Erfðir eða uppeldi?

31.05. 2016 | Umfjöllun

Viaggio sentimental nefnist sýning Ólafar Nordal sem var í Harbinger frá 9/4-8/5 síðastliðin. Sýningin samanstendur af 13 ljósmyndum í stærðum í kringum A4, „facsimile“ af nótnabók Jóns Nordals tónskálds, föður Ólafar, frá 1956 sem innheldur vinnuskissur hans, og hljóðverk þar sem tónar eru leiknir upp úr nótnabókinni.

Í fyrri verkum hefur arfleifð þjóðarinnar verið Ólöfu hugleikinn en á þessari sýningu er Ólöf á persónulegri nótum og varpar fram spurningu um sína eigin arfleifð. Hún gengur út frá kenningu þeirra vísindamanna sem halda því fram að upplifanir og minningar skráist í genamengi manna og þar af leiðandi erfi menn reynslu foreldra sinna.

Foreldrar Ólafar dvöldu í Róm árið 1956, þar sem faðir hennar lagði stund á tónsmíðar, fimm árum áður en Ólöf fæddist. Ólöf fylgdi í fótspor þeirra með svarta/hvítar ljósmyndir sem þau höfðu tekið í farteskinu. Hún leitaði uppi sömu staði og þau höfðu tekið myndirnar á og tók myndir frá sama sjónarhorni. Hún sýnir þær síðan sama þannig að nýrri myndin, sem er í lit, liggur yfir þeirri eldri. Sumar af eldri myndunum eru af foreldrum Ólafar við sögufrægar byggingar. Myndirnar sýna að lítið hefur í rauninni breyst í Róm, fornu byggingarnar standa enn eins og þær stóðu fyrir 60 árum en þegar þessir tveir tímar mætast kemur afstæði tímans í ljós. Það er eins og tíminn hafi staðið í stað þegar fornu byggingarnar eru skoðaðar en fjarvera foreldrar hennar á nýju myndunu sýnir hversu skammur tími mannsins er í samanburði við mannvirkin.

Þegar Ólöf kom á staðina sem foreldrar hennar höfðu dvalið á áratugum fyrr var upplifun hennar einhvers konar déjú vu. Hún upplifði staðina ekki eins og hún væri að sjá þá í fyrsta skipti heldur eins og að hún hefði verið þar áður. Þannig finnst henni hún hafa fengið staðfestingu á að kenningin um að maðurinn erfi reynslu foreldra sinna sé rétt. Ef kenningin er rétt þá styður hún þróunarkenningu Darwins. Maðurinn er í stöðugri þróunn og sífellt að bæta við þekkingu sína, jafnvel í bókalausum heimi, þekking forfeðranna er öll skráð í erfðamenginu. Frummyndakenning Platóns rýmast einnig innan þessarar kenningar, að maðurinn fæðist með alla þekkingu, að hann þurfi eingöngu að leysa hana úr læðingi. Sem leiðir hugann einnig að Noam Chomsky og kenningu hans um að maðurinn fæðist með tungumál, að það sé ekki eitthvað sem maður læri eingöngu af reynslu. Aðrir halda því fram að maðurinn fæðist með hæfileikann til að læra og að reynslan eða uppeldið móti hann meira en erfðir.

Ólöf hefur oft séð myndir foreldra sinna frá Róm og heyrt foreldra sinna tala um Róm. Þannig hefur hún mögulega gert sér Róm í hugarlund, skapað þekkingargrunn í heilabúinu eða þekkingarmót. Þegar hún upplifir síðan hlutinn bætir hún við þá þekkingu sem hún hefur aflað sér, myndin sem hún hafði í huganum verður dýpri eða skýrari, það er nýa myndin fellur að þeirri mynd sem hún hafði fyrir.

Sýning Ólafar styrkir kannski ekki kenninguna um að reynsla foreldra erfist en hún varpar engu að síður fram áhugaverðri spurningu og er innlegg í umræðuna um hvað gerir manninn að því sem hann er. Sýningin er einnig fallegur virðingavottur við foreldra hennar sem skópu hana.

Höfundur er Marta Valgeirsdóttir

Hún er menntuð í myndlist og heimspeki

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This