Gjörninghátíð á Sigló

Gjörninghátíð á Sigló

Gjörninghátíð á Sigló

Föstudagurinn langi
25. 
mars 2016
Alþýðuhúsið á Siglufirði
Gjörningadagskrá
Sýningaropnun

Gjörninga fluttu:
Magnús Pálsson
Freyja Reynisdóttir og Brák Jónsdóttir
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir

Sýningaropnun:
Hulda Vilhjálmsdóttir

Þriðja árið í röð bauð Aðalheiður S. Eysteinsdóttir upp á gjörningadagskrá á föstudaginn langa í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Húsfyllir hefur verið öll árin og gaman að sjá þá fjölbreyttu flóru gesta sem sótt hafa hátíðina heim. Ég greip með mér tökuvélina og setti saman stutta heimildarmynd um viðburðinn í ár; einskonar vitnisburð um gefandi samveru og upplifun á einstökum stað.

Um listamenninga og verk þeirra

Magnús Pálsson flutti nýjan gjörning sem hann vann sérstaklega fyrir tilefnið. Verkið vann hann út frá lyklaborði ritvélarinnar og sló 6 manna teymi inn hjartsláttinn í verkinu. Aðrir flytjendur rödduðu hver sitt mynstur á lyklaborðinu með ákveðnu millibili. Niðurinn fyllti loftið og stigmagnaðist og í lokin fóru flytjendur út á meðal gesta sem einn af öðrum tók undir svo mögnuð stemming og samkennd myndaðist í rýminu. Það er ómetanlegt fyrir lítið samfélag út við ysta haf að fá beina upplifun af verkum Magnúsar sem á langan og farsælan feril að baki sem einn af okkar leiðandi listamönnum. Í gjörningum ríkti sá ferskleiki sem einkennir verk Magnúsar; maður verður ósjálfrátt hluti af einhverjum kitlandi galdri.

Freyja Reynisdóttir og Brák Jónsdóttir fluttu formsterkan gjörning við frumsamda tónlist Freyju. Þær hófu gjörningasamstarf á síðasta ári og fluttu meðal annars gjörning á A! Gjörningahátíð á Akureyri sem fjallaði um sameignlega reynslu og það hvernig samskipti þeirra hafa mótað samband þeirra og vináttu. Í Alþýðuhúsinu unnu þær áfram með þessa hugsun og fléttuðu sig saman þannig að upplifunin var sem um einn líkama væri að ræða. Þær náðu að skapa mikla spennu í loftið sem þær héldu til enda gjörningsins með markvissum hreyfingum, köðlum sem þær smám saman þræddu sig inn í, tónlist Freyju og bakgrunnsmynd sem var rétt á mörkum kyrrstöðu og hreyfingar. Þetta var kröftugur gjörningur og það verður spennandi að sjá hvert samstarf þeirra leiðir þær í framtíðinni.

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir flutti gjörning þar sem hún greip til sagnahefðar íslendinga. Hún hefur fengist við gjörningaformið af og til í gegnum tíðina, oftast tengt skúlptúrsýningum sínum og innsetningum. Þar hefur hún blandað saman dansi og annarskonar tjáningu til að skapa umgjörð um konu. Hún hóf gjörninginn í Alþýðuhúsinu klædd í öll sín föt og meðan hún talaði til okkar týndi hún af sér spjarirnar þar til hún stóð eftir í rauðum kjól. Þeim sama tel ég og hún klæðist í fallegu dansmyndbandi sem var hluti af sýningu hennar Réttardagur í Listasafninu á Akureyri. Það var hversdagsleg stemming í gjörningum rétt eins og maður sæti við eldhúsborð með vini sem væri að segja ferðasögu. Yfirbragð hans einkenndist af ákveðnu látleysi sem snerti við manni eins og væri manni trúað fyrir einhverri sérstæðri reynslu viðmælandans.

Hulda Vilhjálmsdóttir opnaði málverkasýningu í Kompunni sem er lítið gallerí í Alþýðuhúsinu. Hulda útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2000 og býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum. Hulda hefur getið sér gott orð fyrir ljóðræn og oft á tíðum dularfull málverk þar sem hún fjallar um hugarástand menneskju á næman máta.
 Á leið inn í salinn þar sem gjörningarnir fóru fram ganga gestir í gegn um Kompuna og gáfu verk Huldu eins konar upptakt að því andrúmslofti sem skapaðist en sýning hennar mun standa í mánuð.

 Það er alltaf gott að koma í Alþýðuhúsið á Siglufirði og þakka ég Aðalheiði og hennar teymi fyrir mikla og góða andlega næringu. Ég hvet fólk til þess að leggja leið sína til Siglufjarðar á föstudaginn langa að ári, já eða hvenær sem er því það er alltaf eitthvað áhugavert í gangi í Alþýðuhúsinu og Siglufjörður skemmtilegur og lifandi bær.

Arna G. Valsdóttir


Upptaka og vinnsla á vídeói: Arna G. Valsdóttir

Outsider Art! 1. hluti / Uppruni

Outsider Art! 1. hluti / Uppruni

Verk eftir svissneska listamanninn Adolf Wölfli (29.02.1864 – 06.11.1930)

Outsider Art! 1. hluti / Uppruni

Á íslensku er ekki til yfirheiti sem lýsir þeirri list sem flokka má sem „outsider“ myndlist. Það er til dæmis talað um alþýðulist og naíva list, alþýðulistamenn og naívista líkt og Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur gerir í bók sinni ,,Einfarar í íslenskri myndlist‘‘  (Aðalsteinn Ingólfsson, 1989). Algengt yfirheiti á alþjóðlegum vettvangi um listsköpun jaðarhópa er „outsider art“.

Innan þeirrar skilgreiningar rúmast list fólks með þroskahömlun, einfara, alþýðulistamanna, naivista og fólks með geðsjúkdóma svo dæmi séu tekin. Í skilgreiningunni felst að listafólkið er í grundvallaratriðum ólíkt neytendum listarinnar miðað við þær forsendur sem settar eru í ríkjandi menningu (Rhodes, 2000).

Uppruna hugtaksins „outsider“ list má rekja til þýska geðlæknisins og listfræðingsins Hans Prinzhorn sem árið 1922 birti niðurstöður rannsóknar á verkum fólks með geðsjúkdóma sem vistað var á stofnunum. Í bókinni rannsakar hann mörkin á milli geðsjúkdóma og sköpunar sjúklinga geðsjúkrahúsa og er ein fyrsta tilraunin að því að greina listaverk sköpuð af fólki með geðsjúkdóma. Prinzhorn safnaði mörg þúsund listaverkum sem hann fann á hælum víðs vegar um Evrópu sem unnin voru af fólki sem vistað var á hælum og geðsjúkrahúsum og bjó oft við mikla einangrun (Prinzhorn, 1922/1972; Tansella, 2007; Rhodes, 2000).

Stuttu áður en Prinzhorn birti niðurstöður rannsóknar sinnar gaf læknirinn Walter Morgenthaler út fyrstu rannsóknina á verkum svissneska listamannsins Adolf Wölfli. Wölfli átti erfiða ævi og var vistaður, rétt rúmlega þrítugur, á svissnesku hæli þar sem Morgenthaler starfaði. Á hælinu vann hann ótal verk á 30 ára tímabili, innilokaður í klefa og útilokaður frá samfélaginu.

Verk þessi vöktu mikinn áhuga og höfðu áhrif inn í listheiminn og á verk listamanna eins og Jean Dubuffet og André Breton, sem kenndir eru við Dada og síðar súrrealisma. Innan þessara stefna er mikill áhugi á því ósjálfráða, sjálfsprottna og draumkennda, þættir sem þykja gjarnan hvað merkilegastir í verkum „outsider“ listafólks (Tansella, 2007). Breton skrifaði og gaf út stefnuyfirlýsingu súrrealismans árið 1924, í henni skilgreinir hann súrrealisma á eftirfarandi hátt:

Skrásetningu hugsunarinnar án nokkurrar stjórnar af hálfu skynseminnar, laus við allar fagurfræðilegar og siðferðilegar hugleiðingar (Breton, 2001, bls. 420).

Árið 1948 varð til formlegur félagsskapur listamanna sem leiddur var m.a. af franska listamanninum Jean Dubuffet, sem fór markvisst á milli geðsjúkrahæla í Evrópu og safnaði verkum eftir fólk sem vistað var á hælunum. Í þeim félagsskap sameinuðu nokkrir listamenn söfn af verkum sem þeir höfðu safnað eftir fólk á jaðri samfélagsins og settu sér það markmið að finna og safna verkum eftir jaðarlistamenn. Yfirheiti félagsskaparins var Art Brut sem á ensku útleggst sem ,,Raw art“ eða hrá list. Listamennirnir söfnuðu verkum sem voru gerð af fólki sem var utan almenna listheimsins, fólki sem var ólært og samkvæmt þeirra bestu vitund ómeðvitað um listasenuna og listaverk annarra. Dubuffet lagði merkingu ,,art brut“ upp þannig að hún væri list sem væri ósnortin af menningu og utanaðkomandi áhrifum. Þarna væri um að ræða list sem væri hrein, sköpuð eingöngu af innri þörf listamannsins án þess að taka tillit til þess að verkin yrðu sýnd né í hvaða samhengi þau yrðu sýnd eða hvort viðkomandi gæti orðið frægur eða grætt á listsköpuninni. Þessi markvissa söfnun varð að formlegu safni árið 1979, Collection de l’Art Brut museum í Lausanne í Sviss og var fyrsti safnstjórinn Michel Thévos (Rhodes, 2000).

Það var svo árið 1972 sem breski prófessorinn Roger Cardinal, við háskólann í Kent, kynnti til sögunnar hugtakið „outsider art“ sem þýðingu á heitinu ,,art brut‘‘ þegar hann birti niðurstöður rannsóknar um „outsider art“ (Cardinal, 2000). Það hugtak hefur fest sig í sessi sem yfirheiti yfir list jaðarhópa og felur í sér breiðari skilgreiningu en ,,raw art“ skilgreiningin gerði og gerir. Þó að Cardinal hafi ætlast til að hugtakið næði yfir sömu viðfangsefni og ,,art brut“ þá öðlaðist hugtakið sjálfstætt líf og mun breiðari tilvísun (Tansella, 2007). Fyrsti sýningarstjóri safnsins í Lausanne, Michel Thévoz, mótaði þessa skilgreiningu á ,,art brut“ og „outsider“ list til aðgreiningar frá naívri list sem hann taldi að ætti sér sterkari tengsl við tíðarandann í listum og menningu. Thévoz segir ,,art brut“ og ,,outsider“ list samanstanda af verkum sem gerð eru af fólki sem af margvíslegum ástæðum hefur ekki verið menningarlega innrætt eða félagslega skilyrt. Fólki sem dvelur á jaðri samfélagsins og vinnur utan fagurlista (e. fine art) kerfisins (skóla, sýningarstaða/gallería, safna o.s.frv.) og skapar frá rótum eigin persónuleika, fyrir sjálft sig og engan annan, verk sem fela í sér framúrskarandi frumleika í inntaki, viðfangsefnum og tækni. Þetta eru verk sem standa algerlega óháð hefð eða tísku (Thévoz, 1976). Skilgreining Thévoz lýsir þeim skilningi sem lagður er í hugtakið ,,art brut“ á meginlandi Evrópu annars vegar og hins vegar í Bandaríkjunum og víðar þar sem hugtakið ,,outsider art“ er regnhlífarheiti yfir jaðarlist af ýmsum toga.

Margrét M. Norðdahl

Heimildir:

Aðalsteinn Ingólfsson. (1989). Naive and fantastic art in Iceland. Reykjavík: Iceland Review.

Breton, A. (2001). Stefnuyfirlýsing Súrrealismans, (Benedikt Hjartarson þýddi). Í Vilhjálmur Árnason (ritstj.), Yfirlýsingar: Evrópska framúrstefnan (bls. 420). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Cardinal, R. (1972). Outsider art. London: Studio Vista.

Prinzhorn, H. (1972). The artistry of the insane (Eric von Brockdorff  þýddi). New York: Springer Science + Business Media.

Rhodes, C. (2000). Outsider art, spontaneous alternatives. Thames & Hudson: London

Tansella, C. (2007) The long and winding journey of Outsider Art. A historical perspective. Epidemiologia e Psichiatria Sociale, 16 (2), bls. 133-138 Sótt af http://www.psychiatry.univr.it/page_eps/docs/2007_2_Tansella_Carole.pdf

Thévoz, Michel (1976). Art Brut. Geneva: Editions d´Art Albert Skira. Bls 9-10.

Nafnlaust – Málverk

Nafnlaust – Málverk

Nafnlaust – Málverk

Myndlýsing Þórunnar Hjartadóttur

Neðst og fremst eftir myndfletinum endilöngum er stór, fimm fjallshryggja biti af brúnu Toblerone-súkkulaði, enn óbrotinn. Sjónarhornið er aðeins á ská fram hægra megin, birtan fellur frá vinstri. Við sjáum Toblerone-súkkulaðið á hlið. Ofan og aftan við sést í dökka, óbrotna súkkulaðiplötu, einir fimm bitar ná þvert yfir myndflötinn. Þar fellur birtan frá hægri. Við sjáum ofan á súkkulaðiplötuna, eða hún er reist upp á rönd. Efsti hluti myndarinnar, rúmlega þriðjungur, er ljósgrár með frekar flatri, eintóna áferð. Þó er hægt að ímynda sér að efri brúnin á súkkulaðistykkinu sé land, það er örlítið gulgrænleitt, og að ofan við sé himinn, þar er svolítið blábleikt í bakgrunninum. Myndin er merkt GK neðst í hægra horni, á fremsta súkkulaðibitanum. Myndin er mjög geómetrísk.

NafnlaustMálverk

Ein af áhugaverðari sýningum þessa árs er sýningin Málverk sem Guðjón Ketlsson (1956) var með í Hverfisgalleríi 26. febrúar til 9. apríl. Á sýningunni var meðal annars sería af 12 áþekkum verkum úr olíu á striga og texta sem er grafinn í ál.

Eitt af þeim verkum heitir Nafnlaust eins og önnur verk á sýningunni og er 3 x 160 x 2 cm. Það einkennist af ljósum gráleitum tónum og löngum mjóum ferhyrningi. Við fyrstu sýn virðist það vera dæmigert minimalistiskt verk sem hefur enga tilvísun eða skírskotun út fyrir sjálft sig. Við nánari skoðun kemur annað í ljós. Búið er að klippa málverk sem Guðjón málaði á níunda ártugnum, tíma „nýja málverksins“, í tveggja cm ræmur og stafla saman. Við hlið þess er jafn stór álplata sem búið er grafa myndlýsingu sem Þórunn Hjartardóttir hefur gert af málverkinu. Málverkið umbreytist þannig í hugmyndalistaverk. Hugmyndalistamenn telja að listin verði til í huga áhorfandans, að lýsing á myndlistarverki framkalli upplifun af listinni. Ef lýsingin á málverkinu hefði staðið ein þá hefði áhorfandinn eflaust getað séð fyrir sér einhvera mynd, en með því að sýna saman sundur klippt málverkið og lýsingu á málverkinu sýnir Guðjón fram á að upplifunin af því að sjá málverk og heyra lýsingu á því er allt önnur. Með því að sýna efnið, sundurklippt málverkið, beinist upplifun áhorfandans að því að sjá fyrir sér mynd á striga frekar en að sjá fyrir sér einhverja mynd.

Verkið hefur fleiri skýrskotanir. Það teflir fram andstæðunum umhverfisvernd og umhverfisspjöll. Með því að endurnýta gamalt málverk svarar Guðjón ákalli samtímans um umhverfisvernd, að allir borgarar þurfi að bera ábyrgð og huga að náttúrunni, meðal annars með því að endurnýta gamla hluti. Á Íslandi eru álverin einn helsti andstæðingur umhverfisverndar því álverin menga út frá sér og til að bræða ál þarf mikið rafmagn sem aftur krefst þess að við fórnum náttúru fyrir framleiðslu þess. Álver valda þannig spjöllum á náttúrunni. Verkið er því ekki bara endurvinnslulist heldur umhverfissóði um leið.

Verkð sýnir fram á að myndlist og þar á meðal málverkið er margbrotið fyrirbæri.

Marta Valgeirsdóttir
Myndlistarmaður og heimspekingur

TEIKNING / RÝMI – Þóra Sigurðardóttir í Grafíksalnum

TEIKNING / RÝMI – Þóra Sigurðardóttir í Grafíksalnum

TEIKNING / RÝMI – Þóra Sigurðardóttir í Grafíksalnum

Teikningar Þóru Sigurðardóttur eru byggðar á áþreifanlegum fyrirmyndum í tíma og rúmi. Verkin eru ferli, samruni forms og tíma sem staflað er upp með lagskiptum hætti. Listhlutir Þóru eru óendanlegir í díalektískum skilningi, lína afmarkar og mótar, myndar áþreifanlegt rými með forminu. Hugvera einstaklingsins gefur forminu merkingu, þannig er formið menningarlegt ferli staðbundinnar veru, myndað úr sameiginlegu minni,.

Sýningin samanstendur af teikningum, grafíkverkaseríu og skúlptúrum. Teikningarnar eru útgangspunkturinn, þær eru framlægið sem skapar heildina. Á endavegg sýningarrýmisins er fríhendis-kolateikning sem unnin er á pappír; stærð myndverksins minnir á breiðtjald,þrír metrar á breidd og einn og hálfur á hæt. Verkið er burðarás sýningarinnar, stjarnan í sólkerfi sýningarýmisins, þyngdaraflið sem heldur myndheiminum í díalektísku samtali. Þóra gefur sýningarsal Grafíkfélagsins, þ.e.a.s. rýminu sjálfu, stöðu frístandandi myndverks þar sem burðavirki byggingarinnar talar við lagskiptan járnskúlptúr; víddir verksins eru þær sömu og burðarsúlur rýmisins. Blæbrigði grafíkseríunnar eru blátóna og minna á bláprent; verkin vísa í arkitektanískan uppruna sinn og eru byggðar upp úr sama formlagi, lag fyrir lag inn í óendanleikann. Serían er fimm myndverk alls  þrykkt á þykkan lífrænan bómullarpappír sem settur er á gler, hvert um sig 58 x 78 cm, serían er ekki til sem fjölfeldi. Til móts við nákvæm grafíkverkin er lárétt kröftug fríhendis-kolateikning á pappír, í stærðinni 150 x 240 cm. Á gólfinu móts við það er þrívítt verk unnið með blandaðri tækni; verkið gleypir gólfflötinn með fullkomlega svartmettuðum langhyrningi; veggurinn við verkið sígur í sig sótsvartan flötinn og myndar logandi teikningu sem speglar verkið. Helmingur flatarins er hulinn gleri, þar ofaná er mattur leirkúpull mótaður með hendi Þóru; kúpullinn speglast ofaní glerið og endurtekur þannig form sitt niður í dýpið.

Samkvæmt Aristótelesi er tíminn rökrétt orsakasamhengi þeirra breytinga sem eiga sér stað á milli fortíðar og framtíðar í okkar áþreifanlega heimi, vitundin hér og nú. Eða með öðrum orðum þá þarf þrennt að vera til staðar til þess að tíminn geti átt sér stað í fyrsta lagi: Eitthvað sem er liðið og er þess vegna fortíð, í öðru lagi þá kemur eitthvað eftir það sem liðið er þ.e.a.s. framtíðin, þriðja og mikilvægasta skilyrðið er meðvitund sem tekur eftir, skilur á milli þess sem var og þess sem koma skal.Vitund hugverunnar um þetta ástand breytingar gefur tímanum gildi — skynjun í miðju liðins og ókomins tíma — hún er þannig meðvituð um lok og upphaf, það sem var og það sem kemur. Tíminn er því endalaus lagskipt röð atburða sem myndar orsakasamhengi í meðvitund manneskjunnar. Þannig er tíminn bundinn afmarkaðri rýmis- og efniskennd hugveru sem á sér huglæga hliðstæðu innan Evklíðskra rúmfræðihnita á lárétta og lóðrétta ásnum sem er efnisleg upplifun hugverunnar gagnvart umhverfi sínu.

Mannslíkaminn býr í tímanum, en samkvæmt Aristótelesi og Plató er þekkingin utan tímans. Handan tíminn er stöðugur, fastur og algildur, þar af leiðandi raunverulegri en það sem er innan tímans. Listin er mimesis sem á íslensku getur verið eftirherma eða endurbirting (representation) á því sem handan tímans, þar að leiðandi lítur „vel heppnuð list“ lögmálum handan tímans eða algildis. Endurbirtingin sannar algildi handan tímans fyrir hugveru mannsins, sem býr inn í tímanum. Eða með öðrum orðum, vitundin utan tímans er alvita og þess vegna óbreytanleg. Innan tímans finnst hinsvegar vitund sem getur tengst algildinu og dregur þekkingu þaðan inn í efnisheiminn, m.a. með list tjáningu sem er endurbirting á hinni algildu, alvita, alheimsvitund, handan tíma og efnis.

Teikningar Þóru takast á við þennan breytilega efnisheim en eru jafnframt óendanlegar í eðli sínu, þar sem flötur fyrirmyndarinnar er sífellt klofinn í smærri einingar út frá öllum sjónarhornum eða hnitstaðsetningu hlutarins. Útkoman myndar margendurtekið bergmál formsins í rými og tíma hugverunnar. Myndheimur sem lýtur algildum lögmálum rúmfræðinnar, en beygir sig á samtímis undir meðvitund einstaklingsbundinnar upplifunar.

Verk Þóru fjalla um tíma, rými og afbökun þess, um rýmið í teikningunni, teikninguna í rýminu, þrívíddina sem leynist í tvívíddinni og öfugt. Arkitektúr er markandi lína, landamæri þess sem þróast að innan og utan við það sem markað er. Þannig má líta á hina afmarkandi línu sem einhverskonar útvörð eða jaðar rýmisins — blábrúnina sem snertir bæði orku þess sem er fyrir innan og þess sem er utan við. Listsköpun Þóru tekst á við þennan ramma með mjög svo efnislegum hætti; marglaga teikning afbakar form fyrirmyndarinnar og vísar þannig inn í sjálfa sig á sama tíma og hún tekst á við rýmið sjálft.

Myndheimur Þóru er unnin af lífrænum líkama listamannsins sem er afmarkaður af hæð og breidd, takmörkuð efnisleg tilvera hins lífræna heims. Efnislegir eiginleikar myndheimsins eru uppspretta samtals eða gagnvirkni hugverunnar við heiminn. Listamaðurinn er skapari veru sem er ólífræn í eðli sínu, en um leið og myndverkinu er sleppt út í heiminn á það sjálft gagnvirka tilveru á eigin forsendum, óháð skapara sínum. Samkvæmt ástralska heimspekingnum Rosi Braidotti er samtíminn byggður á misjafnri og síbreytilegri samsettri heild. Tækni hefur jafn mikil áhrif á sjálfsveruna og það lífræna náttúrulega; því er ekkert fast viðmið til, en í staðinn er sjálfsveran stöðugt að teygja sig í átt til hins verðandi. Braidotti vitnar í Gilles Deleuze sem segir hugveruna ekki fast efni, heldur ferli samninga milli efnis og táknaðra aðstæðna sem hafa áhrif á hið líkamnaða sjálf gagnvart hinu staðsetta sjálfi. Í ljósi þessa er það hugveran sem velur það ferli sem stendur að því sem bindur það saman — undir skáldaðri einingu hins málfræðilega „ég“ á sér stað ólík virkni forma sem einkennist af viðbrögðum í samspili, með og á móti þessum skilyrðum. Hugveran er ferli búið til úr sveiflum og samningum milli misjafnra laga af völdum og þrám, sem stanslaust sveiflast milli frjáls meðvitaðs vilja og ómeðvitaðra krafta.

Sýning Þóru fæst við efnið og möguleika þess, samruni efna sem gefa listinni færi á að endurbirta og fjöldaframleiða sjálfa sig. Miðillinn er því afar merkingarbær, listhluturinn er í stöðugri þróun og alltaf á stigi verðandinnar, þar til honum er sjálfhætt, en á þeim tímapunkti fellur hann inn í sögulega skúffu sem vonandi verður hægt að taka út og skoða í samhengi fortíðar. Verkin verða því til í líðanda núsins sem lifandi myndlist í samtíma. Tjáning efnis og samrunni við formhugsun Þóru Sigurðardóttur.

Helga Þórsdóttir
sýningarstjóri

Teikningar Þóru leiða áhorfandann í ferðalag þar sem efni og form hafa umbreyst í samhengi sínu við umheiminn. Líta má á teikningar Þóru sem ferli umbreytinga sem tengjast niðurbroti efnisins og úrvinnslu holdsins sjálfs á efnahvörfum líkamans. Verkin kallast á við stund og stað, hér og nú, orsök og afleiðingu.”

Úr texta Helgu Þórsdóttur um verk Þóru í sýningarskrá RÁS 2014.

Þóra Sigurðardóttir lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í myndlist í Danmörku, auk meistaranáms í menningarmiðlun frá H.Í. Verk hennar er að finna í Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Íslands og Listasafni ASÍ og í einkasöfnum hér og erlendis. Hún hefur sýnt verk sín í opinberum listasöfnum á Íslandi, í Danmörku og víðar, má þar nefna Fyns Kunstmuseum, Den Frie Kunstbygning og Charlottenborg í Kaupmannahöfn, auk listasafna hér.

Af sýningum á undanförnum árum má nefna sýninguna Teikning – þvert á tíma og tækni 2012 í Bogasal Þjóðminjasafnsins, sýninguna Rás í Hafnarborg 2014. Af einkasýningum má nefna sýningarnar Vegir efnisins í Listasal Mosfellsbæjar 2011, sýningu í Listasafni ASÍ 2009 og sýninguna Teikning / rými í sal Félagsins Íslensk Grafík 2016.

Geirtrutt er Alsteder

Geirtrutt er Alsteder

Geirtrutt er Alsteder

Kóræfing

þetta virtist vera dagur fyrir Guðlega framkvæmdasemi. Ekkert hindraði nema föt sem ég annaðhvort átti ekki eða voru óhrein.

Veðrið var lágskýjað kápuveður með skúraleiðingum seinnipartinn.  Eftir nokkur símtöl var ég reiðubúinn, regnhlíf með gulum og svörtum doppum rann ofan í töskuna ásamt lyklum og síma.

Ég steðjaði niður götuna og inná hliðargötu við höfnina. Klukkan var ekki það margt þannig að ég gæti haft drjúgan stans hjá Kaffibræðrum við Holutröð.
Dagblöðin voru volg og af þeim lagði prentsvertuilm og viðkoman við þau var líkt og að handfjatla nýpressað lín. Ég kinkaði kolli til þeirra sem ég þekkti á staðnum áður en ég tók stefnuna að gluggaborði sem sneri á móti götunni.

Snotri tískulögga frá staðarblaðinu sat við hornborð ásamt eigimanni sínum Glæsi.
Hann lýsti stakri vanþóknun á einhverju sem hann las upp úr snjáðu vikublaði. Honum á hægri hönd sat ungur stúdent úr menntaskóla með skrifblokk og á móti honum sat Glæsir.
Þessa hryggðarmynd hafði ég séð allt of oft inná kaffihúsum borgarinnar.  Snotri með gamalt týzkublað, blár á hörund yfir einhverju smælki sem engu máli skipti varðandi heildarmyndina.
Glæsir hreyfði höfuðið eins og venjulega með hálfluktar varir um stórar framtennur.  Hann gat virst æstur yfir hneykslun þessari en innst inni var hann áhugalaus leikari í vondri bíómynd þar sem Snotri lék öll hlutverkin.
Ég hafði núll áhuga á vandlætingu þessara manna og smekkvísi sem ávallt virtist fornemast yfir einskisverðum atriðum, vorkunsemi mín var meiri fyrir hönd tímaritsins sem dregið var milli kaffihúsa eins og sláturdýr til fórnarblóts, upplitað og fitugt af þvölu handfjatli Snotra.
Klukkan á veggnum yfir útidyrahurðinni sýndi að tíminn leið áfram. Ég skellti í mig leifunum
af kaffinu og greiddi fyrir veitingarnar.

Himininn var súr af gráu regni og hafði í hótunum við vegfarendur, “….Ég rigni eða ég rigni ekki“ sagði þessi himinn.

Fyrst var það kapellan og þaðan uppað minnisvarða Meiraprófsbílstjóra.
Kapellan var við torgið og þangað var styst að fara með viðkomu á Handraðanum. Ég keypti blóm og borgaði fyrir þau með ávísun. Afgreiðslukonan rétti mér blómin pökkuð í dagblað og lét mig vita að þau þyrftu að komast í vatn fljótlega.
Ég gekk yfir að tískuversluninni gengt blómabúðinni og skoðaði það sem var stillt út í gluggana,  hér var Handraðinn með það nýjasta og besta frá útlöndum, ítalskt og franskt.

Mín fjárráð voru skáldskapur og áhugi minn hetjan í sögunni.   Ég ákvað stefnumót við þessa verslun í bakaleiðinni ef veður og tími gæfu þess kost.

Kapellan var opin og ég settist fremst við hliðina á roskinni konu. Saman horfðum við á píslirnar yfir altarinu, hún með krepptar greipar ég með hendur á töskuólinni. Mér leið eins og Fariseanum,  bænalausum við hlið tollheimtumannsins sem öllum vildi vel og bað rétt.
Konan signdi sig, stóð upp og gekk í burtu. Ég horfði á Kristlíkneskið yfir altarinu …. hann var ólundarlegur á svipinn með hálflokuð augun og virtist stara niður á altarið.  Síðusárið gapti eins og auga og úr því rann gulrauður vökvi niður að lendarklæðunum …
Ég gat alltaf komið hingað og stillt hugann við þessa mynd, hún gaf mér viljann til að taka leiðindin hálstaki, bíta einhvern á barkann og slíta raddbönd úr sínum hefðbundna stað og fleygja þeim í andlitið á þeim sem þau tilheyrðu.

Ég bað líkneskið að fyrirgefa mér en hélt þó fastar um töskuólina til að missa ekki kúlið. Signeringar eru fyrir fólk sem vill vera á hnjánum við gráturnar,  gamalt fólk og lasburða og þá sem nýlega hafa lent í hremmingum eftir skandal.

Örfáir dropar féllu af himnum en það strjált að ég sá ekki tilgang með að spenna upp regnhlíf.
Nokkrar hræður sátu á bekk við stoppustöð strætisvagnsins framan við Aðalbankann.
Ég tyllti mér á endann á bekk og horfði yfir torgið á lúðrasveit sem var að koma sér fyrir.
Í dag var hátíðisdagur meiraprófsbílstjóra.    Stórir bílar keyrðu skreyttir um göturnar og vörubílar með skemmtikröftum höfðu parkerað á nokkrum áberandi stöðum til að leika kúnstir fyrir gangfarendur.

Vagn merktur ‘Hverfum’  rann að stoppustöðinni.  Ég ætlað upp á hæðina efst í borginni og kíkja á æfingu með kórnum en fyrst þurfti ég að fara í höfuðgrafreitinn og leggja blóm á leiði Bílstjóranna.
Efst á hæðinn var höfuðkirkjan ásamt minjagripaverslunum og hótelum.

salmagaurinnÉg fór inná hótelið Psalm-Gaur næst kirkjunni og stóð af mér skúr sem skyndilega féll niður úr himnafestingunni.

Búktalari var að æfa sig á kaffistofu hótelsins og aflraunamaður tróð sér í glímubúning.
Þeir rifust um eitthvað og að endingu rauk aflraunamaðurinn á dyr.
Þetta var einasta tilbreytingin sem var í boði.    Búktalarinn var í stórum skóm og buxurnar voru stórköflóttar líkt og hann væri trúður en hefði búktal sem aukaverk.
Ég pantaði mér kaffi og settist við hornborð gengt spegli sem var yfir afgreiðsluskenknum.
Þegar ég er við það að setjast birtist Stjarni,  leikari úr einum af áhugaleikhúsunum. Hann leit yfir salinn og kom auga á búktalarann. Hann gekk rakleiðis til hans og setti vísifingurinn á loft eins og lítið barefli. Búktalarinn setti hendur á mjaðmirnar og virtist mér sem þeir deildu um eitthvað varðandi aflraunamanninn sem rokið hafði á dyr skömmu áður.

Ég leit undan því ég nennti ekki að hitta leikarann.  Síðustu fundir okkar voru ekki það upplífgandi.  Hann hafði farið heim til vinkonu minnar rakleiðis af æfingu og grenjað yfir því hversu hlutverk sem hann léki,  tæki mikið á persónu hans.  Eftir talsverðan grát tók vinkonan tappan úr tveimur Chardonnay hleypti honum síðan uppá sig, þar sem hann drapst eftir stutt hvílubrögð.
Sagan gæti verið búin hér ef þannig hefði ekki háttað að leikarinn skildi eftir hálskeðju úr silfri,  fasta milli tannana á vinkonu minni.  Hafði hann losað festin með því að smeygja henni yfir höfuð sér og skilið hana eftir hangandi á milli augn og framtannar í efri góm.

Mér fannst þetta lélegt og aðstoðaði því vinkonu minni við að kúga af honum fé.  Hótuðum við að fara með söguna í blöðin með mynd af keðjunni sem var ígrafin nafninu hans.       Ég tók upp töskuna og bjóst til ferðar.  Stjarni var að húðskamma búktalarann þegar ég gekk út.

Þegar ég var við það að ganga út á stéttina var gripið í olnbogann á mér.  Leikarinn hafði séð mig læðast út  …. “Gertrutt hvað ert  …. ?        Hann kláraði ekki spurninguna því formið bauð ekki uppá það.    Jafnvel vondur leikari gat skilið takmörk sín.   Ég horfði á hann stundarkorn  og spurði síðan um sogblett ofarlega á hálsinum.
“..Áttu í erfiðleikum með búktalarann? … fannstu eitthvað kvenkyns til að klekja úr þér sárasta stálmann….?  Kannski ættiru að kaupa þér lírukassa,  svo gætiru leigt þér simpansa til að rukka aðgangseyrir og totta þig ef hlutverkið verður þér erfitt….”

Ég steig út á götuna og veifaði í leigubíl þrátt fyrir að kóræfingin væri steinsnar í burtu. Stjarni kallaði eitthvað á eftir mér en ég lagði ekki við hlustir …. ég var ekki búin með þennan kafla ennþá,  ef Guð lofar ætlaði ég mér að láta hann dúsa í þessari snöru þangað til hann væri nægjanlega meyr til átu.

Ég lét bílstjórann aka mér niður fyrir kirkjuna og parkera við innkeyrsluna.  Kórinn hafði safnast saman við útidyr á kapellunni bakatil.
Ég fylgdist með fólkinu sem var að draga á sig skikkjur og vefja klútum um hálsinn.  Ég kveikti mér í sigarettu og skrúfaði niður rúðuna.  Bílstjórinn leit í baksýnisspegilinn og bankaði með vísifingri á gjaldmælinn.  Ég kinkaði til hans kolli og sagði honum að vera rólegum. …Ég er á leiðinn á æfingu … slappaðu af þú færð greitt”.

Feitabolla messosopran úr úthverfi gekk niður tröðina við kirkjuna og hífði upp hendurna eins og í postulegri bæn þegar hún heilsaði fólkinu. Ég spáði eitt sinn fyrir henni í tarot spil og sá ekkert nema dauðan og djöfulinn.    Ég lét á engu bera og fullyrti að spilin gæfu tilefni til mikillar hamingju … ég sæi huggulegan píanista og hús á brekkunni  í fínna hverfi. …henni myndi tæmast arfur og röddin myndi taka miklum framförum.

Ekkert af þessu gekk eftir nema að hún fitnaði meira. Og röddin dróst aftur úr.
Ég fékk auðvitað móral en hvað gat ég gert,  hún var á leiðinni í svartnættið klyfjuð  sælgæti … Ég gaf henni helmings afslátt.

Raddirnar dreifðust um salinn þangað til þær höfðu myndað skeifulaga form með kórstjórnandann í miðju standandi á palli.
Í loftinu hékk ilmvatnslykt í bland við svitalykt sem engin leið var að lofta út því hávaði frá umferðinni gat spillt æfingunni.
Ég leit hratt yfir blöðin og las textana.  Ég var með fjórar framkomur í rödduðu viðlagi sem ég þurfti að vera vakandi fyrir.  Textinn var lipur og engin ástæða til að vera óstyrk.

Stjórnandinn hóf upp prikið og sopran fór í gegnum fyrstu atrennurnar fyrir viðlag. Ég hreinsaði undan nöglunum í Credóinu og söng síðan viðlagið lágt og treysti á raddirnar.
Messósópran jagaðist á Padre Nostre með hymn og hummi frá sóprönum.

Tíminn leið og kvöldmáltíðin kláraðist…

Kaflinn um svik Júdasar notaði ég til að varalita mig á meðan ógæfusami messósópranin þuldi laglínurnar. Um það leiti sem Júdas hengir sig stakk ég varalitnum í vasann og var tímanleg í þriðju yfirferð viðlagsins, varalituð.

Miðkaflinn var litlaus með uppgjöfum og hártogunum milli Rabbía og rómverskra hershöfðingja. Flestir sungu eftir minni og sónuðu hljómana eins og amatörar.

Ég leit á myndina efst á blaðinu sem var ljósrit af krossfestingunni.  Kristur var ekki með lendarklæði um sig líkt og sá sem var í kapellunni við Aurastræti.   Svart breytt strik var yfir lendar hans.   Ég reyndi að sjá hvort þetta gæti verið prentsverta og leit á blað konunnar
sem stóð við hlið mér.   Ég sá að áþekkt strik var einnig krotað yfir lendar frelsarans á blaði hennar.
Þessi strik voru ekki eins.  Mitt blað var með kroti sem var breitt og hallaði aðeins en blað
konunnar var með striki sem hallaði minna  og var talsvert grennra.
Ég hugsaði með mér hvort það gæti hafa verið stjórnandinn sjálfur sem hefði krotað yfir kynfærin,  eða eiginmaður stjórnandans sá sem útbjó blöðin fyrir æfingarnar.
Ég leit yfir til hennar þar sem stóð með prikið á lofti í ókláraðari sveiflu.

Hún var svelt,  það vissum við allar og maðurinn hennar var búinn að ríða einhverjum af grönnu sóprönunum.

Ég gat ekki slitið mig frá þessari uppgötvun þetta var  einfaldlegast óboðlegt.
Um það bil sem María kemur að opinni gröfinni lyfti ég blaðinu á loft og hrópaði
“Afhverju er búið að krota yfir kynfæri Jesús?”     það varð grafarþögn fyrir utan sópran sem söng einsömul niðurdúr úr kredói ….
“Afhverju er búið að krota yfir kynfæri Jesús?” spurði ég aftur og hristi blaðið yfir höfðinu
og benti á myndina.
Stjórnandinn veifaði tónsprotanum og hristi höfuði með vandlætingu.
Ætlar þú að eyðileggja þessa æfingu eins og síðast? spurði hún og ég heyrði að kliður fór um hópinn.
Hversvegna er búið að tússa yfir kynfæri Jesú? spurði ég aftur og gaf mig ekki.
“Afhverju gastu ekki fengið þér gatara og gatað í burtu liminn á honum?”…. spurði ég og
leit yfir félaga mína sem voru þagnaðir.

“Sjáðu til ef það skiptir einhverju máli þá ákváðum ég og maðurinn minn að það væri betra að hreinsa þetta í burtu fyrir æfinguna enda væri þetta ekki það sem kórastarfið snérist um…”
“Hreinsa þetta í burtu … ha ….hreinsa þetta í burtu “ … gastu ekki allavega tússað krossmark? … Hreinsað þetta í burtu eins og einhverja djöfulsins vörtu …?
Og fórstu yfir þetta með tússpenna … hvert einasta blað ?…
Stjórnandinn horfði á mig og var bersýnilega orðin æst.
“Ef þú þarft að vita það … nei stelpan okkar gerði það áður en hún fór í skólann í morgun…”
Stelpan ykkar…. gelgjan sem kemur stundum með ykkur á æfingar … þessi með spangirnar? .. Spurði ég og skellti upp úr. … “Nei hættiði nú alveg …..Og þú treystir gelgjunni betur en okkur …”  Stjórnandinn fór að gráta og setti lófana yfir andlitið líkt og María á myndinni efst á textablaðinu.
María grét vegna þess að frelsari hennar hafði verið krossfestur en kórstjórnandinn grét vegna þess að sami frelsari bænheyrði hana aldrei.

Ég settist og til mín gengu fyrsta og önnur sópran og báðu mig að fara.
“Er kallinn hennar að ríða ykkur báðum?…” spurði ég og horfði beint í augun á þessum Bisantisku andlitum sem þögðu.    Munnar þeirra sem áður tottuðu, kváðu nú dóm.
“ þú verður að fara og ekki koma aftur” ..!
“Kannski þið ritskoðið tólin á manninum hennar næst þegar þið hleypið honum á belginn,
en notið þá gatara …. og geriði það fyrir Jesú.. for Christ sake..” .. bætti ég við og gekk fram á gang.

Ég smeygði skikkjunni yfir höfðið og gætti þess í leiðinni að brjóstin færu ekki úr haldaranum.
Þau eru ekki eins og þau voru einusinni hugsaði ég og kippti niður haldaranum þannig að geirvörturnar fundu frið í miðjum skálunum.  Ég gekk út úr kapellunni út í volga rigninguna.
Ég tók stefnuna niður hæðina og ákvað að fá mér að ríða … það er að koma helgi.
Það verður einhver að sleikja þessi brjóst áður en þau fara til Jesú. Hugsaði ég og veifaði leigubíl.

G.Alsteder

Ég gleymdi að kynna mig ég er Alsteder … Gertrutt Alsteder. Ég bý á fimmtu hæð í bæjarblokk og skrifa stjörnuspár fyrir dagblöðin. Ég spái í spil,  les árur, held skyggnilýsingar …. viltu hitta dauðan ættingja … hringdu þá í mig.

LOVE NOT

Afstrakt málverk í forstofuna!

Afstrakt málverk í forstofuna!

Afstrakt málverk í forstofuna!

Afstrakt málverk í forstofuna! Við horfum á listina með augunum, við hengjum hana upp á vegg. Klístur lágmenningarinnar yfirtekur hið heilaga. „Fræðimaður óskast!“ Hrópar einhver. „Hyldu þennan skandal, klæddu þetta í önnur föt. Betri búning! Burtu með klámið! Þú setur þetta í eitthvað pent, eitthvað lekkert. En ekki loka upplifun áhorfendans, listin er frjáls mundu!“ Akkúratt svona, nú er allt betra. Listin þurfti bara á svona baði að halda. Listin þurfti kannski líka bara á svona blaðri að halda.

Við horfum á list með augunum og hendum henni í ruslið í huganum. Sorpframleiðslan verður ekki stöðvuð, en við getum beðið þolinmóð, rusl sópar annað rusl sjálfkrafa. Nú þarf líka að minna á það að list er ekki list nema bara sú list sem er að verða til á líðandi stundu! Þess vegna þarf alltaf að endurnýja svona mikið, þess vegna þurfum við svona mikið af listamönnum, svo það sé hægt að halda þessu við. Launalaust strit þúsunda er nauðsynlegt til að halda við  hringekju af stefnulausri þróun, búum bara til eitthvað! Úps, það gæti óvart verið atómsprengja.

Svo frjáls að við þurfum ekki að bendla okkur við neitt nema listagáfuna, með pínu styrk frá Arion banka. Hvað eiga listheimur og fegurðarsamkeppni sameiginlegt? Við setjum list inn í fegurðarsamkeppni og höldum fegurðarsamkeppni í Listasafni Íslands og útkoman er list og snilld. Hvernig afstrakt málverk er í forstofunni hjá þér?

Screen shot 2016-04-22 at 5.26.31 PM

Við búum til mann sem heitir B. Maðurinn B fer á listasýningu, gengur í gegnum sýningarrýmið og hugsar ,,ekki flott, ekki flott, kannski pínu flott, flott! Þetta er flott“. Kannski virkilega flott og B langar í’ða. B fær’ða. Þetta listaverk vinnur. En þeir sem eiga ekki búning, þeir tapa, þeir sópast burt. Eða öfugt, það er ekki hægt að segja til um það núna. Nú byrstir maðurinn B við sér og gólar: „Hvaða nauðgari er að klæða listina óviljuga úr fötunum hérna og slengja henni framan í vit mér? Heimskur ertu að vængstífa hina frjálsu list“ og listfræðingur svarar: „Mér sýndist listin vera sofandi. Ekki heyrði ég hana segja nei, ég heyri hana segja mest lítið þessa dagana“ – Listin er ekki mannvera og þess vegna má nauðga henni.

En einhver verður ósammála og hugsar „Þú hefur rangt fyrir þér“ og afstaða afstöðuleysi mætir afstöðu afstöðu í list, samkeppni og baráttu. Listamenn hafa framreitt verk fyrir tilefnið og dómur verður kveðinn með gangi tímans. Lystugustu listinni er kúkað út í kerfið og afgangurinn endar í kolaportinu við hliðina á afstrakt málverkinu sem minnst var á í byrjun. Góða skemmtun.

Birt í 3. tölublaði af Listvísi – Málgagn um myndlist

 

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest