Lítil Útópía í Kling og Bang – viðtal við Helenu Aðalsteinsdóttur

Lítil Útópía í Kling og Bang – viðtal við Helenu Aðalsteinsdóttur

Lítil Útópía í Kling og Bang – viðtal við Helenu Aðalsteinsdóttur

Sýningin „Fallandi trjám liggur margt á hjarta“ í Kling og Bang er fyrsta verkefni Helenu Aðalsteinsdóttur sem sýningarstjóri eftir MA nám í London. Listamenn sýningarinnar eru: Josephine van Schendel, Þórey Björk Halldórsdóttir, Bára Bjarnadóttir, Dýrfinna Benita Basalan, Tabita Rezaire, Brokat Films, Elín Margot og Tarek Lakhrissi. Björk Hrafnsdóttir hitti Helenu í Kling og Bang ræddi við hana um sýninguna.

Björk: Þú ert með BA gráðu í myndlist frá LHÍ, hvernig kviknaði áhuginn á sýningarstjórnun?

Helena: Áhugi minn kviknaði þegar ég bjó í Amsterdam þar sem ég fór í meistaranám í myndlist. Þar stofnaði ég ásamt 7 listamönnum sýningarými þar sem við settum upp samsýningar ólíkra listamanna. Það var hálfgert match-making, og ég naut þess mjög að kynna listamenn hvert fyrir öðru og búa til ný samtöl í uppsetningu út frá verkunum þeirra. Stuttu síðar flutti ég til London einmitt til að fara í nám í sýningastjórnun. Ég held að ég hafi áttað mig á að mér fyndist mest spennandi að taka þátt í að setja fram sögur annarra, þar sem mér fannst brýnni þörf á að koma þeim á framfæri þó að röddin mín hyrfi ekkert. Þessi hugsun var samt ekki ný, en ég hafði dvalið sem unglingur í Vestur- og Austur Afríku og Suðvestur-Asíu og kynnst sögum sem ég heyrði aldrei í vestrænu samfélagi. Mig langaði alltaf til að koma ólíkum sjónarhornum á framfæri en fann að það var ekki mitt hlutverk í listinni minni. Það er svo stórt og erfitt viðfangsefni og ég yfirgaf það á meðan ég var í LHÍ því ég vissi ekki hvernig ég gæti beytt rödd minni. En þetta eru viðfangsefni sem ég velti fyrir mér sem sýningarstjóri.

Helena Aðalsteinsdóttir

Sýning þín fjallar meðal annars um kynjamisrétti og rasisma, í verki Tabita Rezaire er hún í samtali við vestræna heiminn sem gerir tilraun til að biðjast fyrirgefningar á nýlenduveldi kapítalismans og hvítrar forréttindahyggju. Hvar staðsetur þú þig í þessu samtali?

Ég er að finna minn stað í þessu öllu. Eitt af hlutverkum mínum sem manneskja sem nýtur margra forréttinda er að nýta þá stöðu til þess að búa til stað fyrir samræður. Ég er ekki endilega eingöngu að reyna að búa til svið fyrir aðrar raddir heldur líka að búa til samtalið. Það er svo dýrmætt. Við getum ekki tekið okkur úr þessari samstæðu, en það er mikilvægt að staldra við og hleypa fleiri röddum inn í samtalið. Að taka inn aðrar upplifanir og fá að endurspegla hvernig við eigum að haga okkur áfram. Kannski gerist það bara náttúrlega í gegnum samtalið, eins og hvað annað, þá lærir maður og fer að lifa lífinu aðeins öðruvísi og byrjar að taka tillit til reynslu annarra. Það er kannski byrjunin.
Þetta er gott en erfitt samtal til að eiga og eflaust margir að spyrja sig eftir BLM mótmælin síðasta sumar. Það er virkilega þörf á að halda þessari umræðu áfram og við eigum langt í land með að koma á jafnrétti og koma í veg fyrir mismunun.

Tabita Rezaire, Sorry for Real_Sorrow For…, 2015.

Sýningin er byggð á útskriftarverkefninu þínu frá Central Saint Martins. Hvernig valdir þú verkin/listamennina inn á sýninguna

Ég hafði samband við listamenn sem nýta sagnagerð í verkunum sínum, og var að leitast eftir sögum um femínískar útópíur. Sýningin endurspeglar ólíkar framtíðarsýnir og þess vegna var mikilvægt að þar kæmu fram fjölbreytt sjónarhorn. Listamennirnir og hönnuðirnir sem eiga verk á sýningunni koma því frá mörgum áttum; þetta er frekar alþjóðlegur hópur en flestir eiga heima á Íslandi. Tvö af átta verkum sýningarinnar höfðu verið sýnd áður og sem ég vissi af og tók inn í sýninguna, en hin verkin voru öll sérstaklega gerð með þessa sýningu í huga. Sem sýningarstjóri var stór partur af mínu hlutverki að fara í stúdíóheimsóknir og eiga samtöl við listamennina um þróun hugmyndanna. Þar kom reynsla mín sem listamaður líka að gagni og við gátum talað um hvernig hægt væri að myndgera hugmyndirnar.

Sýningin er mikið byggð á feminískum vísindaskáldskap. Hvaðan kemur það?

Það varð eins konar vitundarvakning hjá mér þegar ég ákvað að ég vildi ekki fara út í verkefni nema að það væri skemmtilegt. Mér finnst vísindaskáldskapur rosalega skemmtilegur og fór að athuga hvernig ég gæti nýtt hann. Ég skoðaði m.a. kenningu sem heitir Space Travel (Lost in Space eftir Marleen S Barr) sem fjallar um hvernig við getum farið inn í annan heim þegar við lesum skáldsögur. Það er ótrúlegt hvernig textinn getur haft svo mikil áhrif á mann að maður hverfi inn í aðra veröld. Ég vildi athuga hvernig við gætum gert þetta í raunveruleikanum, hvernig hægt væri að skapa þessa tilfinningu svo að listamaðurinn gæti búið til einhvers konar heim eða snúið upp á einhverjar reglur…

Í London sá ég svo Tarek Lakhrissi vídeóverkið, Out of the blue, það var fyrsta sýningin sem ég sá eftir að ég flutti til London, þannig að það hefur örugglega haft áhrif og setið í mér.

Josephine van Schendel, Dendrianthropic Bodies, 2021

Hvaða vísindaskáldskaparhöfundar höfðu mest áhrif á þig?

Skáldsagan eftir Ursula Le Guin, Left Hand of Darkness, var stór partur af fræðinni sem ég notaði, mér finnst svo skemmtilegt að geta notað vísindaskáldskap og skáldskap yfirhöfuð sem fræði. Þar verð ég fyrir miklum innblæstri frá Donna Haraway, sem er prófessor emerita við deild Sögu mannsandans og deild feminískra fræða (History of Consciousness Department og Feminist Studies Department) í Háskóla Kaliforníu í Santa Cruz. Hún á það til að nýta skáldskap í akademískum rannsóknum sínum þar sem hún veltir vöngum yfir framtíðinni. Og svo auðvitað Octavia Butler, hún og Ursula hófu eiginlega þessa bylgju af feminískum vísindaskáldskap á áttunda áratugnum.

Hvernig finnst þér að vísindaskáldskapur geti haft áhrif á raunveruleikann?  

Þetta er tækifæri til að búa til útópíu. En það er erfitt að ímynda sér heim án þess að byggja hann á heiminum sem við búum í. Það er alltaf einhver kontrast, eða akkúrat öfugt við það sem við þekkjum. En í þessum útópísku heimum er frelsi til að sýna hvernig hlutirnir gætu verið öðruvísi. Eins og í Star Trek, þar sem t.d. fyrsti „interracial“ kossinn átti sér stað í sjónvarpi árið 1964. Nichelle Nichols sem lék í Star Trek starfaði síðar hjá NASA við að ráða konur og fólk úr minnihlutahópum til stofnunarinnar. Hún réði t.d. fyrstu konuna, fyrstu svörtu konuna og annan svarta karlmanninn til að verða geimfarar. Núna hljómar þetta kannski sjálfsagt, en það var það ekki á sínum tíma! Og mér finnst gaman að hugsa til þess að vísindaskáldskapur hafi haft áhrif.

Þetta er fyrsta sýningin þín eftir útskrift. Var mikil pressa á sýningunni til að endurspegla þig sem sýningarstjóra?

Það var svo frábært tækifæri að geta verið með fyrsta verkefnið mitt eftir útskrift í Kling og Bang. Mig langaði að gera allt! En svo áttaði ég mig á að sýningin verður ekki betri eftir því sem meira er á henni, að það er betra að skammta hlutina niður og leyfa skilaboðunum sem ég að vil koma á framfæri að koma skýrt fram. Að því sögðu þá er alveg ótrúlega margt í gangi og margir listamenn sem koma að sýningunni!

Kom eitthvað á óvart í ferlinu?

Það var örugglega ferlið að verkinu hennar Þóreyjar sem kom skemmtilegast á óvart. Barinn hennar, Pitstop for a dream. Ég hafði nálgast Þóreyju með að fá bjór fyrir opnunina. Við fórum svo að tala um að hún myndi gera sérstakan bjór fyrir sýninguna og svo koll af kolli og hugmyndirnar stækkuðu og stækkuðu þar til að bjórinn var orðinn að listaverki á sýningunni.

Hafði heimsfaraldurinn áhrif á sýninguna?

Hann hafði mjög mikil áhrif, sýningin átti fyrst að vera í október og var seinkað um marga mánuði. Við það fengu sýningin og verkin að stækka, það vannst meiri tími til að vinna verkin og tala um verkin. Svo kom nýtt samkomubann nokkrum dögum fyrir opnun en þá var svo skemmtilegt hvernig verk Þóreyjar hafði þróast því það er alltaf bjór í boði á sýningunni eins og það sé eilíf opnun.

Elín Margot, the end of me, the beginning of you, 2021

Þetta verk er smá icebreaker, líka, því þú þarft að fá aðstoð frá einhverjum öðrum við að dæla bjórnum og þá ertu kannski búin að opna samtal sem getur átt sér stað í gegnum sýninguna. Svo er líka skemmtilegt að fólk geti upplifað sýninguna á hægara hraða, með færra fólk í kringum sig, verkin eru mjög stór og innihalda oft langar narratívur og þá er gott að hafa tíma til að skoða þau.

Mun verkefnið þróast áfram?

Já! Í útgáfu. Planið var að gefa út bók í síðustu viku sýningarinnar, það frestaðist aðeins en hún er nánast tilbúin. Bókin er unnin á svipaðan hátt og sýningin; í henni taka þátt listamennirnir sem eiga verk á sýningunni, og fleiri listamenn og rithöfundar sem eru að vinna á svipuðu bili, milli raunveruleika og fantasíu. Bókin er meira framhald af sýningunni þannig að samtalið heldur áfram. Hún er hönnuð af Grétu Þorkelsdóttir og ég og Ástríður Jónsdóttir erum ritstjórar. Hún mun koma út í í byrjun hausts.

Hvað er frammundan?

Um þessar mundir er ég að bjóða mig fram sem formann Nýlistasafnsins. Ég er ótrúlega spennt fyrir því hlutverki og langar m.a. að halda áfram að ýta undir fjölbreytileika í sýningahaldi. Það er svo margt áhugavert að gerast og mikil gróska í myndlist á Íslandi og ég hlakka til að taka þátt í að koma fleiri sögum og sjónarhornum á framfæri.

Björk Hrafnsdóttir

Sýningin opnaði 30. mars og stendur til 9. maí 2021.


Ljósmyndari: Blair Alexander Massie

The interview is part of a collaboration between Artzine and a new MA in Curatorial Practice at the Iceland University of the Arts.

Viðtalið er hluti af samstarfsverkefni Artzine og nýrrar meistaranámsleiðar í sýningagerð við myndlistardeild Listaháskóla Íslands á vorönn 2021.

Það er nóg af tíma í sólarhringsopnun – samtal um sýningu Báru Bjarnadóttur í Harbinger

Það er nóg af tíma í sólarhringsopnun – samtal um sýningu Báru Bjarnadóttur í Harbinger

Það er nóg af tíma í sólarhringsopnun – samtal um sýningu Báru Bjarnadóttur í Harbinger

Ég er að labba Skálholtsstíginn upp að verkefnarýminu Harbinger þar sem myndlistarkonan Bára Bjarnadóttir hefur sett upp sýninguna Það er nóg af tíma í sólarhringsopnun. Þegar ég geng inn heyri ég í klukkum tifa og kaffi að mallast. Bára er stundvíslega mætt til leiks og hefur örugglega gert ráð fyrir því að brugga kaffi svo það yrði tilbúið 17:30, á slaginu sem okkar spjall á að eiga sér stað. Sýningin sýnir leikandi og leitandi nálgun Báru til myndlistarinnar þar sem fræði og hverfulleg efnisnotkun fá að endurspegla rannsóknarþemu hennar um tíma, stress, FOMO, náttúruna og nútímann.

Bára: Það skiptir mig miklu máli að sjá hvað aðrir listamenn eru að gera í bland við þá atburðarrás ég er flækt í hverju sinni. Kveikjur verka minna eiga sér oftast uppruna í efniviðnum sem ég er að skoða og þessu persónulega eða í eitthverju sem ég finn á netinu, t.d. fréttir úr samtímanum. Þá fer eitthvað almennilega af stað með verkin mín, og ég byrja að sjá kraftinn sem ég hef til að segja frá á þann hátt sem mín myndlist er fær um. Í myndlistinni líður mér eins og ég sé með blandara og hræri hlutum saman án þess að vita hvaða bragð þeir framkalla saman. En ég fikra mig áfram á magatilfinningunni og finnst fátt mikilvægara en að leyfa mér að klúðra uppskriftinni af og til. Mín aðferðarfræði gerir ráð fyrir nærumhverfinu og tekur tillit til þess á þann veg að það sem verður í vegi mínum getur ekki annað en blandast inn í starf mitt sem listamaður.

Uppgefnar. Mynd: Filip Hauer.

Bergur: Hvernig birtist þitt nærumhverfi á sýningunni Það er nóg af tíma í sólarhringsopnun?

Bára: Það birtist í þessari sýningu út frá viðveru minni á samfélagsmiðlum og internetinu, sem er mjög raunverulegt nærumhverfi samtímans. Sérstaklega þegar þú gengur um með það í vasanum allan daginn. Ég fann grein á netinu sem hafði mikil áhrif á vinnslu þessarar sýningar. Hún heitir Why time management is ruining our lives, og var skrifuð af Oliver Burkeman fyrir The Guardian Long Read. Hún er rosalega góð og ég mæli með því að lesa hana. Hún fjallar um þráhyggju okkar nú á dögum til að passa og stjórna tímanum okkar, og hvernig þessi þráhyggja getur skemmt fyrir frammistöðu okkar í daglegu lífi. Ég tengdi svo við þessar miklu andstæður. Eins og hvernig það er hvatt til þess að dvelja í núvitund t.d., og að ganga um með núvitundar-app í símanum til þess að vera viss um að nægur tími sé að fara í það að vera með núvitund! Eftir að ég las þessa grein varð mér ljóst hversu langt við erum komin með að græða inn leiðir til þess að reyna að öðlast vellíðan á sem minnstum tíma. Greinin rekur þannig rannsóknir sem hafa verið gerðar til þess að bæta frammistöðu fólks í starfi á mis-siðferðislega réttan hátt. Síðan á tímum iðnvæðingarinnar hefur margt verið reynt til þess að fá fólk til að vinna harðar að sér á þeim forsendum að það muni gera þeim gott, en í raun aukið streitu og vanlíðan.

Inbox zero stefnan var t.d. kynnt í greininni. Ef þú þekkir hana ekki er mjög gaman að kafa aðeins í hana. Það var einhver maður sem kynnti þessa byltingu fyrir nokkrum árum og þetta varð mjög vinsælt hjá fólki sem átti við streituvandamál að stríða. Hugmyndin er sú að manni líði eins og maður sé alltaf að fá tölvupósta og að pósthólfið sé alltaf að fyllast án þess að maður hafi tíma til að svara þessum skilaboðum. Hans lausn við þessu vandamáli var að svara öllu, bara, strax! Eða að flokka það undir eins í rétt hólf til þess að öðlast bæði tómt pósthólf og innri ró. Þetta varð frekar vinsælt og fólk var að pósta myndum af tómum pósthólfum á netið með yfirlýsingunni #inboxzero. En eins og maður getur séð fyrir, gerði þetta fólk auðvitað meira stressað vegna þess að þú ert auðvitað að athuga mun oftar hvort það sé eitthvað nýtt í pósthólfinu. Þessi togstreita sem við finnum með notkun á öllum þessum hjálpartækjum leiddi mig að spurningum sem verkin hérna eru að skoða. Ég fór að hugsa meira um persónulega frammistöðu mína og líka um þennan gífurlega hraða sem við lifum á.

Í upphafi ferlisins var ég á leiðinni í Öskjuhlíðina að taka myndir af lúpínum, eftir að hafa verið mikið út á landi að keyra og sjá þær hér og þar. Síðan kom ágúst, og fjólubláu hlutar lúpínanna voru horfnir þegar ég hætti að slá þessari myndatöku á frest. Það augnablik var algjört a-ha móment. Á þessum tímapunkti fannst mér ég skilja að tímastress á sér líka stað í náttúrunni auk þess hversu fagur og verðmætur sá hverfulleiki er. Ég bókstaflega missti af þessum tíma í náttúrunni, og varð meðvituð um þessi tímamörk og fékk alveg gífurlegt tíma-FOMO. Seinna meir fór mér að finnast þessi hverfulleiki svo fallegur, og fór að vinna áfram með sjónræna eiginleika sem eru ekki alltaf í boði. Mér fannst þessi tenging á milli hins mannlega og náttúrulega tvinnast svo fallega saman, og þessi sameiginleiki varð í raun kveikjan að verkunum hér. Maður vill alltaf vera að lifa sínu besta lífi, og hrærast í svona work hard, play hard… sleep hard! umhverfi. Þetta er viðhorfið sem fær okkur til að neyta meira og ferðast meira, og á þessum hraða notum við upp svo mikið af náttúrunni líka. Við gleymum því oft að náttúran hefur ekki endalausan tíma eða auðlindir.

Beach babe. Mynd: Filip Hauer.

Bergur: Geturðu sagt mér hvernig þín rannsóknarþemu um náttúru, hröðun og hverfulleika í hinum mannlega og náttúrulega heimi birtast í verkum sýningarinnar?

Bára: Mér finnst þetta beach bag vera gott dæmi um dýnamíkina á milli þess mannlega og náttúrulega sem sýningin er að fjalla um. Svona strand-töskur og aðrir dislocated hlutir sem minna okkur á tilfinningar um ró og næði eða frí finnst mér mjög áhugaverðir. Upp úr töskunni hljómar sjávarnið, og saman skapar þetta persónulegar hugleiðingar um tímanýtni á þann hátt að við getum verið mætt á ströndina með því að taka fram strand-töskuna og hlusta á róandi sjávarhljóð í gegnum Spotify. Ég sé þetta sem eitt af afleiðingum þessarar hröðunar, og þetta er náttúrulega mjög skrítið fyrirbæri. Á sama tíma skil ég að það er margt í okkar samfélagi sem þrýstir á okkur að taka minni tíma fyrir okkur sjálf og augnablikin þar sem við tengjumst náttúrunni eða sjálfinu. Ég hugsaði líka að sýningarblöðungurinn myndi vinna samhliða verkunum til þess að skapa þessa tilfinningu um einkennilegheit vellíðunar og róar í nútímasamfélagi. Á hvern blöðung eru prentuð samtöl, þrjú samtals. Fyrir þessi samtöl skáldaði ég nýja persónu sem er vellíðunar-gúrú. Samtölin eru í Q&A formi, og fara fram á heimasvæði gúrúsins. Einn viðskiptavinur hans hefur t.d. áhyggjur af magni tölvupósts sem er að berast til hans, og gúrúinn kynnir fyrir honum aðferðina á bak við inbox zero. Á öðrum blöðungi kynnir gúrúinn ostrusvepp sem lausn handa manneskju sem langar í gæludýr en er stressaður yfir því að hundur væri of mikil skuldbinding. Það væri þá vegna þess að ostrusveppur er líka lífsform sem þarfnast aðhlynningu manns, en ekki í jafn miklum mæli og hefðbundin gæludýr. Í textunum sem hægt er að taka með sér blandast rannsóknin mín við verkin og skapa heild til að vekja umræðu um þennan einkennilega nútímakvíða og fjarstæðukenndar lausnir við honum.

Ostrusveppir eru betri gæludýr en hundar því þeir þurfa minni athygli en þarfnast manns samt. Mynd: Filip Hauer.

Bergur: Þú ert að leika þér með þætti og fyrirbæri sem munu fuðra upp í rýminu með tímanum. Eitt verkið er sería af býflugum úr bio-plasti og lakkrís-lengjum. Sama má segja um ostrusveppina. Þetta eru hlutir sem eiga sér ekki tilvist utan eða eftir þessa sýningu. Finnst þér þú vera að spegla þessa pælingu sem kviknaði með lúpínunum? Að skapa hluti sem eiga sér tilvist á eigin forsendum og lúta ekki sömu lögmálum og okkur langar oft að venjast í neyslukúltúr okkar?

Bára: Mér finnst mikilvægt að vinna verkin mín beint í rýmin sem ég sýni þau í. Þetta er þessvegna mjög staðbundinn og tímabundinn sýning. Efniviðurinn sem ég valdi fyrir þessi verk endurspeglar hverful og tímabundin gæði náttúrunnar. Bioplastið breytir auðveldlega um form, sem og lakkrísinn sem er vafinn utan um býflugurnar. Form þeirra getur grotnað og brotnað niður. Sumir límmiðana á gólfinu hverfa líka með áhorfendum.

Eins og skíturinn undir skónum þínum. Mynd: Filip Hauer.

Bergur: Hvaða plöntur eru þetta á límmiðunum?

Bára: Þetta eru myndir úr blómabeði í Vesturbænum. Ég fékk hugmynd um að taka náttúrulegt fyrirbæri og athuga hversu marga filtera það getur farið í gegnum þangað til það endurholdgast í svipaðri mynd og ég fann það fyrst. Þess má geta að auðvitað er viss filtering nú þegar, að blómabeðinu hafi verið komið fyrir í Vesturbænum. Hérna verður blómabeðið tvívítt um leið og ég tek mynd af því, síðan gutla ég með það í photoshop og hanna límmiðana. Ég sendi hönnunina til Svíþjóðar í prent og fæ tilbaka með FedEx og skelli þeim svo loks aftur á jörðina. Mér finnst áhugavert að skoða þessa filtera sem eru notaðir til að endurvekja tengingu okkar við náttúrulega hluti, svipað og með strandtöskuna. Á sýningunni eru hlutir úr sandi, plasti og lífrænum gróðri sem eru efni sem eru ekki nógu sterk til að haldast í sama formi í langan tíma. Bio-plastið er endurmótanlegt, en breytist einnig til lengri tíma eins og og annað plast. í tímans rás munu flestir límmiðarnir yfirgefa Harbinger til að sameinast sínum líkum undir skósóla á ný. Mér fannst sá þáttur vera partur af þessu filter-ferli. Að skila þeim, vonandi, undir skósóla með öðrum gróðri, mold, möl og blómum.

Bergur: Sýningin tekur inn svo margt! Það er þessi nútímakvíði, væntingar og þrár, frammistaða hvers og eins, vinnuþol Íslendinga…

Bára: Ég hef verið mjög upptekin að hugsa um þennan stress vítahring. Eins hversdagslegur og hann er finnst mér mikilvægt að varpa ljósi á hann. Hlutfallslega eiga Íslendingar það til að vinna degi lengur en aðrar norðurlandaþjóðir, og hér þykir ekkert betra en að vera lengur í vinnunni og að hafa alveg stífpakkaða dagskrá. Við erum alltaf að hugsa okkur nýjar leiðir til að blanda einkalífinu saman við atvinnulífið, og vissulega finn ég fyrir pressu frá samfélaginu að ég ætti stöðugt að vera eyða tímanum mínum í annað. Við höfum öll efni á því að hægja á okkur, finnst mér. Vítahringurinn verður til þegar vinnu og einkalífið er að blandast saman, og samfélagsmiðlar og nærumhverfið þitt er að segja þér hvað þú átt að vera að fá út úr hlutunum. Þú átt að vilja vera all in í öllu, og til þess þarftu að kaupa þetta og þetta og þetta… og þá þarftu að fara vinna meira!

Bergur: Hvað segir gúrúinn innra með þér, til að komast úr þessum vítahring?

Bára: Draumurinn er að geta eytt meiri tíma í að skapa listina sem ég er að gera, en til þess myndi ég þurfa að annaðhvort vinna minna meðfram listinni, og þá verður erfiðara að kaupa efnivið í verkin… eða þá að vinna meira og gera dýrari listaverk! En þá myndi mig vanta tímann til að geta hugsað upp eitthvað sem væri virkilega… gott! Þriðji möguleikinn er að gera færri verk, en hvernig myndi ég þá halda mér í formi eða halda mér í umræðunni? Innsæið segir mér allavegana að allir hefðu gott af því að vinna aðeins minna fyrir aðra og gefa því sem skiptir mann máli meira vægi.

Bergur: Það er pæling að á Íslandi þykir eðlilegt að vera í vinnunni 90% af tímanum sínum til að hafa efni á 10% af honum…

Bára: Það er góður punktur. Við erum svolítið alinn upp við þá hugmynd að það sem er í boði og það sem er gott í lífinu kosti rosalegt magn af peningum. Við þurfum kannski líka að endurskilgreina hvað það er sem við teljum gefa okkur gleði. Getum við notið okkar í eitthverju sem t.d. kostar minni pening og tekur lengri tíma? Erum við alltaf að eltast við meginstraumin þegar kemur að hugmyndum okkar um það sem veitir okkur ánægju í lífinu? Hvernig getum við endurskilgreint þetta þannig að við hefðum efni á því að vinna minna? Hvað eigum við að gera við þennan tíma?

Bergur: Ég er orðinn háður fílófaxinu, var ég búinn að segja þér það? Ég á svona vikulegt augnablik þar sem ég deili verkefnum niður á daga í hverri viku – og reyni að horfa framhjá þeirri staðreynd að sum verkefni eru stærri en önnur. Að klára langdregna styrkumsókn er þarna í bókinni hliðiná því að hringja í mömmu. Þetta er allt jafn mikilvægt.

Bára: Ég hef líka alltaf þurft þennan ramma, til að geta virkað sem myndlistarmaður. Ég er óttalegur scatter-brain. Ég skipulagði hvenær ég ætlaði að vera að t.d. vinna með bio-plastið og gerði ráð fyrir ákveðið mörgum dögum af mistökum og hvaða dag býflugurnar yrðu að vera tilbúnar. Við hliðina á þessu voru síðan hversdagslegri verkefni eins og að versla í matinn og hringja í mömmu. Annars verður allt svo monumental. En það eru engar ákvarðanir stórar, það kemur enginn Hollywood klímax þegar opnunin er! Þetta eru allt litlir bitar í ferlinu.

Bergur: Tímaskipulag býr þá á mjög praktísku stigi í ferlinu þínu.

Bára: 100%. Þessi Guardian-grein talaði svo mikið til mín. Ég verð að taka þetta í myndina þegar ég er í þeirri stöðu að vinna sjálfstætt.

Fugl að bíða. Mynd: Filip Hauer.

Bergur: Annað sem einkennir samtímann, finnst mér, er að það má engum leiðast lengur. Sá tími dags virðist líka hafa horfið með snjallsímanum, etc., etc…

Bára: Ég tengi líka við þetta. Ég held að ég hef líka séð þessa grein. Ég er einmitt með hlutastarf á safni þar sem ég sit yfir sýningarsölum. Það má ekki beint hafa símann uppi, og það kemur oft yfir mig nostalgíutilfinningin sem maður átti svo oft þegar maður var barn eða unglingur að drepa tímann. Þegar maður fær tíma þar sem eina skyldan er að sitja, og kannski telja gesti eða vera á varðbergi… það verða svo margar hugmyndir til vegna þess að maður getur ekki að sónað út í myndir og tilkynningar um það hvað aðrir eru að gera. Heldur er maður bara fastur með sjálfum sér og pælingunum sínum. Það er mikilvægt að leyfa huganum að reika í sjálfu sér.

~ ~ ~ Á þessum tímapunkti ómar lítið lag úr snjallsíma Báru ~ ~ ~

Bára: Þetta er bara vekjaraklukkan mín að minna mig á að gleyma ekki einu sem ég þarf líka að gera seinna í dag…

Bergur: Ég fór á fyrirlestur hjá heimspekingi þar sem hann yfirlýsti listamenn í dag sem helstu hlutastarfsmenn veraldar. Mér finnst þetta frekar góð pæling. Listamenn í dag geta verið á vinnustofunni, á samfélagsmiðlum, í sýningarrýmum, á umræðuvettvöngum, tónleikastöðum, skólum og veitingahúsum samtímis og fundið jafnvægi til að sinna þeim skynsamlega! Listamenn eru svona líkamar sem ferðast um með gagnabanka af þekkingu og sérsviði sem hægt er að nýta í allskonar aðstæður.

Bára: Mitt sérsvið einkennist af ákveðnum skrefum í aðferðarfræði innan um rannsóknarefnin mín. Ég leitast eftir því að vinna verk sem tengjast umfangsefninu og nota það sem vegvísi. Fyrir þessa sýningu skipulagði ég tímann minn þannig, eins og þú lýsir hlutastarfsmanns-listamanninum. Ég vissi að ég yrði útum allt þannig að ég gaf mér tíma fyrir rannsókn, efnisvinnu, klúður, endurgerðir, uppsetningu…

Bergur: Ein greinileg aðferðarfræði hérna er filterinn sem þú sagðir frá áðan. Að taka hluti inn og velta þeim í gegnum síunarferli sem eru nú þegar til. Mér finnst eins og þú sért að spegla það hvernig ákveðin vinnutök geta tekið náttúruímyndir og snúið útúr þeim þangað til þær verða náttúrulegar, aftur.

Bára: Ég hugsa verkferlin hérna eins og formúlur. Ég tek einn hlut, og plúsa við býflugu, plús plast, plús stress tengt býflugum, plús tími. Í staðinn fyrir að búa til graf úr þeim leyfi ég þeim að vera saman í þvottavél þangað til hlutirnir kuðla sér í rétt samhengi. Mitt ferli er mjög mikil síun og eimun á ákveðnum hlutum.

Bergur: Síðan er þeim leyft að anda, safna ryki, vaxa og grotna á eigin tíma hér í Harbinger…

Bára: Já það verður hluti af þessu. Ostrusveppina þarf ég að leggja í bleyti yfir nótt og þessir límmiðar verða trampaðir niður eða teknir burt. Mér finnst áhugavert að vinna staðbundið hérna vegna þess að það er hægt að zooma svo vel inn á alla þessa núansa sem ferlin bjóða upp á. Partur af vakúmi hvíta kubbsins hérna er að tíminn er að líða og hafa áhrif. Mér finnst fallegt að vita af efniviðnum mínum á mismunandi stigum og finna fyrir því hvernig tíminn líður. Eggjaklukkan tifar og þessi míkrókosmós hérna er í stöðugri umbreytingu. Mér finnst mikilvægt að við upplifum tímann vera að líða, það er narratíva verkanna í heild sinni.

Það er nóg af tíma í sólarhringsopnun. Mynd: Filip Hauer.

Bergur: Finnst þér að náttúrulegir hluti geta kennt okkur eitthvað um tímanotkun okkar?

Bára: Mér finnst vera þess virði að skoða hvernig önnur líf fara fram, og algjörlega eitthvað sem við mættum gefa meiri athygli. Við erum frekar dofin fyrir því hvernig hlutir verða til, þroskast og deyja. Mig langar til þess að vera meðvitaðri um árstíðir og hvað fylgir þeim, hvað sprettur, hvað vex, hvað fellur. Við gætum lært eitthvað af lífum sveppa bara með því að beina athygli okkar að þeim. Mér finnst það að stúdera lífshlaup færa mig nær núvitund. Þetta snýst kannski aðeins um að taka manninn úr fyrsta sæti og virða fyrir sér umhverfið og tímann að líða. Að færa athyglina þangað, utan skipulagsbókarinnar! En það verður að segjast, það er erfitt að finna tíma fyrir þannig afþreyingu.

Bergur: Ég frétti af því að yngri kynslóðin er frekar upptekin af því að aðlaga mataræðinu þannig að það bókstaflega lifi lengur. Þá hefurðu meiri tíma. Blessunarlega er hugmyndin um hefðbundna vinnuviku að breytast, en henni fylgir svona nútímakvíði eins og við töluðum um áðan.

Bára: Þessi kvíði er þannig gerður að það er eins og hellt sé úr fötu! Ég hef aldrei átt jafn erfitt með að orða hluti snyrtilega og með þessa sýningu. Um leið og ég fór að opna á umræðuefni sýningarinnar fattaði ég að það tengist svo miklu stærra fyrirbæri og vandamáli sem tengist birtingarmynd tímans í nútíma samfélagi. Þetta eru hlutir sem eru alltaf að pikka í mann og neita að vera krufðir til botns, eru ekki áþreifanlegir og birtast bara í öðrum hlutum. Það er eins gott að gleyma ekki réttu strandtöskunni þegar ég fer í Nauthólsvíkina! Ég er sjálf ennþá á leiðinni þangað, kannski eru verkin mín bara birtingarmynd þeirrar löngunar og afleiðing af FOMO sem er að teygja sig aðeins of langt.

Texti er byggður á viðtali sem átti sér stað í Harbinger, 26. ágúst, 2018.

Bergur Thomas Anderson


Það er nóg af tíma í sólarhringsopnun er til sýnis í Harbinger til 2. september.

Aðalmynd með grein: Sólsetur. Mynd: Filip Hauer.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest