Án upphafs og endis – Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir í Hafnarborg

30.05. 2018 | Uncategorized

Margoft við sjáum og margoft við sjáum aftur, er titillinn á sýningu Jóhönnu Kristbjargar í Hafnarborg. Þegar gengið er inn á sýninguna er það eins og að stíga yfir landamæri, inn á ókannað svæði þar sem óskilgreind tákn vísa veginn, á kunnuglegu en samt framandi tungumáli. Jóhanna Kristbjörg hefur sýnt verk sín víða á síðustu árum, hér heima m.a. í Listasafni ASÍ árið 2015, en hún er búsett í Belgíu þar sem hún útskrifaðist frá HISK, Higher Institute for Fine Arts, sama ár.

Jóhanna vinnur í marga miðla, en það má segja að grunnurinn að list hennar sé málverkið og tvívíð form, sem einnig eru sett fram sem skúlptúrar og innsetningar. Á sýningunni í Hafnarborg eru einnig tvö myndbandsverk, þar sem fram koma tengsl listamanns við umhverfi og hluti. Jóhanna skrifar líka og á sýningu hennar má sjá og lesa bók með textum og myndum, þar sem textaflaumur myndar líkt og samhliða heim við myndverk hennar.

List Jóhönnu byggir á samsetningu forma og lita sem að ýmsu leiti minnir á liststefnur frá fyrri hluta 20. aldar, kúbisma, súrrealisma og abstraktlist. Málverkin eru tvívíð og formum er dreift um myndflötinn eins og hvert verk gæti verið hluti af stærri heild, sem heldur áfram þar sem striginn endar. Jóhanna tengir málverkin við rýmið með veggmálverkum og dregur form þeirra inn í rýmið með skúlptúrum, útskornum formum af sama toga og þau sem málverkin sýna. Formin minna á púsl í púsluspili, sem eykur á tilfinninguna fyrir tengslum á milli verka. Hún skapar einnig innsetningar í rýminu, eins og þar sem hún staðsetur skúlptúr á bláum grunni sem minnir á stóra öldu. Smáhlutir úr járni og gerviblóm virka eins og glufur á þessari stóru heild og vekja upp spurningar.

Strúktúralismi kom fram í Frakklandi upp úr miðri síðustu öld. Þar kom fram sú hugmynd að menning okkar byggi á ákveðnum strúktúr. Þessar hugmyndir tengdust kenningum í málvísindum. Út frá þeim mátti hugsa sér að myndlist mætti nálgast og lesa eins og nokkurs konar tungumál. Á sama tíma komu fram hugmyndir um „dauða höfundarins“ og afhelgun listaverka. Listaverk áttu ekki lengur að búa yfir ósýnilegum og leyndardómsfullum, helgum kjarna listamannsins, heldur áttu áhorfendur og fræðimenn að greina þætti listaverksins í tengslum við samfélag, menningu og sögu. Strúktúralismi var svolítið eins og lokað kerfi, þar sem ákveðnir þættir voru skilgreindir með því að bera þá saman við aðra þætti innan sömu heildar, og öðluðust þeir merkingu sína út frá því.

Strúktúralismi var afar útbreiddur og hafði mikil áhrif, en í kjölfar hans komu fram póst-strúktúralískar kenningar sem leituðust við að „opna“ þetta lokaða kerfi og skoðuðu sérstaklega hvernig merking verður til og á hverju hún grundvallast.
Þessar strúktúralísku kenningar koma upp í hugann á sýningu Jóhönnu, en list hennar í heild er órofið samspil ótal þátta án upphafs og endis. Það er erfitt að líta á hvert listaverk sem einstakt verk, svo þétt og samtengd er sýningin í heild. Hvert um sig verða listaverkin líkt og tákn innan heildarinnar og athyglin hvarflar í sífellu á þeirra, frekar en að staðnæmast við hvert og eitt fyrir sig. Samtalið og tengingarnar milli listaverkanna verða nær áþreifanleg, og þá helst samspil jákvæðra og neikvæðra forma, ósjálfrátt leitar maður að því hvaða verk myndi passa inn í eða við annað.

Formheimur listar Jóhönnu er að grunninum til abstrakt, málverkin eru blanda geómetrískra og lífrænna forma sem fara frá því að vera þétt, samtengd heild yfir í að fljóta af léttleika á yfirborðinu. Þessi sömu form verða síðan eins og setning á vegg þegar þeim er raðað upp eins og lágmynd í lárétta röð. Skúlptúrarnir eru frekar tvívíðir en þrívíðir, en í þeim birtast óvæntir hlutir; útlínur hesthauss, gervirós, sem koma á óvart. Þannig brotnar upp hin annars tiltölulega lokaða heild. Myndböndin tvö verða líka til þess að skapa tengingu eða inngöngu fyrir áhorfandann, en í þeim birtist tilfinning fyrir tengingu milli manns og hlutar.

Í herbergi inn af sýningunni er að finna litla bók sem ber sama heiti og sýningin, hún er gefin út í Belgíu og skrifuð á ensku. Líkt og myndverk Jóhönnu er textinn ein, samfelld heild sem flæðir fram frá fyrstu síðu til þeirrar síðustu. Hugleiðingar um stað og stund, tengsl milli manneskja, hluta og umhverfis. Þessi texti nær að opna frekar upp myndheim hennar og undirstrika tengingu verkanna við daglegt líf, tilfinningar og umhverfi.

Sýning Jóhönnu er fjölbreytt og hugvitssamlega samansett. Verk hennar vekja forvitni án þess að svara spurningum, þau leiða áhorfandann inn á óþekkt svæði þar sem vegvísarnir eru á framandi tungumáli en sýningin í heild er áfangastaður. Myndverk og textar lifa samhliða lífi án þess að tengjast beint, en textarnir skapa ákveðin hugrenningatengsl sem gæða myndverkin lífi og í heildina er sýningin eftirminnileg og vekur forvitni.

Ragna Sigurðardóttir


Ljósmyndir: Hafnarborg

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This