Alþjóðlegi safnadaginn 18. maí 2016

Alþjóðlegi safnadaginn 18. maí 2016

Á alþjóðlega safnadaginn, 18. maí 2016, býður Listasafn Íslands gestum sínum að koma með í tímaflakk um landslag íslenskrar myndlistar. Yfirskrift alþjóðlega safnadagsins árið 2016 er Söfn og menningarlandslag (e. Museums and cultural landscape). Fjölbreyttar sýningar safnanna gefa okkur færi á að skyggnast til baka um leið og við horfum fram á veginn þar sem ólíkir miðlar, aðferðir og frásagnarmátar tala til gesta.

Í safni Ásgríms Jónssonar, Bergstaðastræti 74, verður gestum boðið að koma með í ferðalag í tíma og rúmi þar sem við skoðum verk Ásgríms á heimili hans og vinnustofu áður en haldið er á slóðir samtímamanna hans í Listasafni Íslands. Þar verða skoðuð verk upphafsára íslenskrar myndlistar og upphaf kynningar á íslenskri myndlist erlendis á sýningunni UDSTILLING AF ISLANDSK KUNST.

Í Vasulka-stofu skoðum við samtímaverk og hvernig unnið er að varðveislu listaverka sem byggja á síbreytilegri tækni.

Í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnestanga er gestum boðið með í gönguferð um menningarlandslagið Laugarnes, umhverfi safnsins. Skoðaðar verða rústir og menningarminjar og lesið í sögu landslagsins.

Screen Shot 2016-05-17 at 13.23.38

Dagskrá Alþjóðlega safnadagsins á pdf
FÆRSLA — Nýr áfangi á ferð Huldu Stefánsdóttur

FÆRSLA — Nýr áfangi á ferð Huldu Stefánsdóttur

English below

Huldu Stefánsdóttur opnar sýningu sína FÆRSLA, laugardaginn 21. maí klukkan 18:00. í Berg Contemporary

Sýningin er hluti af dagskrá Listahátíðar.

„Í FÆRSLU er hvítur litur dreginn af samsetningu litrófsins og birtan sprettur frá myrkrinu. Með sama hætti á sér stað tilfærsla frá bakgrunni til forgrunns og frá frummynd til eftirmyndar.” — Hulda Stefánsdóttir

Um sýninguna segir Jón Proppé:

Hulda Stefánsdóttir hefur fram að þessu oft notað hlutlausa liti, gjarnan mismunandi gráa tóna sem hafa næstum runnið út í hvítt. Hún raðar svo saman misstórum verkum í rýmið til að mynda klasa sem virka úr fjarlægð eins og geómetrískar lágmyndir á veggnum eða innsetningar sem eru svo minimalískar að þær eru við það að hverfa. Málverk Huldu Stefánsdóttur hafa stundum virst svo knöpp að það var engu líkara en þau væru að reyna að renna saman við veggina í sýningarrýminu. Við nánari skoðun hefur hins vegar alltaf mátt greina líf falið í myndflötunum, pensilstrokur og litbrigði sem teikna fínleg form í litinn eða ýra myndflötinn og dýpka þannig málverkin.

Nú hefur Hulda hins vegar söðlað um og sýnir stór málverk sem standa flest hvert fyrir sig sem kröftug, sjálfstæð verk. Á stærri myndfleti verða fínlegu litbrigðin meira afgerandi og teiknast strax fram úr fjarlægð, pensilstrokurnar eru þróttmeiri og ýmis form spretta fram sem í eldri verkunum voru oftast svo smá að erfitt gat verið að greina þau. Litaskalinn hefur líka víkkað og þar munar kannski mestu um gylltan lit sem gjörbreytir yfirbragði sýningarinnar. Gullið hefur sterkar táknrænar tengingar og ljósbrotið sem það veitir inn í verkin sprengir litaskalann og varpar myndunum út í rýmið.

Skyldleikinn við eldri verkin er þó greinilegur. Þessi málverk eru áfangar í sama ferðalagi þar sem Hulda hefur kannað möguleika málverksins frá grunni. Verk hennar sverja sig í ætt við rannsóknir listamanna á tuttugustu öld – tilraunir fyrstu abstraktmálaranna og heilflatarmálverkin sem komu fram um miðja öldina – en eru þó í rauninni miklu meira lifandi og malerískari. Hulda hefur teflt saman andstæðum fagurfræðilegum nálgunum og stundum hefur virst að verkin gætu hneigst í hvora áttina sem er: Að naumhyggju flatarins eða í átt að sterkari teikningu og afgerandi, lifandi formum. Í mörgum nýju verkanna hefur Hulda tekið af skarið og hleypt fram lýrík formanna. Önnur verk minna okkur hins vegar á samhengið við fyrri sýningar Huldu.

Ferðalag Huldu í málverkinu er ekki aðeins einhvers konar uppgjör við söguna – þau hundrað ár sem liðin eru síðan fyrstu abstraktmálverkin litu dagsins ljós. Það er ekki svo að listamenn tuttugustu og fyrstu aldar starfi í einhverjum skilningi í skugga þeirra miklu átaka og sviptinga sem einkenndu öldina sem leið. Þvert á móti sýna málverk Huldu hvernig hún hefur sjálf kannað möguleika litarins og flatarins, grunnþáttanna sem öll málverk fjalla um. Málverkin eru myndgervingar hugsanaferla sem snúast um það hvernig við öll skynjum og skiljum veröldina, ekki aðeins hið sjónræna horf hlutanna heldur hugsunina og merkinguna sjálfa. Þegar allt kemur til alls er þetta ferðalag sem hvert okkar þarf að fara á eigin forsendum og út frá eigin skilningi og upplifun.

Málverk Huldu hafa verið lágstemmdari og látlausari en verk margra samferðamanna hennar sem hafa hneigst til ágengari og litsterkari tjáningar. En það er einmitt í þessum lágstemmdu verkum sem við upplifum viðfangsefnin sterkast og fáum næði til að skynja hina fínu drætti hugsunarinnar og finna samhljóminn við okkar eigin hugsanir og skilning. Nú þegar Hulda hefur spennt verk sín upp í stærri skala, skerpt litina og gefið um leið hverri mynd sterkari sérkenni getum við sökkt okkur enn dýpra í þau og dvalið lengur við íhugun þeirra.

Jón Proppé


English text

BERG Contemporary invites you to attend the opening of SHIFT by Hulda Stefánsdóttir, at 6pm, May 21. As a part of Reykjavík Art Festival 2016, Hulda Stefansdottir (b. 1972) presents Shift, her first solo exhibition with BERG Contemporary. Hulda Stefánsdóttir studied in Iceland and New York. Since the turn of the century she has held several exhibitions in addition to teaching and holding a professorship at the Iceland Academy of the Arts.

Hulda Stefánsdóttir has described the process behind her abstract and nearly monochromatic painting as a search for a timeless essence that also establishes a clear sense of what could only belong to the here and the now. In her exhibition, Shift, at BERG Contemporary, the point of departure is the impossibility of presenting any given moment without echoes or traces of its past. The here and the now is also, and at the same time, a memory of that which was. Shift comments on whiteness as a monochrome deriving from colour, and light as a source that stems from darkness. A background can likewise shift to the foreground and the original can be overridden by its copy. These still paintings show shifting impressions and unstable situations.


BERG CONTEMPORARY

Opnunartímar:  11  – 17  Þriðjudaga til Föstudaga
13 – 17 Laugardaga og samkvæmt samkomulagi

Staðsetning: Klapparstígur 16, 101 Reykjavík

Hafa samband:
gallery@
bergcontemporary.is
(354) 562 0001

bergcontemporary.is

The Tribute Concert

The Tribute Concert

Þriðjudaginn 17 maí á þjóðhátíðardegi Norðmanna kl. 21.00 verður sá stórviðburður í Íslenskri tónlistarsögu að Snorri Ásmundsson besti píanóleikari Evrópu heldur tribute tónleika til heiðurs David Bowie, Prince og Demis Roussos.

Sérstakur gestalistamaður verður enginn annar en Högni Egilsson mesti söngvari á norðurlöndum!

 

Gleði og gjafmildi ríkir í Safnasafninu

Gleði og gjafmildi ríkir í Safnasafninu

Að venju heldur Safnasafnið ótrautt og bjartsýnt inn í sumarið með fjölda áhugaverðra sýninga á sínu 21. starfsári. Næstkomandi laugardag, 14. maí kl. 14.00, opnar Safnasafnið dyrnar og sýnir verk eftir 67 listamenn og nemendur þriggja skóla.

Ber fyrst að nefna tvær yfirgripsmiklar sýningar á verkum úr safneigninni. Á annarri er dreginn fram þverskurður af safneigninni með áherslu á söfnunarstefnuna, sýnt er jafnt hlutfall lærðra sem leikra listamanna og fjöldi kvenna og karla er hinn sami. Þarna má sjá verk 24 listamanna; teikningar, málverk, tálguð verk, útsaum, pappírsklipp, leir- og gifsverk og verk úr netagirni og öðrum óvenjulegum efnum.

Sýnd eru verk eftir: Arnar Herbertsson, Atla Viðar Engilbertsson, Ástu Ólafsdóttur, Birgir Andrésson, Björn Líndal Guðmundsson, Dieter Roth, Elísabetu Geirmundsdóttur, Elsu D. Gísladóttur, Guðjón R. Sigurðsson, Halldóru Kristinsdóttur, Hannes Lárusson, Hildi Hákonardóttur, Hildi Kristín Jakobsdóttur, Jóhönnu Jóhannsdóttur, Kees Visser, Laufeyju Jónsdóttur, Magnús Pálsson, Ólaf Lárusson, Ragnhildi Stefánsdóttur, Sæmund Valdimarsson, Svövu Björnsdóttur, Svövu Skúladóttur, Þór Vigfússon, Þórð Guðmund Valdimarsson – Kikó Korriró

Á hinni safneignarsýningunni eru sýndar hannyrðir 36 óþekktra kvenna, en Safnasafnið hefur á liðnum árum eignast mikið af hannyrðum og textílverkum. Á þessa sýningu eru valin textílverk sem talið er að geti flokkast til myndlistar, eða standi henni nærri. Gildi sýningarinnar liggur í verkunum sjálfum, þau tala eigin máli eins og flest listaverk, áherslan er á sjónræna fegurð þeirra og nafnleysi hinna óþekktu kvenna á ekki að vera til trafala.

Safneign Safnasafnsins er gnægtabrunnur sem sótt er í af forvitni með endurnýjun í huga, leitast er við að uppgötva áður óþekkta fleti á verkum til að setja í nýtt og óvenjulegt samhengi og gefa þannig gestum safnsins aðgang að því sem er frábrugðið, tímalaust og eftirtektarvert. Jafnhliða safneignarsýningunum gefur safnið út tvær bækur, Sýnisbók safneignar I og Sýnisbók safneignar II.

Sýning er á verkum Þórðar Valdimarssonar sem tók upp listamannsnafnið Kikó Korriró og varð þekktur undir því. Hann var orðinn ríflega 60 ára gamall áður en hann hélt fyrst sýningu á verkum sínum. Hann vann í ýmis efni, þó teikningar hans séu mestar að vöxtum, en nýverið gaf fjölskylda Þórðar Safnasafninu meginhluta ævistarfs hans, um 120–130.000 verk. Á sýningunni er hluti þessara verka ásamt ljósmyndum sem teknar voru af Þórði er hann dvaldi í Hollywood og hitti margar af þekktustu kvikmyndastjörnum þess tíma.

Stór sýning er á verkum Huldu Hákon sem tengjast hafinu, sjómennsku, fiskveiðum og bjargráðum. Hulda býr og starfar í Reykjavík og Vestmannaeyjum. Hún er þekkt fyrir skúlptúra sína og lágmyndir, oft með titlum eða textum sem víkka út upplifunina, og setur fram í þeim hið séríslenska en um leið hið alþjóðlega og sammannlega. Í verkum sínum skírskotar Hulda jöfnum höndum til daglegs lífs, stjórnmála, náttúru og þjóðlegs arfs, oft með kímnina að vopni, en þó ekki án alvarlegri undirtóns.

Jaroslaw Lenski vinnur úr einum erfiðasta efnivið sem hugsast getur, sker agnarlitla gripi í grafít úr blýöntum með heimasmíðuðum verkfærum, og setur stundum saman í stærri verk. Myndefnið er fjölbreytt, en einna mesta athygli vekja örsmáar vélasamstæður sem minna á vísindaskáldskap og framtíðarhrollvekjur.

Í bókastofu safnsins sýnir Scott Kraynak myndir unnar með blandaðri tækni, Finnur Ingi Erlendsson sýnir þar verk úr leir, og Hallgrímur Siglaugsson og Sigurður Kristjánsson sýna teikningar.

Loji Höskuldsson er listamaður af yngri kynslóðinni sem hefur á undanförnum árum vakið athygli fyrir verk sem hann gerir með flosnál í striga, sem gefur þykka, upphleypta áferð, að viðbættum öðrum saumaðferðum. Loji hrífst af hversdagsleikanum, því sem er einfalt og aðlaðandi, og saumar m.a. kyrralífs- og náttúrumyndir, hugdettur og hrein form. Verk hans eru í áhugaverðu samspili við hannyrðir hinna 36 óþekktu kvenna á Safneignarsýningu 2.

Ragnar Bjarnason frá Öndverðarnesi (1909-1977) á verkin undir stiganum við gluggan út í garð en þar standa þessir steinsteyptu og máluðu skúlptúrar . Verkin stóðu áður í garði Ragnars í Vogahverfinu í Reykjavík. Viðfangsefni Ragnars voru fjölbreytt og hér má sjá verkin Móðurást, Baggabinding, Kölski, Kristur, Josephine Baker, Sláttumaður og Smali. (Ljósmynd: Pétur Thomsen)

Safnasafnið hefur verið í samstarfi við hina árlegu hátíð List án landamæra, þar sem lærðir og sjálflærðir listamenn mætast í frjóu samstarfi og í ár sýnir Gígja Guðfinna Thoroddsen (GÍA) af því tilefni. Hún sýnir málverk og teikningar, en verk hennar hafa sterka skírskotun í listasöguna, samtímann og samfélagið, auk þess að byggja á reynslu hennar af því að vera kona og eins notandi geðheilbrigðiskerfisins.

Brúðusafnið: Í brúðusafni Safnasafnsins má sjá dúkkuhús og brúður íklæddar þjóðbúningum frá öllum heimshornum. Brúðurnar á sýningunni eru 400 en í safneign eru alls um 800 gripir. Innlendir sem erlendir gestir hafa ánægu af að finna brúður frá heimalandi sínu og vilja um leið fræðast um aðrar þjóðir.

Samstarf við skóla: Að venju efnir Safnasafnið til samstarfs við grunn- og leikskóla við Eyjafjörð, að þessu sinni Valsárskóla og leikskólann Álfaborg á Svalbarðsströnd, og Grenivíkurskóla. Verkefnið er sameiginlegt og heitir Furðudýr. Þetta samstarf er hugsað til að efla listrænan áhuga og hugmyndaflug barnanna frá unga aldri, en einnig er safninu heiður og ánægja af þátttöku þeirra, lífsgleði og sköpunarkrafti.

Verslunin: Verslun Ásgeirs G. Gunnlaugssonar &
Co var í eigu sömu fjölskyldu frá 1907 til 2006, er hún var lögð niður. Safnasafnið keypti innréttingarnar og setti upp sem umgjörð um sýningar tengdar textíl og hannyrðum. Á hverju ári eru settar upp ólíkar sýningar í versluninni. Í ár eru sýnd vefjar- og útsaumssýnishorn ásamt vatnslitaskissum úr vinnubókum Jóhönnu Jóhannsdóttur (1918–1985), og gifsaf- steypur af fólki í þjóðbúningum eftir Elísabetu Geirmundsdóttur (1915–1959). Einnig er sýndur í versluninni afar vandaður faldbúningur eftir Magnhildi Sigurðardóttur, en faldbúningur er elsta gerð þjóðbúnings íslenskra kvenna.

Safnasafnið var stofnað árið 1995 af þeim Níelsi Hafstein og Magnhildi Sigurðardóttur og er staðsett við Svalbarðsströnd í Eyjafirði. Í safneigninni eru verk eftir 323 sjálfmenntaða og lærða listamenn en í heild telur safneignin um 6.000 listaverk. Innan safnsins er einnig sérstök safndeild, Kikó Korriró-stofa, en þar eru varðveitt um 120-130.000 verk eftir Þórð Guðmund Valdimarsson.

Safnasafnið hefur þá sérstöðu meðal listasafna á Íslandi að safna og sýna jöfnum höndum list eftir leikna sem lærða og má líta mikla breidd á sýningum safnsins. Í safninu er alþýðulist sem og framsækin nútímamyndlist sýnd án aðgreiningar, sú stefnumörkun sem safnið setur sér snýst um gæði verkanna og einlægni listamannanna.

Safnasafnið er í stöðugri endurskoðun og tekur á sig skarpari mynd með hverju árinu sem líður, með þá hugsun ríkjandi að það eigi að höfða til barnsins í manninum jafnt sem barnanna sjálfra, að efla í leik og starfi þau gildi sem eru ráðandi við sköpun listar; hreina sýn, sjálfsprottna framsetningu, móttækileik, undrun, kímni, saklausa frásögn og tjáningu. Um leið opnar það augu fólks fyrir fegurð mismunandi listaverka og sýnir hvernig einn hlutur tengist öðrum, vísar í þann þriðja og á hugsanlega samleið með þeim fjórða. Safnasafnið setur jafnframt metnað í að rannsaka og miðla, að standast ítrustu kröfur um fagmennsku og ábyrgð, kynna frumlegar hugmyndir og að viðhalda jafnréttishugsjónum sínum.

Þrátt fyrir almennan niðurskurð til menningar og lista sem söfnin í landinu hafa ekki farið varhluta af, ekki síst smærri söfn, lætur Safnasafnið engan bilbug á sér finna og veitir gestum sem heimsækja safnið af sama brunni og listamennirnir sem þar sýna, en það er gjafmildi sköpunarinnar sem er rót allrar menningar.

Safnasafnið á Svalbarðsströnd

Safnið er opið daglega frá kl. 10.00 til 17.00 fram til 4. september. Upplýsingar eru á www.safnasafnið.is og á síðu safnsins á facebook: www.facebook.com/Safnasafnid/

Pétur Thomsen og Rúrí í Listasafni Árnesinga

Pétur Thomsen og Rúrí í Listasafni Árnesinga

Tvær nýjar sýningar opnuðu í Listasafni Árnesinga laugardaginn 14. maí kl. 14  

Ólík verk þessara áhugaverðu listamanna eiga það sameiginlegt að fjalla m.a. um tímann. Þau fela líka í sér vangaveltur sem sóttar eru í viðfangsefni úr nærumhverfinu hér en eiga sér einnig víðari skírskotanir. Báðir listamennirnir eiga það líka sameiginlegt að vera þekktir fyrir að fjalla um samskipti manns og náttúru.

Við gerð verkanna á sýningunni Tíð / Hvörf notar Pétur stafræna ljósmyndavél og sýnir okkur á ljóðrænan hátt hvernig tíminn hefur sett mark sitt á lífið í kringum hann og breytingar í náttúrinni  dag frá degi. Verk hans á sýningunni hafa ekki verið sýnd áður utan eitt og þau fjalla bæði um náttúruna sjálfa og smáatriðin sem við tökum sjaldan eftir í daglegu flæði tímans. Þau fjalla líka um inngrip mannsins í þessa sömu náttúru, hvernig  maðurinn, meðvitað eða ómeðvitað, hefur áhrif á náttúruna eins og segir í texta Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttu, menningarfræðings í sýningarskrá. Pétur nam listfræði, fornleifafræði og ljósmyndun í Frakklandi og hefur notið velgengni sem listamaður hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi frá því hann lauk meistaragráðu í ljósmyndun árið 2004. Hann er búsettur á Sólheimum í Grímsnesi.

Verk Rúríar á sýningunni Tíma – Tal tengjast mörg útlistaverkinu Sólgátt sem sett verður upp í sumar við Sólheima í Grímsnesi þar sem viðfangsefnið er m.a. mæling tímans út frá gangi sólar. Verkin eru frá ýmsum tímum, nokkur þeirra hafa ekki verið sýnd áður hér á landi og önnur eru ný. Rúrí nam myndlist á Íslandi og Hollandi á árunum 1971-78 og er löngu þekkt bæði innanlans og á alþjóðlegum vettvangi fyrir útilistaverk sín s.s. Regnbogann við Leifsstöð, stórar innsetningar af margvislegum toga og hún var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 2003. Í sýningarskrá ritar Laufey Helgadóttir listfræðingur m.a. að þegar ferill Rúríar er skoðaður sést að hann er einn samhangandi heimur þar sem heimspekilegar vangaveltur, tími, afstæði, gildi og afstaða mannsins til alheimsins skiptir meginmáli. Þannig brýnir hún fyrir okkur að sýna ábyrgð gagnvart umhverfinu, vera meðvitaðri um hlutskipti okkar á jörðinni og hvernig við tökumst á við framtíðina. Verk hennar eiga erindi til okkar sem aldrei fyrr.

Sýningarnar Tíð / Hvörf og Tíma – Tal munu standa til og með 1. ágúst og á þeim tíma er safnið opið alla daga kl. 12 – 18. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir – líka á opnun sýninganna.

Pétur Thomsen
Rúrí
Leiðsögn um ljósmyndasýninguna Fólk / People

Leiðsögn um ljósmyndasýninguna Fólk / People

Miðvikudaginn 18. maí og fimmtudaginn 19. maí kl. 12.15-12.45 verður boðið upp á leiðsögn í Listasafninu á Akureyri um ljósmyndasýninguna Fólk / People, en þar sýna sjö ólíkir listamenn verk sín. Fyrri leiðsögnin er haldin í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum og fer eingöngu fram á ensku, en hin síðari verður með hefðbundnu sniði og á íslensku. Þorbjörg Ásgeirsdóttir safnfulltrúi og Guðrún Pálína Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi fræða gesti um sýninguna sem lýkur 29. maí næstkomandi og er því um síðustu leiðsögnina að ræða.

Listamennirnir eru Barbara Probst, Hallgerður Hallgrímsdóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Hrefna Harðardóttir, Hörður Geirsson, Ine Lamers og Wolfgang Tillmans. Sýningarstjóri er Hlynur Hallsson.

Sýningin stendur til 29. maí og er opin þriðjudaga – sunnudaga kl. 12-17.

Aðgangur er ókeypis.

UA-76827897-1