Fáránleg atvik og ómögulegar aðstæður

7.06. 2018 | Viðtöl

Heimir Björgúlfsson (f. 1975) sýnir um þessar mundir ný verk í sýningarsal Tveggja Hrafna á Baldursgötu. Á sýningunni sem ber titilinn Aldrei aftur eða er of seint að skipta um skoðun? Þar er að finna litrík, fígúratíf og skemmtileg málverk ásamt minni klippimyndum en Heimir hefur fengist við klippimyndir, innsetningar og skúlptúra ásamt málverkinu. Eftir að hafa stúderað raftónlist og verið virkur þátttakandi í tilraunakenndri tónlist á tíunda áratug síðustu aldar fór Heimir í myndlistarnám í Hollandi en er í dag búsettur í Los Angeles. Hann hefur sýnt verk sín víða, bæði hér heima og erlendis. Árið 2012 var hann tilnefndur til hinna viðurkenndu Carnegie Art verðlauna og á sýningunni í Tveimur Hröfnum sýnir hann stór málverk sem vekja eftirtekt þeirra sem eiga leið hjá. artzine sló á þráðinn til Heimis í Los Angeles og spurði hann út í sýninguna, málverkið og myndlistina.

Hver var kveikjan að sýningunni í Tveimur Hröfnum?

Ég vildi fyrst og fremst gera málverkasýningu, þar sem ég myndi sýna blöndu af mismunandi málverkum sem reyndu að snerta á þeim viðfangsefnum sem ég er að vinna með. Málverk unnin á ákveðnu tímabili sem tengdust öll en væru jafnframt ólík. Þegar ég svo var að vinna að sýningunni rann það upp fyrir mér að það yrðu að fylgja nokkur ljósmynda klippimyndaverk með. Þú færð öðruvísi sýn á málverkin við hlið klippimyndanna og þau gera hvert annað áhugaverðari að mínu mati í þessu ákveðna samhengi sem þau eru sýnd í. Kannski vildi ég vinna málverkasýningu, því ég hef aldrei með beinum hætti litið á mig sem listmálara, að mála málverk er einfaldlega einn hluti af því sem ég geri ásamt því að ljósmynda og teikna, gera klippimyndir eða skúlptúra. Þetta var því svolítil áskorun fyrir sjálfan mig sem ég leitaði eftir.

Hvað varð til þess að þú yfirgafst tónlistina og snérir þér að myndlist?

Þróunin var hreinlega sú að myndlistin tók yfir. Mér fannst ég standa á tímamótum þegar ég var í meistaranáminu. Ég gat ekki sinnt öllu því sem ég kannski vildi, eins vel og ég vildi. Ég hafði orðið minni og minni tíma til að vinna með elektróníska tónlist eða hljóð, því ég gaf mér minni og minni tíma til þess. Ég tók þá ákvörðun að lokum, eftir að átta mig á því að myndlistin myndi krefjast alls þess tíma sem ég hefði, ef ég ætlaði virkilega að sinna henni vel. Þetta gerðist ekki á einni nóttu, ég myndi segja þetta hafi tekið nokkur ár að þróast, og var að lokum klárlega ákvörðun. Samt sem áður hef aðeins fengist við hljóðvinnslu aftur undanfarið. Ég hef verið að vinna með umhverfisupptökur sem ég hef verið að gera hér í Kaliforníu og á Íslandi og það er að koma út nýtt hljóðverk eftir mig á safnútgáfu hér í Bandaríkjunum í sumar, fyrsta nýja hljóðverkið í 13 ár. Þó svo að ég muni ekki vinna eins þétt og áður í tónlist þá er greinilega einhver smá fiðringur eftir í manni í koma frá sér skrítnu djöfulsins suði og ískri eins og einhver sagði um tónlistina mína hér um árið.

Umhverfið og náttúran, dýr og fuglar eru sýnileg í verkum þínum og þú talar um að þú sért að vinna með sambandið milli manns og náttúru? Á hvaða hátt og hvernig myndir þú útskýra það frekar?

Öll mín verk eru gerð til þess að varpa fram spurningum um samband og samskipti mannsins við umhverfið og náttúruna, samband þitt við umhverfið þitt, míns sjálfs og umhverfi míns. Ég vil varpa fram spurningum um hvernig við sjáum og upplifum umhverfi okkar á ólíkan hátt eftir því hver við erum, og hvaðan við komum. Við getum horft á sama landslagið en séð það gerólíkt. Hvernig við manneskjurnar leggjum undir okkur náttúruna og hvernig okkur tekst eða mistekst. Hvernig eru viðbrögðin við því sem við gerum? Eru þau í samræmi við, eða í mótsögn við bakgrunn okkar, menningu, eða persónulegan karakter? Hversu langt göngum við í einhverskonar mannlegum hamagangi á umhverfinu?

Ég hef áhuga á því hvernig ákveðnar kringumstæður knýja fram öðruvísi hegðun en búast má við, þegar eitthvað sem má kallast skrítið gerist. Slíkt skapar einnig möguleika á persónulegum sögum innan myndlistarverkana. Þetta kemur fram í gegnum mismunandi miðla en kveikjan að hverju verki er alltaf byggð á klippimynda hugmyndum, ómögulegum, og helst örlítið fáránlegum atvikum og aðstæðum.

Ég er með einhverskonar þráhyggju gagnvart fuglum. Þegar ég var strákur vildi ég verða fuglafræðingur og ég var alltaf að teikna dýr. Ég bjó til ljósritaðar dýrabækur úr teikningum eftir mig og seldi í hverfinu. Svo ratar þetta viðfangsefni aftur til mín mörgun árum seinna í framhaldsnámi í Hollandi þegar ég fór að gera það sem ég kallaði alvöru teikningar aftur, ekki bara skissur, og svo hefur þetta haldið áfram að þróast út í málverk og hin ýmsu dýr. Ég fæ dálitla dellu fyrir einhverju dýri og er kannski með refi eða apa á heilanum í einhvern tíma. Þetta er auðvitað allt myndlíkingarmál við fólk, og hugsanlega fyrst og fremst mig sjálfan í verkunum. Umhverfið mitt, þar sem ég bý, hef búið og ferðast er það sem ég nota sem efnivið í verkin mín.

Eru þetta þá litlar örsögur, hugleiðingar, lítil tónverk eða jafnvel sjálfsmyndir?

Já. Verkin hjá mér hafa orðið persónulegri, og um leið kannski ljóðrænni ef ég mætti svo að orði komast. Ég hef orðið meiri áhuga á að varpa fram óhlutlausum spurningum, sem ég vinn upp úr persónulegum lífsreynslum og sérkennum staða. Því sem er hugsanlega ekki er tekið eftir, eitthvað sem ég sé og vil benda á. Eftir að ég flutti til Kaliforníu fékk ég líka meiri áhuga á sögulegu gildi umhverfisins, kannski vegna þess hversu stutt er síðan vesturfararnir tóku yfir Kaliforníu og hvernig sú saga er dæmigerð fyrir allt það óhugnarlega við mannlega hegðun. Ég vil að áhorfandi myndi sín tengsl við verk eftir mig og að það veki upp spurningar sem þú hugsanlega hafðir ekki áður. Ef mér tekst það þá hef ég náð vissu takmarki með verkinu, og ekki er það nú verra ef áhorfandi kann að meta þær spurningar, þá hef ég náð einhverskonar árangri með verkinu.

Titillinn Aldrei aftur eða er of seint að skipta um skoðun er heldur óhefðbundinn. Hann er á sama tíma fullyrðing og spurning og vekur forvitni. Getur þú útskýrt hann nánar?

Ég hef nú aldrei reynt að vera með einhverjar fullyrðingar þannig séð í titlunum mínum, heldur vil ég vekja fólk til umhugsunar. Ég var að spá í þessu mannlega eðli okkar, að vera tvístígandi á leiðinni í sjálfheldu, neita að horfast í augu við staðreyndir og halda að við getum snúið við áður en það verður of seint, í hvaða kringumstæðum sem er. Svo finnur þú þig í aðstæðum þar sem það er ekki lengur hægt að snúa við.

Titlar verkanna eru einnig óhefðbundnir og gefa skemmtilegar, en stundum óljósar vísbendingar um hvað þú er að hugsa við gerð verkanna. Titlar eins og Hefur þú einhvern tíma beðið mann að taka þinn stað við enda borðsins? eða Veldi rísa og veldi falla. Það má lesa bæði húmor og heimspeki úr titlunum. Leggur þú mikla áherslu á titla og eru þeir stór hluti af verkinu?

Ég legg yfirleitt mikla áherslu á titlana, þeir eru oftast stór hluti af hverju verki fyrir sig þar sem ég næ að varpa öðru sjónarhorni á verkið. Þeir eru punkturinn yfir i-ið á hverju verki, þetta sem er auka en ómissandi. Bara eins og að fara í sparifötin og vera þá í almennilegum skóm líka.

Það hafa verið heilmiklar hugleiðingar um málverkið á undanförnum árum og áratugum, klassísk málverk, nýja málverkið, málverkið sem slapp út úr rammanum o.s.frv. Hver er þín skoðun eða upplifun á stöðu málverksins í samtíma?

Ég er nú enginn sérfræðingur í afstöðu samtímans á málverk, en listaverk hvort sem það er málverk eða ekki, er speglun samtíma þess. Það er allt hægt í dag ekki satt? Hvort sem þú getur málað eða ekki þá er hægt að búa til málverk á alla máta, og það sem kallast málverk í dag er kannski sagt á breiðari grundvelli en áður. En fyrir mér snýst þetta fyrst og fremst um ákvarðanir. Hvað vill fólk kalla málverk og hvaða gildi viltu að það hafi? Málverk er listform sem alltaf á eftir að vera til. Fyrir mér er gott málverk einfaldlega gott málverk.

Við finnum að sjálfsögðu ekki upp hjólið aftur og aftur, en sumum er sama um það og finnst allt gamaldags betra. Það er eins og með bókmenntir eða tónlist, orsakir og afleiðingar af samtímanum móta skoðanir okkar og tilfinningar gagnvart þeim. Ég tel það vera skyldu mína sem myndlistarmanns að ýta því sem ég er að gera áfram, þú ert í raun alltaf að stinga tánni niður í leðju og um leið og þú finnur botninn þá fer næsta tá fram. Það sem ég kann að meta í listaverki er ákveðin persónuleiki, einhver nýsköpun sem aðeins listamaðurinn er fær um, þ.e. þú ert ekki trésmiður þótt þú eigir hamar, en í öllum bænum reyndu eins og þú getur að nota hamarinn á þinn persónulega hátt.

Þú ert Íslendingur, lærðir tónlist og myndlist í Hollandi og býrð í Los Angeles. Hvað finnst þér hafa mótað þig mest sem listamann?

Ég myndi segja að ég hafi mótast mjög í Hollandi á sínum tíma. Ég varð meðvitaður um hversu íslenskur ég var þegar ég fór að vinna í umhverfi eins og í Amsterdam. Í Hollandi er hér um bil allt umhverfið manngert, ég meina stór hluti landsins er undir sjávarmáli. Það er algjör andstæða við Ísland og hafði mikil áhrif á hvernig myndlist mín þróaðist. Í Reykjavík gat ég farið aðeins út fyrir bæinn í algera auðn og því tók ég ekki lengur sem sjálsögðum hlut því í Hollandi var það ómögulegt. Jafnvel skógarnir eru margir manngerðir í þeim tilgangi að vera svokallaðir villtir skógar. Þessi mótsögn sem umhverfið var settist í undirmeðvitundina. Þegar ég svo kem til Kaliforníu fannst mér umhverfið bjóða upp á það besta úr báðum heimum. Þú kemst í algera auðn hér og ekkert, þótt það sé aðeins lengra í það.

Mikið af umhverfinu í Suður Kaliforníu er hrjótt, óbyggilegt og fallegt. Það á það sameiginlegt með íslenskri náttúru, þótt það sé algerlega hinn póllinn á því. Litirnir, hitinn og lyktin eru andstæðan við Ísland. Hér er einnig búið að skipuleggja og beisla náttúruna eins mikið og manneskjan mögulega getur. Ég varð til dæmis strax mjög heillaður af Los Angeles ánni, sem er steinsteyptur farvegur í gegnum alla borgina með smá sprænu flesta daga ársins, en þegar það rignir eitthvað af ráði er þetta ógnandi, kröftug og vatnsmikil á.

Ég sæki í að láta staði hafa áhrif á mig, ég eyddi mikum tíma í að flakka um alla Los Angeles borg og nágrenni þegar ég kom hingað, og hversu alþjóðlegt en um leið óevrópskt bæði samfélagið og umhverfið er hefur óneitanlega haft mikil áhrif á bæði mig og myndlist mína. Þegar ég byrjaði að sýna verk eftir mig á fyrstu sýningunum mínum, þá fékk ég þá gagnrýni í Hollandi að verkin væru mjög íslensk, svo sýndi ég kannski alls ekki ósvipuð verk á Íslandi og þar fannst fólki verkin vera mjög hollensk. Það er ekki mitt að segja, verkin mín eru það sem þau eru, en það er ekki spurning að það hefur haft mjög góð áhrif á myndlist mína að vinna hér í Los Angeles eftir þessi mótunarár í Hollandi. Ég myndi án efa vera að gera töluvert öðruvísi myndlist hefði ég endað annars staðar.

Að lokum hvernig er að koma til Íslands og sýna fremur en að sýna erlendis?

Það er alltaf frábært að koma til Íslands að halda sýningar, það er ákveðin nostalgía á svo margan hátt. Mér finnst persónulega mjög mikilvægt að halda tengslum og sýna á Íslandi, það er eitthvað sem auðgar mig sem myndlistarmann og hefur ekkert nema jákvæð áhrif á þróun þess sem ég er að gera.

Ástríður Magnúsdóttir


Ljósmyndir: Tveir hrafnar

Vefsíða. www.bjorgulfsson.com

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This