Hvað gerist ef dúfa skítur á glerkassabyggingu?

Hvað gerist ef dúfa skítur á glerkassabyggingu?

Hvað gerist ef dúfa skítur á glerkassabyggingu?

Egill Sæbjörnsson opnaði sýningu sína í Hafnarborg um síðustu helgi sem hvetur okkur til að horfa gagnrýnum augum á manngert umhverfi okkar, sem samanstendur af þráðbeinum línum og allt of mörgum einföldum flötum. Fyrr á árinu bauð Egill fólki til samvinnu í Bakaríi þar sem þátttakendur unnu saman að því að búa til flóknari og lífrænni arkitektúr sem færir auganu verðugt viðfangsefni. Útkomuna úr þessari fallegu samvinnu gefur að líta á sýningu hans Bygging sem vera & borgin sem svið. 

Borgin er ein stór stofa sem tilheyrir okkur öllum

Egill stóð fyrir viðburðinum Bakarí í Hafnarborg fyrr á árinu og bauð þátttakendum að móta byggingarlist í brauðdeig sem lið í undirbúningi sýningarinnar. „Í Bakaríinu voru búnir til litlir brauðhlutir sem við stækkuðum upp í fulla stærð sem er mjög fallegt að sjá,“ segir Egill.

Borgarskipulag, arkitektúr og manngert umhverfi eru málefni sem Egill er að vinna með á sýningunni. „Ég er búinn að vera að ergja mig á nýjum byggingum, bæði hérlendis og erlendis í langan tíma og hef talað mikið um þetta við vini mína sem eru arkitektar. Ég hef þrengt þetta niður í að 20. aldar arkitektúr er með of lítið af flóknu yfirborði. Í gömlum húsum skapar skraut byggingarinnar flókið yfirborð og þó við þurfum ekki endilega að búa til skraut í dag eins og það var þá, þá þarf hluti af byggingunni að vera svolítið flókinn. Það þarf að vera meira af einhverju sem er fallegt því nú er þetta allt of stílhreint og redúserað. Það má ekki ein dúfa setjast á glerkassabyggingu og skíta á hana að þá fellur hún og fer alveg úr jafnvægi. Mér finnst arkitektar í dag vera heilaþvegnir af því að allt sem heitir skraut sé vont. Ég held að það sé sjúkdómur 20. aldarinnar og ég bíð eftir að það fari að snúast við.

Þetta er eitt sem ég er að taka fyrir í þessari sýningu, því í Bakaríinu bjó fólk til glugga, tröppur og hurðir úr deigi sem var bakað í staðinn fyrir að vera hannað í AutoCAD. Deigið beyglar allt sem þú gerir og það fær lífræna áferð á meðan AutoCAD myndi leiðrétta hverja einustu línu, gera hana beina og stífa. Á þennan hátt erum við að búa til arkitektúr í gegnum lífrænt efni í staðinn fyrir svona beinlínu-ferli.“

01a

Egill bendir á að eins og með alla menningu er mannlegt umhverfi ekki einkaeign fárra útvaldra heldur sameign allra sem deila umhverfinu, nota það og tilheyra því. „Byggingar skapa umhverfi sem tilheyrir okkur öllum og við eigum öll rýmið á milli húsanna. Þetta er allt saman borgin okkar, leiksvið okkar tilveru og í raun eins og stofa okkar allra. Borgin er ein stór stofa og við eigum rétt á því að þetta sé gert vel. Þetta er bara spurnig um vilja og kröfu samfélagsins. Í miðbænum er krafan um vandaðar byggingar hærri, krafa um skrautlegar og hlýlegar byggingar. Mér finnst að borg eigi að vera eins og lófi sem maður horfir inn í og þar sé hægt að sjá heila lífssögu. Hún má ekki vera hvítt blað sem er óskrifað og hundleiðinlegt.“

„Á sýningunni er ég líka að tala um Hafnarfjörð, sem mér finnst vera gott dæmi um íslenskan raunveruleika. Það er dæmigerður mannlegur faktor að maður sér ekki hvaða gull maður hefur í hendi sér, en ef horft er á Hafnarfjörð utan frá áttar maður sig á því hvað hraunið er einstakt, eiginlega á heimsmælikvarða. Það er alveg rosalega júník. En Hafnarfjörður er eins og unglingur í identitíkrísu sem veit ekki alveg hver hann á að vera. Hér er t.d. verið að búa til eitthvað feik identití með því að þykjast vera víkingabær, sem er algjör meðalmennska. Í staðinn fyrir að finna sinni innri styrk sem er falinn í því sem bærinn hefur fengið í náttúrulega forgjöf, sem er hraunið, bæjarlækurinn og söguleg höfn. Ef bærinn myndi byggja á þessu gæti hann fengið mikið sterkara byggðarsérkenni og persónuleika.“

Það er fleira í manngerðu umhverfi Hafnarfjarðar sem Egill gæti vel hugsað sér að gera á annan hátt. „Hönnunarslys geta alltaf komið fyrir hvar sem er, eins og að allt aðalsvæðið á nesinu í Hafnarfirði er bara bílastæði. Fjörðurinn er barn síns tíma og sýnir algert skilningsleysi á þessum djúpa karakter Hafnarfjarðar, sem er byggður í hrauni. Með hrauni en ekki á móti hrauni þar sem alltaf er verið að valta yfir hraunið. Í stað þess að hanna torg með stéttum úr prefabricated, tilhöggnum steinum ætti að horfa í bakgarðinn, þar sem öll þessi fegurð er í hrauninu. Hafnarfjörður á eftir að vera til eftir 200 ár og það er mjög stórt svæði sem er óbyggt í Hafnarfirði sem nær alveg upp að Helgafelli og lengra, ef ég hef skilið það rétt. Ég held að Íslendingar þurfi að taka ábyrgð og vilja byggð t.d. í svona landslagi þar sem reynt verður að byggja með hrauninu og hafa þetta svolítið sérstakt. Þegar byggt er fallega og vel er það svo góð langtíma fjárfesting, bæði peningalega séð og fyrir samfélagið, fyrir heildina. Við þurfum að hækka þessa kröfu.“

Gullöld íslenskrar myndlistar

Af því að Egill hefur verið búsettur í Berlín í langan tíma spyr ég hann út í skoðun hans á íslenskri myndlistarsenu.

Hvað gengur vel á Íslandi og hverju þarf að breyta?

„Mér finnst mikil blessun að hafa Kling & Bang hérna og mér finnst Nýló vera eins og móðir listarinnar sem tekur öllum opnum örmum. Nýló er mjög falleg institute en þær eru margar að deyja út erlendis. Nýló má alls ekki verða að stofnun sem setur sig á einhverskonar hærra plan og það er mjög mikilvægt að listrænt frelsi Nýló verði algjörlega verndað. Eins er mikilvægt að ungt fólk haldi áfram að fá tækifæri til að reka safnið og þar sé breiður hópur listamanna boðinn velkominn. Það er það sem er fallegt við Nýló og listin á að vera á breiðum skala og fóstra listina. Það er aðalatriðið.“

„Það sem mætti laga á Íslandi er að hér er mikill óprófessionalismi. Það er ekki af því að fólk sé vitlaust, það er bara ekki sami prófessionalismi hér eins og t.d. í Þýskalandi þar sem t.d. söfnin heimta af þér að þú sért búinn með sýninguna þína tveimur mánuðum fyrir opnun og hringja stöðugt í þig þremur mánuðum fyrir opnun. Hérna byrjar fólk að hringja tveimur vikum fyrir opnun. ‘Þetta reddast’-faktorinn er mjög góður en hann væri ennþá betri ef hér væri meiri prófessionalismi.“

„Peningar eru ekki allt sem þarf í myndlist en það mætti styrkja tilburði fleiri gallería til að komast út. Það væri æðislegt ef fleiri íslensk gallerí gætu farið á messur. Íslenskir listamenn eru enn of lokaðir af og það þarf að reyna að koma þeim í tengsl út á einhvern hátt.

Listamannalaun eru mjög mikilvæg og ég vona að það verði skilningur til að halda þeim áfram. Þau hafa hjálpað mér alveg gífurlega í gegnum tíðina og mjög mörgum. Nú eru nokkrir listamenn sem eru að gera það ágætt og eitthvað af þessum peningum eru hreinlega að skila sér beint aftur kassann fyrir utan öll menningarlegu áhrifin sem eru margfeldisáhrif.

Ég held að íslensk myndlist sé á blómaskeiði í augnablikinu. Það hefur aldrei verið svona mikil þensla og mikið í gangi. Það er gullöld í myndlist í rauninni, þó að hún fari kannski ekki mjög hratt þá er hún samt í gangi.“

Á þessum ofsajákvæðu nótum setjum við lokapunktinn í bili.

Takk fyrir viðtalið, Egill.

Hlín Gylfadóttir


Myndir með grein: Daníel Magnússon

Nánari upplýsingar um sýninguna:

CURRENT

Um sýninguna á vef Hafnarborgar

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest