Viðurkenning á auganu í Ásmundarsafni

Viðurkenning á auganu í Ásmundarsafni

Viðurkenning á auganu í Ásmundarsafni

Augans Börn: Ásmundarsafn 29.10.2016 – 01.05.2017

Myndlistarsýningunni Augans Börn lýkur nú um helgina, en hún hefur staðið yfir í Ásmundarsafni nú í vetur. Sýningin er samstarfssýning Listasafns Háskóla Íslands og Listasafns Reykjavíkur þar sem myndverkum Þorvalds Skúlasonar er boðið til samhengis með höggmyndum Ásmundar Sveinssonar. Þorvaldur er þekktastur fyrir málverk sín sem hann vann um og upp úr miðri 20. öldinni, en hér á sýningunni er aðeins eitt málverk til sýnis. Hins vegar eru hátt í hundrað teikningar eftir hann settar upp í beint myndrænt samtal við þrívíðan myndheim Ásmundar. Höggmyndir hans eru sýndar í nokkuð hefbundnara ljósi, en þó í áður fáséðu samhengi við teikningar samferðamanns og „listræns sálufélaga“, eins og Ásmundur komst sjálfur að orði.

Sýningarstjórarnir voru Viktor Pétur Hannesson (undirritaður) frá Listasafni Háskóla Íslands og Bryndís Erla Hjálmarsdóttir fyrir hönd Listasafns Reykjavíkur. Við gerð sýningarinnar voru listaverkin flokkuð einungis eftir myndrænum tengingum án tillits til tímabila eða annarra hefðbundinna formerkja. Við leituðum eftir bergmáli milli verka listamannanna sem ómaði úr myndflötum þeirra, massa og línusveiflum, ýmist í tvívíðum verkum Þorvalds eða í marghliða skúlptúrum Ásmundar.

Í sýningartextanum er sett fram hefðbundin frásögn um æviskeið myndlistarmannanna og þeir settir í sögulegt samhengi. Á undan æviágripunum eru annars konar upplýsingar sem þjóna fremur því hlutverki að gefa skýr skilaboð um þá áherslu sem lögð er á myndrænt gildi sýningarinnar. Þannig var textinn nýttur til að hvetja gesti til að ganga inn á sýninguna og leggja áherslu á myndirnar sjálfar fremur en að reiða sig á aðrar upplýsingar sem verkunum fylgdu. Upplýsingar um tilkomu verks eða æviferil listamanns geta vissulega verið lærdómsrík viðbót við efni myndlistarsýninga, og getur auðgað huga þess sem horfir enn frekar. Við fyrstu kynni hafa þær upplýsingar þó ekkert að gera með þau beinu áhrif sem hugur og augu verða fyrir við það að standa gagnvart myndverki sem talar á sínu eigin tungumáli, sem er þó á einhvern hátt kunnuglegt.

Augans Börn, Ásmundarsafni. Listasafn Reykjavíkur.

Sýningarskráin hefst með þessum orðum: Barn lærir að þekkja form og liti löngu áður en það getur greint orð og bókstafi. Mannshugurinn leitar gjarnan að einhverju kunnuglegu í því sem fyrir augu ber, að samhljómi milli áþreifanlegra hluta og óhlutbundinna forma. Hugurinn greinir formin sem augað meðtekur og setur í samhengi við kunnugleg form. Þannig myndar hann sjónminnisbanka eða sjónrænan minningaheim sem nýtist til að vinna úr nýjum áhrifum.

Við skoðuðum ekki aðeins „hefðbundið myndefni“ frá myndlistarmönnunum heldur lögðum við að jöfnu allt sem þeir framleiddu, hvort sem það voru teikningar á pappír, málverk á striga eða skúlptúrar úr ýmsum efnum. Það má velta því fyrir sér hvort stafrænt aðgengi að verkunum hafi haft þau áhrif að auka á eins konar „lýðræði“ milli verkanna við skoðun á safneigninni, þar sem verkin birtust á stöðluðum grundvelli tölvunnar. Stærðarhlutföll og rýmistilfinning voru þurrkuð út, hvort sem um var að ræða viðkvæmar blýantsteikningar, stór olíumálverk eða þunga málmskúlptúra. Í því ferli vantaði vissulega upp á mikilvæga áhrifaþætti verkanna, sem gaf okkur hins vegar rými til þess að leita eftir þeim formræna samhljómi sem við vorum að leita eftir.

Í leit okkar að þessu sameiginlega mengi Ásmundar og Þorvalds komumst við að þeirri niðurstöðu að teikningar Þorvalds rímuðu hvað best við skúlptúra Ásmundar og veittu mun meira rými til samanburðar heldur en fullmálaðar myndbyggingarnar sem enduðu á strigunum, þar sem aðeins eitt sjónarhorn af mörgum var ákveðið og gert sýnilegt. Samhljómurinn á milli skúlptúra Ásmundar og teikninga Þorvalds var það mikill að þegar uppsetning sýningarinnar var í fullum gangi kom gestur inn í húsið sem vissi ekki hvað væri til sýnis, en taldi við fyrstu sýn að teikningarnar og höggmyndirnar væru eftir einn og sama listamanninn. Það má liggja milli hluta hvort hér sé um að ræða sterk myndræn áhrif milli tveggja listamanna eða samliggjandi þróun á heildrænu myndmáli módernismans eins og hann þróaðist á Íslandi.

Listasmiðja á Safnanótt

Frá listasmiðju Söru Riel á Safnanótt 2016 í Ásmundarsafni.

Hinum óhlutbundna myndheimi var gerð skil á margvíslegan hátt yfir sýningartímann. Á Safnanótt var boðið upp á kvöldleiðsagnir um sýninguna auk þess sem Sara Riel hélt námskeið fyrir börn þar sem unnið var sérstaklega með teikningar Þorvalds. Í upphafi smiðjunnar var þátttakendum boðið að draga upp tvo miða úr kassa sem sýndu útprentað afrit af hluta eins verks.

Þá tóku þau miðana með sér inn í sýningarsalinn til þess að finna verkin sem þessi myndbrot tilheyrðu. Að því loknu komu þau aftur og gerðu sínar eigin abstrakt klippimyndir, svipaðar og klippimyndir Þorvalds sem eru nokkrar til sýnis ásamt annars konar teikningum í ytri sýningarsalnum – Skemmunni. Þannig fengu börnin spennandi verkefni í hendurnar en sömuleiðis var þetta aðgengileg leið til að hvetja börnin til að skoða sýninguna. Undir handleiðslu Söru sköpuðu börnin sín eigin verk og unnu sig inn í sameiginlegt myndmengi Ásmundar og Þorvalds.

Algóritmar og Abstraktlist

Í janúar var boðið upp á sýningarstjóraspjall í Ásmundarsafni en með í för var tölvunarfræðingurinn Kristleifur Daðason til þess að ræða um mögulegar tengingar abstraktlistarinnar við forritunarmál og gervigreind. Ýmsar hugleiðingar voru bornar upp í tengslum við þróun á gagnvirkum myndlistargagnagrunni, en ýmis tækifæri gætu falist í háþróaðri tölvutækninni fyrir heim myndlistarinnar, bæði fyrir myndlistarmenn og fræðinga.

Við gerð sýningarinnar settum við okkur reglur sem svipuðu til eins konar algóritma eða reiknirits. Með því að horfa á myndir Ásmundar og Þorvalds og bera þær saman sáum við fljótt hvað þeir áttu margt sameiginlegt í formum, línum, sveiflum og massa. Slíka aðgreiningarhæfni á myndefni væri ef til vill hægt að þróa áfram í hugbúnaði, en með myndgreiningartækni væri til dæmis hægt að útbúa „stafrænan gervilistfræðing“ sem gæti þekkt stílbrigði listamanna og gert greinarmun á efnisnotkun í verkum.

Augans Börn, Ásmundarsafni. Listasafn Reykjavíkur.

Að mati greinahöfundar er sýningunni Augans Börn ætlað að upphefja myndmálið sem hið sjálfstæða tungumál sem það er. Reynt er á gamla orðatiltækið um að mynd segi meira en þúsund orð með þessum tilraunum. Kjarni sýningarinnar er sá sami og fólst í stefnu módernistanna – að blár sé ekkert annað en blár. Hann standi ekki sem táknmynd fyrir himinninn eða hafið, hann sé aðeins blár í því eðli sem hann er hverju sinni. Að sama leyti er ekki endilega þörf á því að vita upp úr hvaða hugarheimi myndin birtist heldur er það myndin sjálf sem skiptir hvað mestu máli.

Höfundur: Viktor Pétur Hannesson


Ljósmyndir: Listasafn Reykjavíkur
Mynd frá listasmiðju Söru Riel: Viktor Pétur Hannesson

Ljósmyndir og lyfseðlar í Listastofunni við Hringbraut

Ljósmyndir og lyfseðlar í Listastofunni við Hringbraut

Ljósmyndir og lyfseðlar í Listastofunni við Hringbraut

Listastofan er listamannarekið rými í JL húsinu, en þar hafa staðarhaldarar rekið sameiginlegt listamannarými, galleríi og myrkrakompu fyrir listamenn frá 2015. Nú er sýningunni Emilie eftir ljósmyndarann Emilie Dalum að ljúka, en síðasti sýningardagurinn verður á miðvikudaginn 19. apríl. Emilie verður á staðnum á venjulegum opnunartíma gallerísins milli kl. 13-17 en býður svo upp á opið spjallkvöld um sýninguna og verkið milli kl 17-19.

Eins og titillinn gefur til kynna snýr Emilie linsunni að sjálfri sér. Í upphafi árs 2016 var hún greind með eitilfrumukrabbamein sem er einnig þekkt undir nafninu Hodgkins sjúkdómur. Á sýningunni sést hún sjálf á ýmsum stigum ferlisins meðan á krabbameinsmeðferðinni stóð. Ein mynd sýnir þegar hún fer inn í jáeindarskanna á sjúkrahúsi í Danmörku, önnur þar sem sést í tvö ör sem hún hlaut við sitt hvort viðbeinið; annað eftir skurðaðgerðina sem átti að fjarlægja æxlið, og hitt eftir lyfjabrunninn sem hún fékk fyrir lyfjagjöfina. Það er kostur falinn í því að þetta er ekki í síðasta skipti sem Emilie kemur til með að sýna þessar myndir, þannig að hægt verði að fylgjast áfram með framvindu verksins, og þá hennar bataferli. Að eigin sögn vinnur hún þessa sýningu eins og meðferðarúrræði í gegnum krabbameinsmeðferðina.

Hér sést í bæði örin sem Emilie hlaut eftir skurðaðgerðina og lyfjabrunninn.
Á annarri mynd liggur Emilie í sjúkrarúmi, en í bakgrunni sést í manneskju með græna hárkollu. Hann heitir Michael og er vinur Emilie. Hún hefur, og er enn að vinna ljósmyndaseríu út frá hans lífi.
Emilie liggur í sjúkrarúmi. Vinur hennar Michael er í bakgrunni.

Á prenti er Emilie titluð sem ljósmyndari. Hún fór í nám í einum þekktasta ljósmyndaskóla Danmörku, Fatamorgana The Danish School of Art Photography, og hefur unnið með miðilinn á margvíslegan hátt, og þá sérstaklega til að skrásetja sögur og fólk sem henni er umhugað um. Þessi sýning hér í Listastofunni er titluð sem ljósmyndasýning, en eftir óskráðu forsniði listformanna er fylgt eftir, sem er oft til óþurftar notað til þess að staðsetja verk eða listamenn á einni eða annarri hlið ósýnilegra landamæra listformanna, þá er eftir vill hægt að segja að sýningin sé komin út á einhvers konar jaðar.

Emilie sýnir til dæmis ekki aðeins ljósmyndir, en það fyrsta sem mætir gestum þegar gengið er inn í sýningarsalinn er borð úttroðið af lyfjaumbúðum, kvittunum eftir læknisheimsóknir, bréfum frá vinum og öðrum persónulegum hlutum sem tengjast krabbameinsmeðferðinni. Þar voru líka tveir latex hanskar sem höfðu verið blásnir upp og skreyttir með pennastrikum og fígúrum, líklega til þess að drepa tímann í langvarandi sjúkrahúslegum meðan á rannsóknum eða lyfjagjöfum stóð. Á öðrum stöpli standa hárkúlur sem Emilie safnaði af hausnum á sér eftir að lyfin fóru að hafa þau áhrif sem eru ef til vill það sem flestir kannast við og óttast.

Lyfjabrunnurinn sem var græddur undir öxl Emilie.

Með sýningunni sýnir Emilie ótrúlegt hugrekki með því að opna fyrir samtal um ferli sem er líklega það erfiðasta sem hún hefur þurft að ganga í gegnum. Hún sagði mér að þegar hún fór á endurhæfingarfundi fyrir krabbameinsgreinda gat hún séð hversu misjafnlega fólk af mismunandi kynslóðum var tilbúið að opinbera sitt eigið ástand. Eldri konurnar komu á fundina málaðar og með hárkollur á meðan þær yngri voru greinilega opnari fyrir því að sýna líkamleg einkenni sjúkdómsins.

Emilie fór að missa hárið vegna lyfjameðferðarinnar.

Á síðasta ári sýndi hún myndirnar á hópsýningu í Ólafsvík, en hér í Listastofunni var komin ný mynd á sýninguna. Hún hafði bætt við einni ljósmynd ásamt því að sýna aðra hluti, eins og hárlokkana, lyfseðlana og aðra hluti sem tengjast ljósmyndunum.

Eins og áður kom fram verður lokadagur sýningarinnar í Listastofunni nú á miðvikudaginn. En þar mun ferlinu ekki ljúka. Verkið verður einnig sýnt í Ljósmyndasafni Reykjavíkur um haustið 2018 (9. ágúst – 9. október 2018. Þar verður vonandi búið að bæta enn meira við þetta upplýsandi verk um viðkvæmt málefni sem er nú til sýnis í einu af virkari grasrótargalleríum Reykjavíkur í dag.

Höfundur: Viktor Pétur Hannesson

Stofnun Marshallhússins – grasrótin slítur barnskónum

Stofnun Marshallhússins – grasrótin slítur barnskónum

Stofnun Marshallhússins – grasrótin slítur barnskónum

Á björtum fimmtudagsmorgni í mars sit ég á Kaffivagninum. Rótgrónum samkomustað sjómanna og velunnara við smábátahöfnina á Granda. Lengra út eftir verbúðunum er verið að leggja lokahönd á Marshall húsið, nýjustu viðbótina við sístækkandi menningarflóru hafnarsvæðisins. Sýningin hér samanstendur af trillum, snekkjum og seglskútum sem lífeyrisþeginn Óðinn vaktar.

Eftir kaffibollann geng ég af stað, meðfram verbúðunum sem hafa umbreyst í vinnustofur listamanna, veitingahús og ísbúðir. Hugsjónafólk með ferskar hugmyndir á ýmsum sviðum laðast að höfninni eins og svangir kettir. Fyrir framan endastöð strætó nr 14 nem ég staðar og virði fyrir mér Marshallhúsið . Menningarhús sem kemur til með að endurskilgreina hugmyndina um alfaraleið í Reykjavík. Listhús á fjórum hæðum (auk nokkurra millihæða) sem liggur í ilmandi faðmi herra HB (Granda), eiganda Marshall hússins.

Þúfa Ólafar Nordal er vel skrifuð í handbækur ferðamanna sem marsera glaðir út á ystu Granda-nöf til að hringsnúast alla leið upp í harðlæstan harðfisk-kofann. Nú geta þeir rétt sig af í nýuppgerðu lýsisbræðsluhúsinu sem hefur verið endurvakið í nafni listarinnar. Innandyra opna þrjú rými, öll til þess ætluð að hýsa listastarfsemi af einhverju tagi. Á annarri hæð er Nýlistasafnið með vistarverur sínar. Þar fyrir ofan eru unglingarnir í Kling og Bang. Á efstu hæðunum verður svo Ólafur Elíasson með sýningarrými og vistarverur. Að auki opnar veitingahús og bar á jarðhæðinni.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Opnunin

Síðastliðin laugardag lukust upp dyr Marshall hússins með formlegri fjögurra klukkustunda opnun. Húsið var stappað af gestum allan tímann. Stemningin var almennt séð fersk og spennandi. Gestir höfðu ýmislegt að segja um nýja listhúsið. Tilfinningar voru margvíslegar, minningar komu fram hjá sumum og víða glitti í vonarglampa í augum langsveltra fastagesta þeirra stofnana sem hér eru saman komnar.

„Þetta er bara eins og í útlöndum“

„Þetta er svona fullorðins“

„Þessi dagur verður skrifaður á spjöld listasögunnar“

Og svo framvegis.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Nýló – uppskera eftir áralanga yfirvinnu

Nýlistasafnið er og hefur verið listamannarekið safn í stöðugri uppbyggingu frá stofnun þess árið 1978 og hafa stjórnendur og starfsmenn safnsins lagt sitt fram til skrásetningar á íslensku listalífi og halda uppi reglulegu sýningarhaldi í nær fjóra áratugi. Að undanförnu hefur Nýlistasafnið verið til húsa í Efra-Breiðholti, en þrátt fyrir að vera aðeins fjær alfaraleið en venjulega, þá hélt safnið sínu virka menningarstarfi áfram þar. Nú færist sýningarrýmið yfir í Marshallhúsið, en safneignin verður ekki flutt úr Breiðholtinu í bráð.

Fyrsta sýning þeirra hér í Marshallhúsinu ber nafnið Rolling Line, og samanstendur af verkum Ólafs Lárussonar sem var einn af stofnendum Nýlistasafnsins og einn síðasti meðlimurinn sem var tekinn inn í SÚM hópinn. Á vefsíðu Nýló kemur fram að þetta sé í fyrsta skipti sem „dregin er upp heildræn mynd af afkastamestu árum listamannsins“, þ.e áttunda áratugnum. Meðfram sýningunni verður einnig gefin út bók um Ólaf með ýmis konar efni sem tengist honum og vinnustofu hans.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Arfleifð Súmmaranna og nýja málverksins virðist loksins hafa fundið endanlegan samastað undir þessu þaki. Safnið á að baki rétt tæp fjörutíu ár af stopulu húsnæðisástandi og  þröngum fjárhagsramma, en nú er nýtt tímabil í garð gengið, allavega í húnsæðishlutanum. Eins og safnstjóri Nýlistasafnsins sagði þá höfðu þau um tvennt að velja: Vera áfram í breiðholtinu með lítinn sem engan pening, eða prófa Marshallhúsið með lítinn sem engan pening. Að sjálfsögðu létu þau á það reyna.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Kling og Bang – í fullorðinna tölu

Grasrótargallerí sem hefur verið milli húsa síðustu 14 ár flytur nú „af moldargólfinu á marmarann“, inn í rými af þeirri gerð sem setur þau einhvers staðar mitt á milli grasrótar og hámenningar.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Kling & Bang á rætur sínar að rekja til fjölbreytts hóps ungra listamanna sem fóru að reka sameiginlegt gallerí í miðbænum. Úr því rættist framar vonum, en hópurinn skipulagði og tók þátt í fjölmörgum viðburðum bæði hér heima og erlendis. Margir af framsæknustu ungu listamönnum þessa tíma koma úr því umhverfi sem mótaðist í Kling & Bang. Sem dæmi má nefna Ragnar Kjartansson sem hélt sína fyrstu einkasýningu í húsum Kling og Bang. Hér í Marshallhúsinu á hæð Kling & Bang hefur sýningin Slæmur félagsskapur opnað þar sem átta nýútskrifaðir listamenn taka þátt. Með þeirri sýningu gefa forsvarsmenn Kling & Bang skýrt merki um að ætlunin sé að halda áfram sínu striki og vera unglingurinn í listasenu Reykjavíkur.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Kling og Bang hefur alltaf verið þekkt fyrir að halda kraftmiklar og ferskar sýningar þar sem íslenskum og erlendum listamönnum með taumlausa sköpunargleði í farteskinu er sleppt lausum. Hins vegar er ekki hægt að komast hjá því að Marshallhúsið ber með sér vissan gæðastimpil sem kemur til með að hafa áhrif á sýningarhaldið. Allt vel málað og nýtt. Viðmiðin hækka og líklega væntingar staðarhaldara til framsetningar sömuleiðis. Það verður spennandi að sjá hvort ferskleiki æskuáranna muni ná að halda velli á stað eins og þessum

„Við erum áfram Kling og Bang“ sagði einn af meðlimunum. Það verður áhugavert að fylgjast með gangi mála og sjá hvað næstu ár bera í skauti sér. Öll róttækni, fyrr eða síðar, hneigist til þess að gangast við stofnanavæðingu með tilheyrandi formerkjum. Hún breikkar menningarflóruna og verður að lokum samþykkt, en víkur jafnframt fyrir nýjum rótarskotum. Þar er nauðsynleg þróun að gefa rými fyrir nýgræðingana sem hafa eitthvað nýtt fram að færa og eru kannski ekki alltaf sammála forverum sínum og kennurum.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Stúdíó Ólafur Elíasson

Yfir stofnsettri grasrótinni skín sólin í Stúdíó Ólafur Elíasson sem starfsmenn i8 munu halda á lofti.  Ólafur Elíasson er nú í fyrsta sinn með sitt eigið rými fyrir verk sín á Íslandi, sem kemur til með að vera opið almenningi á sömu tímum og aðrir sýningarsalir í húsinu. Að sögn Þorláks Einarssonar úr i8 vill Ólafur styrkja taugina sem hann hefur til Íslands og vinna meira „hér heima“ og hafa einhvern samastað. „Meiningin er að þetta eigi að vera lifandi. Vissulega erum við að sjá eitthvað sem heitir sýning, en verkunum verður skipt út reglulega án þess að það sé tilkynnt,“ segir Þorlákur. Hann vonast til þess að gestir Marshall hússins komi við reglulega til að fylgjast með þróun rýmisins og kynnast verkum Ólafs í meiri nánd en áður hefur verið hægt hér á landi.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

 Vofa Góðæris

Opnunardagurinn vakti hjá sumum margvíslegar og blendnar minningar. Yfir sumum gestum sveimaði vofa síðasta góðæris. Stemningin minnti einhverja á Klink og Bank, listamannakollektívið í gamla Hampiðjuhúsinu við Hlemm í boði Landsbankans á hagvaxtarárum síðasta áratugar.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Fáu virðist þó vera hægt að líkja saman við þessi tvö rými annað en að fjársterkur aðili komi að tilvist þess að einhverju leyti. Þá var það Landsbankinn sem færði hópi listamanna hús til afnota án endurgjalds. Gamalt og hrátt verksmiðjuhúsnæði sem varð að einum allsherjar suðupotti fyrir íslenskt myndlistarlíf á sínum tíma. Nú kostar HB Grandi hugmynd sem kviknaði á arkitektastofunni Kurtogpi. Hér er enginn með frípassa í partýið. Allir borga leigu til þess að geta verið í Marshall húsinu. Svo hefur stemningin líka verið nokkuð hráslagalegri í Hampiðjuhúsinu heldur en hér í einu af fallegri húsum borgarinnar.

Kvikmynd um Klink og Bank eftir Þorfinn Guðnason

Nú á dögunum tók Reykjavík Grapevine viðtal við forsvarsmenn Kling og Bang þar sem kom fram að margir voru ósáttir með samstarf listahópsins við Landsbankann á sínum tíma. Þau sögðust þó telja að eftir á hafi flestir verið sáttir með að þetta hafi verið gert. Það segir sig sjálft að verkefni eins og þessi gætu aldrei orðið að veruleika án sterkra fjármögununaraðila. HB Grandi er eigandi Marshallhússins og kom að endurbyggingu þess. Þó þar sé fjársterkt fyrirtæki á ferð er ekki hægt að segja að sá rekstur sé sambærilegur við einkarekinn Landsbankann á tímum útrásarvíkinganna.

Hins vegar eru ýmis merki um að við séum að sigla inn í nýtt góðæri í boði erlendra gesta sem leggja leið sína hingað til eyjunnar. Það var reyndar áhugaverð tilviljun að í sömu viku og Marhsallhúsið var opnað hafi gjaldeyrishöftunum verið aflétt fyrir fullt og allt. Það er skiljanlegt að fólk velti því fyrir sér hversu lengi þetta nýja síldarævintýri muni endast. Við erum ennþá brennd eftir síðustu vertíð. Staðreyndin er allavega sú að hér er búið að endurhanna hús við höfnina í nafni og þágu listarinnar. Hvernig sem hagkerfið kemur til með að sveiflast til og frá mun þetta rými standa og hýsa fjöldan allan af stefnumarkandi myndlistarsýningum í nánustu framtíð.

Þrjár sjálfstæðar listastofnanir sem munu njóta góðs af því að sitja allar undir sama þaki. Það er ekki of mikil peningalykt í húsinu, enda búið að skipta um jarðveg og fjarlægja lýsistankana. Eftir stendur listilega hannað sýningarhús með veitingahúsi og bar á jarðhæðinni. Hvort núverandi rekstrarfyrirkomulag muni haldast óbreytt í húsinu um ókomna tíð verður bara að koma í ljós. Nú geng ég listmettaður úr Marshallhúsinu og bíð spenntur eftir næstu sýningum. Bjartir dagar eru framundan í lífi og þróun listarinnar hér á landi sem er ef til vill að slíta grasgrænum barnskónum hér á granítgráum gólfunum.

Höfundur: Viktor Pétur Hannesson


Einkennismynd: Helga Óskarsdóttir

Valtýr og félagar

Valtýr og félagar

Valtýr og félagar

Yfirlitssýning á verkum Valtýs Péturssonar í Listasafni Íslands , 24.9.2016 – 26.03.2017.

Sýningin er samstarfsverkefni Listasafns Íslands og Listaverkasafns Valtýs Péturssonar sem var stofnað eftir að hann lést.  Á vef Listasafns Íslands kemur fram að síðasta yfirlitssýning á verkum Valtýs hafi verið haldin árið 1986, fyrir 31 ári síðan, og sé „því löngu tímabært að kynna þennan fjölhæfa myndlistarmann fyrir nýjum kynslóðum og veita þeim sem eldri eru tækifæri til að endurnýja kynnin, en margt í verkum Valtýs kallast á við samtíma okkar og gefur tilefni til að skoða þau í nýju ljósi“.

Valtýr var í hópi íslenskra listamanna á eftirstríðsárunum sem hrundu af stað formbyltingu í málverkinu hér á Íslandi. Ásamt nokkrum félögum sínum í stéttinni byggði hann brú áhrifatenginga milli Evrópu og Íslands með óhlutbundnum myndflatarrannsóknum og litatilraunum. Hann var bæði listmálari og gagnrýnandi, en í bók sem var gefin út með sýningunni er ferill hans rakinn ítarlega.

Sýningin sjálf er sett upp á nokkuð hefðbundinn hátt, í anda klassískra listasögusýninga: Sýningarveggirnir skiptast í tímabil eða einhver konar þemu og verk Valtýs sett í sitt sögulega samhengi. Ferill listamannsins var mjög fjölbreytilegur þar sem hann reyndi fyrir sér í margvíslegum stílum, allt frá strangflatarverkum til litríkra mósaíkmynda. Hefðinni samkvæmt er Valtýr settur í samhengi við samtíma sinn þannig að hann er dreginn fram sem fulltrúi síns sviðs og skrifaður inn í svokallaða kanónu íslenskrar listasögu sem frumkvöðull og meistari.

Fyrstur Íslendinga?

Eftir upplýsingum á veggtexta sýningarinnar var Valtýr fyrstur Íslendinga til að bera fyrir augu samlanda sinna málverk í svokölluðum geometrískum abstraktstíl, eða „reglustikumálverk“ svo vitnað sé í hans orð. Í textanum kemur fram að árið 1951 hafi hann fyrstur Íslendinga sýnt „hrein geómetrísk abstraktmálverk í takt við það sem þá var efst á baugi í París“.

Sú fullyrðing virðist vera fengin úr fyrsta kafla bókarinnar um Valtý, sem Anna Jóhannsdóttir skrifar. Þar vísar hún í þriðja bindi íslensku listasögunar þar sem Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir vitnar í og túlkar orð Harðar Ágústssonar, samferðamanns Valtýs og félaga, þar sem Hörður segir að málverkið Á svörtum grunni (sem var sýnt á Septembersýningunni 1951 og er einnig sýnt hér í Listasafni Íslands) væri greinilegur „boðberi hinnar hreinu óhlutlægu listar” [1]. Ef rýnt er betur í þessa tilteknu heimild er margt sem bendir til þess að ekki sé hægt að taka hana upp sem sögulega staðreynd, eins og virðist vera gert hér á veggnum.

Árið 1953 skrifaði Hörður grein í tímaritið „Vaki“ þar sem hann tók saman yfirlit um myndlistasýningar sem voru haldnar í Reykjavík yfir veturinn 1952-1953. Í því yfirliti nefndi hann þó umrætt verk eftir Valtýr, sem hann hafði einnig birt mynd af í grein sinni um söguleg tildrög íslenskrar myndlistar, sem kom út ári fyrr í sama tímariti.

Yfirlýsing hans um þetta verk er þó greinilega ekki byggð á sterkari rökum en persónulegu áliti hans á samtíma sínum, þar sem hann viðurkenndi sömuleiðis að hafa ekki einu sinni séð þessa „umdeildu sýningu“. [5] Hins vegar eru þessi orð Harðar túlkuð þannig að Valtý er veittur sá heiður að vera „fyrstur íslendinga“ að bera fram á strigann hreint og óhlutbundið myndmál.

Önnur atriði er hægt að nefna sem veikja enn fremur þessa staðhæfingu sem hefur verið prentuð í Listasögu Íslands. Til að mynda má sjá í sýningarskrá Septembersýningarinnar 1951 þeim félögum Valtý og Þorvaldi Skúlasyni stillt upp saman á sömu opnu. Þar virðist myndmál þeirra vera á mjög svipuðum slóðum. Að vísu eru línurnar í verki Þorvaldar nokkuð frjálslegri heldur en Valtýs, en þó er greinilegt að þeim tveimur ber af í óhlutlægum myndrannsóknum, ef litið er á myndir annarra þátttakenda á sýningunni. Í sömu grein eftir Önnu Jóhannsdóttur er reyndar tekið upp eftir Valtý að þeir Þorvaldur hafi verið einu Íslendingarnir sem væru „alveg abstrakt“. [3]

Í fórum Listasafns Háskóla Íslands eru þó nokkur verk í geómetrískum stíl eftir Þorvald frá árinu 1951; bæði málverk og teikningar. Einnig er til skissa eftir Þorvald sem svipar mjög til þeirrar myndar sem endaði á sýningarskrá Septembersýningarinnar 1951. Sú teikning er mjög stílhrein og geómetrísk, þó hún sé ekki endilega teiknuð upp með hjálp reglustikunnar, líkt og með málverkið.

Þorvaldur Skúlason, teikning, 1951, Listasafn Háskóla Íslands
Ef til vill er hægt að rökræða um það hvenær og hvernig gemóetrían eigi að teljast sem hreinust. Vissulega formuðu listamennirnir bæði hér á Íslandi og erlendis ýmis konar regluverk í kringum málarastílinn þar sem til dæmis náttúrulegum litum var afneitað. Samt sem áður er skilgreiningin á geómetrískri abstraktlist of afstæð til að geta eignað einum listamanni heiðurinn af þeim stíl- „innflutningi“ til landsins.
Þorvaldur Skúlason. Skissa fyrir sýningarskrá, Septembersýningin 1951. Listasafn Háskóla Íslands.
Forsíða sýningarskráarinnar fyrir Septembersýninguna 1951.

Hér er ekki verið að gera lítið úr þrautseygju og elju Valtýs í sínu starfi. Þvert á móti er það á hreinu að hann, ásamt Þorvaldi og öðrum í September hópnum hafi unnið mjög mikilvægt starf í þágu myndlistarinnar hér á Íslandi, innleitt stílbrigði frá listalífi meginlandsins og gert að sínu. Hins vegar velti ég því fyrir mér hvort það skipti einhverju máli að eigna einhverjum einum heiðurinn að þessum tiltekna áfanga. Hægt er að líta á þetta sem tímabil þar sem margir einstaklingar með hugsjónir komu saman og formuðu sameiginlegt myndmál þar sem innlegg allra sem pensli eða meitli gátu valdið höfðu áhrif sín á milli. Spurninginni um það hver fór fyrstur yfir marklínu strangflatarmálverksins á Íslandi er allavega erfitt, jafnvel óþarft að svara.

Seinna í bókinni um Valtý Pétursson nefnir Jón B.K. Ransú einmitt að í stefnuyfirlýsingum konkretlistamanna í Evrópu hafi þeir gengið „í berhögg við snilligáfuna,“[4] sem líka er hægt að tengja við andúð á hinu svokallaða frumleikakapphlaupi.

Valtý er veittur heiðurinn „að vera frumkvöðull hinna nýju viðhorfa í málverkinu“, og Þorvaldur ekki einu sinni nefndur til samanburðar. Ef verk þeirra eru borin saman er reyndar greinilegt að Valtýr hafi komist mun hraðar á lagið með að vinna sig beint inn í þessi „hreinu“ geómetrísku verk. Línurnar eru hreinni og „reglustikaðri“. Samt sem áður eru þeir félagar algjörlega á pari í sínum óhlutlægu rannsóknum.

Það hefði í það minnsta verið æskilegt að stíga varlega til jarðar í stað þess að taka Valtý svona kyrfilega út fyrir sviga í nýútgefinni listasögunni, og byggja það á skoðun eins manns sem sá ekki einu sinni téða sýningu. Auk þess virðist fullyrðingin gera lítið annað en að þjóna úr sér genginni listpólitískri orðræðu í frumleikakapphlaupi listasögunnar.

Í skrifum um myndlist virðist vera til staðar viss hefð að slá upp einstaklingsmiðuðum hetjumyndum af listamönnum sem allir syntu þó í sömu „bóhem – súpunni“ og nutu góðs af samneyti hvors annars. Umfjöllunin verður einstaklingsbundnari en raunveruleikinn hafði kannski upp á að bjóða. Vissulega voru og eru listamenn að einhverju leyti einyrkjar sem eyða löngum stundum í einmannalegum vinnustofum sínum. En neisti áhrifanna kviknar ekki upp úr einmannaleikanum, heldur samverunni og samtölum sem þessir kyndilberar myndmálsins áttu sín á milli. Ef til vill byggist þetta á því hvernig skrifað var um listamenn á þessum tíma, en áfram er vitnað í orð og skoðanir þeirra sem nægilegan sannleik til að setja fram sögulegar staðreyndir.

Eins og fram kom hér í upphafi, þá stendur í kynningartexta um sýninguna að það sé löngu kominn tími á að kynna Valtý fyrir nýjum kynslóðum, og að skoða hann í nýju ljósi. Þessi orð gætu ekki verið sannari, bæði um Valtýr og samferðamenn hans. Á annars glæsilegri og áhugakveikjandi sýningu er erfitt að sjá hvar nýja ljósið skín, hvorki hvaðan né hvert. Allavega finnst það ekki í kanóniseruðum veggtextunum sem hefðu mátt fara í gegnum staðreyndapróf. Kannski mætti dreifa út geislum ljóskastarans og varpa ljósi á víðara samhengi þessa tímabils í stað þess að halda áfram gamalgróinni orðræðunni um frumleikakapphlaup og sjálfsprottna snilligáfu einyrkjanna.

Höfundur: Viktor Pétur Hannesson


[1] Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir. „Formbylting“, Íslensk listasaga frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar, . bindi: Abstraktlist, bls. 68.

[3] Anna Jóhannsdóttir. „Um listarinnar höf – Siglingar í lífi Valtýs Péturssonar“. Valtýr Pétursson. Ritstj. Dagný Heiðdal. Listasafn Íslands, Reykjavík 2016.  bls. 32.

[4] Jón B.K. Ransú, „Þjóðlegir Tónar um alþjóðlega strauma“, Valtýr Pétursson, bls. 62.

[5] Hörður Ágústsson, 1953: „Listsýningar veturinn 1952-1953″, Vaki, 1. tbl. 2. árg., bls. 55-61 ( bls. 58).

UA-76827897-1