Um samúð

7.05. 2018 | Umfjöllun

Í Hallgrímskirkju stendur yfir sýning Kristínar Reynisdóttur myndlistarmanns, til 13. maí. Hún ber titilinn Synjun og í sýningarskrá er fjallað um hvernig verk Kristínar vísa í stöðu flóttamanna og þann fjölda fólks sem hefur verið synjað um hæli hérlendis og erlendis. Í anddyri kirkjunnar má sjá krossa úr ólíkum viðartegundum sem vaxið hafa víðs vegar um heiminn en borist hingað til lands, rennda viðarboli í formi lágmynda og mynd af risastóru, neyðarappelsínugulu hjarta, lit sem einnig er á bakhlið viðarkrossanna.

Frá upphafi er óhætt að segja að list og samfélag tengist órjúfanlegum böndum. Á einn eða annan hátt er listin hluti af umhverfi sínu, hvort sem hún er andsvar við því, speglar það, setur fram heimspekilegar vangaveltur, eða er virkur hluti af því. Öldum saman hefur listin verið farvegur samfélagsins fyrir þjáningu, sorg, gleði og reiði. Listaverk eru eins og tímavélar, þau geta gert nokkrar aldir að engu, hinn sammannlegi þáttur er alltaf eins. Andlit aftan úr öldum lifnar við augliti til auglitis á striganum og mannlegar tilfinningar tjáðar í ljóði breytast ekki.

Undanfarna áratugi hafa listamenn í auknum mæli leitast við að virkja list sína innan ramma samfélagsins. Markmiðið er þá iðulega að reyna á einhvern hátt að nýta myndlistina til að auka lífsgæði, eða til að vekja athygli almennings á því sem betur má fara. Myndlist getur til dæmis aukið lífsgæði þegar listamenn leggja áherslu á mannlega og notendavæna þætti innan borgarskipulags, eða fegra umhverfi sitt. Þessi liststarfsemi gengur undir ýmsum nöfnum, á borð við „urban interventions“, eða „project-based community practise“, og fleira. Stundum rennur listin saman við félagsstarfsemi svo varla verður greint á milli. Síðan eru til listamenn eins og Rirkrit Tiravanija sem sérhæfa sig í að gefa fólki að borða – að vísu kannski ekki þeim sem mest þurfa á því að halda, heldur listunnendum sem mæta á opnun eða sýningu. En þannig má vekja athygli á margvíslegum möguleikum listarinnar.

Aðrir listamenn nálgast samfélagsleg málefni á hefðbundnari máta og í sjónrænu formi, eins og Kristín gerir á sýningu sinni, Synjun. Málefni flóttamanna á Íslandi eru sífellt í umræðunni, flestir koma – og fara – án þess að við vitum af því en einstaka mál ná athygli okkar í gegnum fjölmiðla og eru lýsandi dæmi fyrir þann alþjóðlega veruleika sem Ísland er hluti af. Árlega er fjölda fólks synjað um hæli hérlendis og það sent burt, ómögulegt er að ímynda sér hvernig er að standa í slíkum sporum. Hér kemur hin illræmda Dyflinnarregla við sögu en samkvæmt henni má senda þá sem áður teljast hafa sótt um hæli í öðru ríki innan Evrópusambandsins til baka þangað án þess að mál þeirra fái efnislega meðferð. Flóttamenn geta til dæmis lent í því að fingraför þeirra eru tekin á Ítalíu og sett í alþjóðlegan gagnagrunn og teljast þeir þá falla undir þessa reglu. Dyflinnarreglugerðin veitir löndum heimild en skikkar þau ekki til þess að senda fólk til baka, það er valkostur.

Óhætt að segja að aðstæður flóttamanna frá stríðshrjáðum ríkjum séu í brennidepli í samtímanum og aldrei er of oft minnt á nauðsyn þess að sýna náunganum samúð. Kannski má líka túlka sýningu Kristínar í víðara samhengi, sem kveikju að samúð, ekki bara í garð flóttamanna heldur allra, að ógleymdri nauðsyn þess að sýna sjálfum sér samúð.
Vonandi verður Synjun til þess að minna fjölmarga gesti Hallgrímskirkju á mikilvægi samúðarinnar. Hún gæti líka minnt á möguleika myndlistar og lista almennt séð til þess að vera virkt afl í málefnum samtímans. Aðferðir og möguleikar listamanna eru jafn ólíkir og margvíslegir og þeir eru margir.

Ragna Sigurðardóttir


Ljósmyndir: HGÓ

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This