Tvær nýjar sýningar opnuðu í Listasafni Árnesinga laugardaginn 14. maí kl. 14  

Ólík verk þessara áhugaverðu listamanna eiga það sameiginlegt að fjalla m.a. um tímann. Þau fela líka í sér vangaveltur sem sóttar eru í viðfangsefni úr nærumhverfinu hér en eiga sér einnig víðari skírskotanir. Báðir listamennirnir eiga það líka sameiginlegt að vera þekktir fyrir að fjalla um samskipti manns og náttúru.

Við gerð verkanna á sýningunni Tíð / Hvörf notar Pétur stafræna ljósmyndavél og sýnir okkur á ljóðrænan hátt hvernig tíminn hefur sett mark sitt á lífið í kringum hann og breytingar í náttúrinni  dag frá degi. Verk hans á sýningunni hafa ekki verið sýnd áður utan eitt og þau fjalla bæði um náttúruna sjálfa og smáatriðin sem við tökum sjaldan eftir í daglegu flæði tímans. Þau fjalla líka um inngrip mannsins í þessa sömu náttúru, hvernig  maðurinn, meðvitað eða ómeðvitað, hefur áhrif á náttúruna eins og segir í texta Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttu, menningarfræðings í sýningarskrá. Pétur nam listfræði, fornleifafræði og ljósmyndun í Frakklandi og hefur notið velgengni sem listamaður hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi frá því hann lauk meistaragráðu í ljósmyndun árið 2004. Hann er búsettur á Sólheimum í Grímsnesi.

Verk Rúríar á sýningunni Tíma – Tal tengjast mörg útlistaverkinu Sólgátt sem sett verður upp í sumar við Sólheima í Grímsnesi þar sem viðfangsefnið er m.a. mæling tímans út frá gangi sólar. Verkin eru frá ýmsum tímum, nokkur þeirra hafa ekki verið sýnd áður hér á landi og önnur eru ný. Rúrí nam myndlist á Íslandi og Hollandi á árunum 1971-78 og er löngu þekkt bæði innanlans og á alþjóðlegum vettvangi fyrir útilistaverk sín s.s. Regnbogann við Leifsstöð, stórar innsetningar af margvislegum toga og hún var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 2003. Í sýningarskrá ritar Laufey Helgadóttir listfræðingur m.a. að þegar ferill Rúríar er skoðaður sést að hann er einn samhangandi heimur þar sem heimspekilegar vangaveltur, tími, afstæði, gildi og afstaða mannsins til alheimsins skiptir meginmáli. Þannig brýnir hún fyrir okkur að sýna ábyrgð gagnvart umhverfinu, vera meðvitaðri um hlutskipti okkar á jörðinni og hvernig við tökumst á við framtíðina. Verk hennar eiga erindi til okkar sem aldrei fyrr.

Sýningarnar Tíð / Hvörf og Tíma – Tal munu standa til og með 1. ágúst og á þeim tíma er safnið opið alla daga kl. 12 – 18. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir – líka á opnun sýninganna.

Pétur Thomsen
Rúrí
UA-76827897-1