Hvað gerist ef dúfa skítur á glerkassabyggingu?

Hvað gerist ef dúfa skítur á glerkassabyggingu?

Hvað gerist ef dúfa skítur á glerkassabyggingu?

Egill Sæbjörnsson opnaði sýningu sína í Hafnarborg um síðustu helgi sem hvetur okkur til að horfa gagnrýnum augum á manngert umhverfi okkar, sem samanstendur af þráðbeinum línum og allt of mörgum einföldum flötum. Fyrr á árinu bauð Egill fólki til samvinnu í Bakaríi þar sem þátttakendur unnu saman að því að búa til flóknari og lífrænni arkitektúr sem færir auganu verðugt viðfangsefni. Útkomuna úr þessari fallegu samvinnu gefur að líta á sýningu hans Bygging sem vera & borgin sem svið. 

Borgin er ein stór stofa sem tilheyrir okkur öllum

Egill stóð fyrir viðburðinum Bakarí í Hafnarborg fyrr á árinu og bauð þátttakendum að móta byggingarlist í brauðdeig sem lið í undirbúningi sýningarinnar. „Í Bakaríinu voru búnir til litlir brauðhlutir sem við stækkuðum upp í fulla stærð sem er mjög fallegt að sjá,“ segir Egill.

Borgarskipulag, arkitektúr og manngert umhverfi eru málefni sem Egill er að vinna með á sýningunni. „Ég er búinn að vera að ergja mig á nýjum byggingum, bæði hérlendis og erlendis í langan tíma og hef talað mikið um þetta við vini mína sem eru arkitektar. Ég hef þrengt þetta niður í að 20. aldar arkitektúr er með of lítið af flóknu yfirborði. Í gömlum húsum skapar skraut byggingarinnar flókið yfirborð og þó við þurfum ekki endilega að búa til skraut í dag eins og það var þá, þá þarf hluti af byggingunni að vera svolítið flókinn. Það þarf að vera meira af einhverju sem er fallegt því nú er þetta allt of stílhreint og redúserað. Það má ekki ein dúfa setjast á glerkassabyggingu og skíta á hana að þá fellur hún og fer alveg úr jafnvægi. Mér finnst arkitektar í dag vera heilaþvegnir af því að allt sem heitir skraut sé vont. Ég held að það sé sjúkdómur 20. aldarinnar og ég bíð eftir að það fari að snúast við.

Þetta er eitt sem ég er að taka fyrir í þessari sýningu, því í Bakaríinu bjó fólk til glugga, tröppur og hurðir úr deigi sem var bakað í staðinn fyrir að vera hannað í AutoCAD. Deigið beyglar allt sem þú gerir og það fær lífræna áferð á meðan AutoCAD myndi leiðrétta hverja einustu línu, gera hana beina og stífa. Á þennan hátt erum við að búa til arkitektúr í gegnum lífrænt efni í staðinn fyrir svona beinlínu-ferli.“

01a

Egill bendir á að eins og með alla menningu er mannlegt umhverfi ekki einkaeign fárra útvaldra heldur sameign allra sem deila umhverfinu, nota það og tilheyra því. „Byggingar skapa umhverfi sem tilheyrir okkur öllum og við eigum öll rýmið á milli húsanna. Þetta er allt saman borgin okkar, leiksvið okkar tilveru og í raun eins og stofa okkar allra. Borgin er ein stór stofa og við eigum rétt á því að þetta sé gert vel. Þetta er bara spurnig um vilja og kröfu samfélagsins. Í miðbænum er krafan um vandaðar byggingar hærri, krafa um skrautlegar og hlýlegar byggingar. Mér finnst að borg eigi að vera eins og lófi sem maður horfir inn í og þar sé hægt að sjá heila lífssögu. Hún má ekki vera hvítt blað sem er óskrifað og hundleiðinlegt.“

„Á sýningunni er ég líka að tala um Hafnarfjörð, sem mér finnst vera gott dæmi um íslenskan raunveruleika. Það er dæmigerður mannlegur faktor að maður sér ekki hvaða gull maður hefur í hendi sér, en ef horft er á Hafnarfjörð utan frá áttar maður sig á því hvað hraunið er einstakt, eiginlega á heimsmælikvarða. Það er alveg rosalega júník. En Hafnarfjörður er eins og unglingur í identitíkrísu sem veit ekki alveg hver hann á að vera. Hér er t.d. verið að búa til eitthvað feik identití með því að þykjast vera víkingabær, sem er algjör meðalmennska. Í staðinn fyrir að finna sinni innri styrk sem er falinn í því sem bærinn hefur fengið í náttúrulega forgjöf, sem er hraunið, bæjarlækurinn og söguleg höfn. Ef bærinn myndi byggja á þessu gæti hann fengið mikið sterkara byggðarsérkenni og persónuleika.“

Það er fleira í manngerðu umhverfi Hafnarfjarðar sem Egill gæti vel hugsað sér að gera á annan hátt. „Hönnunarslys geta alltaf komið fyrir hvar sem er, eins og að allt aðalsvæðið á nesinu í Hafnarfirði er bara bílastæði. Fjörðurinn er barn síns tíma og sýnir algert skilningsleysi á þessum djúpa karakter Hafnarfjarðar, sem er byggður í hrauni. Með hrauni en ekki á móti hrauni þar sem alltaf er verið að valta yfir hraunið. Í stað þess að hanna torg með stéttum úr prefabricated, tilhöggnum steinum ætti að horfa í bakgarðinn, þar sem öll þessi fegurð er í hrauninu. Hafnarfjörður á eftir að vera til eftir 200 ár og það er mjög stórt svæði sem er óbyggt í Hafnarfirði sem nær alveg upp að Helgafelli og lengra, ef ég hef skilið það rétt. Ég held að Íslendingar þurfi að taka ábyrgð og vilja byggð t.d. í svona landslagi þar sem reynt verður að byggja með hrauninu og hafa þetta svolítið sérstakt. Þegar byggt er fallega og vel er það svo góð langtíma fjárfesting, bæði peningalega séð og fyrir samfélagið, fyrir heildina. Við þurfum að hækka þessa kröfu.“

Gullöld íslenskrar myndlistar

Af því að Egill hefur verið búsettur í Berlín í langan tíma spyr ég hann út í skoðun hans á íslenskri myndlistarsenu.

Hvað gengur vel á Íslandi og hverju þarf að breyta?

„Mér finnst mikil blessun að hafa Kling & Bang hérna og mér finnst Nýló vera eins og móðir listarinnar sem tekur öllum opnum örmum. Nýló er mjög falleg institute en þær eru margar að deyja út erlendis. Nýló má alls ekki verða að stofnun sem setur sig á einhverskonar hærra plan og það er mjög mikilvægt að listrænt frelsi Nýló verði algjörlega verndað. Eins er mikilvægt að ungt fólk haldi áfram að fá tækifæri til að reka safnið og þar sé breiður hópur listamanna boðinn velkominn. Það er það sem er fallegt við Nýló og listin á að vera á breiðum skala og fóstra listina. Það er aðalatriðið.“

„Það sem mætti laga á Íslandi er að hér er mikill óprófessionalismi. Það er ekki af því að fólk sé vitlaust, það er bara ekki sami prófessionalismi hér eins og t.d. í Þýskalandi þar sem t.d. söfnin heimta af þér að þú sért búinn með sýninguna þína tveimur mánuðum fyrir opnun og hringja stöðugt í þig þremur mánuðum fyrir opnun. Hérna byrjar fólk að hringja tveimur vikum fyrir opnun. ‘Þetta reddast’-faktorinn er mjög góður en hann væri ennþá betri ef hér væri meiri prófessionalismi.“

„Peningar eru ekki allt sem þarf í myndlist en það mætti styrkja tilburði fleiri gallería til að komast út. Það væri æðislegt ef fleiri íslensk gallerí gætu farið á messur. Íslenskir listamenn eru enn of lokaðir af og það þarf að reyna að koma þeim í tengsl út á einhvern hátt.

Listamannalaun eru mjög mikilvæg og ég vona að það verði skilningur til að halda þeim áfram. Þau hafa hjálpað mér alveg gífurlega í gegnum tíðina og mjög mörgum. Nú eru nokkrir listamenn sem eru að gera það ágætt og eitthvað af þessum peningum eru hreinlega að skila sér beint aftur kassann fyrir utan öll menningarlegu áhrifin sem eru margfeldisáhrif.

Ég held að íslensk myndlist sé á blómaskeiði í augnablikinu. Það hefur aldrei verið svona mikil þensla og mikið í gangi. Það er gullöld í myndlist í rauninni, þó að hún fari kannski ekki mjög hratt þá er hún samt í gangi.“

Á þessum ofsajákvæðu nótum setjum við lokapunktinn í bili.

Takk fyrir viðtalið, Egill.

Hlín Gylfadóttir


Myndir með grein: Daníel Magnússon

Nánari upplýsingar um sýninguna:

CURRENT

Um sýninguna á vef Hafnarborgar

Ánægjulegt að horfa til baka – Hanna Styrmisdóttir um Listahátíð í Reykjavík 2016

Ánægjulegt að horfa til baka – Hanna Styrmisdóttir um Listahátíð í Reykjavík 2016

Hanna á Listahátíð 2013 í gjörningi Magnúsar Pálssonar, Einsemd:Steypa, sem var hluti af yfirlitssýningunni Lúðurhljómi í skókassa í Listasafni Reykjavíkur.
Mynd: Hanna á Listahátíð 2013 í gjörningi Magnúsar Pálssonar, Einsemd:Steypa, sem var hluti af yfirlitssýningunni Lúðurhljómi í skókassa í Listasafni Reykjavíkur.

Ánægjulegt að horfa til baka – Hanna Styrmisdóttir um Listahátíð í Reykjavík 2016

Hanna Styrmisdóttir er listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík og hefur því staðið í ströngu undanfarið. Hátíðin hrærist í síbreytilegu menningarumhverfi þegar litið er til fjármögnunar, fjölda annarra hátíða og breikkandi hóps gesta svo eitthvað sé nefnt. Hátíðin í ár var sú þrítugasta í sögu Listahátíðar í Reykjavík og sú fjórða sem Hanna hefur stjórnað. Að baki svo þéttrar dagskrár er margþætt undirbúningsferli sem artzine lék forvitni á að skyggnast inn í. Við lögðum því nokkrar spurningar fyrir Hönnu.

Nú þegar þú lítur til baka, hvað stendur upp úr í framkvæmd nýafstaðinnar Listahátíðar í Reykjavík í þínum huga?

Hátíðin samanstóð af yfir þrjátíu viðburðum og sýningum. Ég gæti nefnt marga mjög eftirminnilega viðburði en raunverulega er það heildin sem stendur upp úr. Og þó að hátíðinni sem slíkri sé lokið, standa nokkrar sýningar fram á haust, t.a.m. opnunarsýning Berlinde De Bruyckere í Listasafni Íslands.

Á síðasta ári lögðum við áherslu á höfundarverk kvenna og á ritskoðun og réttindabaráttu í listum. Hátíðin í ár var sjálfstætt framhald þeirrar hátíðar, síðari hluti þessarar áherslu, sem er auðvitað hvergi nærri tæmandi eins og gefur að skilja. Á hátíðinni í vor var mikil áhersla á líkamann sem vettvang pólitískra vangaveltna og áfram mikil áhersla á höfundarverk kvenna, en um leið voru nokkrir stærri viðburðir sem féllu ekki undir þessar áherslur. Hátíðin var þrítugasta Listahátíð í Reykjavík frá árinu 1970 og hún verður næst haldin 2018. Við vildum þess vegna nota tækifærið og líta til baka, til þessarar merkilegu sögu sem saga Listahátíðar er.

Klikkið á myndirnar til að sjá myndatexta.

Ljósmyndir: Valgarður Gíslason frá Listahátíð í Reykjavík 2016.

Það hefur legið fyrir í tvö ár að vilji væri fyrir því af hálfu ríkis og borgar, sem og Listahátíðar, að gera hátíðina að tvíæringi á ný að þrítugustu hátíðinni 2016 lokinni. Endanleg ákvörðun lá fyrir síðasta haust og fréttatilkynning var send fjölmiðlum um þessa breytingu 4. desember 2015. Markmið hennar er að undirstrika sérstöðu Listahátíðar í mjög breyttu menningarlandslagi og efla hana listrænt og rekstrarlega. Listahátíð í Reykjavík er þverfagleg hátíð sem nær yfir tvær til þrjár vikur í hvert sinn og starfar með öllum menningarstofnunum og minni sýningarstöðum á höfuðborgarsvæðinu og einnig utan þess, ef því er að skipta. Slík hátíð er flókin í samsetningu og samningum um stærri viðburði og þarfnast meiri tíma í þróun en hægt er að tryggja með árlegri hátíð.

Hvað hvað gekk vel í undirbúningi og hvað reyndist erfitt?

Það liggja ótalmörg handtök að baki svona stórri framkvæmd og óhjákvæmilega koma upp margar áskoranir sem gengur misvel að leysa úr. Allt gekk upp og meira að segja mjög vel en auðvitað tók margt á. Svo að ég taki dæmi liggja um sextíu samningar að baki hátíðinni í vor, margir hverjir afar flóknir, og þá eru eingöngu taldir samningar sem Listahátíð á beina aðild að. Að baki hverjum skriflegum samningi liggja vikur og í sumum tilfellum mánuðir í samningaviðræðum. Það er síðan mikið átak að miðla hátíð af þessu tagi til þess afar breiða hóps sem sækir hana: Á hverju ári eru 30 – 50 viðburðir og sýningar á vettvangi Listahátíðar á allt að 30 sýningarstöðum, á tveggja til þriggja vikna tímabili. Það er gríðarlega aukið framboð á menningarviðburðum í Reykjavík, þó að eingöngu sé litið til síðasta árs. Samsetning gesta Listahátíðar hefur verið að breikka mjög síðustu ár sem eru góðar fréttir en það gerir kynningu á hátíðinni og einstökum viðburðum jafnframt flóknari. Erfiðastar eru þó hinar listrænu ákvarðanatökur sem liggja að baki hverri hátíð fyrir sig. Listahátíð er þverfagleg, alþjóðleg listahátíð og í listrænum skilningi er hreinlega allur heimurinn undir. Það þarf mikla yfirsýn og þekkingu og listræna þvermóðsku myndi ég segja, til að koma henni saman á hverju ári. Það þarf að velja og hafna og ég hef oft staðið frammi fyrir því að þurfa að hafna því sem hugur minn og hjarta segja mér að eigi að vera hluti af hátíðinni. Og það er mjög erfitt.

Hvað myndir þú gera öðruvísi ef þú værir að hefja undirbúningsferlið núna?

Ég hugsa að ég myndi setja saman allt aðra hátíð, einfaldlega vegna þess að ég get ekki sett mig í þau spor að endurtaka hluti og samsetning hverrar hátíðar fyrir sig er sjálfstætt ferli sem er aldrei eins. Þetta var fjórða Listahátíðin sem ég stýri og þegar ég lít til baka er auðvitað ótalmargt sem ég myndi núna nálgast með öðrum hætti, vegna þess að ég hef lært svo margt á þessum fjórum árum. Um leið er ánægjulegt að horfa til baka; ég hef lagt mikið á mig, gert margt mjög gott og breytt mörgu. Svo hef ég gert heilan helling af mistökum. Ég myndi ekki vilja sleppa þeim.

Hvernig gekk með fjármögnun hátíðarinnar, fannst þú fyrir samdrætti í fjármagni hátíðarinnar og finnurðu fyrir að verið sé að draga úr fjármagni gagnvart listum almennt hér á landi?

Listahátíð í Reykjavík er sjálfseignarstofnun og er fjármögnuð að stórum hluta með framlögum frá ríki og borg sem eru stofnaðilar hátíðarinnar. Þau framlög hafa dregist mikið saman á síðastliðnum áratug. Við öflum á hverju ári 30-40% tekna hátíðarinnar með styrkjum frá fyrirtækjum og sjóðum annars vegar og miðasölu hins vegar. Þessar tekjur sveiflast svolítið á milli ára og þær eru ekki sjálfgefnar. Það liggur mikil vinna í því að afla þeirra og margt sem spilar þar inn í. Heildartekjurnar hafa verið svipaðar undanfarin ár, að árinu 2014 undanskildu, en þær eru ekki alltaf samsettar með nákvæmlega sama hætti.

Ég fylgist með fjárlögum ríkisins og fjárhagsáætlun borgarinnar á hverju ári og ég get ekki séð að verið sé að draga úr heildarfjármagni til liststofnana á Íslandi, þvert á móti hefur rekstrargrunnur margra ríkis- og borgarstofnana verið styrktur umfram verðlagsþróun frá hruni. Hvort það nægir til að reka þessar stofnanir eins og best væri á kosið er síðan annað mál og ekki mitt að dæma um rekstur annarra stofnana. Í fjárlögum má sjá að framlög til sumra sjálfseignarstofnana og sjóða hafa ekki fylgt verðlagsþróun og það þýðir að þau hafa lækkað að raunvirði ár frá ári, jafnvel þar sem ekki hefur komið til beinna lækkana á krónutölu. Það er jafnframt ljóst að opinberu fjármagni til lista er í auknum mæli dreift á fleiri hendur; hér hefur á síðustu árum orðið til mikill fjöldi hátíða og stærri viðburða sem eru fjármagnaðir að hluta með opinberum styrkjum. Þessar hátíðir og viðburðir verða síðan að sækja stóran hluta nauðsynlegs fjármagns annars staðar.

Hvað finnst þér um myndlistarsenuna á Íslandi í samanburði við listasenur stærri samfélaga?  

Myndlistarvettvangurinn á Íslandi er mjög öflugur og virkur en undirfjármagnaður. Það á við um stóru söfnin jafnt og minni sýningarstaði. Það er mjög áhugavert að leggjast yfir sögu sýningarstaða á Íslandi, sú uppbygging er öll drifin áfram af sjálfboðavinnu listamanna og að þeirra frumkvæði þar til á allra síðustu áratugum. Það er aðdáunarvert og án þess væri saga myndlistar á Íslandi allt önnur … en það er löngu tímabært að þarna verði grundvallarbreyting á. Myndlistarmenn eru búnir að taka höndum saman um að snúa þessum kringumstæðum við og þeirra kjarabarátta helst í hendur við baráttu listasafna og annarra liststofnana á borð við Listahátíð fyrir auknum framlögum. Ef liststofnanir geta ekki greitt listamönnum laun fyrir sína vinnu og fjármagnað annan kostnað við sýningar þeirra, svo sem framleiðslu-, ferða- og flutningskostnað, eru þær ekki starfhæfar. Það gefur auga leið. Ef Þjóðleikhúsið, svo að ég taki dæmi af handahófi, gæti ekki greitt leikurum laun og fjármagnað uppsetningu leiksýninga væri það ekki starfhæft. Þetta sjá allir.

Síðan er það þannig að þegar geta listasafna til að fjármagna stærri sýningar og standa fyrir sýningum erlendra listamanna með tilheyrandi flutnings- og tryggingarkostnaði dregst saman, er hættan sú að breiddin í sýningahaldi á Íslandi minnki og það er alvarlegt mál. Mér þykir mikilvægt að ræða þetta af því að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að stórefla rekstrargrundvöll safnanna á Íslandi. Eitt sem stjórnvöld mættu til að mynda gera, þar sem stefna þeirra hefur lengi verið sú að liststofnanir sæki tekjur sínar í auknum mæli út í samfélagið, er að breyta skattkerfinu á þann veg að fyrirtæki og einstaklingar sjái sér raunverulegan hag í að styðja við listir með stærri framlögum.

En það er gríðarlega margt sem vel er gert og ánægjulegt að fylgjast með hraðri þróun á þessum vettvangi.

Hvað er framundan hjá þér núna?

Ég er að fara í langþráð frí á fjöll en verð með annan fótinn í vinnunni eftir þörfum út mánuðinn.

Góða ferð og takk fyrir samtalið, Hanna

Hlín Gylfadóttir

Myndir birtar með leyfi Listahátíðar í Reykjavík.
www.listahatid.is

Abstrakt staður án núllpunkts

Abstrakt staður án núllpunkts

Mynd af Huldu e. Daniel Magnússon

Abstrakt staður án núllpunkts

Framlag BERG Contemporary til Listahátíðar Reykjavíkur er Færsla, sýning Huldu Stefánsdóttur sem stendur til 2. júlí. Hulda vinnur verk sem oft hafa einkennst af ljósum litum og margbrotunum verkaheildum sem fikra sig eftir veggjum sýningarrýmisins. Í Færslu heldur hún áfram að rekja sig eftir þræðinum meðvituð um að hann muni sífellt leiða hana á nýjar slóðir. Hlín Gylfadóttir hitti Huldu og spjallaði við hana um sýninguna.

Um titil sýningarinnar segir Hulda:

Ég er ekki vön að vera með titla á stökum verkum en vel titil á hverja sýningu sem er lýsandi fyrir það sem ég er að vinna með hverju sinni. Fyrir vikið verður það sýningartitillinn sem er leiðandi í vinnuferlinu og ég velti orðum og hugtökum fyrir mér fram og til baka, skrifa hjá mér hugleiðingar og reyni hvað ég get að fanga réttu stemmninguna hverju sinni.

Titill sýningarinnar, Færsla, varð til þegar vinnuferlið var komið vel af stað. Ég var með vinnutitil á sýningunni sem ég komst að að var í raun farinn að hamla mér í að vinna verkin. Þetta varð allt í einu allt of hlaðið, of umfangsmikil og flókin orð sem þvældust fyrir mér og voru næstum orðin hamlandi. Færsla felur í sér þá hugmynd að skynjun okkar í núinu er aldrei alveg ný, að við byggjum alltaf um leið á fyrri reynslu, skynjun og þekkingu. Mig langaði til að reyna að ná utan um þessa hleðslu í augnablikinu. Það á sér alltaf stað ákveðin yfirfærsla og því er í raun enginn núllpunktur. Hugmyndin um þann stað er algerlega abstrakt.

Á sýningunni er par verka þar sem ég tek þrykk af öðru verkinu yfir á hitt. Fyrir vikið á sér stað yfirfærsla og í einhverjum skilningi verður til frummynd og eftirmynd en um leið tvær frummyndir sem mér finnst áhugavert. Ég hef áður notað ljósmyndir og ljósrit andspænis málverkum til að skoða hugmyndir um frummynd og eftirmynd. Þá hef ég lagt að jöfnu ljósmyndir, endurtekin ljósrit og málverk, sem er alltaf einstakt.

Verkin á þessari sýningu eru mun sjálfstæðari en oft áður. Ástæðan fyrir því að ég fór að vinna ljósu verkin upphaflega var að mig langaði að nálgast arkitektúrinn, hvítu veggina í sýningarrýminu. Nú eru verkin meiri einstaklingar og það er eitthvað sem gerðist í upphengi sýningarinnar. Ég vinn upphengið þannig að ég kem með fullt af hráefni í sýningarsalinn sem ég vel úr. Það eru vissulega alltaf einhverjir leiðar póstar í verkaheildinni en ég kom með 35 verk í rýmið og á sýningunni urðu þau verkin 19. Í upphengiferlinu var ég bæði að hugsa um gráskalann og litríkari verk sem myndu mæta þeim. Litirnir núna eru leiddir af þessum skuggum og ljósum. Litirnir eru allt það sem ljósið inniheldur, prismað.

Á sama tíma var ég líka að raða saman verkum af ólíkri stærð inn í sýningarrýmið. Á ákveðnum tímapunkti í upphenginu prófaði ég að taka öll litlu verkin út og lagði póstana, stærri verkin, til að sjá hvernig þau virkuðu saman. Þá áttaði ég mig á því að ég þurfti ekki þennan fjölda af litlum verkum og það hefði bara verið dekoratíft að fara að bæta einhverju við þau stóru. Fyrir vikið er þessi sýning mjög klassísk í upphengi. Þannig að ég er komin frá því að mála á hvað sem er annað en striga, eins og álplötur og viðarplötur, bara allt annað en striga, yfir í stór, strekt strigamálverk og klassískara upphengi, jafnvel miðjusetningu, segir Hulda og hlær.

Þessi sýning hefur staðið til í langan tíma og eru hlutföll flestra verkanna hugsuð út frá þessum sýningarsal. Eitt verkanna var á sýningunni Nýmálað á Kjarvalstöðum 2015. Það verk, sem stendur sem par ásamt dökku verki fremst í sýningarrýminu, kom einnig fram í Framköllun hjá Heklu Dögg Jónsdóttur í Hafnarborg á síðasta ári. Enn eitt verk á sýningunni var á síðustu einkasýningu minni, Upplausn 2010. Það verk er óþekkjanlegt á þessari sýningu þar sem það snýr öðruvísi og ég er auk þess búin að mála ofan í það. Það skiptir mig máli að tengja svona á milli sýninga því ferlið á milli sýninga skapar einhverskonar vörpun á milli þeirra, yfirfærslu frá einni sýningunni til þeirrar næstu.

Aðspurð um hvernig henni finnist hafa verið í starfi sínu sem prófessor við LHÍ segir Hulda:

Það hefur verið ótrúlega gefandi, krefjandi og skemmtilegt. Það kom mér á óvart þegar ég var að byrja hvað maður skynjaði sterkt skólagöngu fólks fram að þeim tíma sem þau koma í BA nám í myndlist. Fyrir nemendur, sem hafa alla sína skólagöngu verið í umhverfi þar sem allt er stimplað annað hvort rétt eða rangt, er það mjög erfitt að takast á við spurningar eins og „Hvað finnst þér?“ og „Hvernig heldur þú að við getum þjónað hugmyndum þínum best?” Þetta voru oft framandi spurningar fyrir þeim. Eins vakti það mig til umhugsunar hvað fólk gat verið með brotið sjálfstraust vegna þess að það hafði ekki fengið að upplifa styrkleika sína nægilega vel áður. Til dæmis nemandi sem hefur rosalega sjónræna hæfileika en hefur alltaf verið niðurbarinn vegna lágra einkunna í bóknámsfögum. Það er mjög skýrt hvað skortir upp á sjónrænt læsi í okkar samfélagi. Eins þarf að koma auga á það að þegar fólk er ekki mjög bókhneigt að þá sé það allt í lagi því hæfileikinn liggi einfaldlega á öðru sviði. Reyndar held ég að margt sé að breytast í þessum efnum. Það eru átta ár síðan ég byrjaði og mér finnst ég alltaf vera að heyra meira af þessari vitund í skólakerfinu.

Við stofnuðum meistaranámsbraut í myndlist árið 2012 og ég er búin að vera fagstjóri þar frá upphafi. MA nám í myndlist á Íslandi er mjög mikilvægur valkostur fyrir fólk að hafa. Þetta er lítil námsbraut, það eru átta nemendur á hverju ári að meðaltali og um helmingur þeirra eru erlendir nemendur og helmingur Íslendingar. Þessi blanda er mjög dýrmæt og styrkjandi. Umræðurnar verða víðari þegar fólk kemur alls staðar að og mér finnst það gefa Íslendingunum mjög mikið. Erlendu nemarnir koma auga á hluti í okkar umhverfi og samfélagi sem eru of nálægt okkur til að við tökum eftir.

Í upphafi var viss tortryggni í garð námsbrautarinnar og gagnrýni á að hún kæmi í veg fyrir að fólk færi til útlanda í framhaldsnám, sem er svo algjörlega ekki stefna sem ég aðhyllist. Ég væri síst sú til að tala fyrir því að fólk ætti að vera heimóttalegt hérna uppi á skerinu. Ég var sjálf í New York í tæp átta ár, lauk meistaranámi árið 2000 og bjó svo og starfaði í borginni fram í ársbyrjun 2006. Það var mjög mótandi tími sem ég bý að og mun eflaust alltaf sakna pínulítið. Þannig að ég myndi svo sannarlega ekki vilja að fólk neitaði sér um slíka reynslu. Það eru hins vegar ekki allir sem eiga þess kost að sækja nám erlendis, og svo eru aðrir sem hafa lokið BA námi erlendis og hentar vel að bæta við sérmenntun sína hér á landi. Listaháskólinn er viðurkenndur háskóli á fræðasviði lista og við þurfum þetta rannsóknarstig menntunar til að styðja við framgang þessara mikilvægu fagsviða lista í okkar samfélagi. Ég trúi því einlæglega að án listrænnar sköpunar og þeirrar greiningar sem listir einar geta gefið til samfélagsins sé ekki býlt í þessu landi.

Núna er ráðningarfestu minni við Listaháskólann að ljúka þannig að ég er að stíga út fyrir skólann eftir þetta misseri. Það er skrýtin tilfinning en ég held líka að þetta sé mjög gott að láta reyna á sig með öðrum hætti. Nú er eins gott að fara að standa með því sem ég segi við nemendur mína, um að þau megi ekki gefast upp og að þau verði alltaf að standa með myndlistinni sinni. Það er gott að hrista upp í sjálfum sér og það er mjög mikilvægt að nýjir einstaklingar komi inn með sínar áherslur, það tryggir nauðsynlegt flæði á milli listsenunnar og skólans. Nám er og á að vera í stöðugri þróun. Það má aldrei segja „þetta er orðið gott“ heldur þarf alltaf að vera að spyrja og róta í möguleikunum og finna nýjar leiðir.

Hvað finnst þér um starfsumhverfi listamanna á Íslandi og hvernig metur þú hlutverk BERG Contemporary í því?

Ég vona og óska þess að fagumhverfi okkar sé að styrkjast, ætla að vera bjartsýn og segja að svo sé. Þar held ég að samstaða okkar myndlistarmanna og annars fagfólks gagnvart ytra umhverfinu skipti miklu máli. Það er alveg hægt að leyfa fjölbreytileika listanna að njóta sín, hafa skiptar skoðanir á málum en sýna samt samheldni. Hvað varðar BERG Contemporary, þá held ég að blasi við að þetta er frábær viðbót við starfsumhverfi myndlistar hér á landi. Þar skiptir mestu sú sterka og afgerandi sýn sem stofnandi gallerísins, Ingibjörg Jónsdóttir, hefur á samtímamyndlist og hlutverki BERG.

Nú er ákveðnu ferli að ljúka við opnun sýningarinnar en þú ert ekki að fara að sleppa hendinni af því sem þú ert að sýna í Færslu.

Nei, það þarf alltaf að halda þessum þræði gangandi inni í vinnustofunni. Það var voða skrýtið þegar við tæmdum stúdíóið og fórum með öll nýju verkin hingað í galleríið. Ég náði mér í nokkra blindramma strax og setti eitthvað í gang í vinnustofunni því það er enginn endapunktur í þessu ferli, þráðurinn lifir áfram.

Ég vinn yfirleitt þannig að ég er með mörg verk í vinnslu í einu og hef þau í kringum mig í smærri heildum. Ég er ekki með stóra vinnustofu þannig að ég þarf að leggja þau til hliðar og draga þau fram til skiptis. Þannig að vinnuferlið felur alltaf í sér þetta nána samtal á milli verkanna. Það er eitt verk á sýningunni sem er samsett af indigó bláum og gulllit sem ég var lengi að kljást við. Það tók mig langan tíma að ná þessu verki saman og ég skildi ekki af hverju ég gat ekki hætt. Svo var ég að fara í gegnum myndasafnið mitt í tölvunni og dett inn í myndir sem ég hafði tekið þegar ég fór til Rómar í fyrsta skipti 2012. Þá sá ég bara einhvernvegin að þetta var Vatíkansafnið með allri sinni gyllingu og bláma og ég mundi það ekki einu sinni sjálf. Svona skjótast gömul hughrif upp í bland við nýrri og það er þetta þvers og kruss samtal minninga við augnablikið hér og nú sem mér finnst svo áhugavert.

Núna er ég að láta reyna á þessi stærri, sjálfstæðu verk en það er ekki þar með sagt að ég hafi sagt endanlega skilið við fyrri nálgun. Það koma alltaf einhverjar nýjar spurningar sem að maður fer þá að glíma við. Mér finnst hver sýning opna á enn fleiri möguleika. Það er dásamlegt hvað myndlistin er rík af möguleikum. En það tekur tíma að koma auga á þá. Ég held að það gerist ekki fyrr en að sýningunni hefur verið lent og svolítið eftir opnun, jafnvel einhverjum árum síðar. Stundum skoða ég eitthvað síðar sem ég hef verið ósátt við á sínum tíma og lagt til hliðar. Þegar ég tek það fram aftur sé ég kannski einhverjar þreifingar, sem eru þá komnar skýrt fram í nýju verkunum. Oftast finnst mér það taka mörg ár að sættast fyllilega við verkin.

Núna undanfarið hafa nemendur mínir verið á fullu að fylgja MA verkefnum sínum eftir með titlum og textum í sýningarskrá, finna leiðir að því að orða hlutina. Á þessu stigi þarf að taka afstöðu, velja og hafna og eiga eigin orð yfir verk og hugmyndir. Í þetta skiptið var ég algjörlega á sama stað og þau í þessu ferli. Þau voru að engjast yfir sínum titlum og ég var að engjast yfir mínum. Þau voru að skrifa í sýningarskrá en á sama tíma var ég að skrifa eigin hugleiðingar. Og ég sagði við þau að óvissan færi greinilega aldrei, þú ert alltaf jafn óörugg með niðurstöðuna. Kannski snýst þetta á endanum um að læra að höndla óvissuna, kunna að njóta hennar. Að þora að ögra sér áfram.

Kærar þakkir fyrir samtalið, Hulda

Hlín Gylfadóttir

Eitthvað smá óöryggi – eitthvað viðkvæmt

Eitthvað smá óöryggi – eitthvað viðkvæmt

Elín Hansdóttir

Eitthvað smá óöryggi – eitthvað viðkvæmt

Viðtal við Elínu Hansdóttur um sýninguna Uppbrot, Ásmundarsafni

 

Í Ásmundarsafni er nú sýningin Uppbrot, á verkum Ásmundar Sveinssonar (1893-1982) og Elínar Hansdóttur undir sýningarstjórn Dorothée Kirch. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg listaverkum og húsum sínu við Sigtún á sínum tíma og þar rekur Listasafn Reykjavíkur nú Ásmundarsafn. Safnið er tileinkað verkum Ásmundar og undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á sýningar samtímalistamanna sem unnar eru inn í safnið og safneignina. Sýningin Uppbrot er ein slík og okkur lék forvitni á að fá að vita meira um tilurð sýningarinnar. Hlín Gylfadóttir tók því viðtal við Elínu Hansdóttur.

Um aðdraganda sýningarinnar segir Elín:

Dóró (Dorothée) var boðið að koma með tillögur að sýningu og var að velta fyrir sér hvernig hún ætti að nálgast Ásmund. Það er hægara sagt en gert að sýna verk sem margir þekkja í nýju ljósi. Hún ákvað að vera svolítið drastík og valdi að spegla einn samtímalistamann og Ásmund.

Hún var ekki með fastmótaða hugmynd sem hún nálgast mig með, heldur byrjuðum við eiginlega báðar frá grunni. Þetta var hrein og bein samvinna að því leyti að hún nálgast mig ekki með fastmótað konsept, sem mér er boðið að vinna með en það er mjög algengt. Ég tek því alltaf fagnandi ef það er vilji til að byrja frá grunni í samræðu. Oft er verið að velja listamenn miðað við það sem þeir hafa gert áður og, án þess að ég vilji alhæfa, þá er sýningarstjórinn oft að leita eftir einhverju sem er „eins og þetta, sem þú gerðir fyrir sjö árum síðan.“ Það eru auðvitað mjög erfiðar aðstæður fyrir listamann að vera í. Ég er bogamaður og mér leiðist að gera það sama tvisvar. Oftast langar mig til að prófa eitthvað nýtt í hvert skipti. Það getur verið ákveðin áhætta því það þýðir að maður er amatör í mjög mörgu og verður aldrei sérfræðingur í einhverju einu. Það er ekki fyrr en maður súmmar út mörgum árum seinna að þá sést tenging í því sem maður hefur verið að gera. En mér líður alltaf eins og ég sé að prófa nýja hluti og það er ákveðið óöryggi sem felst í því. Ég trúi því að það sé skapandi að vera ekki öruggur með það sem maður er að gera. En auðvitað er það hrikalegt á sama tíma.

En ef ég kem aftur að vinnuferlinu okkar Dóró, þá byrjuðum við á því að skoða alla safneignina og lesa viðtöl við Ásmund. Við ákváðum að skoða þetta sín í hvoru lagi og velja út það sem hafði áhrif á okkur. Það kom svo í ljós að við höfðum áhuga á mjög svipuðum hlutum. Það var skemmtilegt að útgangspunkturinn æxlaðst af sjálfu sér út frá sameiginlegum áhuga okkar beggja.

Áhugi okkar beindist sérstaklega að verkum sem eru skráð inn í kerfið sem verk, en hafa ekki verið sýnd vegna þess að það ríkir einhver óvissa um þau. Það eru nokkur verk eins og t.d. rifan (Án titils, án ártals) sem hefur verið skráð sem verk en það hefur ekki endilega verið ætlun Ásmundar. Við fengum leyfi hjá safninu að sýna rifuna, sem mér fannst mjög ánægjulegt.

Okkur fannst þetta vera spennandi útgangspuntur út af því að þetta er hluti úr heild sem maður veit ekki hver er. Það er svo lýsandi fyrir vinnuferli listamannsins. Þú ert með eitthvað í höndunum, en þú sérð ekki stóru myndina fyrr en kannski löngu síðar og jafnvel aldrei. En það er eitthvað þarna og þú veist að það tilheyrir einhverri heild. Þú finnur fyrir heildinni og það er þess vegna sem þú heldur áfram að leita, óviss um hvað þú finnur.

Það var eitt sem Ásmundur sagði í viðtali sem mér fannst svo ótrúlega fallegt. Það var að íþróttamenn væru með takmark og þeir ná takmarki sínu en listamaðurinn nær aldrei takmarkinu sínu vegna þess að takmarkið ferðast miklu hraðar en hann sjálfur. Í þessari leit opnast alltaf nýjar og nýjar víddir. Vinnuferlið er endalaus prósess sem getur teygt sig í allar áttir.

Það er svo gott við Ásmund hvað maður hefur greiðan aðgang að honum og hans hugsunum því hann var greinilega mjög duglegur að tjá sig.

Hann virðist ekki hafa verið hræddur að viðurkenna veikleika og tala um óstöðugleika listræns ferlis. Eins fannst mér gaman að sjá hvað hann var óhræddur við að prófa ólík efni og endurnýta eins og t.d baðkarið sem er í verkinu Upprisan. Dóttir hans sagði okkur að þetta hafi verið baðkarið hjá þeim, sem hún baðaði sig í þegar hún var lítil. Baðkarið bilaði og því var skipt út og þá endurnýtti Ásmundur það í þetta verk. Við héldum að litla baðkarið í verkinu Upprisan – skissa væri módel af stóra verkinu en hún sagði okkur að hann hafi gert það eftir að hann gerði stóra baðkarið, sem einhverskonar eftirmynd, en ekki fyrirmynd. Það hlýtur að hafa þótt frekar róttækt á hans tíma að fara í öfuga átt við hefðina.

Það hefur alltaf heillað mig að horfa á eitthvað í mismunandi skala. Baðkarið er skýrt dæmi um slíka hugsun og það má segja að þetta hafi verið útgangspunkturinn fyrir stærsta verkið á sýningunni, dómínóborgin sem fellur (Kollsteypa). Skalinn í videóinu er óræðari en skúlptúrinn í sýningarsalnum. Annar útgangspunktur er sýndarveruleiki versus víddin sem við upplifum og skynjum án hjálpartækja. Það var mjög mikilvægt að vídeóið og skúlptúrinn væru aðskilin og ekki í sama rými til þess að upplifunin spili á minni okkar.

Vinnuferli mitt fyrir þessa sýningu var ekki þannig að ég hafði ákveðið að bregðast við verkum Ásmundar á beinan hátt. Heldur frekar að skoða það sem hann hefur gert og lesa hans hugmyndafræði samhliða því að vinna mín eigin verk. Óneitanlega hefur það sem ég er að taka inn, lesa og skoða, áhrif á mig hverju sinni, en ég hef minni áhuga á því að bregðast við verkum annarra, heldur en að skapa eitthvað nýtt sem er svo sett í samhengi. Samtalið við Dóró hafði áhrif á hvernig hlutir geta breyst með því að vera settir í nýtt samhengi. Það voru einmitt einhverjir sem komu á sýninguna og sögðust aldrei hafa séð þetta verk eftir Ásmund áður. Líklega hafði fólk séð verkin oft áður, en samhengið hefur varpað nýju ljósi á þau.

Viðtalið við Elínu tók Hlín Gylfadóttir

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest