Veruleikinn frá vana til undrunar: Róf Haralds Jónssonar

Veruleikinn frá vana til undrunar: Róf Haralds Jónssonar

Veruleikinn frá vana til undrunar: Róf Haralds Jónssonar

Fyrir þá sem, eins og undirritaðan, hafa myndað sér þá óviljandi venju að slá takt eða telja skrefin í huganum þegar gengið er og hugurinn sé ekki upptekinn við veigameiri hugsanir, kunna fyrstu kynnin við nýjustu sýningu Haralds Jónssonar myndlistarmanns að virka fremur náin. Eins og létt óvænt snerting, sakleysislega uppáþrengjandi og nærgætin á sama tíma. Er maður nálgaðist innganginn á Kjarvalsstöðum virtist skrefaupptalningin í höfðinu verða smám saman háværari, jafnvel tvöfaldast og loks bergmála í ytra rýminu. Allt gerðist þetta á örfáum sekúndum, áður en maður áttaði sig á hljóðinnsetningunni í portinu, þar sem heyra mátti unga stúlku telja hressilega.

 Haraldur Jónsson fagnar um þessar mundir þrjátíu ára ferli en yfirlitssýningin Róf, á vegum Listasafns Reykjavíkur, kemur til með að gera þeirri sérstöðu sem hann hefur skapað sér í íslensku listalífi skil á slíkum tímamótum. Rýmið í víðum skilningi – ytri jafnt sem innri rými og tengsl manns við þau – hefur í gegnum tíðina verið Haraldi hugleikið. Ýmisskonar rými voru nýtt í gerð sjálfrar sýningarinnar, en verkin á henni er að finna á víð og dreif í safnhúsinu, svo sem á almannafæri og jafnvel á netinu, á Instagram-síðu Haraldar. Gjörningar koma einnig við sögu á sýningunni, en deila mætti nánar um hverskonar rými slíkt listform eignar sér: Staðinn sem gjörningurinn gerist á, tímann sem hann fyllir, víddir minnisins um leið og honum er lokið, eða – reyndar ekki ólíkt öðrum listformum – áhorfendurna sjálfa sem „hljómbotn“.

 Gengið er inn í Vestursal safnins á milli veggja þakinna með hundruðum orða yfir tilfinningar. Tilfinningaveggfóður heitir þetta verk en sjálfur títill sýningarinnar, sem mætir augnaráði gestanna einmitt fyrir enda gangsins, kynni á sinn hátt að lýsa því breiða rófi hugar- og likamsástanda sem þar birtist. Þegar komið er inn í salinn blasir við lífleg uppsetning allskyns fjölbreyttra gripa – annarskonar róf. Haraldur hefur allajafna leitað til ólíkra miðla og fundið listrænu iðju sinni margbreytilegar birtingarmyndir. Listrænni rannsókn sem hefur á hinn bóginn sýnt langvarandi áhuga fyrir ákveðnum viðfangsefnum. Markús Þór Andrésson sýningarstjóri ritar í kynningartexta að viss „áhugi á mörkum hins innra og hins ytra – og leiðunum þar á milli“ einkenni þau verk Haraldar sem fást við lykilviðfangsefnið líkamann. Sjá má hvernig slíkt grundvallaratriði var útfært í uppbyggingu sýningarinnar í heild sinni, sem snýst í kringum fjögur meginþemu: Líkama, tilfinningar, skynjun, tungumál. Nú ef líkaminn felur í sér innra rými, ef hann er okkar tengiliður við ytri heiminn, og skilja má hann sem sjálf mörkin milli hins innra og hins ytra, þá eru tilfinningar, skynjun og tungumál vissulega mismunandi leiðir þar á milli. 

 Einnig mætti skilgreina sem höfuðáttirnar í leiðangri um verkin reynslu, efni og tungumál. Algeng aðferð hjá Haraldi virðist vera sú að framkalla skynjanir og sýna okkur hluti í öðru formi en því sem við höfum vanalega reynslu af. Til að mynda er „leikið“ með að hlutgera óefnisleg fyrirbæri og skipta út beinni reynslu af einhverju fyrir hugtak hins sama, semsagt miðla reynslunni í gegnum tungumálið. Þetta er ef til vill einskonar viðleitni um (ó)þýðanleika merkingarinnar, þvert á skynfæri og vitsmuni.

Eitt fyrsta dæmi um þetta má finna í seríunum Anatomy of feelings, Diagrams of feelings, Emoscans og Emograms. Þessar ólíku myndaraðir eru afrakstur rannsókna sem Haraldur hefur lagt ítrekað stund á í gegnum tíðina, og ganga hver á sinn hátt út á það að myndgera tilfinningar. Þetta fer frá einfaldari stílfærðum teikningum yfir í aðrar heldur flóknar og óreiðukenndar, og enn aðrar myndir unnar með tölvu. Hér á ferð eru verk Haraldar sem sennilega búa við sterkari listsögulega hefð að baki sér. Auðvelt er til dæmis að rekja skyldleika við viðleitni abstraktlistamanna síðustu aldar til að setja fram sálarlíf sitt með sjónrænum hætti, en líka við „ósjálfráðu“ teikningaraðferðir súrrealistanna sem áttu að ná fram ósvikinni tjáningu. Hið myndgerða ástand er þó viljandi lagt fyrir áhorfandann hér, svo hann geti þreifað sig í gegnum það eins og einhverskonar skúlptúr, rými eða margræðan texta, og mögulega fundið einhverja samsvörun innra við sig.

Upp úr holdlegra sviði okkar líkömnuðu tilveru sprettur hins vegar 37°C. Þetta eru tveir nær jafnlitaðir rauðir fletir, hvor í lítillega frábrugðnum litbrigðum. Haraldur notaði sýni úr eigin blóði og vísar títillinn til hitastigs þess. Hann blandaði svo staðlaðri listrænni framsetningu á myndefni (sem í þessu tilfelli er sjálft hráefnið í myndina) saman við vísindalega staðreynd um það, og ýjaði hugsanlega um leið að samsvörun milli hitastigs hins efnislega fyrirbæris og skynjunar heita litarins. Einblínt er á birtingarmyndir blóðsins, án þess að hluturinn sjálfur sé nokkurn tíma nefndur eða komi augljóslega fram í verkinu. Ef við leiðum hugann að hugmyndum um blóð sem groddalegt og jafnvel truflandi fyrirbæri, gróflega birtingu líkamsverunnar og lífssins (ólíkt læknisfræðilegu samhengi þar sem blóðið er undirsett hreinlæti og finnur sér farveg í pípum og hylkjum, sbr. Blóðnám), þá kann vel að virðast sem svo að við einskorðun við tiltekin einkenni þess og síðan ummyndun í mynd og listhlut („æðri veru“), hafi viss „uppleysing“ hlutarins hafi átt sér stað á sama tíma og birtingar hans eru hlutgerðar.

 Ummyndun fyrirbæra kemur gjarnan fram í vinnu Haraldar með tómið, en hann hefur til dæmis oft beint athygli sinni að myrkri og þögn. Slík verk fá mann til að virða fyrir sér fjarverunni og virkja um leið með öflugum hætti ímyndunaraflið, en þetta líkist aðferðafræði sem John Cage varð þekktur fyrir. Almennt höfum við ekki beina reynslu af fjarveru, heldur speglast hún í einhverju sem er ekki til staðar, þ.e.a.s. sem skortur. Á sýningunni birtist hún hins vegar í Breiðtjaldi, vegglangri slengju af svörtu hljóð- og ljóseinangrandi efni. Þrátt fyrir svipmót með einlita abstrakt málverkum er aðalatriðið hér ekki hvað þessi jafni flötur gefur af sér, þvert á móti það að hann gleypir hljóð og ljós, getur sem sagt beinlínis komið í veg fyrir skynjanir.

 Íkónísk að þessu leyti – og í raun innan ferils Haraldar almennt – eru þó sérstaklega verkin Krumpað myrkur og Fontar. Verkin eiga það sameiginlegt að byggjast á einföldu innsæi, sem gerir þeim kleift að koma til skila með óvenju skilvirkum og áhrifamiklum hætti. Krumpað myrkur samanstendur af krumpuðum svörtum örkum, í einni hrúgu sem tekur yfir horn salarins. Myrkrið er hér sem sagt hvorki frádrægt (skortur á ljósi) né alltumlykjandi ástand, heldur jákvæð, áþreifanleg og afmörkuð nærvera. Haraldur hlutgerir óefnislegt fyrirbæri, hvort sem útkoman verði túlkuð sem bókstaflegt myrkur, hugarástand, rými eða sá táknræni gerningur að losa sig við eitthvað. Eins og í 37°C er liturinn í hlutverki sjónræns vísis sem, ásamt titlinum, gerir kleift að þekkja fyrirbærið sem verkið vísar í.

 Það er hins vegar tungumálið sem hlutgerist í Fontum. Listamaðurinn mótaði séríslensku stafina Þ og Ð úr hljóðeinangrandi tjörutex-plötum, færði sem sagt letur í þrívíddarform, steypti hljóð og hugtak í hlut, efni. Stafir (hvort sem um ræðir tölu- eða bókstafir) teljast ekki til náttúrulegra fyrirbæra sem fyrirfinnast í umheiminum, heldur eru þeir sértekningar sem nýtast mannverunni við að lýsa heiminum; þeir eru ekki einungis „einföld“ hljóð, að jöfnu við önnur, heldur skilgreindar og samþykktar eindir sem byggja upp orð, hinar mærkingarbæru einingar tungumálsins. Þeir eru alfarið afurð manna, og við mætum þeim ekki í umhverfinu nema sem grafíska framsetningu og töluð hljóð í rýminu – opinskáa merkingu, í stað opna og óræða sem liggur ósögð í aðstæðum og hlutum. En í tilfelli Fonta verður staða stafanna enn átakanlegri, því sérstæði Þs og Ðs gerir þá jafnframt að hluta af sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar, að menningarlegu atriði. Því áleitnari verður þar af leiðandi sú þversögn sem listamaðurinn skapar með því að hlutgera stafina í hljóðeinangrandi efni: Þversögn milli eðlis hljóðsins og virkni framleiðsluefnisins, sem felur í sér táknræna – og kaldhæðnislega – sjálfseyðingu.

 Tungumálið sjálft virkar þannig sem rými til að útfæra umræddar umbreytingar. En það að snúa ýmsum fyrirbærum í orð, sem sagt í hugtök og hljóð, og síðan þeim sömu í bókstafi og letur – þetta er margrætt ferli, sem getur í senn táknað hlutgerð eða uppleysingu. Helst hlutur, eða frekar skynjun og „merking“ þess, óbreyttur í gegnum þessar myndbreytingar? Haraldur hugar að þessu á sérstakan hátt einnig í heitum verkanna, en hann nýtir sér gjarnan víddirnar, mætti segja „merkingarauðinn“, sem felst í margræðni þeirra orða sem bera fleiri en eina merkingu (sbr. Leiðslur, Svipir, Fontar, o.s.fr.). Tungumálin eru auk þess mörg og gerólík, þar af leiðandi verða því fleiri myndirnar sem eitt og sama fyrirbærið getur birst í, a.m.k. í mannasamskiptum. Þannig lætur Haraldur til dæmis tvítyngda einstaklinga skrifa á glugga safnsins orðið „fiðrildi“ í mismunandi tungumálum. Það er ekki hin lifandi vera, með skrautlega útliti sínu, sem staðnæmst á yfirborð glersins, heldur letur, orð (hug-myndir) sem vísa til hennar, orð sem eru svo ólík sín á milli að spurning getur vaknað um hvort mismunandi form þeirra kunni að standa í einhverjum tengslum við breytileg litbrigði í sjálfri hugmyndinni um hlutinn.

 Drengur fer með orðalista yfir gerðir af tilfinningalegu ástandi, með eintóna og hlutlausri rödd; önnur rödd heyrist nefna nákvæm litbrigði í myrkrinu. Í hljóðinnsetningunni Herbergi, nú á salernum safnsins, telur ungi drengurinn upp hvert orð á fætur öðru, en merking þeirra gengur sennilega úr greipum honum í sumum tilfellum. Hann er þar að auki nýlega læs og lendir hér og þar í erfiðleikum við lesturinn. Tilfinningarnar, í formi orða og hljóða, birtast þá sem mállegar einingar sem hinn mælandi kljáist við, hann þarf að þekkja hugtakið í gegnum letrið og bera það svo fram í gegnum líkama sinn, svo það komist til eyrna á hlustanda. Tungumál er skúlptúr – hugsanlega abstrakt skúlptúr, sem vísar í allskyns fyrirbæri. Í Myrkurlampa er slíkum skúlptúr komið fyrir í myrkvað rými. Þar stendur gesturinn og kallar fram skynjun af þeim margvíslegu litbrigðum sem hvísluð eru til hans, reynir að afmarka merkingu þessara ítarlegu heita, oft rík samskynrænum tilvísum – „ferskjugul“, „kaffibrúnt“, o.s.fr. Ef við lítum aftur, í þessu samhengi, á Tilfinningaveggfóður finnum við þar athyglisverða „þversögn“ sem felst víða í verkum Haraldar. Yfirþyrmandi massi tilfinninga er steyptur fyrir áhorfandanum í formi orða, og skapast togstreita af augljósri fjarlægð búin til milli táknvísis og táknmiðs, milli sléttra flata orða og hins margbrotna landslags mannlegs ástands sem glittir þar í. Listamaðurinn veldur ekki beinni upplifun með skynrænum leiðum, hann lætur tungumálið miðla henni – á sama tíma geta hin mældu orð breyst í sviðsetta skynjanlega hluti.

 Ofannefndu dæmin þrjú vekja náttúrulega athygli á ósamræminu – að eðli og birtingu til – milli tilfinninga og þeirra tungumálalegu eininga sem þær eru iðulega smækkaðar í, fyrir sakir skilvirks miðlanleika þeirra í samskiptum. Á meðan slíkt kynni að vera engin ný uppgötvun, er staðreyndin hins vegar sú að hið sama gleymist auðveldlega í vanabundna sambandi okkar við veruleikann, og Haraldur sýnir það á afar glöggan hátt.

 Sömu verkin gætu þó jafnframt virkað eins og umdeilanlegar tilraunir til að jafna út upplifanir – á borð við kenndir og liti – sem kunna að vera misjanflega tilfinningalega hlaðnar og áhrifamiklar. Eins og til að gefa okkur færi á að nálgast þær, hafa nokkurskonar reynslu af þeim og e.t.v. jafnvel fella dóm, af hlutlægni – laus við beina upplifun og samhengisbundna þætti sem geta haft áhrif á hana. Eiginleg hugmyndareynsla. Svo áhrifarík fyrirbæri væru með slíkri framsetningu færð nær þeirri röð einhæfra og hlutlausra tala sem mætir gestum við innganginn. Heldur öfugt, því stúlkan veitir „innihaldslausu“ talningu sinni mun meira og líflegra skap en tilfellið er annarsstaðar.

 Við gætum reyndar farið svo langt og að segja að einmitt hljóðverkið Bil, þar sem gefst að heyra lófaklapp og blístur í gangi safnsins, sé það tjáningarmesta þrátt (og einmitt) fyrir merkingarfræðilega sneidda, margræða inntak sitt. Hér standa frásagnarmáti gegn inntaki, skynjun gegn vitund – tvennskonar merking á ferðinni. Skýrgreind en „flöt“ hugtök víkja fyrir óræðari en „upphleyptum“ líkamlegum tjáskiptum.

 Merkingin í óræðninni og óorðað inntak skynjunarinnar koma við sögu í ýmsum verkum á sýningunni. Þú og ég heitir til dæmis speglaborð sem á blandast samhengislausar setningar og teikningar; þær mynda mörg dularfull brot sem virka eins og sprottin upp úr óþekktum frásögnum. Erfiðleikinn í að lesa nokkuð röklegt úr þessum samsettu myndum kann einmitt að benda til þess að hér á ferð séu tilraunir til að ná utan um og lýsa annarskonar inntaki, eins og skynjunum og óljósum hugrenningatengslum. Aftur kemur þetta fram í TSOYL (skammstöfun fyrir The Story of Your Life), ljósmyndaverkefni sem Haraldur byrjaði á árið 1987 og heldur enn áfram. Myndefnið er margbreytilegt, en það sem ljósmyndirnar eiga sameiginlegt er einmitt hvað það þykir tilviljunarkennt og ósviðsett. Þær virka eins og gripið hafi verið fram í fyrir einhverju ferli, inn í óþekkta frásögn eða aðstæður. Eins hversdagslegar og þessar myndir eru í grunninn, það er eitthvað óútskýrt við þær – þær birtast fyrir okkur beint og án samhengis, sem er eins og falið fyrir utan ramma þeirra, fyrir aftan myndina sjálfa. Haraldur smellur af þegar hann tekur eftir óvæntum atriðum eða óvenjulegum uppákomum sem beinlínis rjúfa hjúp vanans í sambandi manns við veruleikann – eða stífla „færiband“ móttöku og lesturs manns á umhverfinu. Náskyld efnistök er að finna í þeim tugum myndbanda sem Haraldur hefur reglulega sett inn á Instagram-síðu sína undanfarin þrjú ár. Hvert myndband er þar titlað með einföldu orði, en segja má að útkoman sker sig oft (sérstaklega með tilkomu titlanna) ekki síður í átt að öðrum verkum listamannsins – t.d. Heimskautaávöxtum og Stjörnuhverfi – þar sem aðstæður eru myndaðar og kenndar við önnur óskyld fyrirbæri, sem nokkur svipur er þó með. Ruglingur og samruni, hugarflug og innsæisstökk spila hér inn, í hugleiðingu um túlkun á raunveruleikanum sem er þó á mörkum vana og firringar. Í öllum tilfellum leiðir svipuð reynsla og sú sem er uppistaðan í ofannefnd verk til enduruppgötvunar umhverfisins síns.

Við nefndum í upphafi að líkaminn, okkar frumlægi veruháttur, er fyrsti tengiliður okkar við umheiminn. Í gegnum hann eiga sér stað vensl ytri og innri rýma – nokkuð sem Haraldur hugleiðir í sínum mörgu verkum sem hafa ýmiskonar op að viðfangsefni. Meðal verkanna sem fjalla um líkamann er Svipir, myndbandsverk þar sem föst innrömmun á andliti listamannsins sýnir hann breyta ítrekað um andlitssvip, með hægum hreyfingum. Myndskeiðið er athyglisvert ekki fyrir það eina að lýsa því rófi tilfinninga og framkoma sem gefið er í skyn af andlitinu, með allri margræðni og hárfínum blæbrigðum sem bregða fyrir á milli greinilegri, „fastmótaðri“ svipa. Verkið sýnir þar með einnig dæmi um samskipti milli líkama, óorðuð boðskipti sem bergmála í líkama viðtakandans áður en þeim verði miðlað til vitundarinnar. Tala mætti um ákveðið „andrúmsloft“ andlitsins, hér svipt samhengi og sett fram á svipaðan hátt og á rannsóknarstofu.

Auðvelt er að sjá hvernig díalektík og samskipti innra og ytra fléttast saman við annan lykilþráð í list Haraldar, þ.e.a.s. þátttöku áhorfandans. Líkt og ýmsir þátttökumiðaðir gjörningar (Leiðsla, Litun, o.fl.), sem eru beinlínis háðir spili áhorfenda, hefur Haraldur unnið innsetningar sem áhorfandinn gengur inn í og er þar „virkjaður“. Hér eins og víðar í list Haraldar er markmiðið það að láta áhorfendur enduruppgötva sjálfa sig í umheiminum, enduruppgötva hluti og önnur fyrirbæri, jafnvel listina sjálfa.

Segja má að þátttökuþráðurinn sé spunninn í tvær áttir á sýningunni. Sum verkin virka sem „skynjunarvélar“: Apparat eða umgjörð sem virkja gestinn. Þannig eru verk á borð við Myrkurlampi ekki sjálfstæðar, lokaðar einingar heldur umgerðir sem fullgerast aðeins með tilkomu áhorfenda. Þetta þátttökumiðaða eðli margra verka birtist hvað glöggvast í gjörningnum Blóðnám, sem verður í gangi á tilgreindum tímum yfir sýningartímabilið. Þar er gestum gefið tækifæri á að láta sérfræðing draga úr sér blóð og taka það með sér heim inni í hylki. Til þess að nokkuð verði skapað krefst verkið nærveru, viljugrar þátttöku og framlags gestsins. Það kemur bókstaflega við áhorfandanum til að kalla eitthvað fram í honum – draga eitthvað fram úr honum, sem hann fær síðan að taka með sér. Er þetta ekki grundvallarvirkni í stórum hluta allrar listarinnar? Eins og almennt er tilfellið þá er það sem gesturinn tekur heim frá móti sínu við listina persónulegt og ekki marktækt sem hlutur: Þannig hefur blóðhylkið táknrænt fremur en efnislegt, bókstaflegt gildi. Í endanum verður þetta ekki síður afar hittin aðferð til að benda á mikilvæga þátt líkamans, líkamlegu veru okkar, í reynslu af listinni.

Þráður þátttökunnar togast hins vegar út fyrir sýningarsalina og sjálfan listheiminn, inn í almannarýmið. Þannig er hljóðinnsetninguna Barn að finna á leikvelli á Klambratúni, verk sem aftur veltur á skiptum: Lýsingu á ákveðnu fyrirbæri í fjarveru hins sama. Raunveruleg börn leika sér á svæðinu á daginn og skapa með því tilsvörun fyrir innsetninguna, sem tekur við á kvöldin. Framlenging sýningarinnar inn á samfélagsmiðlana rímar síðan á vissan hátt við titilverk sýningarinnar, Róf, sem listamaðurinn segir vísa í skjámenningu samtímans og það örþunna rými sem fólk er nú farið að dvelja langar stundir í og athafnast. Verkið samanstendur af strimlagluggatjöldum, gulum appelsínugulum og rauðum, sem Haraldur fékk að setja upp í glugga nokkurra húsa á Flókagötu, í samráði við íbúana. Fólkið dregur frá og fyrir að eigin vilja yfir daginn, og stýrir þannig (sam)skiptunum inni- og útirýmis, hvenær og hvernig hvort þeirra opnast fyrir hinu með því að verða sjóninni aðgengilegt. Þannig fremur en verk í eiginlegu almannarými er hér um einskonar jaðarsvæði að ræða. Innsetningin er staðsett í einkarými á sama tíma og henni er þó beint að ytra rýminu, rými „hinna“ – áhorfenda og almennings. Samspilið sem á sér stað hér á mörkunum víkkar út, inn í samfélagslegt samhengi, merkingu hins innra og hins ytra. Og alveg eins og skynjun, tilfinningar og tungumál eru leið þar á milli þar sem um líkamann ræðir, þá er sjálf listin vissulega leið á milli rýma samfélagslíkamans.

Verk Haraldar eru eitthvað sem flestir geta tengt við vegna þess að þau fjalla um tilveru okkar – líkamlegu, tilfinningalegu, en líka vitsmunalegu – í heimi hluta og aðstæðna sem við reynum stöðugt að gera okkur einhverja grein fyrir, og höfum á hættu að festast síðan í. Í list sinni tengir Haraldur saman grunnform þekkingar okkar á heiminum, og þar með á okkur sjálfum: Skynreynslu, hugmyndir, tungumál. Sýningin á Kjarvalsstöðum kemur öllu þessu saman, án þess að útiloka neinn af þeim miðlum sem Haraldur hefur nýtt sér á leiðinni – og ber hér að nefna gjörningadagskrána Afsteypur, þar sem gamlir og nýjir gjörningar í bland verða framdir; né heldur bindur hún sig við rými sýningarsalarins eitt og sér, sem aftur á móti nýtur sín afar fjörlega í uppsetningunni – jafnvel þótt sum verkin kunni að koma fyrir sjónir eins og dálítið í lausu samhengi við hin nærliggjandi. Í ljósi þeirrar stöðu sem texti og yrt tjáning eiga sér í list Haraldar mætti deila um hvort skriftir hans hefðu mögulega getað fengið sitt pláss á sýninguna líka, en geta skal þess að nokkur brot úr skáldverkum hans er að finna í umfangsmikilli sýningarskrá sem gefin var út að gefnu tilefni. Þar finnast einnig fjölbreyttir textar eftir Markús Þór, Sigríði Þorgeirsdóttur, Sjón, og viðtal Katrínar Ómarsdóttur við listamanninn.

List Haraldar Jónssonar einkennist í senn af dýpt og kímni, glettni og glöggsýni. Listamaðurinn stendur fyrir samtímalegri listsköpun sem er bæði áhugaverð og aðgengileg, og þar sem myndmálið virðist búa yfir getu til að vekja forvitni áhorfandans. Spurningin er hvort það endurnýjist þannig hjá gestum sama dýrmæta forvitnin og listamaðurinn virðist sýna gagnvart umheiminum.

Lorenzo Imola


Sýningin stendur til 27.01.2019

Ljósmyndir: Lorenzo Imola og artzine.

Vefsíða: haraldurjonsson.com

 

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest