Staðsetningar í Gerðarsafni
Staðsetningar í Gerðarsafni
Á níunda áratugnum tókst allstórum hópi ungra listamanna á Íslandi að koma öllum á óvart með því að snúa sér að málverki en þá höfðu margir um nokkurt skeið spáð því að tími þessa ævagamla listforms væri liðinn og framtíðin myndi í staðinn einkennast af hugmyndalist, gjörningum, vídeólist og öðrum nýjum miðlum. Samskonar umskipti voru reyndar uppi í öðrum löndum, bæði austan hafs og vestan, en íslensku listamennirnir eltu ekki þá strauma í blindni heldur tókust af alvöru á við þá málverkahefð sem orðið hafði til á Íslandi. Þar voru landslagsmálverk fyrirferðarmikil þrátt fyrir að abstraksjón, popplist og fleiri stefnur hefðu líka átt sín skeið og sína meistara. Það var óvænt en ákaflega merkilegt að fylgjast með því hvernig þetta unga fólk mátaði sig við gömul viðfangsefni og fann nýjar leiðir til að tjá sig og endurhugsa möguleika málverksins. Hér var ekki um einhvers konar endurhvarf að ræða heldur voru dregnar saman hugmyndir úr listastefnum síðustu áratuga – abstraksjón, minimalisma, hugmyndalist, o.s.frv. – svo úr varð algerlega ný nálgun.
Landslagsmálverk höfðu alla tuttugustu öldina notið mikillar hylli á Íslandi. Frumkvöðlarnir voru Þóra Melsted, Þórarinn Þorláksson og Ásgrímur Jónsson, og fjöldi annarra málara fylgdi í kjölfarið. Íslenskt samfélag breyttist hratt á þessum árum þegar fólk fluttist úr sveitunum í þéttbýlið og landslagsmálverkin virðast hafa hjálpað til að sætta fólk við þessi umskipti: Þótt maður sæi ekki lengur fjallið heima út um eldhúsgluggann var hægt að hafa fallegt málverk af því í stofunni. Eftir því sem leið á öldina dofnaði áhuginn á landslagsmálverkum smátt og smátt. Samband fólks við landið og landslagið breyttist og varð flóknara. Í stað þess að búa í landslaginu fór fólk í ferðalög úr bænum til að njóta þess og þegar iðnvæðingin breiddi úr sér komu upp vandamál um landnýtingu og umhverfisvernd sem eldri kynslóðir hefði ekki órað fyrir. Myndlist yngri listamanna endurspeglaði þessa þróun og þegar Nýja málverkið kom fram var öllum ljóst að það dygði ekki að sækja í smiðju gömlu meistaranna heldur þyrfti nýja hugsun og nýjan skilning á því hvernig listaverk gæti túlkað upplifun okkar og skilning. Kristján Steingrímur Jónsson og Einar Garibaldi Eiríksson hafa átt drjúgan þátt í þessari endurskoðun og í leiðinni fundið sér sinn sérstaka og persónulega stíl. Málverk þeirra beggja bera sterk einkenni þeirrar vitsmunalegu nálgunar sem í ríkari mæli einkennir samtímamyndlist: Málverkið er ekki lengur bara mynd af landslagi heldur tjáir heimspekilegar vangaveltur um jörðina, okkur sem á henni búa og um listhefðina sem á undan blómstraði. Hvorki Einar né Kristján Steingrímur mála myndir af landslagi en báðir takast þó á við það á markvissan hátt.
Verk Einars byggja á hugsun um tákn og táknfræði. Ljósmyndir: Vigfús Birgisson.
Kristján Steingrímur Jónsson. Nálægð 2005. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.
Frá vinnustofu Kristjáns Steingríms 2017. Ljósmynd: Anna Karen Skúladóttir
Frá vinnustofu Einars Garibalda 2017. Ljósmynd: Anna Karen Skúladóttir
Verk Einars byggja á hugsun um tákn og táknfræði – það hvernig við vísum í landslag frekar en landslagið sjálft. Þannig hefur hann t.a.m. málað upp landakort þar sem lítil myndtákn gefa vísbendingar um hverslags landslag sé að finna á hverjum stað: Klettabelti hér, mýri þar eða kjarr eða hraun. Hann hefur meira að segja sýnt það sem hann kallar „fundin málverk“ og látið skilti sem ætlað er að vísa ferðalöngum á fallegar náttúrumyndanir koma í stað mynda af náttúrunni sjálfri. Kristján Steingrímur hefur hins vegar leitað í landið sjálft en í staðinn fyrir að mála myndir af landslaginu hefur hann t.d. safnað jarðefni frá ákveðnum stöðum og unnið úr því olíuliti sem hann notar og vísar þannig í landslagið. Í staðinn fyrir að „sýna“ landslagið eru þessi málverk bókstaflega búin til úr landslaginu. Þá hefur hann líka notað víðsjá til að kanna innri byggingu jarðefnisins og teiknað upp svo við getum séð landslagið frásjónarhorni sem er okkur alla jafna hulið. Á þessari sýningu eru verk Kristjáns Steingríms og Einars sýnd en um leið reynt að varpa ljósi ásköpunarferlið sem að baki býr. Sýningin er í tveimur hlutum sem er nokkur nýlunda en með því vonumst við til að geta kafað dýpra í þær hugmyndir og rannsóknir sem að baki liggja. Á fyrri hluta sýningarinnar eru nýleg verk eftir listamennina báða en um miðbik sýningartímans verður henni umbylt, fleiri verk tekin inn og bætt við myndum og efni sem skýra vinnuaðferðirnar sem þeir hafa þróað með sér á áratuga ferli í myndlistinni. Tilgangurinn er að vekja gesti til umhugsunar um samband okkar við landið og umhverfi okkar en um leið að greina hvernig þetta samband hefur þróast og umbreyst í sögunnar rás. Á sama tíma er hér á ferðinni gagnrýnin sýn á hlutverk myndlistarinnar í samtímanum og það hvernig hún getur hjálpað okkur að skilja okkar eigin upplifun og líf.
Jón Proppé
Textinn er sýningartexti. Aðalmynd: Kristján Steingrímur, Jón Proppé sýningarstjóri sýningarinnar og Einar Garibaldi. Aðalmynd með grein: Hrafnhildur Gissurardóttir.