Staðsetningar í Gerðarsafni

Staðsetningar í Gerðarsafni

Staðsetningar í Gerðarsafni

Á níunda áratugnum tókst allstórum hópi ungra listamanna á Íslandi að koma öllum á óvart með því að snúa sér að málverki en þá höfðu margir um nokkurt skeið spáð því að tími þessa ævagamla listforms væri liðinn og framtíðin myndi í staðinn einkennast af hugmyndalist, gjörningum, vídeólist og öðrum nýjum miðlum. Samskonar umskipti voru reyndar uppi í öðrum löndum, bæði austan hafs og vestan, en íslensku listamennirnir eltu ekki þá strauma í blindni heldur tókust af alvöru á við þá málverkahefð sem orðið hafði til á Íslandi. Þar voru landslagsmálverk fyrirferðarmikil þrátt fyrir að abstraksjón, popplist og fleiri stefnur hefðu líka átt sín skeið og sína meistara. Það var óvænt en ákaflega merkilegt að fylgjast með því hvernig þetta unga fólk mátaði sig við gömul viðfangsefni og fann nýjar leiðir til að tjá sig og endurhugsa möguleika málverksins. Hér var ekki um einhvers konar endurhvarf að ræða heldur voru dregnar saman hugmyndir úr listastefnum síðustu áratuga – abstraksjón, minimalisma, hugmyndalist, o.s.frv. – svo úr varð algerlega ný nálgun.

Landslagsmálverk höfðu alla tuttugustu öldina notið mikillar hylli á Íslandi. Frumkvöðlarnir voru Þóra Melsted, Þórarinn Þorláksson og Ásgrímur Jónsson, og fjöldi annarra málara fylgdi í kjölfarið. Íslenskt samfélag breyttist hratt á þessum árum þegar fólk fluttist úr sveitunum í þéttbýlið og landslagsmálverkin virðast hafa hjálpað til að sætta fólk við þessi umskipti: Þótt maður sæi ekki lengur fjallið heima út um eldhúsgluggann var hægt að hafa fallegt málverk af því í stofunni. Eftir því sem leið á öldina dofnaði áhuginn á landslagsmálverkum smátt og smátt. Samband fólks við landið og landslagið breyttist og varð flóknara. Í stað þess að búa í landslaginu fór fólk í ferðalög úr bænum til að njóta þess og þegar iðnvæðingin breiddi úr sér komu upp vandamál um landnýtingu og umhverfisvernd sem eldri kynslóðir hefði ekki órað fyrir. Myndlist yngri listamanna endurspeglaði þessa þróun og þegar Nýja málverkið kom fram var öllum ljóst að það dygði ekki að sækja í smiðju gömlu meistaranna heldur þyrfti nýja hugsun og nýjan skilning á því  hvernig listaverk gæti túlkað upplifun okkar og skilning. Kristján Steingrímur Jónsson og Einar Garibaldi Eiríksson hafa átt drjúgan þátt í þessari endurskoðun og  í leiðinni fundið sér sinn sérstaka og persónulega stíl. Málverk þeirra beggja bera sterk einkenni þeirrar vitsmunalegu nálgunar sem  í ríkari mæli einkennir samtímamyndlist: Málverkið er ekki lengur bara mynd af landslagi heldur tjáir heimspekilegar vangaveltur um jörðina, okkur sem á henni búa og um listhefðina sem á undan blómstraði. Hvorki Einar né Kristján Steingrímur mála myndir af landslagi en báðir takast þó á við það á markvissan hátt.

Verk Einars byggja á hugsun um tákn og táknfræði. Ljósmyndir: Vigfús Birgisson.

Kristján Steingrímur Jónsson. Nálægð 2005. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Frá vinnustofu Kristjáns Steingríms 2017. Ljósmynd: Anna Karen Skúladóttir

Frá vinnustofu Einars Garibalda 2017. Ljósmynd: Anna Karen Skúladóttir

Verk Einars byggja á hugsun um tákn og táknfræði – það hvernig við vísum í landslag frekar en landslagið sjálft. Þannig hefur hann t.a.m. málað upp landakort þar sem lítil myndtákn gefa vísbendingar um hverslags landslag sé að finna á hverjum stað: Klettabelti hér, mýri þar eða kjarr eða hraun. Hann hefur meira að segja sýnt það sem hann kallar „fundin málverk“ og látið skilti sem ætlað er að vísa ferðalöngum á fallegar náttúrumyndanir koma í stað mynda af náttúrunni sjálfri. Kristján Steingrímur hefur hins vegar leitað í landið sjálft en í staðinn fyrir að mála myndir af landslaginu hefur hann t.d. safnað jarðefni frá ákveðnum stöðum og unnið úr því olíuliti sem hann notar og vísar þannig í landslagið. Í staðinn fyrir að „sýna“ landslagið eru þessi málverk bókstaflega búin til úr landslaginu. Þá hefur hann líka notað víðsjá til að kanna innri byggingu jarðefnisins og teiknað upp svo við getum séð landslagið frásjónarhorni sem er okkur alla jafna hulið. Á þessari sýningu eru verk Kristjáns Steingríms og Einars sýnd en um leið reynt að varpa ljósi ásköpunarferlið sem að baki býr. Sýningin er í tveimur hlutum sem er nokkur nýlunda en með því vonumst við til að geta kafað dýpra í þær hugmyndir og rannsóknir sem að baki liggja. Á fyrri hluta sýningarinnar eru nýleg verk eftir listamennina báða en um miðbik sýningartímans verður henni umbylt, fleiri verk tekin inn og bætt við myndum og efni sem skýra vinnuaðferðirnar sem þeir hafa þróað með sér á áratuga ferli í myndlistinni. Tilgangurinn er að vekja gesti til umhugsunar um samband okkar við landið og umhverfi okkar en um leið að greina hvernig þetta samband hefur þróast og umbreyst í sögunnar rás. Á sama tíma er hér á ferðinni gagnrýnin sýn á hlutverk myndlistarinnar í samtímanum og það hvernig hún getur hjálpað okkur að skilja okkar eigin upplifun og líf.

Jón Proppé


Textinn er sýningartexti. Aðalmynd: Kristján Steingrímur, Jón Proppé sýningarstjóri sýningarinnar og Einar Garibaldi. Aðalmynd með grein: Hrafnhildur Gissurardóttir.

Innljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala

Innljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala

Innljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala

Sigurður Guðjónsson opnar sýninguna Inniljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði en hún er sú fyrsta í röð sýninga sem Listasafn ASÍ skipuleggur og eru hluti af menntunar- og kynningarátaki safnsins til næstu ára. Listráð safnsins valdi Sigurð Guðjónsson til samvinnu um innkaup og sýningahald úr hópi listamanna sem svaraði kalli s.l. vor og sendi inn tillögur til safnsins. Halldór Björn Runólfsson skrifaði um þetta glæsilega verkefni og fékk artzine góðfúslegt leyfi til að birta textann. Nánari upplýsingar um opnunartíma má finna neðst í greininni.

INNLJÓS
Vídeó er ekki gamalt fyrirbæri ef einungis er litið til tækninnar eins og við höfum kynnst henni á undanförnum áratugum. Upptökuvélin, eins og hún kemur okkur oftast fyrir sjónir, var fyrst sett á markað um miðjan 7. áratuginn og olli byltingu þegar í stað. Þunglamalegar upptökuvélar í sjónvarpsverinu sem buðu upp á afar takmarkaðan sveigjanleika viku fyrir hentugri vél, sem hægt var að munda og stýra með annari hendi. Allir sem vettlingi gátu valdið keyptu nýja Portapak-tækið frá Sony og fóru að spreyta sig á hinum nýja miðli, fréttamenn, ferðamenn, fjölskyldufólk með nýfædda ungana sína og listamenn. Þó að litina skorti og hljóðupptökuna þyrfti að rogast með á stóru segulbandstæki í hliðartösku á öxlinni var uppfinning Sony fyrir hálfri öld hrein bylting og frelsun í víðtækum skilningi.

Hins vegar er vídeó ævafornt latneskt orð fyrir sögnina að sjá. Því liggur beinast við að minnast hinnar forngrísku goðsögu um Aröknu, hinn lýdíska myndvefara, sem rataði í kvæðabálk Óvíds Ummyndanir, eitthvert frægasta bókmenntaverk latneskrar tungu. Þar segir frá hinni dramblátu alþýðukonu, sem neitaði að þakka gyðjunni Mínervu fyrir hæfileika sína og fékk fyrir vikið þá refsingu að ummyndast í síspinnandi könguló. Svo hrífandi var vefur Aröknu að guðdómlegum aðdáendum hennar fannst rán Evrópu í vefmynd hennar hreyfast og nautið sem bar hana á bakinu þjóta eins og kólfur um Eyjahafið.

Þannig er hugmyndin að baki vídeótækninni ævagömul þó hún sé sjálf ung að árum. Þessi tvívíði uppruni tímans endurspeglast í verkum Sigurðar Guðjónssonar í hinum aflagða Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði og umgjörðinni sem þeim er búin. Þótt kapellan þar sé ekki gömul er lögun hennar klassísk, byggð í rómönskum stíl eins og hann mótaðist, víða í Evrópu, fyrir um það bil þúsund árum. Á gólfið framan við kórinn varpar Sigurður verkinu Fuser 2017, valsi sem rennur langsum yfir flötinn, rétt eins vélrænu teppi væri rúllað yfir annan gólfdregil með sama mynstri – nokkurs konar villokkum eða arabeskum – sem óneitanlega minnir á miðaldir, en um leið á staðlaðar vélfléttur úr málmiðnaði nútímans. Fuser 2017 er jafnframt hljóðverk, sprottið af eigin uppmögnuðum skarkala, áminning um það að vídeó getur bæði fæðst af hljóði og mynd ef því er að heilsa.



Það er því ekki að ófyrirsynju sem Sigurður velur verki sínu heiti sem beinlínis vísar til samruna. Verkið Scanner 2017, sem er í líkhúsinu undir kapellunni, ber enn skýrari merki þess tímaflakks sem listamaðurinn ástundar milli ólíkra tíma. Þar hefur kólfurinn – skannaskafan – sem líður hægt yfir ljósrammann, tekið á sig fastara mót, líkast gullstöng sem stafar geislum sínum í djúpu myrkri. Í líkhúsi hlöðnu dulúðugu en dauðhreinsuðu andrými hlýtur maður að spyrja hvort þetta fyrirbæri sé táknmynd sálarinnar að hefja sig til flugs, ellegar eðalmálmurinn eini að spretta fram úr blýgjalli alkemistans.

Loks myndar Mirror Projector 2017 þrenningu með fyrrnefndu verkunum tveim og lokar ferlinu með upptöku af glerplötu venjulegs glæruvarpa meðan spegill tækisins fetar sig upp og niður með tilheyrandi breytingu á ljósopi og birtubrigðum. Undir hljómar suðið í glæruvarpanum. Forðum daga var myndlistin tengd við kirkjuna og fyllti margslungin rýmin innan hennar, grafhvelfinguna sem geymdi leifar af líkama dýrlinga, hvolf skipsins sem enn er skreytt gylltum stjörnum á bláum grunni í íslenskum sveitakirkjum og útskornar súlurnar; rismiklar dómkirkjur miðalda báru mynstur milli ólíkra heimshluta. Verk Sigurðar Guðjónssonar vitna um sams konar heildarhugsun og fólk upplifið fyrr á öldum þegar það steig inn fyrir dyrnar á guðshúsum.

Halldór Björn Runólfsson.


Sigurður Guðjónsson (f. 1975) lærði í Vín, Reykjavík og Kaupmannahöfn. Hann sýndi fyrst um aldamótin síðustu í listamannareknum rýmum í Reykjavík og dökk en ágeng vídeóverk hans vöktu strax athygli, ekki aðeins á Íslandi heldur í Berlín, New York, Lundúnum, Beijing, Seoul og alls staðar þar sem þau hafa verið sýnd. Hann notar vídeó og lifandi myndir en að mörgu leyti mætti fullt eins skilgreina verk hans sem tónlist. Hann notar tímamiðil (vídeó) í verk sem fanga áhorfandann gegnum ryþma og endurtekningu og tengja mynd og hljóð á þann hátt að þau virðast víkka skynsvið manns og vekja nýjar kenndir. Verkin eru oftast hæg og í þeim felst gjarnan vélræn endurtekning, þau draga mann inn í taktfasta endurtekningu en vaxa líka þegar maður staldrar við þau og fer að skynja fleiri þætti þeirra, skrýtnar lúpur og taktmynstur sem geta orðið næstum alltumlykjandi. Á síðustu árum hefur hann líka unnið í stamstarfi við tónskáld og þannig búið til verk sem sameina vídeó, rafhljóð og lifandi flutning. Hann er sífellt að víkka út sköpunarsviðið en verk hans bera sterk persónuleg einkenni og ná að skapa undarlega nánd sem aftur styrkir enn frekar skynhrifin.

Næsta sýning á verkum Sigurðar verður á Norðurlandi vestra fyrri hluta árs 2018. Öll verkin á sýningunni eru eign Listasafns ASÍ. Sigurður er með verk á sýningunni MÁLVERK-EKKI MIÐILL sem nú stendur yfir í Hafnarborg og sama kvöld og hann opnar sýninguna í St. Jósefsspítala verður hann með verk á CYCLE í Kópavogi.

Listráð Listasafns ASÍ 2017-18 skipa sýningarstjórarnir Dorothée Kirch og Heiðar Kári Rannversson auk Elísabetar Gunnarsdóttur forstöðumanns safnsins.

Ljósmyndirnar með greininni eru eftir Vigfús Birgisson.

Sýningaropnuninn er laugardaginn 23. september kl. 15. Opið er miðvikudaga-sunnudaga kl. 12-17.
Opnað er fyrir hópa utan reglulegs opnunartíma.

Þriggja ára ferðalag að hefjast

Þriggja ára ferðalag að hefjast

Þriggja ára ferðalag að hefjast

Eins og lesendur hafa fengið að heyra í fjölmiðlum þá hófst listahátíðin Cycle um síðustu helgi í Gerðasafni í Kópavogi. Hátíðin er með óhefðbundnu sniði í ár og í stað þess að leggja áherslu á sýningu er hátíðin í ár hugsuð sem röð af kveikjum þar sem hlúð er að skapandi ferli og tilraunastarfsemi með þátttöku gesta. Sýningastjórarnir Sara S. Öldudóttir og Guðný Guðmundsdóttir hafa leitast við að bjóða upp á form og atburði sem hvetja hinn almenna borgara til að koma í safnið og leggja fram sínar skoðanir og reynslu á jafningjagrundvelli með fræðimönnum og listamönnum.

Fyrstu helgina var kynnt til sögunnar fjölskylduhátið sem ekki var hugsuð út frá hoppuköstulum og kandíflosi heldur listasmiðju, raftónlist og skák þar sem öll fjölskyldan gat dansað saman við tónlist eins færasta plötusnúðs landsins. Á miðvikudeginum, rapptónleikar Josef Tarrak og Uyarakq. Það er ekki verið að draga undan á þeim bæ varðandi samskipti Dana og Grænlendinga og á Kex eru þeir í samstarfi við Vigdísi úr Reykjavíkurdætrum. Hátíðin er byrjunarpunktur á þriggja ára ferli sem kjarnast um fullveldisafmælið á næsta ári og er sérstök áhersla lögð á Grænland, Færeyjar og Ísland og samband þeirra við Danmörku. Málefni sem tengjast fullveldi og sjálfstæði eru miðlæg í hinu vestnorræna samhengi sem mikilvægt er að ræða með hinum ýmsu aðferðum og út frá mörgum sjónarhornum.

Á Sunnudeginum á helgi tvö er boðið upp á kvikaspuna (eða LARP) á vegum alþjóðlega samstarfshópsins Utopian Union en hópurinn leggur leggur áherslu á nám utan stofnana, þverfaglegt samstarf og listrænar aðferðir. Georgíska listakonan Anna Gzirishvili hefur þróað kvikaspunan ‘2031’ í samstarfi við einn af stofnendum Utopian Union, Söru Löve Daðadóttur. Utopian Union þekki ég sjálf frá vinnuviku sem haldinn var í Berlín í vetur þar sem prófessor Önnu í UdK, Hito Steyrl, var með í umræðum. Þar hlustaði ég einnig á afar áhugaverða kynningu KOW galleristans Alexander Koch á Bandamenn Listanna sem einnig er á dagskrá Cycle síðar í mánuðinum og verður komið að síðar að í þessari grein.

Kristín Dagmar stjórnandi Gerðasafns heldur tölu á meðan listrænir stjörnendur Cycle Tinna Þorsteindsdóttir og Guðný Guðmundsdóttir fylgjast með.
Gestir og þátttakendur á opnun Cycle á föstudag
Guðný Guðmundsdóttir sýningarstjóri, Sara Løve Daðadóttir og Anna Gzirishvili kvikspunakonur og Sara Öldudóttir sýningarstjóri
Ólafur Ólafsson myndlistarmaður sýnir gestum verk þeirra Libiu Castro á sýningunni.
Myndlistarkonan Libia Castro sem er með verk á sýningunni. Listfræðingurinn Craniv Boyd og myndlistarkonan Steinunn Gunnlaugsdóttir.
Cycle hátíðin höfðar til allra aldurshópa.
Raftónlistarmaðurinn og plötusnúðurinn Uyarakq.
Greinahöfundur í góðum gír á Cycle

Utopian Union leggur áherslu á að nota list sem rými fyrir ímyndunaraflið og vera umgjörð þar sem ný fagurfræði, menningarhreyfingar og fyrirbæri geta þróast. Allir eru velkomnir að skrá sig til þátttöku í spunanum á vefsíðu Cycle en takmörkun er á hvað margir geta tekið þátt. Ég hitti Önnu í stuttu spjalli á Red Baron veitingastaðnum á Tegel flugvelli en Sara og Anna búa í Berlín. Anna hefur yfir sér yfirbragð vinsællar amerískrar söngkonu sem ég man ekki í svipinn hvað heitir. Hún segir mér frá því að hún og Sara Løve hafi fyrst hist í kvikspuna sessjóni sem bekkur Hito hafi skipulagt í Berlín. Fyrir Hito snúist listkennslan ekki um list heldur sé bekkur hennar frekar vettvangur fyrir fólk að hittast og gera hluti saman og eiga pólitískt og félagslegt samtal. Hún hugsi bekkinn sem eins konar miðstöð aðgerða þar sem hún sjálf sé í hlutverki móderator. Allir sem vilja geta komið á bekkjarfundi hjá Hito í UdK þegar þeir eru á dagskrá.

Það var hinsvegar á þriðja fundi Utopian Union í Danmörku nýlega sem Sara og Anna náðu saman og upp úr samtalinu kveiknaði áhugi á því að að vinna saman að kvikspuna í listrænu samhengi. “Það var síðan á kynningu Utopian Union á Grosses Treffen hittingnum í Norræna sendiráðinu í Berlín sem Cycle sýningarstjórarnir Sara og Guðný komu auga á okkur og buðu okkur að koma til Íslands. Kvikaspuninn sem við gerum á Íslandi er glænýr og sérstaklega gerður fyrir samhengið. Þetta er 2. kaflinn. Fyrsti var í Danmörku og þriðji verður í Screen City Biennial í Stavanger í Noregi í október“, segir Anna um leið og Sara Løve kemur hlaupandi inn á Barónsbarinn. Það tók hana víst aðeins lengur en 10 mínútur að pakka. “Gaman að við hittumst hér“, segir hún blaðaskellandi, “Barónsbarinn hefur einmitt mjög mikilvæga þýðingu fyrir mig þegar kemur að áhuga á kvikaspuna. Það eru akkúrat tvö ár síðan ég átti fund hérna við Jali Wahlsten sem eitt sinn var fagmaður í íshokkí í Finlandi. Við töluðum um að mér hafi lengi langað til að gera verk í listasamhengi sem blandar saman pólitík, samfélagsúrbótum og framtíðarsýn í hlutverkaleik. Ég hef lengi verið að vinna þannig í ‘raunveruleikanum’ en kom svo auga á að það væri hægt að leika sér miklu meira í samhengi listarinnar.“ Nú nokkrum árum síðar hafa þessar hugmyndir Söru fengið farveg.

Eins og minnst var á hér að framan er KOW galleristinn Alexander Koch á leiðinni til landsins þriðju helgi Cycle hátíðarinnar til að kynna verkefnið Bandamenn listanna. Nánar tiltekið sunnudaginn 17. september. KOW er eitt heitasta galleríið í Berlín í dag en listamenn gallerísins tóku þátt í Feneyjartvíæringnum bæði í ár og fyrir tveim árum. Það er ekki oft sem galleristar sem starfa á vettvangi listmarkaðar séu einnig virkir í samfélagslegri þátttöku og það er ein af mörgu ástæðum fyrir því að spennandi er að hlusta á það sem Alexander hefur fram að færa. Ég hlustaði á samskonar kynningu á Utopian Union vinnuvikunni í Berlín í vetur og þótti framtakið mjög merkilegt. Bandalagið snýst um lýðræðisvæðingu lista þar sem hver sem er getur nálgast listamann og haft frumkvæði að sköpun nýs listaverks. Ekki bara stofnun eða fagnefnd. Það geta verið til dæmis ýmis konar samfélagshópar sem taka sig saman. Samkvæmt kynningartexta á vefsíðu Cycle er bandalagið orðið að raunverulegu breytingarafli í menningarstefnu Evrópulanda.

Þessa vikuna stendur yfir vinnustofa um torf með sýningarstjóranum Annabelle von Girsewald og er öllum velkomið að koma við og taka þátt eins lengi og þeir hafa tök á. Þegar hingað er komið í greinakskrifum er ég einmitt nýkomin úr stuttu innliti á vinnustofuna þar sem líflegar samræður listamanna og fræðimanna áttu sér stað um torfið í fortíð og nútíð. Vinnustofan er þáttur í rannsóknarvinnu Annabelle fyrir sýningu á næsta ári í Nýlistasafninu sem mun snerta á sama þema.

Á fimmtudag verður haldið bíókvöld með grænlensku heimildarmyndinni Sumé: Hljómur byltingar sem fjallar um grænlensku hljómsveitina Sumé sem var fyrst til að hljóðrita lög á grænlensku árið 1973. Það var merkilegt einkum fyrir þær sakir að það var í fyrsta skipti sem orð eins og ‘bylting’ og ‘kúgun’ voru þýdd yfir á grænlensku og komust þannig inn í grænlenskan málheim og um leið umræðu. Það átti eftir að hafa afgerandi áhrif á pólitíska þróun á Grænlandi. Leikstjóri myndarinnar Inuk Silis Høegh er myndlistarmaður sem sýnt hefur myndir sínar á hátíðum út um allan heim.

Fyrr áhugasama er dagskráin hér í heild sinni: Dagskrá Cycle 2017

Matarsamsæti verða haldin með reglulegu millibili á hátíðinni. Þar er skipst á hugmyndum og skoðunum í hverju horni og gestir fá tækifæri til að tala við nýtt fólk. Sýningarstjórarnir leggja mikla áherslu á að brjóta upp formið og skapa sem flest tækifæri þar sem fólk getur kynnst hvert öðru og hver veit hvað á eftir að koma út úr því. Öllum er velkomið að skrá sig.

Gerðasafn er opið flesta daga og fyrir utan vinnustofur og umræður er hægt að sjá verk eftir Darra Lorenzen, Ólaf Ólafsson & Libu Castro, Ragnar Kjartansson, Andrew Ranville og Jeannette Ehlers. Myndirnar sem fylgja þessari grein eru frá opnunarkvöldi hátíðarinnar.

Hér að neðan eru ýmsir tenglar sem tengjast efni greinarinnar og hægt að fræðast um hátíðina á heimasíðu hennar www.cycle.is.

www.utopianunion.org

www.nouveauxcommanditaires.eu/en/home

www.annabelleshome.com

youtu.be/7Ia1Sl1S3Qs

Hulda Rós Guðnadóttir

Hrukkur, árfarvegir og áferð -Helga Arnalds sýnir í SÍM salnum

Hrukkur, árfarvegir og áferð -Helga Arnalds sýnir í SÍM salnum

Hrukkur, árfarvegir og áferð -Helga Arnalds sýnir í SÍM salnum

Nýlega opnaði einkasýning Helgu Arnalds LÍFSMYNSTUR í SÍM salnum í Hafnarstræti. Á sýningunni er að finna akrílmálverk, blekteikningar, ljósmyndir og monoþrykk sem öll eiga rætur sínar í mynstri náttúrunnar og mannslíkamans. Myndirnar eru sumar abstrakt en aðrar hlutbundnar. Þær eru sterkar og tala til áhorfandans. Nærvera og sterkt augnaráð móðurömmu Helgu eru greinilegt á sýningunni. Helga nær að fanga dýptina sem býr í andliti hennar. Til þess notar Helga akrílliti og sterkan þykkan pappír. Meðferð litanna og gróf áferð pappírsins minnir um margt á grófgerða náttúruna eða andlitið þegar það er farið að eldast.

Náttúran hefur löngum fangað listamenn og verið þeim innblástur. Manneskjan og mannsandinn hafa einnig verið viðfangefni listamanna í aldanna rás. Helga nær á sýningu sinni að fanga bæði náttúruna og manneskjuna í verkum sínum og samtalið sem á sér stað milli manns og náttúru. Grafísk mynstur af öllum tegundum hafa löngum heillað Helgu og þessi lífsmynstur hafa haft mikil áhrif á hana, bæði í myndlistinni og leikhúsinu.

Stórar pappírsarkirnar minna á leikhústjöld enda er Helga þaulreynd leikhúsmanneskja og hefur starfað við leikhús í fjölda ára. Hugmyndin um að fanga nærveru ömmu sinnar og söguarf hennar kom fyrst upp þegar Helga var við nám í Listaháskólanum. Þá fékk hún leyfi hjá ömmu sinni til að taka hana upp á myndband við það að segja sögur, en við þá vinnu áttaði Helga sig á því hversu hlaðið fegurð, dýpt og visku andlit hennar var og hversu mikið það minnti annars vegar á textíl og hins vegar á náttúruna þegar ferðast er um landið að vetrarlagi. Augnaráð ömmu Helgu hefur fylgt henni. Nú má sjá það á stórum pappírsörkum kallast á við minni myndir, monoþrykk og ljósmyndir sem Helga hefur raðað saman í mengi og eru innblásnar af náttúru Íslands.

Myndirnar eru sumar hverjar óræðar og mætti trúa að heilmikil saga búi í þeim. Í samtali við artzine talar Helga um að í þeim búi sögur, einskonar hversdagssögur. Hún segir einnig „að náttúran hafi sínar leiðir til að búa til mynstur, til dæmis þegar vindurinn blæs lengi úr einni átt og mynstur myndast í sandi eða snjó eða þegar jörðin frýs og þiðnar á víxl og þúfur mótast eða þegar vatnið rennur niður hlíðina og teiknar í hana mynstur.

Það sama gerist þegar við eldumst og hrukkur mynda sitt mynstur í húðinni. Þá er oft hægt að lesa heilt líf úr einu mannsandliti og sjá hvaða vindar hafi blásið“. Helga talar um að þetta séu alls kyns mynstur; hrukkur, árfarvegir, þúfur, áferð og endurtekning á formum sem finna má í náttúrunni og að oft hafi henni fundist þessi mynstur líkjast hvert öðru og endurtaka sig á ólíkum stöðum í ólíkum stærðarhlutföllum. „Mér finnst ég sjá, á einhvern fallegan hátt, hvernig manneskjan speglast í náttúrunni og náttúran í manneskjunni.“

Helga Arnalds er fædd árið 1967 í Reykjavík. LÍFSMYNSTUR er hennar fyrsta einkasýning innan myndlistar en hún á sér langan og farsælan feril sem leikhúslistakona og hefur í mörg ár starfað við leikhús á Íslandi og erlendis. Helga lagði stund á myndlist í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með BA gráðu árið 2008. Frá þeim tíma hefur hún fléttað saman leikhúsi og myndlist. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín í leikhúsi. Meðal annars Grímuna árið 2015 fyrir leiksýninguna LÍFIÐ sem var valin besta barnaleiksýning ársins og Sproti ársins. Árið 2012 var sýning hennar Skrímslið litla systir mín valin barnasýning ársins. Nýverið var það verk sett upp í nýrri útgáfu með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Helga hlaut einnig Íslensku Bjartsýnisverðlaunin árið 2012. Undanfarið ár hefur Helga verið búsett í Danmörku þar sem hún hefur sótt áframhaldandi nám í myndlist ásamt því að þróa áfram sínar eigin aðferðir í leikhúsvinnu.

Ástríður Magnúsdóttir


Ljósmyndir af verkum: Elín Laxdal, ljósmynd af Helgu Arnalds: Jóhanna Þorkellsdóttir

Sýningin LÍFSMYNSTUR er í SÍM salnum, Hafnarstræti.
Opið er alla virka daga frá 10-16 til 24.maí.
Frekari upplýsignar má finna á: www.tiufingur.is og sim.is

Viðurkenning á auganu í Ásmundarsafni

Viðurkenning á auganu í Ásmundarsafni

Viðurkenning á auganu í Ásmundarsafni

Augans Börn: Ásmundarsafn 29.10.2016 – 01.05.2017

Myndlistarsýningunni Augans Börn lýkur nú um helgina, en hún hefur staðið yfir í Ásmundarsafni nú í vetur. Sýningin er samstarfssýning Listasafns Háskóla Íslands og Listasafns Reykjavíkur þar sem myndverkum Þorvalds Skúlasonar er boðið til samhengis með höggmyndum Ásmundar Sveinssonar. Þorvaldur er þekktastur fyrir málverk sín sem hann vann um og upp úr miðri 20. öldinni, en hér á sýningunni er aðeins eitt málverk til sýnis. Hins vegar eru hátt í hundrað teikningar eftir hann settar upp í beint myndrænt samtal við þrívíðan myndheim Ásmundar. Höggmyndir hans eru sýndar í nokkuð hefbundnara ljósi, en þó í áður fáséðu samhengi við teikningar samferðamanns og „listræns sálufélaga“, eins og Ásmundur komst sjálfur að orði.

Sýningarstjórarnir voru Viktor Pétur Hannesson (undirritaður) frá Listasafni Háskóla Íslands og Bryndís Erla Hjálmarsdóttir fyrir hönd Listasafns Reykjavíkur. Við gerð sýningarinnar voru listaverkin flokkuð einungis eftir myndrænum tengingum án tillits til tímabila eða annarra hefðbundinna formerkja. Við leituðum eftir bergmáli milli verka listamannanna sem ómaði úr myndflötum þeirra, massa og línusveiflum, ýmist í tvívíðum verkum Þorvalds eða í marghliða skúlptúrum Ásmundar.

Í sýningartextanum er sett fram hefðbundin frásögn um æviskeið myndlistarmannanna og þeir settir í sögulegt samhengi. Á undan æviágripunum eru annars konar upplýsingar sem þjóna fremur því hlutverki að gefa skýr skilaboð um þá áherslu sem lögð er á myndrænt gildi sýningarinnar. Þannig var textinn nýttur til að hvetja gesti til að ganga inn á sýninguna og leggja áherslu á myndirnar sjálfar fremur en að reiða sig á aðrar upplýsingar sem verkunum fylgdu. Upplýsingar um tilkomu verks eða æviferil listamanns geta vissulega verið lærdómsrík viðbót við efni myndlistarsýninga, og getur auðgað huga þess sem horfir enn frekar. Við fyrstu kynni hafa þær upplýsingar þó ekkert að gera með þau beinu áhrif sem hugur og augu verða fyrir við það að standa gagnvart myndverki sem talar á sínu eigin tungumáli, sem er þó á einhvern hátt kunnuglegt.

Augans Börn, Ásmundarsafni. Listasafn Reykjavíkur.

Sýningarskráin hefst með þessum orðum: Barn lærir að þekkja form og liti löngu áður en það getur greint orð og bókstafi. Mannshugurinn leitar gjarnan að einhverju kunnuglegu í því sem fyrir augu ber, að samhljómi milli áþreifanlegra hluta og óhlutbundinna forma. Hugurinn greinir formin sem augað meðtekur og setur í samhengi við kunnugleg form. Þannig myndar hann sjónminnisbanka eða sjónrænan minningaheim sem nýtist til að vinna úr nýjum áhrifum.

Við skoðuðum ekki aðeins „hefðbundið myndefni“ frá myndlistarmönnunum heldur lögðum við að jöfnu allt sem þeir framleiddu, hvort sem það voru teikningar á pappír, málverk á striga eða skúlptúrar úr ýmsum efnum. Það má velta því fyrir sér hvort stafrænt aðgengi að verkunum hafi haft þau áhrif að auka á eins konar „lýðræði“ milli verkanna við skoðun á safneigninni, þar sem verkin birtust á stöðluðum grundvelli tölvunnar. Stærðarhlutföll og rýmistilfinning voru þurrkuð út, hvort sem um var að ræða viðkvæmar blýantsteikningar, stór olíumálverk eða þunga málmskúlptúra. Í því ferli vantaði vissulega upp á mikilvæga áhrifaþætti verkanna, sem gaf okkur hins vegar rými til þess að leita eftir þeim formræna samhljómi sem við vorum að leita eftir.

Í leit okkar að þessu sameiginlega mengi Ásmundar og Þorvalds komumst við að þeirri niðurstöðu að teikningar Þorvalds rímuðu hvað best við skúlptúra Ásmundar og veittu mun meira rými til samanburðar heldur en fullmálaðar myndbyggingarnar sem enduðu á strigunum, þar sem aðeins eitt sjónarhorn af mörgum var ákveðið og gert sýnilegt. Samhljómurinn á milli skúlptúra Ásmundar og teikninga Þorvalds var það mikill að þegar uppsetning sýningarinnar var í fullum gangi kom gestur inn í húsið sem vissi ekki hvað væri til sýnis, en taldi við fyrstu sýn að teikningarnar og höggmyndirnar væru eftir einn og sama listamanninn. Það má liggja milli hluta hvort hér sé um að ræða sterk myndræn áhrif milli tveggja listamanna eða samliggjandi þróun á heildrænu myndmáli módernismans eins og hann þróaðist á Íslandi.

Listasmiðja á Safnanótt

Frá listasmiðju Söru Riel á Safnanótt 2016 í Ásmundarsafni.

Hinum óhlutbundna myndheimi var gerð skil á margvíslegan hátt yfir sýningartímann. Á Safnanótt var boðið upp á kvöldleiðsagnir um sýninguna auk þess sem Sara Riel hélt námskeið fyrir börn þar sem unnið var sérstaklega með teikningar Þorvalds. Í upphafi smiðjunnar var þátttakendum boðið að draga upp tvo miða úr kassa sem sýndu útprentað afrit af hluta eins verks.

Þá tóku þau miðana með sér inn í sýningarsalinn til þess að finna verkin sem þessi myndbrot tilheyrðu. Að því loknu komu þau aftur og gerðu sínar eigin abstrakt klippimyndir, svipaðar og klippimyndir Þorvalds sem eru nokkrar til sýnis ásamt annars konar teikningum í ytri sýningarsalnum – Skemmunni. Þannig fengu börnin spennandi verkefni í hendurnar en sömuleiðis var þetta aðgengileg leið til að hvetja börnin til að skoða sýninguna. Undir handleiðslu Söru sköpuðu börnin sín eigin verk og unnu sig inn í sameiginlegt myndmengi Ásmundar og Þorvalds.

Algóritmar og Abstraktlist

Í janúar var boðið upp á sýningarstjóraspjall í Ásmundarsafni en með í för var tölvunarfræðingurinn Kristleifur Daðason til þess að ræða um mögulegar tengingar abstraktlistarinnar við forritunarmál og gervigreind. Ýmsar hugleiðingar voru bornar upp í tengslum við þróun á gagnvirkum myndlistargagnagrunni, en ýmis tækifæri gætu falist í háþróaðri tölvutækninni fyrir heim myndlistarinnar, bæði fyrir myndlistarmenn og fræðinga.

Við gerð sýningarinnar settum við okkur reglur sem svipuðu til eins konar algóritma eða reiknirits. Með því að horfa á myndir Ásmundar og Þorvalds og bera þær saman sáum við fljótt hvað þeir áttu margt sameiginlegt í formum, línum, sveiflum og massa. Slíka aðgreiningarhæfni á myndefni væri ef til vill hægt að þróa áfram í hugbúnaði, en með myndgreiningartækni væri til dæmis hægt að útbúa „stafrænan gervilistfræðing“ sem gæti þekkt stílbrigði listamanna og gert greinarmun á efnisnotkun í verkum.

Augans Börn, Ásmundarsafni. Listasafn Reykjavíkur.

Að mati greinahöfundar er sýningunni Augans Börn ætlað að upphefja myndmálið sem hið sjálfstæða tungumál sem það er. Reynt er á gamla orðatiltækið um að mynd segi meira en þúsund orð með þessum tilraunum. Kjarni sýningarinnar er sá sami og fólst í stefnu módernistanna – að blár sé ekkert annað en blár. Hann standi ekki sem táknmynd fyrir himinninn eða hafið, hann sé aðeins blár í því eðli sem hann er hverju sinni. Að sama leyti er ekki endilega þörf á því að vita upp úr hvaða hugarheimi myndin birtist heldur er það myndin sjálf sem skiptir hvað mestu máli.

Höfundur: Viktor Pétur Hannesson


Ljósmyndir: Listasafn Reykjavíkur
Mynd frá listasmiðju Söru Riel: Viktor Pétur Hannesson

Ljósmyndir og lyfseðlar í Listastofunni við Hringbraut

Ljósmyndir og lyfseðlar í Listastofunni við Hringbraut

Ljósmyndir og lyfseðlar í Listastofunni við Hringbraut

Listastofan er listamannarekið rými í JL húsinu, en þar hafa staðarhaldarar rekið sameiginlegt listamannarými, galleríi og myrkrakompu fyrir listamenn frá 2015. Nú er sýningunni Emilie eftir ljósmyndarann Emilie Dalum að ljúka, en síðasti sýningardagurinn verður á miðvikudaginn 19. apríl. Emilie verður á staðnum á venjulegum opnunartíma gallerísins milli kl. 13-17 en býður svo upp á opið spjallkvöld um sýninguna og verkið milli kl 17-19.

Eins og titillinn gefur til kynna snýr Emilie linsunni að sjálfri sér. Í upphafi árs 2016 var hún greind með eitilfrumukrabbamein sem er einnig þekkt undir nafninu Hodgkins sjúkdómur. Á sýningunni sést hún sjálf á ýmsum stigum ferlisins meðan á krabbameinsmeðferðinni stóð. Ein mynd sýnir þegar hún fer inn í jáeindarskanna á sjúkrahúsi í Danmörku, önnur þar sem sést í tvö ör sem hún hlaut við sitt hvort viðbeinið; annað eftir skurðaðgerðina sem átti að fjarlægja æxlið, og hitt eftir lyfjabrunninn sem hún fékk fyrir lyfjagjöfina. Það er kostur falinn í því að þetta er ekki í síðasta skipti sem Emilie kemur til með að sýna þessar myndir, þannig að hægt verði að fylgjast áfram með framvindu verksins, og þá hennar bataferli. Að eigin sögn vinnur hún þessa sýningu eins og meðferðarúrræði í gegnum krabbameinsmeðferðina.

Hér sést í bæði örin sem Emilie hlaut eftir skurðaðgerðina og lyfjabrunninn.
Á annarri mynd liggur Emilie í sjúkrarúmi, en í bakgrunni sést í manneskju með græna hárkollu. Hann heitir Michael og er vinur Emilie. Hún hefur, og er enn að vinna ljósmyndaseríu út frá hans lífi.
Emilie liggur í sjúkrarúmi. Vinur hennar Michael er í bakgrunni.

Á prenti er Emilie titluð sem ljósmyndari. Hún fór í nám í einum þekktasta ljósmyndaskóla Danmörku, Fatamorgana The Danish School of Art Photography, og hefur unnið með miðilinn á margvíslegan hátt, og þá sérstaklega til að skrásetja sögur og fólk sem henni er umhugað um. Þessi sýning hér í Listastofunni er titluð sem ljósmyndasýning, en eftir óskráðu forsniði listformanna er fylgt eftir, sem er oft til óþurftar notað til þess að staðsetja verk eða listamenn á einni eða annarri hlið ósýnilegra landamæra listformanna, þá er eftir vill hægt að segja að sýningin sé komin út á einhvers konar jaðar.

Emilie sýnir til dæmis ekki aðeins ljósmyndir, en það fyrsta sem mætir gestum þegar gengið er inn í sýningarsalinn er borð úttroðið af lyfjaumbúðum, kvittunum eftir læknisheimsóknir, bréfum frá vinum og öðrum persónulegum hlutum sem tengjast krabbameinsmeðferðinni. Þar voru líka tveir latex hanskar sem höfðu verið blásnir upp og skreyttir með pennastrikum og fígúrum, líklega til þess að drepa tímann í langvarandi sjúkrahúslegum meðan á rannsóknum eða lyfjagjöfum stóð. Á öðrum stöpli standa hárkúlur sem Emilie safnaði af hausnum á sér eftir að lyfin fóru að hafa þau áhrif sem eru ef til vill það sem flestir kannast við og óttast.

Lyfjabrunnurinn sem var græddur undir öxl Emilie.

Með sýningunni sýnir Emilie ótrúlegt hugrekki með því að opna fyrir samtal um ferli sem er líklega það erfiðasta sem hún hefur þurft að ganga í gegnum. Hún sagði mér að þegar hún fór á endurhæfingarfundi fyrir krabbameinsgreinda gat hún séð hversu misjafnlega fólk af mismunandi kynslóðum var tilbúið að opinbera sitt eigið ástand. Eldri konurnar komu á fundina málaðar og með hárkollur á meðan þær yngri voru greinilega opnari fyrir því að sýna líkamleg einkenni sjúkdómsins.

Emilie fór að missa hárið vegna lyfjameðferðarinnar.

Á síðasta ári sýndi hún myndirnar á hópsýningu í Ólafsvík, en hér í Listastofunni var komin ný mynd á sýninguna. Hún hafði bætt við einni ljósmynd ásamt því að sýna aðra hluti, eins og hárlokkana, lyfseðlana og aðra hluti sem tengjast ljósmyndunum.

Eins og áður kom fram verður lokadagur sýningarinnar í Listastofunni nú á miðvikudaginn. En þar mun ferlinu ekki ljúka. Verkið verður einnig sýnt í Ljósmyndasafni Reykjavíkur um haustið 2018 (9. ágúst – 9. október 2018. Þar verður vonandi búið að bæta enn meira við þetta upplýsandi verk um viðkvæmt málefni sem er nú til sýnis í einu af virkari grasrótargalleríum Reykjavíkur í dag.

Höfundur: Viktor Pétur Hannesson

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest