Tekist á við frelsið

3.11. 2016 | Umfjöllun

Listsköpun sem rannsóknartæki er áhugavert fyrirbæri sem fleiri og fleiri hafa gefið gaum. Ekki eru til margar bækur sem skrifaðar eru út frá sjónarhóli listamanna sjálfra um hvernig þeir líta á listsköpun sína sem rannsóknartæki og er því fagnaðarefni þegar slík bók kemur út. Í fyrra gaf Crymogea út bókina ‘Make a Painting of Trees Growing in a Forest / Erla S. Haraldsdóttir Selected Works’ (2015). Bókin var gefin út af tilefni einkasýningar Erlu í listasafninu í Kalmar í Svíþjóð síðla hausts sama ár og var útgáfan gerð möguleg vegna styrks frá Längmanska listasjóðnum í Svíþjóð og Myndlistarsjóðnum á Íslandi. Erla sjálf hefur verið búsett í Berlín í Þýskalandi um árabil og ólst upp bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Hún er einn af eftirtektaverðustu listamönnum þjóðarinnar og á verk í eign helstu listasafna landsins.

makeapaintingbokFormáli bókarinnar er skrifaður af samstarfsmanni Erlu til margra ára, sýningarstjóra sýningarinnar Jonatan Habib-Engqvist sem jafnframt tekur forvitnilegt viðtal við listamanninn þar sem farið er út í aðferðarfræði Erlu við málunina sjálfa. Jonatan er kennismiður á sviði málverksins í Svíþjóð og á alþjóðlegum vettvangi en hann ritstýrði meðal annars bókinni ‘Thinking Through Painting’ (2014) sem fjallar um athöfnina að mála sem listrannsóknartæki. Í viðtalinu leggur Erla fram það sjónarhorn að það að standa frammi fyrir auðum striganum sé eins og að búa sig undir það að steypa sér út í ævintýri sem eigi eftir að færa sér ófyrirséðnar uppákomur. Hún hafi enga stjórn á þeim, þær gerast bara í ferlinu og sem hún verði að lúta þeim, mæta á vellinum og tækla. Það sé mikilvægt að það sem er framundan sé óráðið annars myndi henni fara að leiðast fljótlega. Hún líkir þessu við að henda sér út í ólgandi fljótið snemma að vori. Það sé sársaukafullt að stökkva ofan í og missa þannig stjórn. Hún verði bara að berast með straumnum, takast á við það sem gerist á leiðinni og náttúrulögmálin og á sama tíma reyna að stýra líkamanum í þessari hringiðu. Viðtalið heldur síðan áfram og kemur inn á tækin sem hún notar við rannsóknina eða ferðina; litanotkun, beitingu pensilsins, lýsingu, sjónarhorn, val á myndefni og annað sem mjög upplýsandi er að lesa um.

bokattach
Erla S. Haraldsdóttir „Make a painting of trees growing in a forest“, 2015, monograph. Crymogea. Hönnun: Ariane Spanier, Stephie Becker, Texti: Christoph Tannert, Dr. Kyllikki Zacharias, Jonatan Habib Engqvist.

Það var texti þýska sýningarstjórans Kyllikki Zacharias sem vakti mesta athygli hjá mér. Í greininni fjallar Kyllikki um aðferðarfræði Erlu við rannsókn og undirbúning eða um þá leið sem farin er áður en sest er niður og málað. Erla beitir aðferðarfræði sem hún kallar ‘Task Painting’ eða ‘Málað samkvæmt tilmælum’. Bókin fjallar um málverk sem hófu vegferð sína sem tilmæli til listamannsins frá Magnúsi Sigurðssyni, Craniv Boyd, Hildigunni Birgisdóttur, Stanislaw Ruksza, Katarzyna Kalinka og óþekktum vætti í Witherle skógi í Maine í Bandaríkjunum. Í greininni sem inniheldur fjölda ljósmynda er rakin aðferðarfræði sem byrjar á því að Erla biður vini sína um að gefa sér tilmæli sem verða að útgangspunkti rannsóknarvinnu þar sem Erla viðar að sér myndefni sem tengist tilmælunum. Erla fer í ferðalag sem innblásið er af þekkingu hennar á listasögu heimsins og náttúrulegum fyrirbærum og landslagi en einnig myndbrotum úr hversdagslífinu. Myndirnar eru valdar af kostgæfni og síðar notaðar til hliðsjónar við málunina. Það er á þessu stigi sem Erla stendur á bakka fljótsins og hendir sér út í af miklu hugrekki og rannsóknin heldur áfram sem athöfn eða praktík. Vandlegur undirbúningur er þannig ekki sama og fyrirsjáanleiki. Með þessari aðferð verður Erla að eigin sögn að rottu sem byggir eigin völundargöng og vitnar þar í franska rithöfundinn Raymond Queneau. Þarna er Erla að tækla hið óendanlega listræna frelsi sem listamenn hafa notið í sköpun sinni síðan á 19. öld og meitlar sér leið í gegnum sjálfskipaðar takmarkanir tilmælanna til að komast að kjarnanum – hún finnur undankomuleið. Hún þarfnast þessara sjálfbyggðu takmarkana og undankomuleiðar vegna þess að þetta algera frelsi gerir auðann strigann að einskonar plánetu án sportbrautar. Það vanti sólina eða kerfi til að snúast í kringum. Algert frelsi sé líka alger ábyrgð á útkomunni og þannig verði auði hvíti striginn að martraðakenndu hyldýpi.

dok_erla_s_h_kalmar_konstmuseum_2015_11_michelangelo_miskulin_47„Make a Painting of Trees Growing in a Forest“ 2015. Solo exhibition. Kalmar konstmuseum, Kalmar, Sweden. Ljósmyndari: Michelangelo Miskulin.

Fremst í bókinni er að finna inngangstexta eftir listrænan stjórnanda Bethanien listastofnunarinnar, Christoph Tannert, en Erla er ein af fáum íslensku listamönnum sem hafa hlotið þann heiður að fá úthlutað vinnustofu í Bethanien sem staðsett er í miðju listasenunnar í Berlín. Það sem Tannert finnst áhugavert við málverk Erlu er að hún fetar sínar eigin leiðir um leið og hún á í stöðugu samtali við hefðina. Það er ekki nýtt af nálinni að listamenn noti sjálfskipaðar takmarkanir eða reglur og tilmæli til að fást við listköpun sína. Það sem er áhugavert er að skoða hvernig Erla daðrar við liststefnur og aðferðir fortíðar á hátt sem tikkar í takt við samtímann. Tannert vitnar í Erlu sem tekur fram að hún skilji það sem svo að hlutverk málverksins í samtímanum sé fólgið í því að það skapi rými fyrir sálir einstaklinga, það gefi sálinni rödd í augnablikinu. Hin einstaka rödd sé á sama tíma hin samfélagslega rödd, og staðbundin rödd sé að sama skapi hin algilda rödd. Hún vonar að málverkin hennar séu aldrei lokaniðurstöður, heldur mikið frekar að þau opni slík rými.

genesis_hallgrim
Frá Genesis sýningunni í Hallgrímskirkju. Ljósmyndari: Vigfús Birgisson.

Bókin fæst víða í borginni. Meðal annars í Mál og Menningu og á öllum helstu söfnum. Það er lærdómsríkt að spegla eigin listsköpun í aðferðarfræði Erlu og um að gera að næla sér í eintak en einnig vegna þessa að um þessar mundir stendur yfir önnnur einkasýning Erlu í Hallgrímskirkju. Það hefur hún tekið fyrir sköpunarsöguna sem einhvers konar tilmæli til að hefja skapandi feril. Í sýningarstjóratextanum kemur Jonatan inn á það að með því að nota þá listrænu aðferð að skapa kerfi í kringum listsköpun sína þá nálgist Erla á gagnrýnin hátt langlífar en út úr sér gengnar hugmyndir um hinn guðdómlega innblástur og skylda hugmynd um að listamaðurinn skapi úr engu – ex nihilo. Málverkin í Hallgrímskirkju byggja á sjö teikningum úr Íslensku teiknibókinni en hafa í höndum Erlu dýpkað verulega tilvísunarheim sinn. Þarna er vísað í íslamska list, tarot spil, mynsturgerð Ndebele fólksins í Suður-Afríku, egypskar fornminjar, dulspeki gyðinga, evrópska sem og íslenska og japanska list en líka hversdag Erlu sjálfrar. Málverkin verða ferðalag um heim Erlu. Höfuðverk sýningarinnar er málað með hliðsjón af símamynd sem hún tók upp í rúmi af sjálfri sér liggja í leti á sjöunda degi vikunnar. Gefur hún í skyn að letin sjálf sé þar sem uppruna sköpunar sé að finna.

Heimasíða Erlu fyrir frekari upplýsingar: erlaharaldsdottir.com

Sýningu lýkur 20. nóvember n.k.

Hulda Rós Guðnadóttir

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This