Marga Hildi háð – Stefnumót við sjálfsmynd samtímans.

2.03. 2022 | Viðtöl

Sýningin Marga Hildi háð opnaði nýlega í Gallerý Port en sýning þessi er eins konar stefnumót við sjálfsmynd samtímans, þar sem myndlistarkonan fæst við það að brjóta niður viðteknar hugmyndir á normatífum sjónarhornum kvenleikans. Svipt er hulunni af huldum heimum kvenpersónurnar, hún er óræð en í senn valdamikil, birtingarmynd þess sem mætti kalla hina femínisku grótesku. Lýst er ljósi á afkima hins innra lífs og sjónarhorn sem eru ekki gerð til nautnar feðraveldisins, heldur fremur til þess að birta og magna nýja vídd hinnar óbeisluðu konu.

Hildur Ása er fædd í Reykjavík og uppalin á Þórshöfn á Langanesi, hún fer svo til Akureyrar þar sem hún gengur í skóla. Þar klárar hún háskólagráðu í Nútímafræði (BA). Eftir það fer hún til Reykjavíkur og útskrifast frá Listaháskólanum 2016. Hildur hefur starfað sem myndlistarkona síðan. Hún hefur sýnt fjölmargar einkasýningar á þessu tímabili og starfar nú í Berlín þar sem hún hefur verið sl. 2 ár. Þar sinnir hún listinni í dag á vinnustofu sinni í Bethanien Kunstraum. Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir blaðamaður Artzine hitti Hildi og ræddi við hana um sýninguna.

Andrea: Hvernig myndiru lýsa hinum rauða þræði sem birtist í verkunum þínum?

Hildur: Ég er aðallega að fjalla um sjálfa mig. Þegar ég byrjaði að vinna með sjálfa mig fór ég strax að sýna einhverskonar gróteskar hliðar af mér, sem mér þóttu eftirsóknarverðar. Semsagt óvanaleg portrett eða sjónarhorn, augnablik í lífinu sem hafa vanalega ekki verið tekin fyrir í listasögunni. Þetta var til þess að fjalla um mitt eigið líf í fyrstu, en svo er ég fór að máta mig við stærri samhengi fór ég meðvitað að sjá hvernig þetta var einnig hluti af því að brjóta niður viðteknar hugmyndir innan listasögunnar. 

Listin fór að snúast um að brjóta niður hinn fullkomna Venus sem var skapaður af mönnum fyrir menn. Ég vildi brjóta niður hið karlæga sjónarhorn, birta hið óæskilega sem er í senn hið sammannlega sem gerist á bakvið tjöldin.

 

A: Hvernig finnst þér það birtast núna í Gallerí port? Þú byrjaðir að vinna þessa sýningu fyrir um tveimur árum, hvernig hefur ferlið verið?

H: Ég byrjaði að vinna þessa sýningu fyrir tveim árum, þá fyrir gamla rýmið þar sem þeir fengu nýtt húsnæði fyrir jól. Ég er alltaf að vinna með svona sjálfsævisögulega hluti, þess vegna er þetta mikið af því efni sem ég var að ganga í gegnum þá, svo frestaðist sýningin út af covid og ýmsu öðrum þáttum. Þannig þurfti ég að fara aftur inn í efnið sem er til staðar þarna. Á þessum tíma var ég að vinna mikið með vatnslitamyndir, ein af ástæðum þess var vegna þess að ég var á farandsfæti og ekki með vinnustofu, ég hafði verið að eiga við eitthvað óöryggi og minnimáttarkennd í olíumálverkinu. Svo í aðdraganda þessar sýningar fóru þessar vatnslitamyndir að færast inn í olíuna, þannig urðu til nokkur ný verk. 

A: Hvernig telurðu að hin líkamlega gróteska konunar birtist í þessari sýningu? Og hvaða sögulega samhengi sérðu hana í?

H: Ég er að vinna með hina kvenlægu grótesku á þessari sýningu, ýmsar táknmyndir fyrir hið innra líf. Mér finnst þetta líka oft vera um innri átök, sem birtast stundum í líkamlegum einkennum, eins og kvíða, þunglyndi og streitu. Svona neikvæðir þættir sem margir eru að eiga við, hvernig þeir hafa áhrif á okkur líkamlega sem og okkar innri sjálfsmynd.

Ég er að birta þessar tilfinningar með uppsprengdum myndunum af mér, þar sem ég er í teygðum skölum, ýmist liggjandi eða í eins konar pödduformi. Ég er að tjá hvernig mér leið, eða hvernig manni getur liðið þegar maður er búinn að upplifa ítrekað höfnun eftir að hafa leitast eftir viðurkenningu á röngum stöðum, á röngum forsendum, hjá röngu fólki.

Það verður algjör brotlending sjálfsins þegar maður í raun þyrfti fremur að finna viðurkenningu á sjálfum sér innra með sér, maður getur ekki varpað þeirri ábyrgð yfir á aðra. Þannig eru þessir líkamar á sýningunni týndir, agressífir, grátandi og tómir – til þess að tákna þá hina innri líðan. Þess vegnar eru þeir svona furðulegir, ég er að draga fram það sem er ekki æskilegt að sýna, ég er að birta angistina, áfallastreituna og tómið. Allt það sem er að gerast á bak við þessa grímu sem við berum í gegnum vikuna.

A: Myndir þú tala um þetta sem eina birtingu á sjálfsmyndum samtímans?

H: Þetta er þessi innri sjálfsmynd, hvernig okkur liður persónulega með okkur sjálf. Svo er hin sjálfsmyndin, sem við sviðsetjum fyrir aðra, hlutverkin sem við setjum okkur í. Mér finnst spennandi að taka þennan viðtekna prófíl í burtu og velta því fyrir mér hvað er handan hans. Hvernig líður okkur á bak við þennan prófíl? Hvernig lítur óveðrið út sem handan grímunnar sem við berum? Það er þetta að birta hið ósækilega. Ég er að fjalla um það sem er á bakvið tjöldin og á ekki að birtast. Það á að hemja það eða beisla.

Mér finnst gaman að nálgast myndlistina eins og aðrir semja tónlist. Það eru til ótrúlega hreinskilnir sorglegir ástar textar, eða um þunglyndi – ég hef svolítið öfundað tónlistarfólk að geta notað miðilinn þannig. Þess vegna leifi ég mér að vera svolítið dramatísk og fara beint í hlutina, það getur kannski verið svolítið banalt, en mér er alveg sama.

 

A: Hvernig sérðu það út frá hinu líkamlega?

H: Ég er að pota í þessar hugmyndir um það sem er eftirsóknarvert, líkamar eru allskonar og við erum öll í ólíkum líkömum sem eru allir þess virði að vera til. Ég hef farið meira undanfarið í að vinna með það að birta innra líf mannsins og gera það physískt. Áður fyrr var ég meira í líkamlegum fyrirmyndum þar sem ég var að eiga við brotna líkamsímynd.

Í fyrstu var ég í raun að gera grín að sjálfri mér en svo snéri ég því yfir í eitthvað sem varð valdeflandi. Með því að sýna líkaman á annan hátt, mér fannst ég ekki vera nógu ásættanleg kannski af því ég var aldrei sjálf búin að sjá þessar hliðar á mér þar sem þessar birtingarmyndir höfðu verið manni huldar af ytri áhrifum.

Svo fór ég svolítið að ofsýna, stækka upp og málaði með olíu – sem er stórt sögulegt samhengi. Ég tróð mér inn á þann vettvang með myndunum mínum. Með þessu sjónarhorni og myndum var ég svolítið að fokka upp í feðraveldinu á einhvern hátt. Í þessu ferli öðlaðist ég skilning á því hvernig heimurinn sem birtist okkur heldur frá okkur ákveðnum sjónarhornum og birtingarmyndum af fólki sem passa ekki inn í þennan litla ramma. Þá fer mér að líða eins og ég geti ekki tilheyrt. Ég vildi pota í þennan litla ramma og teygja hann til. Ég nota sjálfa mig sem fyrirmynd og finn mikið frelsi í því, þá get ég gengið eins langt yfir mín eigin mörk og ég vil. Af því ég er minn eigin efniviður og hugmyndasmiður.

A: Hvernig sérðu feðraveldið í listasögulegu samhengi og hvenrig finnst þér verkin þín þenja út mörkin á birtingarmyndum konunnar?

H: Persónulega skynja ég það fyrst sem ung kona, þar sem sjálfsmynd hennar mótaðist svo mikið af myndum í tímaritum og myndböndum. Ég hélt að ég þyrfti að vera með eins maga og Britney Spears, jafn grönn og Christina Aguilera. Ef ég væri það ekki þá væri ég bara að tapa í lífinu, þetta veganesti hefur stundum komið aftan að mér, jafnvel enn í dag er ég að minna mig á það að þetta er ekki rétt. Þó ég hafi gert myndlist gegn þessu í tíu ár.

Ég hef verið með líkamsímyndar hugsana röskun. Þá veltir maður fyrir sér hvaða strúktúrar stjórna þessum hugsunum. Svo þegar ég verð eldri fer ég að læra um femínisma og kapítalisma, sem og feðraveldið. Þá hugsaði ég að maður myndi náttúrulega vilja rústa þessu kerfi. Eftirá skilur maður hvaða þættir eru að verki. Þetta er svörun og í senn vilji til þess að búa til rými fyrir sjálfa sig. Eins og það að womanspreada*. Þar sem valdið er tekið til konunnar í stað þess að hún sé uppstillt til þess að fullnægja karlmanni.

Þetta mótíf er tabú enn þann dag í dag. Margir eiga erfitt með þessa birtingarmynd í konunni því við kunnum ekki ennþá að staðsetja það. Það er svo viðtekið að konan birtist okkur til þess að gleðja augað og vera tiltæk. En ekki einhvað sem er gagnstætt því. Það koma margir inn á sýninguna hjá mér og verða vandræðalegir í kringum verkin, þeir vita ekki hvað þeim á að finnast um það sem birtist þeim. 

*Gagnstætt því að manspreada, vitnun í verk Hildar á sýningu hennar “Sjálfsmynd.” Origin of the World (L’Origine du monde), eftir Gustave Courbet, var af ein af fyrirmyndum verksins.

Konan er ekki til þess að fullnægja neinum, heldur er hún þarna á sínum eigin forsendum. Um leið og konan verður óræð hefur hún orðið hættuleg í gegnum söguna, eins og með nornabrennurnar. Þetta er ennþá svo djúpstætt í sögunni, við þurfum að halda áfram að vera herská til þess að breyta þessum úreltu hugmyndum um kvennbirtingu í okkar samfélagi.

 

A: Hvernig vinnurðu vatnslitamyndirnar á sýningunni þinni?

H: Þær voru unnar í algjöru flæði, þar er meira unnið með þessa óræðni. Þessar vatnslitamyndir eru hálfgert lotterí, ég teikna með vatni á pappírinn fyrst og svo set ég pigmentið á þegar útlínurnar eru enn þá blautar. Svo þornar þetta bara einhvern veginn og oft verða til skrítnar verur í þessu ferli, stundum vel ég vissar fígúrur og geri þær aftur. Samt eru þær allar með ólík skilaboð út frá því hvernig pigmentið brotnar eða leggst á blaðið. Þetta getur verið sama viðfangsefnið, en samt er önnur þeirra kannski týnd og brothætt á meðan hin er alveg brjáluð.

Stundum fæ ég aldrei aftur það sem ég myndi vilja að kæmi, sumir af líkömunum lifa algjörlega sínu eigin lífi. Ég fékk smá svona málarakrísu á tímabili því mér fannst ég vera að stjórna of mikið því sem ég var að gera. Mig vantaði smá svona kreisí factor til þess að brjóta ferlið upp. Þannig fór ég í þennan miðil sem varð svo aftur eins konar brú fyrir mig inn í olíumálverkið.

Ég tók þessi mótíf inn í olíuna, það er allt öðruvísi stjórn í þessum tveim miðlum. Vatnsliturinn hjálpaði mér að komast út úr fullkomnunaráráttunni og stjórnseminni sem ég var eiga við á þeim tíma í listinni. Sem dæmi má nefna Miss Womanspread, hún er fígúra sem ég var farin að gera nokkrum sinnum með vatnslitunum sem er einhver týnd týpa með langan háls sem horfir á heiminn á hvolfi. Svo varð hún bara eitthvað allt annað þegar hún fór inn í olíuna.

A: Hvað er framundan?

H: Ég verð með aðra einkasýningu í Berlín í lok apríl þar sem ég er að gera allt öðruvísi verk, í Hošek Contemporary. Þar verður sami sýningarstjóri og vann með mér núna í Gallerí Port, Linda Toivio. Það er hálfgert framhald af þessari sýningu. Stelpan á þessari sýningu er ótrúlega týnd og er að leita viðurkenningar á öllum röngu stöðunum. Á næstu sýningu er ég að fjalla meira um það hvernig er að vaxa. Ég er að birta þetta ferli þar sem hún kemur sér undan þeim hlekkjum sem hún var bundin í. Það er unnið í vídjóverki og skúlptúrum. Svo er önnur lítil einkasýning í Berlín í sumar. Vonandi tekur við að því loknu bara afslöppun og ferð suður á bóginn. 

Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir


Mynd af Hildi: Helga Laufey Ásgeirsdóttir, ljósmyndir af sýningu: Antje Taiga Jandrig.

 
UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This