BENDING í BERG Contemporary

7.02. 2018 | Viðtöl

Birta og bjartir litir taka á móti áhorfendum þegar gengið er inn í rými BERG Contemporary um þessar mundir og inn á sýningu þeirra Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur og Þórdísar Jóhannesdóttur. Þær Ingunn Fjóla og Þórdís hafa unnið lengi saman sem tvíeykið Hugsteypan en núna tíu árum eftir að samstarfið hófst sýna þær í sama rými, á sama tíma en þó ekki sem Hugsteypan. Á sýningunni sem ber titilinn BENDING sýna þær ný verk sem þær hafa unnið hver í sínu lagi, en segja samt að samtalið sé aldrei langt undan og að þær hafi að mörgu leyti alið hvora aðra upp í listinni. artzine var forvitið og ákvað að kíkja á sýninguna og spyrja þær stöllur út í myndlistina, samstarfið og sköpunarferlið.

Titill sýningarinnar er BENDING. Hvaðan kemur hann?

Ingunn Fjóla: Á þessari sýningu í BERG erum við að prófa í fyrsta skipti að vinna í sitt hvoru lagi en sýna saman. Við vildum finna titil sem ætti við hugmyndir okkar beggja. Titil sem byggi yfir áhugaverðri merkingu en væri líka nógu opinn til að vekja forvitni og áhuga. Það er mikið um brot og beygjur í verkunum. Við erum í raun að brjóta og beygja miðla og titillinn vísar í það. Orðið er til á bæði íslensku og ensku og það var svo áhugavert að merkingin átti við verk okkar beggja á báðum tungumálum.

Þórdís: Orðið bending vísar í svo margt. Bending, vísbending, tákn, það að beygja og brjóta til að mynda.

Þórdís Jóhannesdóttir. FGR10042017. Ljósmynd: Daníel Magnússon.

Orðið bending merkir líka „hnútur“ eða „bragð með kaðli“ á íslensku og eitt verka þinna á sýningunni Ingunn Fjóla er einmitt málaður hnútur eða kaðall.

Ingunn Fjóla: Já, einmitt. Öll verkin mín heita Máluð sjónarhorn og síðan kemur undirtitill innan sviga. Þetta verk sem þú vísar í heitir Máluð sjónarhorn (benda). Ég hef verið að þróa þessi verk út frá hugmyndum mínum um málverkið. Þetta eru meiri efnispælingar og tilraunir heldur en ég hef verið að gera áður. Ég er með kaðla og bönd sem ég límber og grunna eins og þetta væri strigi. Málning og undirlag hnoðast saman í hnút, það er enginn forgrunnur eða bakrunnur og úr verður skúlptúrískt verk. Ég held samt sem áður fast í að þetta sé málverk og ég er að nota hefðbundin efni úr málverkinu.

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir: Máluð sjónarhorn (benda). Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Ingunn Fjóla, þú hefur verið að vinna með möguleika málverksins síðan þú útskrifaðist úr bakkalárnámi Listaháskólans árið 2007.

Ingunn Fjóla: Málverkið hefur verið leiðarstef hjá mér. Að vinna með málverkið, hið útvíkkaða málverk og að færa málverkið út í rýmið. Upplifun áhorfandans af verkinu í rýminu. Verkið er að breytast eftir því hvernig þú horfir á það. Áhorfandinn kemur með hreyfingu inn í verkið með því að vera sjálfur á hreyfingu og sjá verkið frá mismunandi sjónarhornum.

Í innsetningum þínum Ingunn Fjóla spilar áhorfandinn stórt hlutverk. Ertu að vinna áfram með þessa hugmynd hérna í BERG þó verkin séu minni og veggföst?

Ingunn Fjóla: Þetta eru meiri einstaklingar hér í BERG heldur en innsetningarnar sem ég hef unnið en þó að verkin séu minni og veggföst er ég engu að síður að hugsa um áhorfandann og hvernig ég get lokkað hann til að hreyfa sig í kringum verkið. Verkin hafa mismunandi sjónarhorn, eina ásýnd eða aðra eftir því hvernig þú horfir á þau. Formin breytast og litasamsetningarnar líka. Það sem mig langar að gera með þessum verkum er að þau dragi áhorfandann til sín, tæli hann og fái hann til að stíga dans við verkin.

Litagleðin er áberandi á þessari sýningu og það er sérstaklega áberandi að litagleðin hefur aukist hjá þér Þórdís.

Þórdís: Já, ég hef verið að vinna meira í gráskalanum fram að þessu. Ég vinn úr þeim myndum sem ég hef tekið og nú eru þær meira í lit. Ég veit ekki út af hverju það er.

Ingunn Fjóla: Það er erfitt að tala um liti í verkum sínum. Þetta er tilfinning og það er erfitt að færa tilfinningu í orð, bæði hvernig maður skynjar og skapar. Við erum að vinna með skynjun og fagurfræði og litir eru svo stór hluti af því litrófi.

Þórdís Jóhannesdóttir. JK12042017. Ljósmynd: Birt með leyfi listamanns.

Þið hafið sýnt saman sem tvíeykið Hugsteypan í tíu ár ásamt því að vinna sjálfstætt að eigin listsköpun. Nú eruð þið að sýna í BERG í fyrsta skipti í sama rými sem sjálfstæðir myndlistarmenn. Hvað kemur til og hver er hugmyndin?

Ingunn Fjóla: Já, stundum er Hugsteypunni boðið að sýna og stundum er okkur boðið að sýna sem sjálfstæðir listamenn. Hér í BERG var meiri áhugi fyrir því sem við höfum verið að vinna sjálfstætt. Við vorum báðar á þannig stað að við tókum þessari hugmynd vel, okkur þótti passandi að stíga þetta skref. Við erum báðar nýlega búnar að klára meistaranám þar sem við höfum kafað dýpra, skrifað um og greint okkar eigin verk. Undanfarið höfum við verið að vinna úr því. Hugsteypan hefur alltaf verið þannig samstarf að við metum hvert verkefni fyrir sig. Hvort við vinnum saman sem Hugsteypan eða í sitt hvoru lagi fer eftir verkefnum, aðstæðum og samhengi hverju sinni.

Ljósmyndir: Daníel Magnússon.

Þið eruð að sýna ykkar sjálfstæðu verk í sama rými en það er samt sem áður samtal á milli verkanna.

Ingunn Fjóla: Þetta er tveggja manna sýning en í ferlinu fannst okkur áhugaverðara að sýna verkin þannig að það væri samtal þeirra á milli, í stað þess að aðskilja þau alveg og deila rýminu í tvennt.

Hafið þið mikil áhrif á hvor aðra í ykkar listsköpun?

Þórdís: Já, alveg pottþétt. Samstarfið er tilkomið af því að okkur langaði að blanda verkum okkar saman til að kanna hver snertiflöturinn væri og hvernig hugmyndafræði okkar skarast. Hugsteypan er í grunninn Ingunnar verk og mín verk og það samtal sem á sér stað þar á milli. Samstarfið hefur gefið hvorri um sig heilmikið. Ég hef lært ofsalega mikið á þessu samstarfi. Mín eigin myndlist hefur orðið fyrir áhrifum af samstarfinu og öfugt. Hugsteypan hefur aldrei verið „alter ego, þetta er ekki nýr persónuleiki heldur er Hugsteypan það sem við leggjum í hana hverju sinni.

Ingunn Fjóla: Við höfum verið að kanna aðra hluti í gegnum Hugsteypuna heldur en í okkar sjálfstæðu verkefnum. Við vorum á tímabili að kanna rannsóknartengdari list og list sem er lengi í vinnslu í gegnum samtal. Hugsteypan er þegar við komum saman og búum eitthvað til saman. Við höfum aldrei tekið ákvörðun um að vera bara Hugsteypan og þess vegna höfum við heldur aldrei tekið ákvörðun um að hætta sem Hugsteypan.

Hefur samstarfið þá alltaf gengið vel?

Þórdís: Það hefur alltaf gengið mjög vel. Það hefur aldrei komið upp neitt alvarlegt og aldrei verið neitt ósætti. Markmiðið er alltaf skýrt, að við höldum áfram þangað til að við verðum sammála. Þetta snýst um að halda áfram og halda áfram þangað til að við erum ánægðar. Við gefum engan afslátt af því. Við viljum ekki setja nafn okkar við eitthvað sem við erum ekki báðar sáttar við. Þetta hefur verið mis erfitt og mis frústrerandi en það beinist að ferlinu sjálfu og það er ekki persónulegt. Sköpunarferlið getur verið óendalega frústrerandi en svo er það líka óendalega gefandi þegar þú ert kominn yfir þann þröskuld. Þetta hefur alltaf verið meira gefandi en erfitt.

Ingunn Fjóla: Auðvitað hefur komið upp pirringur og við erum ekkert alltaf sammála. Í gegnum verk Hugsteypunnar höfum við prófað hluti sem við hefðum kannski ekki þorað einar. Mér finnst við oft hafa tekið stærri sjensa sem Hugsteypan, viðfangsefnin hafa verið fjölbreyttari og það gefur aftur tilbaka.

Þórdís: Það hafa komið önnur og öðruvísi sýningartækifæri í gegnum samstarfið. Þá hefur maður allt í einu annan vettvang til að prófa. Hugsteypan hefur oft gefið okkur möguleikann á því að taka stærri og flóknari verkefni fyrir.

Ljósmynd: Daníel Magnússon.

Hvað hefur haft mestu áhrifin á ykkur sem listamenn?

Þórdís: Verk annarra listamanna og góðir kennarar í gegnum tíðina bæði í Myndlistaskólanum og Listaháskólanum. Einnig það fólk sem ég hef verið í samstarfi við hverju sinni, eins og aðrir listamenn, sýningarstjórar, forstöðumenn safna og fólk sem ég hef sýnt með eða verið í beinu sambandi við í tengslum við myndlistina.

Ingunn Fjóla: Mér finnst það að skoða listaverk, listasöguna og sögu málverksins. Það hefur gefið mér ótrúlega mikið. Það er þessi gamla tugga um málverkið sem miðil. Það er svo erfitt að tala um það á ferskan og nýjan hátt. Þetta með dauða og upprisu málverkins. Ég veit að Þórdís er mjög leið á þessari umræðu! Það hefur allavega haft mikil áhrif á mig. Ég er að vinna með abstrakt málverk þó þau hafi skúlptúríska eiginleika, séu þrívíð verk og lágmyndir. Það er búið að gera svo rosalega mikið innan þessa miðils. Sagan er eins og brjálaður massi, sem er bæði gefandi og íþyngjandi. Spurningin um hvernig gerir maður eitthvað nýtt í þessum miðli er eitthvað sem ég velti mikið fyrir mér. Mér finnst ég alltaf vera að klífa eitthvað fjall. Það er erfitt, en maður getur ekki annað en verið trúr sjálfum sér og haldið áfram að klífa.

Þið eruð þá báðar að díla við söguna á ykkar ólíka hátt?

Þórdís: Já, ég verð fyrir mestum hughrifum á sýningum annarra og færi það yfir í mín eigin verk. Ingunn skýtur inní að Þórdís sé líka að díla við ljósmyndamiðilinn, hefðina og sjálfa sig sem myndlistarmann og Þórdís heldur áfram: Já, eins og Ingunn segir þá tengist stór hluti af mínum vangaveltum ljósmyndamiðlinum sem slíkum og hvar hann staðsetur sig í myndlist. Ég er myndlistarmaður sem tek ljósmyndir sem verða að þrívíðu formi.

Þórdís Jóhannesdóttir. TB03042017. Ljósmynd: Daníel Magnússon.

Ertu þá að afbaka hina klassísku ljósmyndahefð?

Þórdís: Ég veit það ekki en það mætti skoða það. Það má vel vera að það verði útskýrt þannig og það er alveg í góðu, en mér leiðist þessi miðlaumræða. Ég er myndlistamaður sem vinn með ljósmyndir. Það er minn efniviður og ég þarf ekki að setja mig í frekara samhengi.

Ingunn Fjóla: Þórdís tekur alltaf ljósmyndir í grunninn. Hún hefur prófað ýmsar útfærslur, en hefur sjaldnast eða aldrei sett ljósmyndir fram í hefðbundnu formi. Þetta hefðbundna tvívíða form hefur aldrei verið nóg fyrir hana. Hún vill eitthvað meira. Það sama á við um mig í sambandi við málverkið. Ég mála mjög sjaldan og hef ekki gert í mjög langan tíma það sem myndi kallast hefðbundið málverk.  Þetta er eldgömul umræða og það eru hátt í hundrað ár síðan menn fóru að brjóta upp formið, en mér finnst hún áhugaverð. Ég skilgreini mig út frá málverkinu. Ég er að gera málverk en þau vilja eitthvað meira en að vera málverk. Það er þetta sem við eigum sameiginlegt.

Er togstreita samtímamyndlistamannsins falin í þessu?

Þórdís: Ég myndi segja togstreita og líka blessun.

Ingunn Fjóla: Ég held að langflestir myndlistarmenn í dag vilji ekki skilgreina sig eftir miðli. Ég held að þeir vilji frekar skilgreina sig út frá þessu miðlalausa ástandi eða eftir-miðla-ástandi. Við tvær erum í raun kannski íhaldssamar að vera alltaf að tala um miðillinn. Þegar ég var að skrifa meistararitgerðina þá rakst ég á tilvísun í Rosalind Krauss þar sem hún er að tala um þetta miðlalausa ástand. Hún segir að miðlar í dag séu í raun tæknileg stoð eða bakgrunnur sem fólk styður sig við og skilgreinir sig út frá en er ekkert endilega að vinna út frá þeim forsendum. Mér finnst þetta eiga rosalega vel við okkur báðar. Miðlarnir eru bakland sem við leitum í en við erum alltaf að krafsa áfram.

Eru verkin ykkar unnin út frá persónulegum hugmyndum eða (list)fræðilegum? Eru þetta persónuleg verk?

Þórdís: Ég myndi segja að þau séu persónuleg. Það sem dregur mig áfram er einhver tilfinning, ég get ekki rökstutt af hverju ég vel þessa mynd en ekki hina. Í ferlinu verður verkið meira listsögulegt. Ég held að grunnurinn sé alltaf þetta tilfinningasamband sem maður á við viðfangsefnið hverju sinni. Þetta byrjar allt í fingrunum. Það er mjög persónulegt og síðan verður þetta meira rökrétt þegar líður á ferlið og verkin mótast.

Ingunn Fjóla: Ég tek undir þetta. Ég sest ekki niður á vinnustofunni og segi: Nú ætla ég að gera verk sem er í samtali við listasöguna. Ég sæki engu að síður í listasöguna og skoða hana mikið, en verkin hér eru ólík innsetningunum sem ég hef verið að gera, að því leiti að þau eru unninn á vinnustofunni yfir lengri tíma og það ferli er meira persónulegt. Ég byrja með einhvern flöt, eitthvað efni, einhvern lit og svo þróast það yfir í eitthvað meira, í anda hefðbundins málara. Kannski er erfitt að skilja þetta að.

Nú hafið þið báðar lokið meistaranámi í myndlist frá LHÍ. Þórdís, í texta sem þú skrifaðir í tengslum við útskrift þína úr meistaranáminu segir að leiðarstef rannsóknarinnar hafi verið leit „að formi með áherslu á þrjá þætti: Áhorfendur og þau margbreytilegu sjónarhorn sem þeim býðst að fanga í verkunum, rýmið og möguleika þess í samhengi við form og efniskennd ljósmyndastrúktúranna.“ Þetta eru áhugaverðar hugmyndir og þær rýma vel við verkin þín hér í BERG. Byrjaði þetta ferli í meistaranáminu?

Þórdís: Þegar ég fór í meistaranámið fór ég aftur að kafa ofan í bara mig, á mínum forsendum, og ég hellti mér aftur út í þessar hugmyndir í kringum ljósmyndina og áttaði mig á því að ég er að taka myndir af formum sem aðrir hafa búið til. Ég tek pínulítil brot úr verkum annarra, stækka upp og reyni að finna þeim eitthvað form. Yfirleitt eru þetta myndir af þrívíðum hlutum, ég flet það út með ljósmyndinni og svo færi það aftur þrívítt form. Á útskriftarsýningunni vann ég með skúlptúra Gerðar Helgadóttur, af því við vorum að sýna í Gerðasafni, tók nærmyndir af hennar verkum, prentaði á gler og byggði upp nýjan skúlptúr úr verkunum með ljósmyndum prentuðum á gler. Mér finnst þessi leikur með þrívídd, tvívídd og síðan aftur þrívídd áhugaverður. Sýningin hér í BERG er í raun ákveðið framhald af þessum pælingum. Hér er ég alveg frjáls og laus við námið. Í náminu ertu inni í þessari stofnun, með fólki, það er ákveðinn rammi sem er þar og hann getur verið heftandi. Hér fékk ég að ráða og gera verkin á mínum forsendum. Það hefur verið frelsandi og það sést á niðurstöðunni.

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir: Það er alltaf ákveðinn þroski og þróun sem á sér stað. Ég held að verkin hennar Þórdísar hafi verið að malla í svolítinn tíma og þau þurftu þennan tíma til að þróast.

Ingunn, í útskriftartexta þínum talar þú um að sambandið milli kyrrstöðu og hreyfingar heilli þig, sem og sambandið milli stöðugleika og óstöðugleika, reiðu og óreiðu. Getur þú útskýrt þetta samband aðeins nánar?

Ingunn Fjóla: Þetta er það sem maður myndi kalla á ensku: order and chaos. Þessar tvær hvatir hafa lengi blundað í mér. Sumir hlutar af verkum mínum eru mjög strangir, nákvæmir, stífir og það er mikil stjórnun, annars staðar á sér stað meira uppbrot, meira flæði og meira frelsi. Það hefur lengi blundað í mér og verkunum mínum togstreita milli stjórnunar og hendingar, sum staðar eru lauslega málaðir fletir og annars staðar strangari fletir. Ég er að reyna að finna jafnvægi þarna á milli. Ég hef gert innsetningar sem hafa verið meira frjálst málaðar, meira spontant en þá hefur alltaf verið einhver strúktúr sem heldur utan um það.

Þú segir líka í fyrrnefndum texta: „Kannski er óreiða ekki til“. Hvað áttu við?

Ingunn Fjóla: Þetta eru stórar pælingar en ég er að pæla í lífinu og tilverunni. Ég held stundum að það séu engar tilviljanir. Það eru einhver lögmál sem stýra öllu. Okkur finnst kannski eitthvað vera óreiðukennt en ef til vill sjáum við ekki heildarmyndina.

Þórdís, þú ert með sérstaka titla á verkum þínum, fyrir hvað standa þeir?

Þórdís: Verkin mín heita öll skrásetningartitlum, eins og dagbókarfærslur, í anda ljósmyndarinnar. Mér finnst annað of lýsandi. Ég hef farið þessa leið að nota upphafsstafi þess sem á upprunalega verkið sem ég er að taka mynd af og síðan dagsetningu. Eins og til dæmis verkið, EH10042013, sem er brot úr verki eftir Eygló Harðardóttur, myndin er tekin 10. apríl 2013. Ég er í raun búin að taka þetta úr samhengi og aflaga, verk Eyglóar er einungis brot af heildarniðurstöðunni.

Þórdís Jóhannesdóttir. EH10042013. Ljósmynd: Birt með leyfi listamanns.

Ingunn, þú leggur einnig mikla hugsun í titlana, ekki satt?

Ingunn Fjóla: Jú, mér finnst erfitt að velja titla og ég set svolitla orku í það. Ég hef verið ströng við sjálfa mig og ég reyni alltaf að hafa titil. Það gefur áhorfandanum innsýn í verkið og kemur honum inn á ákveðnar slóðir. Ég vil að áhorfandinn hreyfi sig í kringum verkin og hafi áhrif með hreyfingu sinni. Þetta verk heitir til dæmis Máluð sjónarhorn (tog) og vísar þannig í þyngdaraflið. Ef maður fer upp að þessu verki, þá hreyfist þráðurinn. Þyngdaraflið sem togar þráðinn niður víkur í smá stund fyrir stöðurafmagni eða gustinum sem kemur með fólki. Þó að þetta séu minni verk þá er ég samt að vinna með þetta gagnkvæma samband milli verks og áhorfanda.

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir. Máluð sjónarhorn (tog). Mynd: með leyfi listamanns.

Það er ef til vill það sem hefur breyst í þinni listsköpun Ingunn Fjóla?

Ingunn Fjóla: Það er reyndar alveg hárrétt. Ég hef alltaf hugsað um áhorfandann en það sem hefur breyst hjá mér er að verkin svari tilbaka. Það sem gerðist í útskriftarverkinu í Gerðarsafni var að hreyfingin varð hluti af verkinu. Ég var með hreyfiskynjara, þannig að ferðalag áhorfenda um rýmið settu mismunandi hluta verksins af stað; ljós kviknuðu, viftur blésu og mótorar keyrðu þræði um rýmið, allt eftir því hvar áhorfendur gengu um. Það verk var tilraunakenndara en þau verk sem ég hafði hafði unnið fram að því.

Miðlarnir sem þið hafið valið ykkur; ljósmyndin, skúlptúrinn og málverkið, eru mjög karllægir miðlar ef litið er til sögunnar en það er vísun í kvenlægari efni og miðla í verkunum. Það er til að mynda vísun í tekstíl og vefnað í verkum þínum Ingunn Fjóla og þú notar band og garn og blandar við málverkið og naumhyggjuna.

Ingunn Fjóla: Þetta er áhugaverð athugun. Ég hef ekki hugsað mjög mikið um þessa tenginu við textílinn. Ég er mjög hrifin af vefnaði og ég set mig ekki á móti þeirri tenginu en ég kem ekki þaðan því ég hef ekki þessa þekkingu. Ég kann ekki að prjóna og ég hef aldrei ofið og byggi því ekki á þeim grunni. Þetta hófst á því að ég fór að nota bönd til að gera línuteikningu í rými. Það hefur síðan fylgt mér. Ég var að búa til litafleti úr línum sem er í raun meiri vísun í naumhyggjuna og því karllægari ef svo má segja. Línurnar hafa optísk áhrif, það myndast víbríngur í auganu. Ég sæki því meira í naumhyggjuna og „op art“ frekar en í textílinn.

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir. Máluð sjónarhorn (stöðugleiki II). Mynd: með leyfi listamanns.

Þórdís, hvaða listamanna eða liststefna hefur þú litið til?

Þórdís: Ljósmyndaverk hafa haft áhrif á mig. Ég rýndi mikið í ljósmyndaverk annarra þegar ég var að byrja að læra myndlist, verk Boltanski, Wolfgang Tilmans og fleiri. Pabbi átti ljósmyndagræjur og það kynnti undir áhugann. Ég byrjaði bara að fikta í græjunum hans þegar ég var unglingur en í dag verð ég fyrir áhrifum af öllu sem er þrívítt, þrívíð verk, varpanir eða skúlptúrar.

Hvað finnst ykkur það mikilvægasta í allri listsköpun?

Þórdís: Það mikilvægasta er að vera trúr og samkvæmur sjálfum sér, að vera heiðarlegur og einlægur í sinni myndlist. Mig langar að fólk komi og geti séð eitthvað nýtt þegar það skoðar verkin mín. Þetta er langhlaup. Maður verður bara að halda áfram og vera trúr og samkvæmur sjálfum sér.

Ingunn Fjóla: Ég held að það sé að vera trúr sjálfum sér og ekki eltast við tískustrauma. Það eru tískustraumar í myndlist þó enginn vilji tala um það. Maður getur ekki stjórnað því hvenær maður dettur í og úr tísku. Maður verður bara að halda áfram því sem maður er að gera. Á Íslandi er þröng sena og það er ákveðin tegund af myndlist sem er „in“ hverju sinni.

Við látum þetta vera lokaorðin og þökkum Ingunni Fjólu og Þórdísi fyrir samtalið.

Viðtal: Ástríður Magnúsdóttir


Sýningin BENDING stendur til 17. febrúar í BERG Contemporary.

Aðalmynd með grein: Daníel Magnússon.

Heimildir:
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir. Myndlist / Hönnun útskriftarsýning. Listaháskóli Íslands. MA 2017.
Þórdís Jóhannesdóttir. Myndlist / Hönnun útskriftarsýning. Listaháskóli Íslands. MA 2016.

Nánari upplýsingar um listamennina:
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir. ingunnfjola.net
Þórdís Jóhannesdóttir. thordisj.com
Hugsteypan.  hugsteypan.com

UA-76827897-1