Hið óræða haf sem aðskilur tvo heima þegar Þúsund tungur óma

28.09. 2017 | Innsent efni

Að skapa verk sem dansar á mörkum tón-, sjón- og sviðslista er markmið dönsku leik- og listakonunnar Nini Juliu Bang sem frumsýnir verk sitt Þúsund tungur í Tjarnarbíói þann 29. september n.k. Þar mun hún ásamt bandarísku leikstýrunni Samönthu Shay sýna annað samstarfsverk sitt á Íslandi en síðasta sumar sýndu þær verkið Of Light sem var samið undir handleiðslu Marinu Abramovic og fékk talsverða athygli. Þær sýna nú nýtt verk sem leiðir gesti inn í veröld varnarleysis og ólíka menningarheima. Blaðamaður heyrði í þeim og ræddi við þær um listina og innblásturinn á bakvið verkið.

Hver er ykkar bakgrunnur og hvernig kom til að þið fóruð að vinna saman?

N: Í tíu ár var ég leik- og söngkona í Teatr ZAR, leikhóp The Grotowski Institute í Póllandi. Við ferðuðumst um allan heim með sýningar og Samantha hafði séð hópinn nokkrum sinnum. Við tvær kynntumst þó ekki fyrr en ég var að segja skilið við hópinn. Þá var Samantha byrjuð á hugmyndavinnu fyrir sýninguna Of light og ég stökk inn í það ferli. Ég held að við höfum báðar vitað frá upphafi að þetta samstarf og vináttan sem myndaðist væri eitthvað sem myndi bara dýpka. Núna höfum við unnið saman í fjórum löndum og frumsýnt tvö verk.

S: Ég kem einnig úr leikhúsheiminum. Ég lærði leiklist en hef að mestu leyti verið að búa til mín eigin verk síðan ég útskrifaðist, verk sem eiga margt skylt við gjörningalist og snúa upp á hugmyndir um hefðbundið leikhús. Einnig hef ég leikstýrt tónlistarmyndböndum og kennt vinnustofur um listsköpun. Þegar ég sá Nini á sviði með Teatr ZAR varð ég agndofa. Þessi hópur býr til verk sem eru svo líkamleg og drifin áfram af hljóði. Enn þann dag í dag er verkið þeirra Gospels of Childhood eitt af mínum uppáhalds sviðsverkum. Allt við það er svo sjónrænt og áhrifaríkt fyrir skynfærin að maður verður ekki samur eftir. Á sviðinu var fljót af brotnu gleri og viðargólf sem var eins og tromma þegar leikararnir köstuðu sér í gólfið. Þetta verk hafði mikil áhrif á mig og mín verk. Ég var svo kynnt fyrir Nini löngu seinna og bað hana um leið að vinna með mér að Of Light. Við fundum strax að þetta samstarf myndi vara lengur en þetta eina verk.

Listakonurnar Nini Julia Bang og Samantha Shay. Ljósmynd: Victoria Sandra.

Hvernig varð verkið A Thousand Tongues til og hvaðan kemur titillinn?

N: Mín upplifun er að allt sem ég skapi komi frá furðulegri en þrjóskri þörf í mér til að skilja, vinna úr og tjá mínar upplifanir. A Thousand Tongues óx innra með mér í mörg ár áður en að ég bað Samönthu um að leikstýra því. Ég vissi að hún myndi skilja kjarna þess sem ég var að reyna að segja, jafnvel þó að ég gæti ekki sett það í orð sjálf heldur aðeins tjáð það með tónlist og hreyfingu. Í verkinu syng ég á 10 tungumálum og ég vildi að það kæmi fram í titlinum. Mér hefur alltaf líkað við máltækið að tala tungum sem og söguna af Babelturninum og hvernig við töluðum öll sama tungumálið í upphafi. Þaðan kemur titillinn Þúsund tungur. Ég laðast einnig að hefðbundinni tónlist ólíkra landa og hefða því að mér finnst hún geyma raddir forfeðranna. Það er einhver mikill og merkilegur kraftur í söngvum sem hafa ferðast á milli kynslóða, sumir í þúsundir ára og í gegnum þúsundir manna.

Hvað þýðir verkið fyrir ykkur og hvað viljið þið að áhorfendur skynji?

S: Verkið er um varnarleysi og hvernig Nini tjáir það með rödd sinni. Tónlistin kemur frá svo mörgum heimshornum að það óhjákvæmilega sýnir ólíka menningarheima. Styrkleikinn í rödd Nini er fólgin í því hvernig hún beitir henni. Hún býr til einstaklega sérstök hljóð og kemur þeim til áhorfenda á tilfinningaríkan hátt. Allt það sjónræna í verkinu, hreyfingar, tími og tímasetning, tónn og umhverfi er sprottið frá þessari rödd, sem ræður ríkjum í verkinu.

N: Síðustu 15 árin hef ég ferðast afar mikið og hef oft orðið hissa að það skiptir ekki máli hvert ég fer, við eigum það öll sameiginlegt að deila von um að finna frið, frelsi og ást. Hljómar klisjulega en fjölmiðlar eru sífellt að segja okkur hversu ólík við erum en það er ekki mín reynsla. Það sem er ólíkt okkar á milli ætti að vera það sem okkur finnst áhugavert hvort við annað, ekki öfugt. Í verkinu tala ég til undirmeðvitundarinnar, tilfinninga og innsæisins. Í sköpunarferlinu reyndi ég að skrapa af mér eins mörg lög og ég gat til að vera sem næst kjarnanum og varðveita uppsprettuna sem veitir mér hve mestan innblástur.


Ljósmynd: Samantha Shay

Hvaðan kom innblásturinn fyrir sjónræna hluta verksins?

S: Nini var með margar myndir í huga sem voru henni innblástur. Myndirnar fönguðu andstæður á milli ljóss og myrkurs sem og mikilvægi frumefnanna. Ég valdi að vinna með ævaforna sögu frá Mesapótamíu, sögu sem kemur frá gleymdum menningarheimi Súmerana, þar sem nú er Írak. Þar var mæðraveldi og þeir tilbáðu gyðju sem hét Inanna. Í sögunni, sem er hluti af sálmi, kafar Inanna ofan í undirheima. Við hvert hlið þarf hún að sleppa hluta af sjálfri sér þar til hún kemst á lokastað. Mér finnst fallegur kraftur í kjarna sögunnar. Mér finnst upphaf sálmsins svo magnað; “Inanna, Queen of Heaven and Earth, opened her ear to the great below“ og í þessari menningu þýddi orðið eyra það sama og viska. Þetta nær því yfir þá hugmynd að viska komi ekki einungis úr djúpum sálarleiðangrum, heldur að sú leið tengist hljóði sem var ástæðan að mér fannst hún passa svo við þetta verk.

Þaðan spratt hugmyndin að hafa vatn á sviðinu en það er frumefnið sem hefur verið tengt við hið kvenlega og talið vera hlið til undirheima á sama tíma og það er talið heilandi.

Þið voruð báðar á Íslandi í fyrra til að sýna verkið Of light í Tjarnarbíói við mikið lof. Af hverju Ísland?

N: Þegar ég var aðeins 17 ára fór ég á puttanum um Ísland og var ein í mánuð. Ég var að skrifa ritgerð um ósýnilegar verur og vildi rannsaka tengingu Íslendinga við álfa og náttúruna. Það var rosalega mikilvæg reynsla fyrir mig því þessi ferð gaf mér hugrekkið til þess að ferðast ein um heiminn nokkrum árum seinna. Síðan þá hefur Ísland átt sérstakan stað í hjarta mér og að heimsfrumsýna Of light hérna var töfrum líkast.

S: Mér líður sem verk mín hafi verið betur skilin og metin hér. Eftir að hafa ferðast fram og aftur frá Íslandi undanfarin ár þá er ég nýflutt hingað og var að byrja í meistaranámi í svðislistum við LHÍ. Ég tek eftir miklu óttalausari tilraunum í listum hér á landi. Þegar ég sýni verk mín annars staðar er eins og fólki finnist óþæginlegt að geta ekki sett verkið í orð strax, því ég vinn mikið með tilfinningar og hið sjónræna. Á Íslandi eru ekki sömu tálmar í leikhússköpun og ég hef upplifað annars staðar. Það gæti tengst öfgunum sem þjóðin upplifir með veðrinu eða einangrunin sem fylgir því að vera eyja. Það er varnarleysi í því, auðmýkt og einhver sannur anarkískur kraftur. Ég sé hungur í raunupplifunum í senunni hér og djúpan exístensíalisma líka. Það er þar sem bestu verkin koma, í þránni að halda lífi í óbyggðum eða að verða óbyggðirnar sjálfar. Það er forgangsröðun hér að verk eigi að skilja eftir sterka upplifun. Og þetta kann ég svo vel að meta.

Dagný B. Gísladóttir


Aðeins tvær sýningar, 29. september kl. 20:30 og 1. október kl. 20:30, í Tjarnarbíói.
Miða má nálgast hér: https://tix.is/is/buyingflow/tickets/4553/
Heimasíður listamannanna:www.samantha-shay.com / www.ninibang.com
Aðalmynd með grein: Silvia Grav.
Hér má sjá umsögn Bjarkar Guðmundsdóttur þar sem hún mælir með verkinu Of Light.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This