Ímyndanir um fegurð í tímaröð

Ímyndanir um fegurð í tímaröð

Ímyndanir um fegurð í tímaröð

Listahátíðarsýning Listasafns Reykjavíkur árið 2018 ber hátimbraðan titil: Einskismannsland sem teygir sig frá Kjarvalsstöðum til Hafnarhúss. Kjarvalsstaðahluti sýningarinnar er byggður upp á málverkum og nokkrum teikningum eftir frumherja íslenskrar myndlistar. Sýningin varpar ljósi á sögu módernískrar landslagslistar á Íslandi í tímaröð. Heillað listafólk segir í upphöfnu myndmáli frá hinni einu fegurð sem hafði vart verið snert af hinum skærgula Caterpillar sem verður sífellt stórtækari við mótun landsins. Í þessum verkum stendur listafólkið eitt frammi fyrir víðernunum án þess að nota verkin til að fjalla um og upphefja sjálft sig í hinni miklu mynd almættisins sem forðum var færð yfir á striga og pappír. Einu verurnar sem minnt gætu á fólk sjást í verkum sjáandans Kjarvals sem  í vestursalnum og einu verki Þorbjargar Höskuldsdóttur.

Á Kjarvalsstöðum eru sýnd verk eftir fimm konur og tíu karla enda var lismálun karlastarf langt fram eftir 20 öldinni eins og allir vita. Þetta viðhorf  er staðfest á sýningunni og ekki er að sjá að reynt hafi verið að hafa uppá konum umfram þær fimm sem eiga verk á Kjarvalsstöðum.  Þessi hluti sýningarinnar ber vitni þeim kynjahlutföllum sem eitt sinn þóttu góð og gild í myndlist –og þykja víst enn.

Þeir sem hafa vélað um tilurð sýningarinnar eru margir. Til verksins hefur safnið skipað fjögurra manna sýningarnefnd, sex manna samráðshóp og einn sýningarhönnuð. Ekki er að sjá að neinn sýningarstjóri haldi utanum verkefnið eða beri ábyrgð á sýningunni. Það hefði verið gagnlegt að fá upplýsingar um hlutverk sýningarnefndar og samráðshópsins við mótun sýningarinnar og val á verkum og hvert hlutverk  sýningarhönnuðarins er. Hvernig sem verkaskiptingu er háttað virðast þeir sem fóru með úrslitavald varðandi val verka og innsetningu þeirra ákveðið að fara auðveldu leiðina og hengja Kjarvalsstaða hlutann upp í tímaröð fremur en þemaskiptingu sem hefði getað dregið fram ný, óvænt og skarpari sjónarhorn í umfjöllunarefnum listafólksins.


Þórarinn B. Þorláksson Stórisjór (langisjór) 1906

Stefán Jónsson frá Möðrudal / Stórval . Herðubreið. Dæmi um sérkennilegt upphengi á verkum þessa sérstaka listamanns.


Verk Þorbjargar Höskuldsdóttur í austursal Kjarvalsstaða.

Málverk Þórarins B. Þorlákssonar eru hið táknræna og margstaðfesta upphaf módernískrar listar á Íslandi – ár 0 og svo fylgja allir hinir málararnir á eftir. Afleiðingin af uppsetningunni er að sýningin virkar soldið eins og vinsældalisti þar sem nöfn listafólksins, umfjöllunarefni og titlar verka renna áfram eins og seigfljótandi sannleikur þannig að sýningargestir eru engu nær um stílátök í þessari sögu. Sýningargestir hafa þannig einungis ættfræði hins eingetna íslenska landslagsmálverks uppúr krafsinu án tengsla hvert við annað eða heiminn utan Íslands. Þetta er upphafin einangrun þar sem átökin við landið geta orðið að magnþrunginni dramatík eins og í verki Jóns Stefánnsonar, Kvöld (Tindafjöll)  frá 1921 þar sem rifar í fjallgarð á milli kólgusvartra skýjabólstra eða þá hógværir litafletir Júlíönu Sveinsdóttur sem leysast upp í verkinu Snæfellsjökull frá 1951 sem er besta verkið í jöklaseríu hennar á sýningunni. Þrátt fyrir það að deila megi um upphengingu verka og innihald þeirra í vestursalnum verður því ekki neitað að málararnir kunna að yfirfæra hugmynd sína um landið yfir á strigann.

Þegar komið er útúr vestursalnum blasa málverk Stefáns Jónssonar af Herðubreið við borgandi viðskiptavinum safnsins  –verk sem hrista upp í hefðarröðinni– málverkum Stefáns er puðrað tilviljanakennt upp á göngum hússins og það er ekki hægt að kalla upphengingu á verkum þessa látna einfara annað en algert virðingarleysi við hann og arfleifð hans. Stefán á það sannarlega skilið að fá almennilegt veggpláss í örðum hvorum salnum. Það er engu líkara en allt í einu hafi plássið verið búið og því hafi verið gripið til þess ráðs að henda verkum listamannsins uppum alla ganga svo hægt væri að segja að hann hafi allavega fengið að vera með. Það er líka vert að halda því til haga að Stefán Jónsson frá Möðrudal kynntist öflum einskismannslandsins í slíku návígi að leiðangrar annarra málara inná hálendið verða eins og nestisferðir á sunnudegi í samnburði við þá reynslu hans að hafa nærri því orðið úti á austfirskum heiðum.

Þegar í austursalinn kemur taka verk Þorbjargar Höskuldsdóttur á móti gestum. Þorbjörg er listamaður sem sannarlega tókst að hrista upp í upphafinni náttúrudýrkuninni allar götur frá því að hún sýndi fyrst í Gallerí SÚM við Vatnsstíg í Reykjavík árið 1972. Þorbjörg sýndi landið í algerlega nýju ljósi. Hún tók þjóðvíðernavitund fyrri kynslóða í gegn; hellulagði víðernin og bjó til súlnagöng sem gréru inní landslagið. Á sýningunni eru þrjú stór málverk eftir Þorbjörgu og eru þau hvert öðru betra. Fólk sést afar sjáldan í verkum hennar þannig að verkið Þögn frá 1981 vakti athygli mína en í því sést ókyngreind mannvera í skjóli við veggjarbrot horfa yfir ágengt landslag. Sú náttúrusýn sem Þorbjörg miðlar verður stöðugt ágengari eftir því sem árin líða. Þorbjörg hefur víða sýnt um dagana og gengið sinn listræna veg án hávaða en samt sem áður fært þjóðinni óumdeildan arf. Verk Þorbjargar eru stærstu tíðindi sem hafa orðið í íslensku landslagsmálverki eftir 1970 og það kemst enginn með tærnar þar sem hún hefur hælana auk þess sem enginn arftaki hennar er sjánalegur.

Önnur verk í austursalnum sverja sig í ætt við hefðina.  Því er ekki að neita að fróðlegt er að sjá öll þessi verk samankomin og hugsa um það sem hefði verið hægt að gera. Hinsvegar verður að segja að myndirnar  tala fyrir sig sjálfar og þurfa alls ekki á tilvitnunum í bókmenntir að halda. Þessir textar gera lítið annð en að æsa útblásna þjóðernisvitund sem ekki er þörf fyrir hér á landi þegar minnst er fullveldis þjóðarinnar.

Listasafn Reykjavíkur lætur ekki þar við sitja og tímaröðin heldur áfram í Hafnarhúsinu. Þar tekur yngra listafólk við keflinu og sýnir verk sín. Yngra fólkið gengur margt útfrá öðrum hugmyndum en brautryðjendurnir og sýnd eru verk eftir 9 karla og 8  konur. Samtals sýna 19  karlar og 13 konur á allri sýningunni. Í Hafnarhúsi er boðið uppá innsetningar, skúlptúra, ljósmyndir, málverk og vídeó sem fjalla um land, fólk, fjöll og fyrnindi í öllum sölum safnsins og inngrip mannanna í náttúrunni blasa víða við.

Verk Þorbjargar eru mér enn ofarlega í huga þegar í Hafnarhúsið kemur og það rennur upp fyrir mér að verk hennar eiga betur heima hér vegna þess að hún hefur allan sinn feril fjallað um efni sem skiptir meira og meira máli. Strax árið 1972 sýndi hún þjóðinni inn í framtíðina og herferð auðvæðingarinnar gegn landinu. Um verk hennar má taka undir með Jóni Engilberts sem sagði:,,Það lifir sem ber aðal framtíðarinnar í sjálfu sér, hitt gengur undir.“ (Steinar og sterkir litir ,1965, 27). Verk Þorbjaragar lifa og eru sí ný og tala til nýrra kynslóða á ferskan hátt. Við samanburðinn á Kjarvalsstöðum og Hafnarhúsi kemur og betur og betur í ljós að þemaskipt sýning hefði boðið uppá mun áhugaverðari nálgun en tímaröðin. Þemun sem hefði til dæmis mátt byggja á eru Andóf þar sem m.a. verk Rúríar, Þorbjargar og listafólks af yngstu kynslóð hefðu sómt sér vel, Upphafning gæti verið verk eftir brautryðjendur í samtali við Stefán Jónsson, Tolla og pabba hans, Kristinn Morthens og fólk-land þar sem Ósk Vilhjálmsdóttir, Einar Falur og Sigurður Guðjónsson hefðu talað saman frammi fyrir mannlausu landslagi Jóns Stefánssonar. Einar Garibldi, Ragna Róbertsdóttir, Júlíana Sveinsdóttir, Ólafur Elíasson, Unnar Örn Auðarson og Kristinn Pétursson spjallað saman um Gleymsku?


Rúrí Tortími 2008.

Inni á samsýningunni Einskismannslandi var white cube einkasýning með verkum Einars Fals Ingólfssonar þar sem hann sýndi ljósmyndir frá hálendi Íslands.


Verk úr myndaröð Péturs Thomsen.


Frá verki Óskar Vilhjálmsdóttur þar sem  hún ýmisst hleypur eða gengur í kringum uppistöðulón Kárahnjúkavirkjunar tíu árum eftir að vatni úr Jöklu var veitt yfir landið.


Hallgerður Hallgrímsdóttir sýnir skjáskot úr eftirlitsmyndavélum víða um land og eru þær merktar þekktu vaktfyrirtæki.

Þessi nálgun hefði þýtt meiri vinnu fyrir þá sem stýrðu verkefninu en skilað áhugaverðu samtali á milli genginna kynslóða og samtímafólks svo ekki sé minnst á að veita þeim sem sækja sýninguna tækifæri til að taka þátt í gagnrýninni samræðu. Það er engu líkara en þeir sem stýra sýningunni óttist það að efna til samtals og velja því þá auðveldu leið að sýna borgandi viðskiptavinum safnsins klisjuna um landið; líkt og það sé bannað að listin reyni að benda á lausnir eða taki á yfirstandandi umræðu og reyni að leysa vandamál og spyrja spurninga stað þess að þegja þunnu hljóði.

Að velja verk eftir baráttukonuna og aktívistan Rúrí vinnur  gegn upphafningunni, þögninni um eyðilegginguna en hún er því miður næsta einmana og úr tengslum við annað líkt og segja má um flest verkin. Í verki hennar vinnur pappírstætri jafnt og þétt að því að tæta niður myndir af fossum. Hér hefði markviss sýningarstjórnun dregið saman andófsverk aktívista á meðal myndlistarfólks eins og bent er á hér að framan.

Myndaröð Péturs Thomsen frá framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun nær ekki að styðja verk Rúríar hvað þá að önnur verk á sýningunni hafi burði til þess. Myndaröð hans verður geómetrísk rannókn á spennunni milli flata -flatarljósmyndir sem skortir pólitíska vitund og átök við inngrip Caterpillars í landslag samtímans. Eins og myndaröðin er sýnd í Hafnarhúsinu tel ég að botninn sé úr henni og að botninn sé á Listasafni Íslands. Það var nefnilega ekki fyrr en ég skoðaði fullveldissýninguna í Listasafni Íslands að ég uppgötvaði verkið sem hefði getað látið myndaröðina ganga upp er þar eitt og yfirgefið. Samt sem áður er röðin helst til hugguleg og listamaðurinn fjarri því að dýfa höndunum í drulluna til að sýna undir yfirborðið. Verkin ná því ekki að vera áminning um aðförina að landinu.

Sýningin sveiflast frá því að listafólkið horfi á landið utanfrá og til þeirrar tilfinningar að vera í því og á –að taka þátt í landinu líkt og í verki Óskar Vilhjálmsdóttur þar sem  hún ýmisst hleypur eða gengur í kringum uppistöðulón Kárahnjúkavirkjunar tíu árum síðar. Þessi hlaup eru sýnd á fjölda skjáa og innsetninginn fyllir einn af sölum safnsins. Hlaupin minna soldið á dularfull og óskiljanleg erindi söguhetja í tölvuleikjum þar sem hetjan í kapphlaupi við tímann hoppar yfir jarðföll og aðrar hættur drifin áfram af hljóðrás sem stundum er hröð og æsanndi eða sultu slök hugleiðslutónlist. Því miður finnst mér verkið detta flatt niður og skorta tilvísun í reynslu og aktívisma listakonunnar frá frá því fyrir tíu árum. Þetta verður spretthlaup án takmarks og tilgangs sem hefði dugað að hafa á einum skjá sem hægt hefði verið að brjóta niður í fleiri myndbrot. Vísunin í tölvuleik er ætlað að benda á þann möguleika að með markvissari úrvinnslu verksins sem gagnrýnins tölvuleiks hefði hugsanlega verið hægt að búa til þátttökuverk sem gæti vakið áhuga yngstu kynslóðarinnar á gagnrýninni náttúruvakt.

Hallgerður Hallgrímsdóttir sýnir skjáskot úr eftirlitsmyndavélum víða um land og eru þær merktar þekktu vaktfyrirtæki. Því miður eru örlög verka hennar lík og verka Stefáns Jónssonar; að hanga nær ósýnileg á tvist og bast á göngunum. Enn einusinni finnst mér að listamanni sé sýnd umtalsverð óvirðing. Myndirnar gefa til kynna að stóri bróðir sé að fylgjast með og ekki er örgrannt um að hann sé í vinnu hjá eftirlitsfélagi sem hefur einkavætt hálendi og fagrar sveitir sem sendir fólk af stað verði einhverjum á að síga fæti á einklandið. Það hefði verið forvitnilegt að sjá þessar myndir stækkaðar uppí A1 eða þaðanaf stærri verk.

Ljósmyndir Einars Fals eru líkt og einkasýning inni í miðri samsýningu vegna þess mikla fjölda verka sem þar eru saman komin. Hjá honum er fjöldi fólks saman kominn en myndirnar virka eins og fréttamyndir með blaðagreininni ,,How-do-you-like-Iceland?-Gosh-it´s-amazing“.  Hér er ekkert kafað eftir óvæntum sjónarhornum eða horft gagnrýnum augum á land, þjóð og gesti. Tilgangurinn virðist vera að sannfæra áhorfendur um að hér sé nú allt í sómanum; landið fagurt og frítt og vel sótt. Ég tel að þemaskipt sýning hefði styrkt erindi Einars Fals til muna.

Er þá ekki allt aðal fólkið mætt og óhætt að dæsa og ganga mett og sæl út. En, nei spurningin um þá sem vantar vaknar óhjákvæmilega. Á ekki Eggert Pétursson fullt erindi á svona sýningu með verk sem fjalla um hið smáa í lífríkinu eða Kristján Davíðsson, Magnea Ásmundsdóttir sem hefur fjallað um fjallið í steininum og steininn í fjallinu af næmi og innsæi. Nú, eða Kristján Steingrímur. Hvað með Tolla? Hann hefur málað landslag nær allan sinn feril. Fjarvera hans undirstrikar rækilega að það eru fleiri en einn listheimur í gangi á sama tíma og þeir eru misjafnlega velkomnir í partíið sem Listasafn Reykjavíkur býður til. Anton Logi Ólafsson málaði röð mynda af frægustu og stærstu virkjunum landsins og hvert verk ber nafn þeirrar frammámanneskju sem lokaði dílnum og skrifaði undir samning um framkvæmdir sem kostuðu meiri átök og baráttu fyrir andkapítalískri nýtingu landsins en áður hafði tíðkast. Eitt þeirra verka ber titililnn Sif Friðjónsdóttir. Freyja Eilíf hefur líka fjallað um náttúruvernd í verkum sínum. Sigríður Sigurðardóttir var afkastamikill málari á síðustu öld og eftir hana liggja nokkur mjög góð landslagsverk sem hefðu sómt sér vel á þessari sýningu.

Þetta eru aðeins örfá dæmi um listafólk sem hefði fyllt uppí myndina og bætt nýjum röddum inní mikilvægt samtal um fólkið, listina og landið. Í stað þess höfum við í raunni enn einn bókmenntatextann dulbúinn sem myndlist í formi óbeinnar tilvitnunar í Snorra Hjartarson einkum þann hluta sýningarinnar sem er á Kjarvalsstöðum: ,,Land, þjóð, tunga/þrenning ein og sönn“, nema hvað þátttaka þjóðarinnar er ekki til staðar.

Ynda Gestsson


Ljósmyndir: Helga Óskarsdóttir.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest