Stofnun Marshallhússins – grasrótin slítur barnskónum

Stofnun Marshallhússins – grasrótin slítur barnskónum

Stofnun Marshallhússins – grasrótin slítur barnskónum

Á björtum fimmtudagsmorgni í mars sit ég á Kaffivagninum. Rótgrónum samkomustað sjómanna og velunnara við smábátahöfnina á Granda. Lengra út eftir verbúðunum er verið að leggja lokahönd á Marshall húsið, nýjustu viðbótina við sístækkandi menningarflóru hafnarsvæðisins. Sýningin hér samanstendur af trillum, snekkjum og seglskútum sem lífeyrisþeginn Óðinn vaktar.

Eftir kaffibollann geng ég af stað, meðfram verbúðunum sem hafa umbreyst í vinnustofur listamanna, veitingahús og ísbúðir. Hugsjónafólk með ferskar hugmyndir á ýmsum sviðum laðast að höfninni eins og svangir kettir. Fyrir framan endastöð strætó nr 14 nem ég staðar og virði fyrir mér Marshallhúsið . Menningarhús sem kemur til með að endurskilgreina hugmyndina um alfaraleið í Reykjavík. Listhús á fjórum hæðum (auk nokkurra millihæða) sem liggur í ilmandi faðmi herra HB (Granda), eiganda Marshall hússins.

Þúfa Ólafar Nordal er vel skrifuð í handbækur ferðamanna sem marsera glaðir út á ystu Granda-nöf til að hringsnúast alla leið upp í harðlæstan harðfisk-kofann. Nú geta þeir rétt sig af í nýuppgerðu lýsisbræðsluhúsinu sem hefur verið endurvakið í nafni listarinnar. Innandyra opna þrjú rými, öll til þess ætluð að hýsa listastarfsemi af einhverju tagi. Á annarri hæð er Nýlistasafnið með vistarverur sínar. Þar fyrir ofan eru unglingarnir í Kling og Bang. Á efstu hæðunum verður svo Ólafur Elíasson með sýningarrými og vistarverur. Að auki opnar veitingahús og bar á jarðhæðinni.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Opnunin

Síðastliðin laugardag lukust upp dyr Marshall hússins með formlegri fjögurra klukkustunda opnun. Húsið var stappað af gestum allan tímann. Stemningin var almennt séð fersk og spennandi. Gestir höfðu ýmislegt að segja um nýja listhúsið. Tilfinningar voru margvíslegar, minningar komu fram hjá sumum og víða glitti í vonarglampa í augum langsveltra fastagesta þeirra stofnana sem hér eru saman komnar.

„Þetta er bara eins og í útlöndum“

„Þetta er svona fullorðins“

„Þessi dagur verður skrifaður á spjöld listasögunnar“

Og svo framvegis.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Nýló – uppskera eftir áralanga yfirvinnu

Nýlistasafnið er og hefur verið listamannarekið safn í stöðugri uppbyggingu frá stofnun þess árið 1978 og hafa stjórnendur og starfsmenn safnsins lagt sitt fram til skrásetningar á íslensku listalífi og halda uppi reglulegu sýningarhaldi í nær fjóra áratugi. Að undanförnu hefur Nýlistasafnið verið til húsa í Efra-Breiðholti, en þrátt fyrir að vera aðeins fjær alfaraleið en venjulega, þá hélt safnið sínu virka menningarstarfi áfram þar. Nú færist sýningarrýmið yfir í Marshallhúsið, en safneignin verður ekki flutt úr Breiðholtinu í bráð.

Fyrsta sýning þeirra hér í Marshallhúsinu ber nafnið Rolling Line, og samanstendur af verkum Ólafs Lárussonar sem var einn af stofnendum Nýlistasafnsins og einn síðasti meðlimurinn sem var tekinn inn í SÚM hópinn. Á vefsíðu Nýló kemur fram að þetta sé í fyrsta skipti sem „dregin er upp heildræn mynd af afkastamestu árum listamannsins“, þ.e áttunda áratugnum. Meðfram sýningunni verður einnig gefin út bók um Ólaf með ýmis konar efni sem tengist honum og vinnustofu hans.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Arfleifð Súmmaranna og nýja málverksins virðist loksins hafa fundið endanlegan samastað undir þessu þaki. Safnið á að baki rétt tæp fjörutíu ár af stopulu húsnæðisástandi og  þröngum fjárhagsramma, en nú er nýtt tímabil í garð gengið, allavega í húnsæðishlutanum. Eins og safnstjóri Nýlistasafnsins sagði þá höfðu þau um tvennt að velja: Vera áfram í breiðholtinu með lítinn sem engan pening, eða prófa Marshallhúsið með lítinn sem engan pening. Að sjálfsögðu létu þau á það reyna.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Kling og Bang – í fullorðinna tölu

Grasrótargallerí sem hefur verið milli húsa síðustu 14 ár flytur nú „af moldargólfinu á marmarann“, inn í rými af þeirri gerð sem setur þau einhvers staðar mitt á milli grasrótar og hámenningar.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Kling & Bang á rætur sínar að rekja til fjölbreytts hóps ungra listamanna sem fóru að reka sameiginlegt gallerí í miðbænum. Úr því rættist framar vonum, en hópurinn skipulagði og tók þátt í fjölmörgum viðburðum bæði hér heima og erlendis. Margir af framsæknustu ungu listamönnum þessa tíma koma úr því umhverfi sem mótaðist í Kling & Bang. Sem dæmi má nefna Ragnar Kjartansson sem hélt sína fyrstu einkasýningu í húsum Kling og Bang. Hér í Marshallhúsinu á hæð Kling & Bang hefur sýningin Slæmur félagsskapur opnað þar sem átta nýútskrifaðir listamenn taka þátt. Með þeirri sýningu gefa forsvarsmenn Kling & Bang skýrt merki um að ætlunin sé að halda áfram sínu striki og vera unglingurinn í listasenu Reykjavíkur.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Kling og Bang hefur alltaf verið þekkt fyrir að halda kraftmiklar og ferskar sýningar þar sem íslenskum og erlendum listamönnum með taumlausa sköpunargleði í farteskinu er sleppt lausum. Hins vegar er ekki hægt að komast hjá því að Marshallhúsið ber með sér vissan gæðastimpil sem kemur til með að hafa áhrif á sýningarhaldið. Allt vel málað og nýtt. Viðmiðin hækka og líklega væntingar staðarhaldara til framsetningar sömuleiðis. Það verður spennandi að sjá hvort ferskleiki æskuáranna muni ná að halda velli á stað eins og þessum

„Við erum áfram Kling og Bang“ sagði einn af meðlimunum. Það verður áhugavert að fylgjast með gangi mála og sjá hvað næstu ár bera í skauti sér. Öll róttækni, fyrr eða síðar, hneigist til þess að gangast við stofnanavæðingu með tilheyrandi formerkjum. Hún breikkar menningarflóruna og verður að lokum samþykkt, en víkur jafnframt fyrir nýjum rótarskotum. Þar er nauðsynleg þróun að gefa rými fyrir nýgræðingana sem hafa eitthvað nýtt fram að færa og eru kannski ekki alltaf sammála forverum sínum og kennurum.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Stúdíó Ólafur Elíasson

Yfir stofnsettri grasrótinni skín sólin í Stúdíó Ólafur Elíasson sem starfsmenn i8 munu halda á lofti.  Ólafur Elíasson er nú í fyrsta sinn með sitt eigið rými fyrir verk sín á Íslandi, sem kemur til með að vera opið almenningi á sömu tímum og aðrir sýningarsalir í húsinu. Að sögn Þorláks Einarssonar úr i8 vill Ólafur styrkja taugina sem hann hefur til Íslands og vinna meira „hér heima“ og hafa einhvern samastað. „Meiningin er að þetta eigi að vera lifandi. Vissulega erum við að sjá eitthvað sem heitir sýning, en verkunum verður skipt út reglulega án þess að það sé tilkynnt,“ segir Þorlákur. Hann vonast til þess að gestir Marshall hússins komi við reglulega til að fylgjast með þróun rýmisins og kynnast verkum Ólafs í meiri nánd en áður hefur verið hægt hér á landi.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

 Vofa Góðæris

Opnunardagurinn vakti hjá sumum margvíslegar og blendnar minningar. Yfir sumum gestum sveimaði vofa síðasta góðæris. Stemningin minnti einhverja á Klink og Bank, listamannakollektívið í gamla Hampiðjuhúsinu við Hlemm í boði Landsbankans á hagvaxtarárum síðasta áratugar.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Fáu virðist þó vera hægt að líkja saman við þessi tvö rými annað en að fjársterkur aðili komi að tilvist þess að einhverju leyti. Þá var það Landsbankinn sem færði hópi listamanna hús til afnota án endurgjalds. Gamalt og hrátt verksmiðjuhúsnæði sem varð að einum allsherjar suðupotti fyrir íslenskt myndlistarlíf á sínum tíma. Nú kostar HB Grandi hugmynd sem kviknaði á arkitektastofunni Kurtogpi. Hér er enginn með frípassa í partýið. Allir borga leigu til þess að geta verið í Marshall húsinu. Svo hefur stemningin líka verið nokkuð hráslagalegri í Hampiðjuhúsinu heldur en hér í einu af fallegri húsum borgarinnar.

Kvikmynd um Klink og Bank eftir Þorfinn Guðnason

Nú á dögunum tók Reykjavík Grapevine viðtal við forsvarsmenn Kling og Bang þar sem kom fram að margir voru ósáttir með samstarf listahópsins við Landsbankann á sínum tíma. Þau sögðust þó telja að eftir á hafi flestir verið sáttir með að þetta hafi verið gert. Það segir sig sjálft að verkefni eins og þessi gætu aldrei orðið að veruleika án sterkra fjármögununaraðila. HB Grandi er eigandi Marshallhússins og kom að endurbyggingu þess. Þó þar sé fjársterkt fyrirtæki á ferð er ekki hægt að segja að sá rekstur sé sambærilegur við einkarekinn Landsbankann á tímum útrásarvíkinganna.

Hins vegar eru ýmis merki um að við séum að sigla inn í nýtt góðæri í boði erlendra gesta sem leggja leið sína hingað til eyjunnar. Það var reyndar áhugaverð tilviljun að í sömu viku og Marhsallhúsið var opnað hafi gjaldeyrishöftunum verið aflétt fyrir fullt og allt. Það er skiljanlegt að fólk velti því fyrir sér hversu lengi þetta nýja síldarævintýri muni endast. Við erum ennþá brennd eftir síðustu vertíð. Staðreyndin er allavega sú að hér er búið að endurhanna hús við höfnina í nafni og þágu listarinnar. Hvernig sem hagkerfið kemur til með að sveiflast til og frá mun þetta rými standa og hýsa fjöldan allan af stefnumarkandi myndlistarsýningum í nánustu framtíð.

Þrjár sjálfstæðar listastofnanir sem munu njóta góðs af því að sitja allar undir sama þaki. Það er ekki of mikil peningalykt í húsinu, enda búið að skipta um jarðveg og fjarlægja lýsistankana. Eftir stendur listilega hannað sýningarhús með veitingahúsi og bar á jarðhæðinni. Hvort núverandi rekstrarfyrirkomulag muni haldast óbreytt í húsinu um ókomna tíð verður bara að koma í ljós. Nú geng ég listmettaður úr Marshallhúsinu og bíð spenntur eftir næstu sýningum. Bjartir dagar eru framundan í lífi og þróun listarinnar hér á landi sem er ef til vill að slíta grasgrænum barnskónum hér á granítgráum gólfunum.

Höfundur: Viktor Pétur Hannesson


Einkennismynd: Helga Óskarsdóttir

Valtýr og félagar

Valtýr og félagar

Valtýr og félagar

Yfirlitssýning á verkum Valtýs Péturssonar í Listasafni Íslands , 24.9.2016 – 26.03.2017.

Sýningin er samstarfsverkefni Listasafns Íslands og Listaverkasafns Valtýs Péturssonar sem var stofnað eftir að hann lést.  Á vef Listasafns Íslands kemur fram að síðasta yfirlitssýning á verkum Valtýs hafi verið haldin árið 1986, fyrir 31 ári síðan, og sé „því löngu tímabært að kynna þennan fjölhæfa myndlistarmann fyrir nýjum kynslóðum og veita þeim sem eldri eru tækifæri til að endurnýja kynnin, en margt í verkum Valtýs kallast á við samtíma okkar og gefur tilefni til að skoða þau í nýju ljósi“.

Valtýr var í hópi íslenskra listamanna á eftirstríðsárunum sem hrundu af stað formbyltingu í málverkinu hér á Íslandi. Ásamt nokkrum félögum sínum í stéttinni byggði hann brú áhrifatenginga milli Evrópu og Íslands með óhlutbundnum myndflatarrannsóknum og litatilraunum. Hann var bæði listmálari og gagnrýnandi, en í bók sem var gefin út með sýningunni er ferill hans rakinn ítarlega.

Sýningin sjálf er sett upp á nokkuð hefðbundinn hátt, í anda klassískra listasögusýninga: Sýningarveggirnir skiptast í tímabil eða einhver konar þemu og verk Valtýs sett í sitt sögulega samhengi. Ferill listamannsins var mjög fjölbreytilegur þar sem hann reyndi fyrir sér í margvíslegum stílum, allt frá strangflatarverkum til litríkra mósaíkmynda. Hefðinni samkvæmt er Valtýr settur í samhengi við samtíma sinn þannig að hann er dreginn fram sem fulltrúi síns sviðs og skrifaður inn í svokallaða kanónu íslenskrar listasögu sem frumkvöðull og meistari.

Fyrstur Íslendinga?

Eftir upplýsingum á veggtexta sýningarinnar var Valtýr fyrstur Íslendinga til að bera fyrir augu samlanda sinna málverk í svokölluðum geometrískum abstraktstíl, eða „reglustikumálverk“ svo vitnað sé í hans orð. Í textanum kemur fram að árið 1951 hafi hann fyrstur Íslendinga sýnt „hrein geómetrísk abstraktmálverk í takt við það sem þá var efst á baugi í París“.

Sú fullyrðing virðist vera fengin úr fyrsta kafla bókarinnar um Valtý, sem Anna Jóhannsdóttir skrifar. Þar vísar hún í þriðja bindi íslensku listasögunar þar sem Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir vitnar í og túlkar orð Harðar Ágústssonar, samferðamanns Valtýs og félaga, þar sem Hörður segir að málverkið Á svörtum grunni (sem var sýnt á Septembersýningunni 1951 og er einnig sýnt hér í Listasafni Íslands) væri greinilegur „boðberi hinnar hreinu óhlutlægu listar” [1]. Ef rýnt er betur í þessa tilteknu heimild er margt sem bendir til þess að ekki sé hægt að taka hana upp sem sögulega staðreynd, eins og virðist vera gert hér á veggnum.

Árið 1953 skrifaði Hörður grein í tímaritið „Vaki“ þar sem hann tók saman yfirlit um myndlistasýningar sem voru haldnar í Reykjavík yfir veturinn 1952-1953. Í því yfirliti nefndi hann þó umrætt verk eftir Valtýr, sem hann hafði einnig birt mynd af í grein sinni um söguleg tildrög íslenskrar myndlistar, sem kom út ári fyrr í sama tímariti.

Yfirlýsing hans um þetta verk er þó greinilega ekki byggð á sterkari rökum en persónulegu áliti hans á samtíma sínum, þar sem hann viðurkenndi sömuleiðis að hafa ekki einu sinni séð þessa „umdeildu sýningu“. [5] Hins vegar eru þessi orð Harðar túlkuð þannig að Valtý er veittur sá heiður að vera „fyrstur íslendinga“ að bera fram á strigann hreint og óhlutbundið myndmál.

Önnur atriði er hægt að nefna sem veikja enn fremur þessa staðhæfingu sem hefur verið prentuð í Listasögu Íslands. Til að mynda má sjá í sýningarskrá Septembersýningarinnar 1951 þeim félögum Valtý og Þorvaldi Skúlasyni stillt upp saman á sömu opnu. Þar virðist myndmál þeirra vera á mjög svipuðum slóðum. Að vísu eru línurnar í verki Þorvaldar nokkuð frjálslegri heldur en Valtýs, en þó er greinilegt að þeim tveimur ber af í óhlutlægum myndrannsóknum, ef litið er á myndir annarra þátttakenda á sýningunni. Í sömu grein eftir Önnu Jóhannsdóttur er reyndar tekið upp eftir Valtý að þeir Þorvaldur hafi verið einu Íslendingarnir sem væru „alveg abstrakt“. [3]

Í fórum Listasafns Háskóla Íslands eru þó nokkur verk í geómetrískum stíl eftir Þorvald frá árinu 1951; bæði málverk og teikningar. Einnig er til skissa eftir Þorvald sem svipar mjög til þeirrar myndar sem endaði á sýningarskrá Septembersýningarinnar 1951. Sú teikning er mjög stílhrein og geómetrísk, þó hún sé ekki endilega teiknuð upp með hjálp reglustikunnar, líkt og með málverkið.

Þorvaldur Skúlason, teikning, 1951, Listasafn Háskóla Íslands
Ef til vill er hægt að rökræða um það hvenær og hvernig gemóetrían eigi að teljast sem hreinust. Vissulega formuðu listamennirnir bæði hér á Íslandi og erlendis ýmis konar regluverk í kringum málarastílinn þar sem til dæmis náttúrulegum litum var afneitað. Samt sem áður er skilgreiningin á geómetrískri abstraktlist of afstæð til að geta eignað einum listamanni heiðurinn af þeim stíl- „innflutningi“ til landsins.
Þorvaldur Skúlason. Skissa fyrir sýningarskrá, Septembersýningin 1951. Listasafn Háskóla Íslands.
Forsíða sýningarskráarinnar fyrir Septembersýninguna 1951.

Hér er ekki verið að gera lítið úr þrautseygju og elju Valtýs í sínu starfi. Þvert á móti er það á hreinu að hann, ásamt Þorvaldi og öðrum í September hópnum hafi unnið mjög mikilvægt starf í þágu myndlistarinnar hér á Íslandi, innleitt stílbrigði frá listalífi meginlandsins og gert að sínu. Hins vegar velti ég því fyrir mér hvort það skipti einhverju máli að eigna einhverjum einum heiðurinn að þessum tiltekna áfanga. Hægt er að líta á þetta sem tímabil þar sem margir einstaklingar með hugsjónir komu saman og formuðu sameiginlegt myndmál þar sem innlegg allra sem pensli eða meitli gátu valdið höfðu áhrif sín á milli. Spurninginni um það hver fór fyrstur yfir marklínu strangflatarmálverksins á Íslandi er allavega erfitt, jafnvel óþarft að svara.

Seinna í bókinni um Valtý Pétursson nefnir Jón B.K. Ransú einmitt að í stefnuyfirlýsingum konkretlistamanna í Evrópu hafi þeir gengið „í berhögg við snilligáfuna,“[4] sem líka er hægt að tengja við andúð á hinu svokallaða frumleikakapphlaupi.

Valtý er veittur heiðurinn „að vera frumkvöðull hinna nýju viðhorfa í málverkinu“, og Þorvaldur ekki einu sinni nefndur til samanburðar. Ef verk þeirra eru borin saman er reyndar greinilegt að Valtýr hafi komist mun hraðar á lagið með að vinna sig beint inn í þessi „hreinu“ geómetrísku verk. Línurnar eru hreinni og „reglustikaðri“. Samt sem áður eru þeir félagar algjörlega á pari í sínum óhlutlægu rannsóknum.

Það hefði í það minnsta verið æskilegt að stíga varlega til jarðar í stað þess að taka Valtý svona kyrfilega út fyrir sviga í nýútgefinni listasögunni, og byggja það á skoðun eins manns sem sá ekki einu sinni téða sýningu. Auk þess virðist fullyrðingin gera lítið annað en að þjóna úr sér genginni listpólitískri orðræðu í frumleikakapphlaupi listasögunnar.

Í skrifum um myndlist virðist vera til staðar viss hefð að slá upp einstaklingsmiðuðum hetjumyndum af listamönnum sem allir syntu þó í sömu „bóhem – súpunni“ og nutu góðs af samneyti hvors annars. Umfjöllunin verður einstaklingsbundnari en raunveruleikinn hafði kannski upp á að bjóða. Vissulega voru og eru listamenn að einhverju leyti einyrkjar sem eyða löngum stundum í einmannalegum vinnustofum sínum. En neisti áhrifanna kviknar ekki upp úr einmannaleikanum, heldur samverunni og samtölum sem þessir kyndilberar myndmálsins áttu sín á milli. Ef til vill byggist þetta á því hvernig skrifað var um listamenn á þessum tíma, en áfram er vitnað í orð og skoðanir þeirra sem nægilegan sannleik til að setja fram sögulegar staðreyndir.

Eins og fram kom hér í upphafi, þá stendur í kynningartexta um sýninguna að það sé löngu kominn tími á að kynna Valtý fyrir nýjum kynslóðum, og að skoða hann í nýju ljósi. Þessi orð gætu ekki verið sannari, bæði um Valtýr og samferðamenn hans. Á annars glæsilegri og áhugakveikjandi sýningu er erfitt að sjá hvar nýja ljósið skín, hvorki hvaðan né hvert. Allavega finnst það ekki í kanóniseruðum veggtextunum sem hefðu mátt fara í gegnum staðreyndapróf. Kannski mætti dreifa út geislum ljóskastarans og varpa ljósi á víðara samhengi þessa tímabils í stað þess að halda áfram gamalgróinni orðræðunni um frumleikakapphlaup og sjálfsprottna snilligáfu einyrkjanna.

Höfundur: Viktor Pétur Hannesson


[1] Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir. „Formbylting“, Íslensk listasaga frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar, . bindi: Abstraktlist, bls. 68.

[3] Anna Jóhannsdóttir. „Um listarinnar höf – Siglingar í lífi Valtýs Péturssonar“. Valtýr Pétursson. Ritstj. Dagný Heiðdal. Listasafn Íslands, Reykjavík 2016.  bls. 32.

[4] Jón B.K. Ransú, „Þjóðlegir Tónar um alþjóðlega strauma“, Valtýr Pétursson, bls. 62.

[5] Hörður Ágústsson, 1953: „Listsýningar veturinn 1952-1953″, Vaki, 1. tbl. 2. árg., bls. 55-61 ( bls. 58).

Von í Hafnarborg

Von í Hafnarborg

Von í Hafnarborg

Nú rétt eftir kosningar og í upphafi umleitanir flokka um nýja ríkisstjórn stendur yfir sýningin Von í Hafnarborg þar sem þingmenn eru sett í fyrirrúm. Í upphafi árs 2015 hóf Birgir Snæbjörn Birgisson vinnu við verkið sem hefur vakið talsverða athygli og tekið sinn tíma í framkvæmd. Myndirnar á sýningunni sýna þingmannatalið á árinu 2015. Svo fölar eru myndirnar að það er ekki augljóst við fyrstu sýn hvaða þingmaður er hvað.

Látlaust yfirbragð myndanna renna saman í eina heild. Hún rímar við hugsjón um þing sem starfar í friði og samheldni. Jafnframt vísa þær til þess að þingið mótar samfélagið. Þingmenn hafa áhrif og þeir sem heild móta samfélagið á jafn óljósan hátt og myndirnar af þeim eru. Eins og draugar nánast hafa þeir hlutverki að gegna undir skipulagi sem var fyrir þeirra tíma og verður áfram um ókomna framtíð.

Það er ekki allt sem sýnist. Það er eitthvað undir yfirborðinu ef betur er að gáð. Verkið er pólitískt en skilur upphrópanir eftir við dyrnar. Verkið segir ekki mikið til að byrja með rétt eins og Alþingishúsið eitt og sér er einungis bygging. Með því að gefa verkinu gaum verða hugrenningar um verkið jafn margar og áhorfendur eru margir.

Þingmennirnir eru allir eins en jafnframt ólíkir. Þeir eru eins og við, næstum því. Þeir endurspegla okkur í samfélaginu og á móti endurspeglum við þá. Von vísar til þess að þingmennirnir standa fyrir væntingum okkar, ótta og þrám. Hjá þeim skilum við vonbrigðum okkar og kvíða. Von um eitthvað betra er sett á þeirra herðar en kannski þurfum við að gera meiri væntingar til okkrar sjálfra.

Í verkinu eru allir þingmennirnir ljóshærðir og bláeygðir. Ljóshærðar staðalímyndir hafa áður skotið upp kollinum hjá listamanninum en hér eru bláu augun og ljósa hárið mjög óljóst að það reynir á sjónina. Það kallar á ákveðna einbeitingu. Séu skilaboðin yfirfærð í raunveruleikann, geta þau verið þau að það tekur á að fylgjast með starfinu á Alþingi. Jafnvel ollið ergelsi.

von1

Þegar Birgir byrjaði á verkinu var ekki fyrirséð að það yrði við opnun í aðdraganda kosninga. Eftir mikið umrót, mótmæli og boðun nýrra kosninga á verkið erindi inn í samfélagslega umræðu eins og fiskur í sjó. Í ljósi þess að formenn flokkanna virðast bjartsýnir og hafa nýlega talað um betri vinnubrögð á Alþingi, er komin von. Það er einnig von að Birgir reynir sannspár með verkinu. Að við fáum að sjá betri stjórnmál, laus við átök og skotgrafir þar sem Alþingi vinnur saman og leysir okkur undan átökum í samfélaginu.

Sýningin stendur til 20. nóvember

Júlía Marinósdóttir

Tekist á við frelsið

Tekist á við frelsið

Tekist á við frelsið

Listsköpun sem rannsóknartæki er áhugavert fyrirbæri sem fleiri og fleiri hafa gefið gaum. Ekki eru til margar bækur sem skrifaðar eru út frá sjónarhóli listamanna sjálfra um hvernig þeir líta á listsköpun sína sem rannsóknartæki og er því fagnaðarefni þegar slík bók kemur út. Í fyrra gaf Crymogea út bókina ‘Make a Painting of Trees Growing in a Forest / Erla S. Haraldsdóttir Selected Works’ (2015). Bókin var gefin út af tilefni einkasýningar Erlu í listasafninu í Kalmar í Svíþjóð síðla hausts sama ár og var útgáfan gerð möguleg vegna styrks frá Längmanska listasjóðnum í Svíþjóð og Myndlistarsjóðnum á Íslandi. Erla sjálf hefur verið búsett í Berlín í Þýskalandi um árabil og ólst upp bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Hún er einn af eftirtektaverðustu listamönnum þjóðarinnar og á verk í eign helstu listasafna landsins.

makeapaintingbokFormáli bókarinnar er skrifaður af samstarfsmanni Erlu til margra ára, sýningarstjóra sýningarinnar Jonatan Habib-Engqvist sem jafnframt tekur forvitnilegt viðtal við listamanninn þar sem farið er út í aðferðarfræði Erlu við málunina sjálfa. Jonatan er kennismiður á sviði málverksins í Svíþjóð og á alþjóðlegum vettvangi en hann ritstýrði meðal annars bókinni ‘Thinking Through Painting’ (2014) sem fjallar um athöfnina að mála sem listrannsóknartæki. Í viðtalinu leggur Erla fram það sjónarhorn að það að standa frammi fyrir auðum striganum sé eins og að búa sig undir það að steypa sér út í ævintýri sem eigi eftir að færa sér ófyrirséðnar uppákomur. Hún hafi enga stjórn á þeim, þær gerast bara í ferlinu og sem hún verði að lúta þeim, mæta á vellinum og tækla. Það sé mikilvægt að það sem er framundan sé óráðið annars myndi henni fara að leiðast fljótlega. Hún líkir þessu við að henda sér út í ólgandi fljótið snemma að vori. Það sé sársaukafullt að stökkva ofan í og missa þannig stjórn. Hún verði bara að berast með straumnum, takast á við það sem gerist á leiðinni og náttúrulögmálin og á sama tíma reyna að stýra líkamanum í þessari hringiðu. Viðtalið heldur síðan áfram og kemur inn á tækin sem hún notar við rannsóknina eða ferðina; litanotkun, beitingu pensilsins, lýsingu, sjónarhorn, val á myndefni og annað sem mjög upplýsandi er að lesa um.

bokattach
Erla S. Haraldsdóttir „Make a painting of trees growing in a forest“, 2015, monograph. Crymogea. Hönnun: Ariane Spanier, Stephie Becker, Texti: Christoph Tannert, Dr. Kyllikki Zacharias, Jonatan Habib Engqvist.

Það var texti þýska sýningarstjórans Kyllikki Zacharias sem vakti mesta athygli hjá mér. Í greininni fjallar Kyllikki um aðferðarfræði Erlu við rannsókn og undirbúning eða um þá leið sem farin er áður en sest er niður og málað. Erla beitir aðferðarfræði sem hún kallar ‘Task Painting’ eða ‘Málað samkvæmt tilmælum’. Bókin fjallar um málverk sem hófu vegferð sína sem tilmæli til listamannsins frá Magnúsi Sigurðssyni, Craniv Boyd, Hildigunni Birgisdóttur, Stanislaw Ruksza, Katarzyna Kalinka og óþekktum vætti í Witherle skógi í Maine í Bandaríkjunum. Í greininni sem inniheldur fjölda ljósmynda er rakin aðferðarfræði sem byrjar á því að Erla biður vini sína um að gefa sér tilmæli sem verða að útgangspunkti rannsóknarvinnu þar sem Erla viðar að sér myndefni sem tengist tilmælunum. Erla fer í ferðalag sem innblásið er af þekkingu hennar á listasögu heimsins og náttúrulegum fyrirbærum og landslagi en einnig myndbrotum úr hversdagslífinu. Myndirnar eru valdar af kostgæfni og síðar notaðar til hliðsjónar við málunina. Það er á þessu stigi sem Erla stendur á bakka fljótsins og hendir sér út í af miklu hugrekki og rannsóknin heldur áfram sem athöfn eða praktík. Vandlegur undirbúningur er þannig ekki sama og fyrirsjáanleiki. Með þessari aðferð verður Erla að eigin sögn að rottu sem byggir eigin völundargöng og vitnar þar í franska rithöfundinn Raymond Queneau. Þarna er Erla að tækla hið óendanlega listræna frelsi sem listamenn hafa notið í sköpun sinni síðan á 19. öld og meitlar sér leið í gegnum sjálfskipaðar takmarkanir tilmælanna til að komast að kjarnanum – hún finnur undankomuleið. Hún þarfnast þessara sjálfbyggðu takmarkana og undankomuleiðar vegna þess að þetta algera frelsi gerir auðann strigann að einskonar plánetu án sportbrautar. Það vanti sólina eða kerfi til að snúast í kringum. Algert frelsi sé líka alger ábyrgð á útkomunni og þannig verði auði hvíti striginn að martraðakenndu hyldýpi.

dok_erla_s_h_kalmar_konstmuseum_2015_11_michelangelo_miskulin_47„Make a Painting of Trees Growing in a Forest“ 2015. Solo exhibition. Kalmar konstmuseum, Kalmar, Sweden. Ljósmyndari: Michelangelo Miskulin.

Fremst í bókinni er að finna inngangstexta eftir listrænan stjórnanda Bethanien listastofnunarinnar, Christoph Tannert, en Erla er ein af fáum íslensku listamönnum sem hafa hlotið þann heiður að fá úthlutað vinnustofu í Bethanien sem staðsett er í miðju listasenunnar í Berlín. Það sem Tannert finnst áhugavert við málverk Erlu er að hún fetar sínar eigin leiðir um leið og hún á í stöðugu samtali við hefðina. Það er ekki nýtt af nálinni að listamenn noti sjálfskipaðar takmarkanir eða reglur og tilmæli til að fást við listköpun sína. Það sem er áhugavert er að skoða hvernig Erla daðrar við liststefnur og aðferðir fortíðar á hátt sem tikkar í takt við samtímann. Tannert vitnar í Erlu sem tekur fram að hún skilji það sem svo að hlutverk málverksins í samtímanum sé fólgið í því að það skapi rými fyrir sálir einstaklinga, það gefi sálinni rödd í augnablikinu. Hin einstaka rödd sé á sama tíma hin samfélagslega rödd, og staðbundin rödd sé að sama skapi hin algilda rödd. Hún vonar að málverkin hennar séu aldrei lokaniðurstöður, heldur mikið frekar að þau opni slík rými.

genesis_hallgrim
Frá Genesis sýningunni í Hallgrímskirkju. Ljósmyndari: Vigfús Birgisson.

Bókin fæst víða í borginni. Meðal annars í Mál og Menningu og á öllum helstu söfnum. Það er lærdómsríkt að spegla eigin listsköpun í aðferðarfræði Erlu og um að gera að næla sér í eintak en einnig vegna þessa að um þessar mundir stendur yfir önnnur einkasýning Erlu í Hallgrímskirkju. Það hefur hún tekið fyrir sköpunarsöguna sem einhvers konar tilmæli til að hefja skapandi feril. Í sýningarstjóratextanum kemur Jonatan inn á það að með því að nota þá listrænu aðferð að skapa kerfi í kringum listsköpun sína þá nálgist Erla á gagnrýnin hátt langlífar en út úr sér gengnar hugmyndir um hinn guðdómlega innblástur og skylda hugmynd um að listamaðurinn skapi úr engu – ex nihilo. Málverkin í Hallgrímskirkju byggja á sjö teikningum úr Íslensku teiknibókinni en hafa í höndum Erlu dýpkað verulega tilvísunarheim sinn. Þarna er vísað í íslamska list, tarot spil, mynsturgerð Ndebele fólksins í Suður-Afríku, egypskar fornminjar, dulspeki gyðinga, evrópska sem og íslenska og japanska list en líka hversdag Erlu sjálfrar. Málverkin verða ferðalag um heim Erlu. Höfuðverk sýningarinnar er málað með hliðsjón af símamynd sem hún tók upp í rúmi af sjálfri sér liggja í leti á sjöunda degi vikunnar. Gefur hún í skyn að letin sjálf sé þar sem uppruna sköpunar sé að finna.

Heimasíða Erlu fyrir frekari upplýsingar: erlaharaldsdottir.com

Sýningu lýkur 20. nóvember n.k.

Hulda Rós Guðnadóttir

Sálnasafnið – súrrealísk óvissuferð

Sálnasafnið – súrrealísk óvissuferð

Sálnasafnið – súrrealísk óvissuferð

Gjörningaklúbburinn framdi á dögunum afar sérstakan og marglaga gjörning á gjörningalistahátíðinni Everybody´s Spectacular. Reykjavík Dance Festival og Lókal stóðu að hátíðinni og stóð hún yfir frá 24.-28. ágúst. Gjörningaklúbburinn samanstendur af Eirúnu Sigurðardóttur, Jóní Jónsdóttur og Sigrúnu Hrólfsdóttur. Gjörningaklúbburinn var stofnaður árið 1996 og kom fyrst fyrir sjónir almennings með eftirminnilegum gjörningi í sjónvarpssal þegar þær tóku að sér að kynna gjörningakvöld með gjörning sem nefndur var Kossagjörningur þar sem þær kysstu hver aðra á skjá allra landsmanna.

Að þessu sinni situr Sigrún hjá en hún er í starfsleyfi frá Gjörningaklúbbnum vegna annarra verkefna, en Jóní og Eirún hafa fengið til liðs við sig fagfólk úr ýmsum listrænum áttum og skapað óvissuferð sem ætlað er að vekja spennu og gleði. Farið er á margbrotinn stað og gestir eru leiddir í gegnum sögu staðarins og aldurskeið manneskjunnar. Titill verksins á ensku er Psychography en hefur fengið hina íslensku þýðingu Sálnasafn. Fyrsta vísbendingin um innihald verksins er falin í titli þess. Óvissuferð gefur rými fyrir upplifun, dulúð, leiðangur, spennu og skemmtilegheit.

Allt þetta fengu gestir í gjörningnum Sálnasafni að upplifa. Farið var inn í rými og víddir sem undirritaðri fannst súrrealískar og óraunverulegar en á sama tíma nærtækar og þægilegar. Í raun mætti kalla uppákomuna framsetningu á lífinu og hinu liðna og mismunandi tónum þess þar sem hugarheimur, saga og hugmyndafræði Gjörningaklúbbsins og félaga þeirra úr listheiminum er sett fram.

Myndskreyttar aðstæður og drungaleg skúmaskot, minningar og langanir, þjóðsagnir og persónulegar hugrenningar. Gestunum er gert kleift að ganga inn í gjörninginn, inn í listina, með sínar hugmyndir í farteskinu en eru á sama tíma matreiddir með hugmyndum og sögu Gjörningaklúbbsins og staðarins þar sem gjörningurinn fer fram. Úr þessu verður skemmtilegt og litríkt samspil raunveruleikans og listarinnar. En hefjum nú ferðalagið.

UPPHAF

Áhorfendur eru aðeins sextán talsins og hafa fengið þær einu upplýsingar að vera vel skóaðir og klæddir eftir veðri, og að gjörningurinn taki að hámarki fjóra klukkutíma. Lagt er af stað með rútu frá Hallgrímskirkjutorgi, nánar tiltekið frá Listasafni Einars Jónssonar. Þeir sem hafa keypt sér aðgöngumiða, hittast á torginu og eiga sæti í rútunni. Það ríkir mikil spenna og tilhlökkun þegar fólk mætir. Hvergi sést þó til Gjörningaklúbbsins. Fólk hittist og spjallar saman, er þó feimið og veit í raun ekki hvað er í vændum. Það hvílir dulúð yfir verkefninu og spennan liggur í loftinu. Stúlka frá gjörningalistahátíðinni heldur á spjaldi og á því stendur Psychography. Hún safnar gestunum saman og leiðir þá inn í rútuna. Rútan leggur af stað og innan skamms fer í gang hljóðupptaka þar sem gestir rútunnar heyra að talað er um stað og hús, fólk sem þar hafi átt heima og fyrrverandi íbúa hússins sem neitar að yfirgefa staðinn þó löngu dauður sé. Gjörningamaddömurnar hafa fengið miðilinn Brynju Magnúsdóttur Lyngdal á staðinn til að hrekja út óæskilega anda til að hægt sé að fremja þar gjörning. Grafarþögn er í rútunni og gestirnir hlusta einbeittir á frásögnina. Þar heyrist að gengið er um húsið og miðillinn sér fyrri ábúendur. Það læðast um rútugesti blendnar tilfinningar og örlar á ótta hjá sumum.

eirunogjoni1Veðrið er yndislegt, birtan leggst á fjöllin og umvefur rútugesti en upplýsingarnar sem hljóma á hljóðbandinu eru dulúðlegar og drungalegar. Gestir spekúlera hvert förinni er heitið og koma með getgátur og að endingu staðnæmist rútan í Hvalfirði við bæinn Hvammsvík í landi Hvamms í Kjós. Samkvæmt Landnámabók er Hvammur gömul landnámsjörð þar sem Hvamm-Þórir nam land og bjó en fram kemur í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns að Hvammsvíkur er fyrst getið sem hjáleigu á 17. öld. Hernaðarumsvif voru í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni og segir Friðþór Eydal í grein sem hann birtir í Morgunblaðinu að bandamenn hafi komið sér upp aðstöðu hér á landi „til að fylgjast með og hefta siglingar þýskra herskipa og verja skipaleiðir sínar á norðaustanverðu Altantshafi“. Í Hvammsvík var reist birgðastöð fyrir skotfæri og djúpsprengjur flotans og einnig var þar tómstundaheimili fyrir skipshafnir Bandaríkjaflota. Mikil saga einkennir staðinn og Eirún og Jóní segja þær hafi fundið fyrir þeirri sögu á meðan á undirbúningi stóð. Miðill þurfti til að mynda frá að hverfa og annar kom í hans stað til að hægt væri að halda áfram með verkefnið.

Maddömurnar Eirún og Jóní taka á móti gestum þegar rútan rennur í hlað í Hvammsvík. Þær eru klæddar í upphlut í stríðslitum og plíseraðar ferskjulitaðar silkiblússur. Búningurinn er hannaður af Gjörningaklúbbnum sérstaklega fyrir verkið og saumaður af Söru Maríu Skúladóttur klæðskera. Maddömu eru með snúða sem má líkja við skúlptúra í hárinu og appelsínugula málningu á augum undir Ray Ban sólgleraugum en förðun og hár er í höndum Fríðu Maríu Harðardóttur förðurnarmeistara. Maddömurnar eru ákveðnar og kotrosknar eins og maddömur eiga að sér að vera, bjóða gesti velkomna og vísa þeim í hús neðst á landareigninni. Þar er gestum gert að setja síma og aðra hluti í glæra plastkassa til geymslu. Því næst er þeim sagt að safnast í hring og loka augunum. Ákveðinn ótti við staðinn og það sem framundan er hefur læst um sig í áhorfendum eftir að hafa hlýtt á sögu staðarins í rútunni. Gestum er því létt þegar tekið er mjúklega um hönd þeirra, band dregið á úlnliðinn og þeim sagt að opna augun. Liturinn á bandinu segir til um hvaða hóp þeir tilheyra, nánar tiltekið hvaða fjölskyldu. Maddömurnar leiða gesti sína yfir í næsta rými, sem er fjárhúsið.

FJÁRHÚS

11

Þar eru fjögur borð og á hverju þeirra liggur leiðsögukort. Þeir gestir sem eru með brúnt band tilheyra Ewing fjölskyldunni, Kennedy fjölskyldan skartar gulu bandi, Kardashian klanið ber rauð bönd og Von Trapp fjölskyldan hvít. Þær sækja í kunnulegan efnivið og böndin eru klippt nælonsokkabuxnabönd en nælonsokkabuxur hafa oft verið sýnilegar í verkum Gjörningaklúbbsins á 20 ára ferli þeirra og jafnframt algengur efniviður í verkum femínískra listkvenna. Þær stöllur Eirún og Jóní taka það strangt fram, með sinni staðföstu röggsemi að nú eigi hver fjölskylda að fara í hópum og þræða gjörninginn, þær megi hjálpast að við að leysa verkefnið og nú reyni á samheldni og samvinnu, en að sjálfsögðu megi spyrja staðarhaldara ef eitthvað kunni að vera óskýrt. Samvinna hefur verið leiðarstef Gjörningaklúbbsins frá upphafi og þannig hafa þær virkjað kraftinn sem í þeim býr. Nú reynir á fjölskyldurnar að gera slíkt hið sama. Leiðsögukortin sýna Upphaf og Endi, Fjárhúsið, Hól, Vernd, Húsið, Völl og Losun og einnig Náðhús ef einhverjum skyldi verða mál. Þetta eru jú fjórir klukkutímar sem þykir býsna langt fyrir listviðburð á íslenskan mælikvarða en er álíka langt og japanskt Kabuki leikhús. Undirrituð tilheyrir Von Trapp fjölskyldunni sem er kát fjölskylda og músíkölsk en hefur þurft að flýja heimkynni sín vegna stríðs. Þeim er bent á að byrja í Hóli. Fjölskyldan skundar upp hæðina, upp að Hóli þar sem huldukona tekur á móti þeim, litrík og fögur í kunnulegum búningi úr eldri gjörningi, með litríka ofna slá og höfuðfat úr fléttuðum nælonsokkabuxum. Álfkonan er túlkuð af Sögu Sigurðardóttur dansara.

03

Hún gefur hópnum krukku með mjöð og áfram er haldið upp hlíðina þar sem valkyrjan býður fjölskyldunni að setjast inn í svart tjald sem alsett er hvítri blúndu og litríkum vafningum. Hún segir ekki orð og gestir ekki heldur. Hún ber gull um hálsinn og þjóðsagnaminni liggja í loftinu. Þarna ríkir algjör kyrrð og yndisleg þögn, eftirvænting og spenna. Út um tjaldopið má sjá Hvalfjörðinn í allri sinni dýrð sveipaðan sólargeislum og undirrituð upplifir hið undurfagra, hið súblíma í miðjum gjörningi á mánudagssíðdegi á meðan dansarinn hellir upp á íslenskt te úr gullmöðru í anda japanskrar tehefðar.

Það er áhugavert hvernig Eirún, Jóní og félagar ná að vísa í marga áðurframda gjörninga og áðurkveðin minni með kunnulegum munum og búningum. Aðspurðar hvort femínisminn sé á undanhaldi í gjörningum þeirra segja þær svo ekki vera, og enn séu þær að ögra samfélaginu með litlum myndrænum skrefum er hrófla við feðraveldinu og hinu karllæga samfélagi myndlista. Maddömmurnar eru jú konur og þær ráða ríkjum á jörðinni, þær gætu verið par eður ei sem vísar í nútímasamfélag þar sem rými er fyrir alla, konur og karla, samkynhneigða og gagnkynhneigða eða hvernig sem því er háttað.

01

VERND

Von Trapp fjölskyldan kveður Hól og hina undurfögru kynlausu veru er þar hefst við og tekur stefnuna í Vernd þar sem maddama Jóní fer með hvern gest inn í rými sem er umlukið brúnum þungum klæðum. Þar blessar hún gestinn og veitir honum styrk og vernd áður en leið hans um Húsið hefst, sama hús og kom fyrir í hljóðupptökunni á leið gesta að Hvammsvík og hússins sem getið er í Landnámu og ku hafa verið reimt. Þar skín titill verksins í gegn, Sálnasafn, því þar taka á móti gestum ýmsar sálir, sem bera sína krossa. Fjölskyldumeðlimir fara einn og einn inn í húsið og fylgja fyrirmælum Eirúnar. Á utanverðum húsveggnum hanga heiðagæsir og búið er að loka fyrir einn glugga með þykku laxableiku efni í plíseringum. Þessi sýn er falleg og húsið er fagurt þar sem það stendur í hlíðinni. Venjulegt gamalt steinhús sem stendur yfirgefið, eður ei, og raunveruleikinn er settur í leiktjöld eða gjörningatjöld öllu heldur. Myndlistin og leikhúsið mætast hér í samruna beggja miðla sem er þó skilgreindur sem myndlistargjörningur af þeim Eirúnu og Jóní.

Undirrituð heldur fyrst upp á efstu hæð hússins um mjóan teppalagðan stiga og er þangað er komið gengur hún inn í unglingaherbergið sem er rautt og hvítt, alsett poppkorni. Svo óraunverulegt en samt svo raunverulegt ef í það er spáð. Þar finn ég fyrir unglinginn sem Valgerður Rúnarsdóttir dansari túlkar. Unglingurinn er ófeiminn, spjallar og spyr hvort ég vilji naglalakk og ég játa því. Fæ eina nögl málaða túrkísbláa og því næst reynir unglingurinn að koma sér út um gluggann án mikils árangurs en þó með fögrum og fallega klaufskum og barnslegum hreyfingum að hætti atvinnudansara. Ég ákveð að vitja þess sem er í næsta rými en þar er að finna svartnætti rýmis og tíma. Ég er tvístígandi við að ganga inn í óvissuna sem býður mín en tek þó áhættuna því ég finn að í raun er ekkert er að óttast. Það reynist rétt og inn í rýminu er svartur hægindastóll og taktmælir í glugganum sem slær taktinn frá hægri til vinstri, tikk, takk, tikk, takk. Ég sit þarna í dálitla stund, dreg andann djúpt og hugsa um söguna af fólkinu í húsinu en finn ekki fyrir neinu nema góðu. Enda ekki nema von því í næsta rými er vonin og lífið, þar sem hægt er að gægjast inn um vagínuop þar sem allt er hvítt og mjúkt. Þar inni má sjá hitalampa, dúnsængur, bómul og fleira sem vísar í ljósmæður og fæðingu ungviðis. Þær Eirún og Jóní höfðu einmitt fengið fregnir af ljósmóður úr handanheimum sem sæist stundum í vesturglugga hússins. Þarna er gott að vera en að endingu dreg ég andlitið út úr leggöngunum og færi mig niður á næstu hæð.

05

Á þeirri hæð tekur eldhúsið á móti mér. Þar hitti ég fyrir mann sem er gömul lifuð sál og er leikinn af Sveini Ólafi Gunnarssyni leikara. Hann er góðlegur og vingjarnlegur en samt sem áður fær maður á tilfinninguna að ekki sé allt sem sýnist. Hann býður mér að setjast niður og þiggja kaffi og kleinur. Tilvísanir í gamla siði og húsmóðurstörf má sjá í eldhúsinu en nú er hlutverkunum snúið við og karlmaður stendur þar við borð og segir sögur á meðan hann hellir upp á kaffi. Umgjörðin er sjúskuð og langt frá því að vera mínimalísk. Þurrkaður gróður hangir á víð og dreif og það glittir í haglabyssu sem ég hef áður séð í gjörningnum Dynasty frá árinu 2007.

06

Eftir smá spjall og kaffisopa biður maðurinn mig um að dýfa höndum mínum í deig á borðinu og fara með þulu, síðan leiðir hann undirritaða að dyrum sem vísa að næsta herbergi og segir: „Þú snýrð ekki hingað aftur og leyniorðið er: Ástin sigrar allt“.

Handan við dyrnar tekur við rými sem er bjart og kalt á sama tíma með einkennilegri lykt sem undirrituð áttar sig ekki á. Inni í nælonsokkabuxum sem festar hafa verið í loftið hanga steinar og gestir þurfa að komast þarna í gegn ætli þeir sér í næsta herbergi. Herbergið eða innsetninguna kalla þær Eirún og Jóní Sátt og á þessum stað í húsinu fann miðillinn mikla neikvæða orku sem stafaði frá manninum sem vildi ekki yfirgefa húsið fyrr en degi fyrir frumsýningu gjörningsins. Út um gluggann sem snýr í suður má sjá stórt fótboltamark niðri á velli alsett köðlum og þráðum í hinum ýmsu litum. Karlmaður með svartan pípuhatt og tölvu dansar þar um í einhvers konar samtali við sjálfan sig. Ég staldra aðeins við en mér finnst ekki þægilegt að vera í þessu rými þannig að ég banka á næstu hurð. Þar tekur á móti mér frönsk stúlka frá stríðsárunum leikin af Eddu Björg Eyjólfsdóttur leikkonu.

07

Herbergið lyktar af ódýru ilmvatni, viskí og vindlareyk. Þungar flauelsgardínur eru fyrir gluggum og stúlkan sem virðist hafa lifað eitt og annað talar við undirritaða á frönsku. Við ræðum yfirborðslega um hvað megi bjóða mér; frönsk ilmvötn, sígarettur eða nælonsokkabuxur. Andi stríðsáranna liggur í loftinu og greinileg vísun í þau í munum sem hefur verið raðað upp í herberginu og í útliti og fasi maddömmunar sjálfrar. Skemmtanalíf og taumlaus „gleði“ einkennir rýmið eins og gerði í raun á stríðsráunum í húsinu öllu.

08

Á fyrstu hæðinni er magnað rými þar sem búið er að mála herbergið í ljósum ferskjulit, ljósdrappaður sandur er á gólfum og ljós og létt tjöld á veggjum hylja gluggana. Mjög hlýlegt er í herberginu en óraunverulegt á sama tíma. Þar inni stendur píanóskemmtari og harmónikka og yfir hangir stór spegill. Sitthvoru megin við standa tveir hátalarar. Þar tekur á móti mér afar líflegur og jákvæður píanókennari að nafni Vera Helgadóttir sem leikinn er af Thelmu Marín Jónsdóttur leikkonu. Þetta rými er engu líkt og vellíðan færist yfir undirritaða. Ég og annar meðlimur úr Von Trapp fjölskyldunni erum þar inn á sama tíma. Kennarinn spyr til nafns og býður okkur velkomin í tímann og býður mér að setjast. Ég sest við hljóðfærið og hún biður mig að spila. Hvetur mig áfram og hrósar á meðan hinn meðlimur fjölskyldunnar spilar á harmóníkuna. Eftir nokkra stund kíkir hún út um gluggann og segir að það sé komið að sækja mig, lætur staðar numið og kveður. Það er erfitt að lýsa stemmningu og tilfinningu en þarna var eitthvað alveg sérstakt á ferðinni, eitthvað ólýsanlegt sem nær tökum á áhorfandanum og leiðir hann í skemmtilegar víddir, eitthvað sem minnir á bernskuna, eitthvað sem ekki er hægt að festa fingur á. Eirún maddama kallar á undirritaða úr gjallarhorni fyrir utan hús og biður mig vinsamlegast um að drífa sig.

Maddömurnar standa fyrir utan hús og spjalla við bústörfin með skóflur í hendi og hætta ekki að vinna þó við göngum fram hjá. Þegar undirrituð snýr sér við og horfir upp hlíðina má sjá fjórar sængurkonur, klæddar í dúnsængur úr gjörningnum Von sem Gjörningaklúbburinn framdi árið 2000. Þær fikra sig rólega upp með hlíðinni í birtunni og vísa í vonina. Þetta er alveg mögnuð sýn.

 LOSUN

09

Næst á dagskrá hjá Von Trapp fjölskyldunni er losun í innsetningunni Losun. Þar er dregill upp að dyrum, þó ekki rauður og dyravörður túlkaður af Sigrúnu Gyðu Sveinsdóttur sem hamlar fjölskyldunni inngöngu. Einn fjölskyldumeðlimur má fara inn í einu og undirrituð fær að fara inn eftir nokkra stund vegna góðrar hegðunar í röðinni. Inni í rýminu er eins manns diskó með diskókúlu og tónlist. Undirrituð er mjög meðvituð um að hægt er að sjá hana í gegnum gluggann og þetta rými er hvað erfiðast af öllum þeim rýmum sem hafa verið þrædd, því þarna er gesturinn á eigin vegum með sjálfum sér og enginn er til þess að skemmta honum nema hann sjálfur. Ég dansa aðeins en þó feimnislega og fer ekki á flug þó sumir gestir missi sig þarna inni og dansi hömlulausir í takt við tónlistina. Má gera ráð fyrir að þetta rými sé vísun í verkið Diskló þar sem Gjörningaklúbburinn setti diskótek upp á klósetti með diskókúlu og danstónlist og gat fólk þá dansað í einrúmi á klósettinu.

Þegar Von Trapp fjölskyldan hefur lokið við að losa um höftin í Losun bjóða maddömurnar upp á heimabakaðar rúllutertur og sandkökur og malt og appelsín. Þar sem við sitjum og ræðum upplifunina, eilítið feimin ennþá eftir losunina þá koma maddömurnar aðvífandi á fjórhjóli, Lórunni eins og þær kalla farartækið.

10

Þessi sýn er yndislega kómísk, þær mega nú ekki vera að neinu hangsi en spjalla við gesti og athuga birgðastöðu á veitingum. Að því búnu stíga þær aftur upp í lóruna og bruna á brott, önnur standandi kotroskin og svöl á sætinu. Von Trapp fjölskyldan hlær og spjallar saman og undirrituð lítur upp að húsinu þar sem unglingurinn hangir hálfur út um gluggann á húsgaflinum og reynir að ná sambandi við gesti, klædd rauðu og hvítu og litaðir kaðlar eru þræddir út í tré. Fegurðin í innsetningum og sviðsetningum í Sálnasafni er dásamleg og erfitt að lýsa því hvernig áhrif þær hafa.

Þegar fjölskyldan hefur lokið við að fá sér hressingu átta þau sig á því að þau eiga að snúa aftur á byrjunarreit; í upphafið, sækja föggur sínar og fara um borð í rútuna sem skilar þeim á upphafsreit hjá Hallgrímskirkjutorgi. Á leiðinni heim spjalla gestir saman og ræða upplifunina sín á milli. Gestirnir sextán eru kátir og glaðir eftir skemmtilega og fjölbreytta upplifun. Samt sem áður örlar á spurningum og óvissuþáttum á meðal gesta sem þeir ræða af áhuga í rútunni. Gestirnir sem voru feimnir og þöglir á leið á gjörning hjá Gjörningaklúbbnum eru nú málglaðir og spjalla um óvissuþætti og upplifunina alla. Takmarkinu hjá þeim Eírúnu og Jóní er líklega náð því í viðtali við Júlíu Marínósdóttur sem birtist í artzine segja þær að óvissan, bæði hin daglega óvissa og hin menningarlega sé eitt af markmiðum verksins.

ENDIR

Gjörningurinn Sálnasafn er marglaga óvissuferð sem lætur engan ósnortinn. Þessar safaríku sviðsmyndir eru greiptar í hugann. Smáatriðin eru óteljandi og áhugaverð og undirrituð er enn að hugsa um eitt og annað sem átti sér stað á þessu fjögurra tíma ferðalagi. Persónusköpunin er vel unnin og skemmtilegt er hvernig þær stöllur fá félaga sína, listamennina í lið með sér í þeirri vegferð. Árið 2011 fékk Gjörningaklúbburinn frjálsar hendur við gjörning sem þær frömdu í Lilith Performance Studio í Malmö og þar stóð þeim til boða mannskapur til að taka þátt í gjörningnum með þeim. Áhugafólk sem var til í að vera með. Upp frá því fór að gerjast hugmynd um að fá fólk og fagfólk með sér í lið. Það gerðu þær í gjörningnum Hugsa minna, skynja meira í Listasafni Íslands árið 2014 þar sem þær könnuðu mörkin milli myndlistar og leiklistar og „sameinuðu óbeislaða óvissu gjörningalistar og dramatíska persónusköpun leikhússins“ eins og segir á heimasíðu þeirra.

vef-hopmyndtil

Sálnasafn er einnig á mörkum myndlistar, leiklistar, danslistar og annarra listforma og byggir á fyrrnefndum gjörningi en það sem er nýtt á nálinni í Sálnasafni er að Eirún og Jóní fá til liðs við sig fagfólk úr listheiminum; leikara, dansara, myndlistarmenn, miðil, förðunarfræðing og klæðskera til að mynda og í stað þess að segja þeim nákvæmlega hvað viðkomandi á að gera, gefa þær hverjum fyrir sig útgangspunkta og hugmyndir og síðan fær fagfólkið að spinna sinn eigin vef í þeirra heimi. Þetta gerir það að verkum að verkið verður marglaga og dýnamískt og jafn áhrifaríkt og raun ber vitni. Samt sem áður vilja þær stöllur meina að verkið sé ekki háð tilviljunum heldur hafi allt átt að gerast á þennan hátt, á þessum stað.

Gjörningaklúbburinn fer sínar eigin leiðir. Svo mikið er víst. Þær Eirún Sigurðardóttir, Jóní Jónsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir hafa á síðustu tveimur áratugum haldið gjörningum á lofti í íslenskri myndlistarsenu og haft metnað, jafnrétti, samfélagsádeilu, umhverfisvernd og húmor að leiðarljósi. Í lok október opnuðu þær sýningu í AROS listasafninu í Arhus sem ber titilinn Ástin sigrar allt og framundan er framhaldssaga Sálnasafns þar sem verkið öðlast nýtt líf í öðrum miðlum. Það eru spennandi tímar framundan og vert að fylgjast með.

Ástríður Magnúsdóttir 

 

HEIMILDIR:
Friðþór Eydal. „Hernaðarumsvif í Hvalfirði eftir heimsstyrjöldina síðari“, Morgunblaðið, 3. janúar 1999.
Gjörningaklúbburinn/ The Icelandic Love Corporation. Listasafn Reykjavíkur. 2007.
Heimasíða Everybody´s Spectacular. http://www.spectacular.is/icelandic-love-corporation
Heimasíða Gjörningaklúbbsins. http://www.ilc.is
Íslenzk fornrit. Landnámabók, Reykjavík.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns I-XIV, Kaupmannahöfn 1913-43, Reykjavík. 1990.
Samtal greinahöfundar við Gjörningaklúbbinn; Eirúnu Sigurðardóttur og Jóní Jónsdóttur, 15. september 2016.

LJÓSMYNDIR:
Gjörningaklúbburinn © Ljósmyndari: Ásta Kristjánsdóttir
Mynd af leiðsögukorti: Ástríður Magnúsdóttir

Sláturhúsið Menningarsetur á Egilsstöðum

Sláturhúsið Menningarsetur á Egilsstöðum

Sláturhúsið Menningarsetur á Egilsstöðum

Menningarhúsið á Egilsstöðum heitir Sláturhúsið, Menningarasetur. Það er ekki tilvísun í Vonnegut eða tilraun til frumleika heldur einfaldlega vegna þess að húsið var nýtt sem Sláturhús og kjötvinnsla á árunum 1958 -2003. Það er heilmikil saga í húsinu sem má lesa í strúktúr þess og rýmaskipan. Einu sinni var hægt að lesa í lyktina þegar enn örlaði á reyklykt en nú er ilmur menningar búinn að taka yfir. Árið 2005 var farið að skrifa nýtt handrit að húsinu þegar kannað var með kaup á því með menningarstarf í hug. Árið 2006 var húsið keypt og árið eftir var sýnt þar leikverk og kvikmyndahátíðin 700IS Hreindýraland fór þar fram.

Þetta er eitt dæmi af mörgum þar sem hús á landsbyggðinni sem áður hýstu iðnaðarstarfsemi af einhverju tagi hafa fengið nýtt hlutverk sem menningarhús. Dæmi um þetta eru t.a.m Frystiklefinn á Rifi og Verksmiðjan á Hjalteyri.

unnarSláturhússtjórinn og Forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs, heitir Unnar Geir Unnarsson, menningarstjóri og leikari. Unnar Geir fæddist og ólst upp á Egilsstöðum. Tók flugið eins og gengur eftir Menntaskólann suður til Reykjavíkur og þaðan úti heim en fluttist aftur austur til þess að taka við starfinu fyrir rúmu ári síðan.

Unnar Geir gengur stoltur um húsið og segir frá starfseminni. Sláturhúsið hýsir Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, Veghúsið sem er skapandi frístundastarf fyrir fólk á aldrinum 16 – 25 ára og Kaffistofuna sem er listamannaíbúð sem hægt er að sækja um til lengri eða skemmri tíma. Salir Sláturhússins eru leigðir út fyrir viðburði, þar eru vinnustofur listafólks, upptökustúdíó, æfingahúsnæði og sýningarsalir fyrir allskyns listform.

Á neðstu hæð hússins er Frystiklefinn, þar stendur yfir 25 ára afmælissýning Myndlistafélags Fljótsdalshéraðs og hanga myndir á svörtum veggjum sem lýstar eru upp með sterkum kösturum. Salurinn er annars mikið notaður fyrir sviðlistaviðburði og tónleika.

Í anddyrinu er sýning á vegum Listahátíðarinnar Listar án landamæra. Sýningin er samstarfs austfirsku listamannanna Arons Kale, Daníels Björnssonar og Odee (Oddur Eysteinn Friðriksson).

Listamennirnir unnu saman að verkunum og þau renna saman þannig óljóst er hver á hvaða hluta eða hvaða verk ,,Sýningin fjallar ekki einungis um verkin sjálf heldur ferðalagið frá upphafi til enda verkefnisins‘´stendur í texta sem fylgir sýningunni á við hlið verkana má sjá ljósmyndir og skissur af listamönnunum að störfum. Sláturhúsið hefur áður verið í samstarfi við List án landamæra með allskyns viðburðum og sýningum sem oftar en ekki eru í samstarfi ólíkra hópa og einstaklinga í samfélaginu.

Miðrými hússins má nýta fyrir allskyns viðburði og fundi. Þar rúllar núna áhugaverð heimildamynd sem Austfirðingafélagið á Akureyri lét gera árið 1965 með brottflutta Austfirðinga í huga. Farið er á milli bæjarfélaga á Austurlandi, staðreyndir taldar upp eins og ,, þar er pósthús og kaupfélag‘‘ og farið yfir helstu kennileiti í landslaginu. Það er einlæg fegurð í þessu myndbandi.

Á hæðinni er upptökustúdíó og æfingahúsnæði sem tónlistarfólk getur nýtt sér endurgjaldslaust. Stórt rými er sérstaklega ætlað fyrir frístundamiðstöð unga fólksins en þau skipuleggja allt sitt starf sjálf og biðja um aðstoð ef þau þurfa.

Á efri hæð hússins er fyrrum skrifstofa dýralæknis, herbergiskytra sem lengi stóð auð og ónotuð. En nú hefur kytran fengið nýtt hlutverk og er framköllunarherbergi fyrir ljósmyndara. Hugmyndin kom upp þar sem ljósmyndarar hafa vinnuaðstöðu í húsinu. Framköllunarbúnaðu fékkst lánaður úr Menntaskólanum ME og Jobba í Myndsmiðjunni með því skilyrði að ef það er ungmenni sem vill læra að framkalla filmur að þá verði ljósmyndarinn að taka hann í læri.

dyralaeknis

Kaup kaups og ,,sharing is caring‘‘ er lykill þarna og speglast í öllu starfi hússins. Það á líka við um þegar listafólk kemur í residensíu í gestaíbúðina þá er viðkomandi listamaður með viðburð í miðstöðinni og oftar en ekki er listamaðurinn líka í samstarfi við stofnanir, hópa og einstaklinga í samfélaginu.
jon-fra-mo%cc%88drudalÁ efri hæðinni er stórt rými sem má skipta í minni sali. Þar stendur yfir sýning á verkum Jóns A. Stefánssonar frá Möðrudal, þess mikla fjöllistamanns. Jón hannaði og byggði kirkjuna á Möðrudal. Allar teikningar og plön sem hann gerði að kirkjunni gerði hann í huganum og ólíkt því sem við erum vön þá kom hann því ekki á pappír heldur byggði kirkjuna stein fyrir stein byggða á þessari mynd sem hann hafði í huganum. Barnabarnabarnið hans listakonan Íris Lind Sævarsdóttir vann verk í gluggann á móti verki langafa síns. Þar teiknar hún upp kirkjuna með hvítum lit. Teikningin er breytileg eftir birtunni úti og stöðu áhorfandans í rýminu. Í gegnum teikninguna horfum við út á fánaborg við húsið og í fjarska Egilsstaðabæinn og Lagarfljótið.

Í öðrum sal eru verk í eigu sveitarfélagsins. Þar er allt frá Kjarvalsverkum og yfir í nýlegar ljósmyndir listakonunar Agnieszku Sosnowska sem býr á Kleppjárnsstöðum í Hróastungu og kennir við Brúarásskóla. (Sjá hér)

Unnar Geir segir skemmtilega sögu af einu Kjarvalsverkana, Portrett af manni í Lopapeysu. Fjölskylda mannsins á myndinni sem sögð er vera af bóndanum Birni Hallssyni á Rangá, pantaði mynd af Birni hjá Kjarval en myndina ætluðu þau að gefa honum í afmælisgjöf. Þegar fór að draga nær afmælinu inntu þau Kjarval eftir verkinu, ,, hún kemur sagði Kjarval‘‘ og hafði ekki um það fleiri orð. Leið og beið og ekkert spurðist af myndinni. Fékk þá fjölskyldan annan málara til verksins sem lauk verkinu fyrir tilskilinn dag. Um sumarið kom Kjarval svo austur og afhenti fjölskyldunni málverkið. Þá vildu þau ekki sjá myndina enda búið að kaupa aðra mynd og að auki hafði Björn víst aldrei í ullarpeysu verið.

Einhvern vegin endaði myndin svo hjá sveitarfélaginu eftir þetta og hékk lengi í Valaskjálf. Hún ber þessi merki að hafa lifað margan gleðskapinn, einhvern tíma hefur verið rekið í hana borð eða annað

kjarvalsmyndin

og skilið eftir far í striganum og ofarlega á striganum þar sem er auður flötur er laumuskemmdarverk þar sem krotað er með blýanti ,,Q4U‘‘.

 Eftir Kjarval liggur leiðin í vinnustofur listamanna sem þarna starfa. Allir geta sótt um, leigan er lág og aðstaðan góð.

Sláturhússtjórinn Unnar Geir er sjarmerandi og segir skemmtilega frá. Hann hefur mikinn metnað fyrir menningarstarfi í húsinu og brennur fyrir því sem hann gerir. Það verður spennandi að fylgjast með Sláturhúsinu dafna en loksins eftir 10 ár þá hefur ákvörðun verið tekin um það endanlega að þarna verður áfram ræktuð menningarmiðstöð og Sláturhúsið gert að meginstoð menningarlífs á Fljótsdalshéraði ásamt Safnahúsinu.

Sláturhúsið er vettvangur alls samfélagsins, það er verkefnarými, viðburðastaður, lifandi og hreyfanleg miðstöð sköpunar af öllu tagi. Þarna er hægt að skapa og síðan að njóta sköpunar, þú getur átt val um að njóta nútíma dans- og leiklistarbræðings, sinfónutónleika og sýninga áhugaleikhópa, æft með hljómsveitinni og fundað með grasrótarhreyfingunni allt í sömu vikunni.

Húsið er steypt gólf og veggir með vatnshelt þak yfir, þar inni eru verkfæri og fólk sem hjálpar. En tilvist þess skapar líka huglægt rými í samfélaginu, rými sem nærir og glæðir sköpun og endursköpun.

Saga hússins í nýju hlutverki er ekki löng en áhrifin eru augljós.

 Margrét Norðdahl

UA-76827897-1