Að venju heldur Safnasafnið ótrautt og bjartsýnt inn í sumarið með fjölda áhugaverðra sýninga á sínu 21. starfsári. Næstkomandi laugardag, 14. maí kl. 14.00, opnar Safnasafnið dyrnar og sýnir verk eftir 67 listamenn og nemendur þriggja skóla.

Ber fyrst að nefna tvær yfirgripsmiklar sýningar á verkum úr safneigninni. Á annarri er dreginn fram þverskurður af safneigninni með áherslu á söfnunarstefnuna, sýnt er jafnt hlutfall lærðra sem leikra listamanna og fjöldi kvenna og karla er hinn sami. Þarna má sjá verk 24 listamanna; teikningar, málverk, tálguð verk, útsaum, pappírsklipp, leir- og gifsverk og verk úr netagirni og öðrum óvenjulegum efnum.

Sýnd eru verk eftir: Arnar Herbertsson, Atla Viðar Engilbertsson, Ástu Ólafsdóttur, Birgir Andrésson, Björn Líndal Guðmundsson, Dieter Roth, Elísabetu Geirmundsdóttur, Elsu D. Gísladóttur, Guðjón R. Sigurðsson, Halldóru Kristinsdóttur, Hannes Lárusson, Hildi Hákonardóttur, Hildi Kristín Jakobsdóttur, Jóhönnu Jóhannsdóttur, Kees Visser, Laufeyju Jónsdóttur, Magnús Pálsson, Ólaf Lárusson, Ragnhildi Stefánsdóttur, Sæmund Valdimarsson, Svövu Björnsdóttur, Svövu Skúladóttur, Þór Vigfússon, Þórð Guðmund Valdimarsson – Kikó Korriró

Á hinni safneignarsýningunni eru sýndar hannyrðir 36 óþekktra kvenna, en Safnasafnið hefur á liðnum árum eignast mikið af hannyrðum og textílverkum. Á þessa sýningu eru valin textílverk sem talið er að geti flokkast til myndlistar, eða standi henni nærri. Gildi sýningarinnar liggur í verkunum sjálfum, þau tala eigin máli eins og flest listaverk, áherslan er á sjónræna fegurð þeirra og nafnleysi hinna óþekktu kvenna á ekki að vera til trafala.

Safneign Safnasafnsins er gnægtabrunnur sem sótt er í af forvitni með endurnýjun í huga, leitast er við að uppgötva áður óþekkta fleti á verkum til að setja í nýtt og óvenjulegt samhengi og gefa þannig gestum safnsins aðgang að því sem er frábrugðið, tímalaust og eftirtektarvert. Jafnhliða safneignarsýningunum gefur safnið út tvær bækur, Sýnisbók safneignar I og Sýnisbók safneignar II.

Sýning er á verkum Þórðar Valdimarssonar sem tók upp listamannsnafnið Kikó Korriró og varð þekktur undir því. Hann var orðinn ríflega 60 ára gamall áður en hann hélt fyrst sýningu á verkum sínum. Hann vann í ýmis efni, þó teikningar hans séu mestar að vöxtum, en nýverið gaf fjölskylda Þórðar Safnasafninu meginhluta ævistarfs hans, um 120–130.000 verk. Á sýningunni er hluti þessara verka ásamt ljósmyndum sem teknar voru af Þórði er hann dvaldi í Hollywood og hitti margar af þekktustu kvikmyndastjörnum þess tíma.

Stór sýning er á verkum Huldu Hákon sem tengjast hafinu, sjómennsku, fiskveiðum og bjargráðum. Hulda býr og starfar í Reykjavík og Vestmannaeyjum. Hún er þekkt fyrir skúlptúra sína og lágmyndir, oft með titlum eða textum sem víkka út upplifunina, og setur fram í þeim hið séríslenska en um leið hið alþjóðlega og sammannlega. Í verkum sínum skírskotar Hulda jöfnum höndum til daglegs lífs, stjórnmála, náttúru og þjóðlegs arfs, oft með kímnina að vopni, en þó ekki án alvarlegri undirtóns.

Jaroslaw Lenski vinnur úr einum erfiðasta efnivið sem hugsast getur, sker agnarlitla gripi í grafít úr blýöntum með heimasmíðuðum verkfærum, og setur stundum saman í stærri verk. Myndefnið er fjölbreytt, en einna mesta athygli vekja örsmáar vélasamstæður sem minna á vísindaskáldskap og framtíðarhrollvekjur.

Í bókastofu safnsins sýnir Scott Kraynak myndir unnar með blandaðri tækni, Finnur Ingi Erlendsson sýnir þar verk úr leir, og Hallgrímur Siglaugsson og Sigurður Kristjánsson sýna teikningar.

Loji Höskuldsson er listamaður af yngri kynslóðinni sem hefur á undanförnum árum vakið athygli fyrir verk sem hann gerir með flosnál í striga, sem gefur þykka, upphleypta áferð, að viðbættum öðrum saumaðferðum. Loji hrífst af hversdagsleikanum, því sem er einfalt og aðlaðandi, og saumar m.a. kyrralífs- og náttúrumyndir, hugdettur og hrein form. Verk hans eru í áhugaverðu samspili við hannyrðir hinna 36 óþekktu kvenna á Safneignarsýningu 2.

Ragnar Bjarnason frá Öndverðarnesi (1909-1977) á verkin undir stiganum við gluggan út í garð en þar standa þessir steinsteyptu og máluðu skúlptúrar . Verkin stóðu áður í garði Ragnars í Vogahverfinu í Reykjavík. Viðfangsefni Ragnars voru fjölbreytt og hér má sjá verkin Móðurást, Baggabinding, Kölski, Kristur, Josephine Baker, Sláttumaður og Smali. (Ljósmynd: Pétur Thomsen)

Safnasafnið hefur verið í samstarfi við hina árlegu hátíð List án landamæra, þar sem lærðir og sjálflærðir listamenn mætast í frjóu samstarfi og í ár sýnir Gígja Guðfinna Thoroddsen (GÍA) af því tilefni. Hún sýnir málverk og teikningar, en verk hennar hafa sterka skírskotun í listasöguna, samtímann og samfélagið, auk þess að byggja á reynslu hennar af því að vera kona og eins notandi geðheilbrigðiskerfisins.

Brúðusafnið: Í brúðusafni Safnasafnsins má sjá dúkkuhús og brúður íklæddar þjóðbúningum frá öllum heimshornum. Brúðurnar á sýningunni eru 400 en í safneign eru alls um 800 gripir. Innlendir sem erlendir gestir hafa ánægu af að finna brúður frá heimalandi sínu og vilja um leið fræðast um aðrar þjóðir.

Samstarf við skóla: Að venju efnir Safnasafnið til samstarfs við grunn- og leikskóla við Eyjafjörð, að þessu sinni Valsárskóla og leikskólann Álfaborg á Svalbarðsströnd, og Grenivíkurskóla. Verkefnið er sameiginlegt og heitir Furðudýr. Þetta samstarf er hugsað til að efla listrænan áhuga og hugmyndaflug barnanna frá unga aldri, en einnig er safninu heiður og ánægja af þátttöku þeirra, lífsgleði og sköpunarkrafti.

Verslunin: Verslun Ásgeirs G. Gunnlaugssonar &
Co var í eigu sömu fjölskyldu frá 1907 til 2006, er hún var lögð niður. Safnasafnið keypti innréttingarnar og setti upp sem umgjörð um sýningar tengdar textíl og hannyrðum. Á hverju ári eru settar upp ólíkar sýningar í versluninni. Í ár eru sýnd vefjar- og útsaumssýnishorn ásamt vatnslitaskissum úr vinnubókum Jóhönnu Jóhannsdóttur (1918–1985), og gifsaf- steypur af fólki í þjóðbúningum eftir Elísabetu Geirmundsdóttur (1915–1959). Einnig er sýndur í versluninni afar vandaður faldbúningur eftir Magnhildi Sigurðardóttur, en faldbúningur er elsta gerð þjóðbúnings íslenskra kvenna.

Safnasafnið var stofnað árið 1995 af þeim Níelsi Hafstein og Magnhildi Sigurðardóttur og er staðsett við Svalbarðsströnd í Eyjafirði. Í safneigninni eru verk eftir 323 sjálfmenntaða og lærða listamenn en í heild telur safneignin um 6.000 listaverk. Innan safnsins er einnig sérstök safndeild, Kikó Korriró-stofa, en þar eru varðveitt um 120-130.000 verk eftir Þórð Guðmund Valdimarsson.

Safnasafnið hefur þá sérstöðu meðal listasafna á Íslandi að safna og sýna jöfnum höndum list eftir leikna sem lærða og má líta mikla breidd á sýningum safnsins. Í safninu er alþýðulist sem og framsækin nútímamyndlist sýnd án aðgreiningar, sú stefnumörkun sem safnið setur sér snýst um gæði verkanna og einlægni listamannanna.

Safnasafnið er í stöðugri endurskoðun og tekur á sig skarpari mynd með hverju árinu sem líður, með þá hugsun ríkjandi að það eigi að höfða til barnsins í manninum jafnt sem barnanna sjálfra, að efla í leik og starfi þau gildi sem eru ráðandi við sköpun listar; hreina sýn, sjálfsprottna framsetningu, móttækileik, undrun, kímni, saklausa frásögn og tjáningu. Um leið opnar það augu fólks fyrir fegurð mismunandi listaverka og sýnir hvernig einn hlutur tengist öðrum, vísar í þann þriðja og á hugsanlega samleið með þeim fjórða. Safnasafnið setur jafnframt metnað í að rannsaka og miðla, að standast ítrustu kröfur um fagmennsku og ábyrgð, kynna frumlegar hugmyndir og að viðhalda jafnréttishugsjónum sínum.

Þrátt fyrir almennan niðurskurð til menningar og lista sem söfnin í landinu hafa ekki farið varhluta af, ekki síst smærri söfn, lætur Safnasafnið engan bilbug á sér finna og veitir gestum sem heimsækja safnið af sama brunni og listamennirnir sem þar sýna, en það er gjafmildi sköpunarinnar sem er rót allrar menningar.

Safnasafnið á Svalbarðsströnd

Safnið er opið daglega frá kl. 10.00 til 17.00 fram til 4. september. Upplýsingar eru á www.safnasafnið.is og á síðu safnsins á facebook: www.facebook.com/Safnasafnid/

UA-76827897-1