hægðist á listsköpun Guðrúnar og var hvert verk eftir það jafnvel ár í smíðum. Hvert spor í verkum hennar felur í sér sögu og það gerir bilið á milli sporanna einnig. Í verkum Guðrúnar má skynja tíma sem samhliða stendur í stað og líður hratt, asa og kyrrð, klið og þögn, eins og að sitja við læk, sem bæði er hjá okkur, en flæðir hjá á sama tíma.

Verkin hennar Guðrúnar eiga einstaklega vel heima í safninu þar sem alþýðulist mætir menntaðri nútímalist og handverkið mætir listaverkinu. Líkt og Safnasafnið ávarpa verk Guðrúnar manngerð landamæri listheimsins, þar sem múrar hafa verið reistir og verk eru vegin og metin eftir ósögðum en vel þekktum reglum um gildi ólíkra verka og skapara þeirra. Guðrún Bergsdóttir hefur markað spor í listasöguna og með verkum sínum og nálgun hefur hún haft áhrif á samtímafólk sitt í listinni.

Margrét M. Norðdahl


Aðalmynd með grein er samsett úr 4 myndum eftir Guðrúnu.

Frekari upplýsingar: www.safnasafnid.is

Outsider Art! 2. hluti / Ísland – lærðir og leiknir

Outsider Art! 2. hluti / Ísland – lærðir og leiknir

Outsider Art! 2. hluti / Ísland – lærðir og leiknir

Verk eftir listakonuna Erlu Björku Sigmundsdóttur

sem er listamaður Listar án landamæra árið 2016

Á Íslandi er varla hægt að segja að hugtakið ,,outsider“ list sé til á þann hátt að fullur skilningur sé fyrir því hvað í hugtakinu felst. Í inngangi að sýningarskrá sýningarinnar „Yfir bjartsýnisbrúna“, sem haldin var í Listasafni Reykjavíkur árið 2003, skrifar Eiríkur Þorláksson listfræðingur að á 20. öld hafi miklar hræringar orðið og bæði samruni og sundrung á milli listgreina. Það hafi hins vegar ekki tekist að brúa bilið á milli menntaðra og ómenntaðra listamanna. Hann ritar:

Þetta er gjáin á milli þeirra sem hafa lagt stund á formlegt listnám og hinna, sem ekkert slíkt nám hafa að baki. Það hefur ekki reynst auðvelt að skilgreina muninn: hinir fyrri hafa verið nefndir lærðir listamenn, menntaðir, akademískir, ,,alvöru“ á meðan hinir síðarnefndu hafa kallast leiknir, naívir, einfarar í listinni, utangarðs-, frístunda- eða alþýðulistamenn (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003, bls. 5).

Eiríkur orðar vel hvernig staðan er á íslenskum listvettvangi þar sem gjáin á milli tækifæra þeirra sem tilheyra almennu fagurlista ,,senunni“, menntaðra og viðurkenndra listamanna, og hinna ómenntuðu er sannarlega til staðar. Sýningin „Yfir bjartsýnisbrúna“ var samstarfsverkefni á milli Safnasafnsins og Listasafns Reykjavíkur og var yfirlýstur tilgangur með sýningunni að brúa bilið á milli lærðra og leikinna listamanna og setja verk listafólksins fram á grundvelli jafnræðis og án sérstakra formerkja (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003).

Safnasafnið (e. The Icelandic Folk and Outsider Art Museum) er eina safnið á Íslandi sem markvisst safnar alþýðulist og „outsider“ list. Safnasafnið var stofnað árið 1995 og er staðsett við Svalbarðsströnd í Eyjafirði. Í safneigninni eru verk eftir 323 sjálmenntaða og lærða listamenn en í heild telur safneignin um 6.000 listaverk. Innan safnsins er einnig sérstök safndeild, Kikó Korriró-stofa, en þar eru varðveitt um 120-130.000 verk eftir Þórð Guðmund Valdimarsson (Kíkó korriró, 1922-2002).
Á safninu er „outsider“ list sem og framsækin nútímamyndlist sýnd án aðgreiningar, eins og segir á heimasíðu safnsins. Sú stefnumörkun sem safnið setur sér snýst um gæði og einlægni (Safnasafnið e.d.). Níels Hafstein, sem ásamt Magnhildi Sigurðardóttur stofnaði Safnasafnið, skrifar í sýningarskrá sýningarinnar „Yfir bjartsýnisbrúna“ um vandræðagang í orðræðu og skilgreiningu á list jaðarhópa, hinna ómenntuðu, og um að finna viðeigandi safnheiti sem næði yfir ólík tilbrigði skilgreindra listforma. Hann nefnir sem dæmi, alþýðulist, naíva list, frumstæða list, skrautlist, utangarðslist, ,,art brut“, veggjalist, ,,visionary“ list og list fanga og skilgreiningar sem gera tilraun til að: … lýsa list sem ekki fellur afdráttarlaust undir fagurfræði og rannsóknir og er kölluð nútímamyndlist (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003, bls. 7).

Í sýningarskrá segir að sýningin „Yfir bjartsýnisbrúna“ gæti verið sú fyrsta þar sem gerð er tilraun til þess að brúa bilið á milli meginstrauma og jaðarsins í listum með nákvæmlega þeim formerkjum (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003).

Árið 2003, sama ár og sýningin „Yfir bjartsýnisbrúna“ var opnuð, var Evrópuár fatlaðs fólks. Af því tilefni var blásið til listahátíðar hér á landi undir merkinu List án landamæra. List án landmæra, sem síðan hefur verið haldin árlega, er grasrótarhátíð sem varð til fyrir tilstilli skapandi fólks. Einn af stofnendum hátíðarinnar er Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar, en hann ásamt fulltrúum frá Fjölmennt, símenntunarmiðstöð, Átaki, félags fólks með þroskahömlun og Hinu húsinu, miðstöð ungs fólks, mynduðu stjórn um hátíðina fyrir hönd sinna félaga. Seinna bættust Öryrkjabandalag Íslands og Bandalag íslenskra listamanna í stjórn hátíðarinnar.

List án landamæra er hátíð margbreytni og tækifæra fyrir alla eins og segir á heimasíðu hennar. Eitt af aðalmarkmiðum hennar er að stuðla að auknum tækifærum fatlaðs listafólks með því að koma því og list þess á framfæri og koma á samstarfi milli lærðs og leikins listafólks. Áhersla er lögð á sýnileika og þátttöku, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni, því sýnileikinn og þátttaka hefur bein áhrif á jafnrétti á öllum sviðum. Hátíðin hvetur til og stuðlar að fjölbreytni, aðgengi og jafnrétti í menningarlífinu. Á dagskrá hátíðarinnar ár hvert eru fjöldi viðburða og þátttakendur eru mörg hundruð um allt land. Á hátíðinni rúmast listviðburðir sem má meta á faglegum grunni í samstarfi við viðurkenndar liststofnanir sem og viðburðir eins og opnar vinnustofur á starfstöðum fatlaðs fólks (List án landamæra e.d.).

Þorvaldur Þorsteinsson listamaður skrifar inngang í dagskrá Listar án landamæra árið 2006 og fjallar um landamæri í huglægum og eiginlegum skilningi. Hann skrifar:

Þau landamæri menningar og viðhorfa sem vísað er til í yfirskrift þessarar ágætu hátíðar eru um margt snúnari að kljást við en hin opinberu mörk sem skipta landsvæðum í pólitískar, trúarlegar eða efnahagslegar heildir. Hin hefðbundnu landamæri hafa þann kost að vera sýnileg og skýrt afmörkuð. Þar fer sjaldnast milli mála hvar línan er dregin og í hvaða tilgangi og því auðvelt að greina við hvað er að eiga, reynist á annað borð ástæða til að véfengja skiptinguna (List án landamæra, 2006, bls. 5).

Hugleiðingar Þorvalds undirstrika orð þeirra Eiríks og Níels svo og skrif Rögnu Sigurðardóttur rithöfundar og listgagnrýnanda. Í grein í Morgunblaðinu árið 2007, „List hinna“,  skrifar Ragna:

List samtímans er iðulega skipt niður í margar greinar, oft er skiptingin tilefni til vangaveltna. Í myndlistinni getur áhugafólki reynst flókið mál að greina á milli listar áhugafólks og atvinnumanna (Ragna Sigurðardóttir, 2007).

Ragna skrifar einnig inngang í dagskrárbækling hátíðarinnar árið 2008 og kemur með frekari vangaveltur inn í umræðuna. Hún telur að þrátt fyrir að list jaðarhópa hafi orðið sýnilegri á 20. öldinni hafi það frekar verið í formi þess að listamenn nýttu sér þætti úr listsköpun utangarðslistamanna í eigin list og líkir því við að nýlenduherrar hafi nýtt sér náttúruauðlindir nýlenda sinna (List án landamæra, 2008). Skrif Rögnu má tengja við uppruna skilgreiningar á ,,art brut“ þegar súrrealistar sækja í brunn listamanna úr hópi ,,art brut“ listamanna Debuffets.

Ragna, Eiríkur og Níels hafa öll orð á ákveðnum skilgreiningarvanda og eiga það sameiginlegt með fleirum sem mikið hafa skrifað um „outsider“ list. Listfræðingurinn Tansella (2007) bendir á það í rannsókn sinni, ,,The long and winding journey of Outsider Art. A historical perspective“, að erfiðleika skilgreininga megi finna í því að engin stefnuskrá eða „manifesto“ sé til um „outsider“ list og enga eiginlega félagaskrá sé að finna þar sem fólk sem tilheyri hópi „outsider“ listafólks sé sjálft ekki að fást um það. Skilgreiningin sé bundin við fólkið sem skapi listina og stöðu þeirra, listaverkið er þar ekki sjálfstætt og óháð heldur metið af því hver skapari þess er.

Margrét M. Norðdahl

Heimildaskrá:

List án landamæra. (2008). [Sýningarskrá]. List án landamæra.

List án landamæra. (e.d.). Listahátíðin List án landamæra. Sótt af http://www.listin.is/

List án landamæra.. (2006). [Sýningarskrá]. List án landamæra.

Ragna Sigurðardóttir. (2007, 4. maí). List hinna. Morgunblaðið. Sótt  af http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1143312/

Safnasafnið. (e.d.). Söfnunar og sýningarstefna Safnasafnsins. Sótt af http://www.safnasafnid.is/is/page/sofnunar-_og_syningarstefna

Safnasafnið. (2016). [Sýningarskrá]. Safnasafnið

Tansella, C. (2007) The long and winding journey of Outsider Art. A historical perspective. Epidemiologia e Psichiatria Sociale, 16 (2), bls. 133-138 Sótt af http://www.psychiatry.univr.it/page_eps/docs/2007_2_Tansella_Carole.pdf

Yfir bjartsýnisbrúna. (2003). [Sýningarskrá]. Listasafn Reykjavíkur.

 

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest