Húsgafl og port – Ný veggverk í miðborginni

Húsgafl og port – Ný veggverk í miðborginni

Sýningin er hluti af dagská Listahátíðar

Húsgafl og port er tveggja ára verkefni sem virkjar og vekur hjarta miðborgar Reykjavíkur. Það er opin íhlutun sem hvetur vegfarendur til að hugsa inn í og tengjast sínu hversdaglega nærumhverfi.

Þórdís Erla Zoëga ræðst í að umbreyta húsgaflinum sem
er hin sjónræna tenging rýmisins við aðrar byggingar. Hugmynd hennar gengur út á tengingar. Hún leikur sér að duldum merkingum og staðalímyndum, teflir saman táknum hins opinbera rýmis og hins persónulega.

Í portinu tengir Arnór Kári Egilsson saman sína sjónrænu og rýmislegu sýn á svæðið, sem er að hluta til sýnilegt og að hluta til falið. Arnór hefur um langt skeið unnið með hið almenna rými borgarinnar og nýtir hér reynslu sína við mótun nýs hlutverks portsins.

Leiðarstef beggja verkefnanna er sú hugmynd að breytingar á hinu opinbera rými hafi tvöfalt hlutverk: Að vera hreyfiafl sem og táknmynd ákveðins augnabliks, upplifunar og skynjunar.

Sýningarstjórar verkefnisins eru Birgir Snæbjörn Birgisson og Mika Hannula. Verkið er unnið í samstarfi Listahátíðar við Reykjavíkurborg og Icelandair Hotels.

Tilgangur verkanna er að vekja athygli á þeim málum sem skipta mestu máli:Hver við erum, hvernig við mótum samfélag okkar og samskiptum okkar í hinu daglega lífi.

Hljómalindarreitur, Smiðjustíg

05. júní kl 16:00 afhjúpun

Berlinde De Bruyckere – Listasafn Íslands

Berlinde De Bruyckere – Listasafn Íslands

Sýningin er hluti af dagská Listahátíðar

Teikningar og skúlptúrar belgísku myndlistarkonunnar Berlinde De Bruyckere fæðast sem raunsæjar, anatómískar stúdíur undir áhrifum frá flæmska skólanum og þýsku endurreisninni sem hafa haft djúpstæð áhrif á verk hennar, sem og frá ímyndunarafli og ljóðrænu næmi hennar sjálfrar.

Sérstaklega eru það málverk Lucas Cranach eldri (1472-1553), sem hafa snert De Bruyckere. Um upplifun sína af verkum hans segir hún:

„ Þegar ég skoða málverk hans upplifi ég hið líkamlega í þeim sem tjáningarmáta fyrir hugsanir og hugðarefni þessara persóna – ótta þeirra, ástríður, efasemdir …Allra helst tengi ég við það hvernig hann fæst við hið líkamlega, og notar hinn holdlega líkama sem táknmynd hins andlega líkama.“

Hinar kraftmiklu, afmynduðu fígúrur De Bruyckere, mennskar jafnt sem af hrossakyni, úr vaxi, feldi dýra eða hári, kalla fram frásagnir og upplifanir úr nútímanum. Gegnumgangandi í verkum hennar er ríkt innsæi sem er undirbyggt af djúptækri þekkingu á viðfangsefninu og vinnsluaðferðunum.

Ferill De Bruyckere hefur spannað þrjá áratugi en hún náði alþjóðlegri hylli á Feneyjatvíæringnum árið 2003, þar sem skúlptúrar hennar voru sýndir í ítalska skálanum. Á sýningunni í Listasafni Íslands eru skúlptúrar og teikningar frá síðustu fimmtán árum. Þetta er fyrsta sýning hennar á Íslandi.

Sýningin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík og Listasafns Íslands.

Listasafn Íslands
21. maí kl 15:00
opnun21. maí — 04. september

Þriðjudag–sunnudags 10–17
Lokað mánudag

Við vorum einu sinni nágrannar – John Zurier og Hreinn Friðfinnsson

Við vorum einu sinni nágrannar – John Zurier og Hreinn Friðfinnsson

Ljóðræna skynjunar, staðar, tíma og endurminninga skapa sameiginlegan, tilfinningalegan þráð milli umbreyttra fundinna hluta og innsetninga Hreins Friðfinnssonar og abstrakt málverka John Zurier.

Hreinn Friðfinnsson er fæddur að Bæ í Miðdölum 1943 og er hugmyndafræðilegur listamaður. John Zurier er fæddur í Suður-Kaliforníu árið 1956 og er listmálari. Þó svo að þeir noti mismunandi aðferðir, tækni og nálgun er samhljómur í verkum þeirra; ljóðræn tilfinning og einfaldleiki tengir þá. Aðferðir þeirra eru knappar, afstaða þeirra til efnisins einkennist af innlifun og næmi fyrir því hvernig heiðarleiki gagnvart efninu afhjúpar á mótsagnakenndan hátt tilfinningu fyrir hverfulleika.

Verk Hreins Friðfinnssonar og John Zurier voru sýnd í aðliggjandi rýmum á þrítugasta tvíæringnum í Saõ Paulo. Þeir halda nú áfram þessum samræðum á Listahátíð í Reykjavík með verkum sem eru gerð sérstaklega fyrir sali Listasafns ASÍ.

Hreinn Friðfinnsson er einn af stofnendum SÚM hópsins 1965. Hann býr og starfar í Amsterdam og hefur tekið þátt í sýningum víða um heim. John Zurier býr og starfar í Berkeley. Hann hefur sýnt víða og hlotið viðurkenningar fyrir störf sín

Listasafn ASÍ
21. maí kl 17:00 opnun
21. maí — 26. júní

Þriðjudag til sunnudags 13–17
lokað mánudag

Innra líf heysátu – Gabríela Friðriksdóttir

Innra líf heysátu – Gabríela Friðriksdóttir

Sýningin er hluti af dagská Listahátíðar

Sýningin í Gallery GAMMA er innsetning þar sem heyið er í lykilhlutverki. Gabríela birtir okkur innra líf heysátunnar í teikningum og lifandi teiknimynd.

Það kviknar líf í heyinu
egg frjóvgast er sól skín og vermir sátuna
þá hefst hinn limalausi dans á milli litninga
og undir ormast ræturnar.
það brakar og brestur í heyinu
strá fyrir strá vaknar vitund,
von um betri tíð og bleika akra,
ómurinn af því sem koma skal.

Á ferli sínum hefur Gabríela oft kannað smásæjar veraldir á mörkum náttúru og ímyndunar, heima þar sem furðuverur búa, þar sem líf kviknar af engu og blómstrar rétt utan við skynsvið okkar. Lítilfjörleg heysáta er í rauninni heilt vistkerfi þar sem alls konar verur fæðast, fjölga sér og deyja. Hið eilífa og alltumlykjandi lífríki náttúrunnar er okkur hversdagslega að langmestum hluta hulið og fyrir vikið er það nátengt furðuveröld hugans, þjóðsögum, goðsögnum og heiminum sem við getum ekki skoðað nema í draumi.

Sýningin í Gallery GAMMA er innsetning þar sem heyið er í lykilhlutverki en Gabríela birtir okkur innra líf heysátunnar í teikningum og lifandi teiknimynd. Verurnar úr heysátunni líkamnast síðan í líkneskjum sem Gabríela mótar í lífræn efni og jarðefni.

Gabríela Friðriksdóttir hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum víða um heim. Árið 2005 var hún fulltrúi Íslands á tvíæringnum í Feneyjum og árið 2011 var haldin stór sýning á verkum hennar í Schirn Kunsthalle í Frankfurt í tilefni af kynningu Íslands á bókamessunni þar.

Gallery GAMMA
21. maí kl 16:00 opnun
21. maí — 27. ágúst

Mánudag til föstudags 13–17
Lokað um helgar

Transcendence – Hildur Yeoman

Transcendence – Hildur Yeoman

Sýningin er hluti af dagská Listahátíðar

Á mörkum meðvitundar og meðvitundarleysis er staður – mitt á milli vöku og svefns. Þessi staður er heimili ofskynjana og martraða, en einnig bústaður ljúfra drauma og kyrrðar. Hann er heillandi og hefur hvoru tveggja tilhneigingu til að draga á tálar og verða að eftirsóknarverðum dvalarstað.

Í Transcendence er farið inn á mörk drauma og svefns og haldið er í ferðalag um þá handanveru sem er manninum hvoru tveggja kunnugleg og framandi í senn.

Hildur Yeoman fatahönnuður hefur verið óhrædd við að kanna nýjar nálganir í hönnun sinni. Hún sækir innblástur í sterkar upplifanir þar sem skynjun, táknmyndir, persónueinkenni, tónlist, myndlist og andrúmsloft leika stór hlutverk og tvinnast saman í nýja heima.

Transcendence er innsetning þar sem Hildur teflir saman hönnun, ljósmyndun og myndlist. Áhorfandanum er boðið að anga inn í óræðan heim þar sem ólíkar listgreinar mætast.

Á opnun sýningarinnar 3. júní verður lifandi tónlist og gjörningar tengdir verkum Hildar.

Fatahönnuður: Hildur Yeoman
Ljósmyndari: Saga Sigurðardóttir
Myndlistarmaður: Daníel Björnsson
Vídjólistamaður: Máni Sigfússon
Tónlistarkona: Jófríður Ákadóttir
Dansari: Valgerður Rúnarsdóttir

Lækningaminjasafn Íslands,
Neströð

03. júní kl 20:00 opnun
03. júní — 06. júní

Laugardag til mánudags 12–18
og eftir samkomulagi
Mósaík – Steinunn Þórarinsdóttir

Mósaík – Steinunn Þórarinsdóttir

Sýningin er hluti af dagskrá Listahátíðar

Mósaík er eins konar hugleiðing um hinar síbreytilegu víddir mannsins. Á sýningunni í Tveimur hröfnum verður einnig sjálfsmynd eftir Þórarinn Inga Jónsson myndlistarmann, son Steinunnar, en hann er fyrirmynd verka hennar.

Steinunn Þórarinsdóttir hefur verið starfandi myndlistarmaður í hátt í 40 ár. Hún hefur unnið að fígúratífum skúlptúr frá byrjun ferils sins sem markaði verkum hennar strax ákveðna sérstöðu í íslenskum myndlistarheimi. Fígúrur hennar eru kynlaus tákn mennskunnar. Þær innihalda lífrænan sprengikraft í áferð og formun. Verk Steinunnar hafa frá upphafi tengst íslenskri náttúru sterkum böndum. Samtal mannsins við náttúruna, umhverfi sitt og samfélagið er leiðarstef í list hennar.

Steinunn hefur á löngum ferli hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar, meðal annars sæmdi forseti Íslands hana riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2009 fyrir framlag sitt til íslenskrar og alþjóðlegrar myndlistar. Steinunn hefur haldið fjölmargar einkasýningar víða um heim auk þátttöku í fjölda samsýninga og listamessa. Verk hennar er að finna í einka- og opinberum söfnum víða um heim.

Á opnuninni þann 21. maí kl. 17:15 fremur Anna Richardsdóttir hreingjörning á verki Steinunnar sem stendur fyrir framan galleríið.

UA-76827897-1