Sýningin er hluti af dagská Listahátíðar

Sýningin í Gallery GAMMA er innsetning þar sem heyið er í lykilhlutverki. Gabríela birtir okkur innra líf heysátunnar í teikningum og lifandi teiknimynd.

Það kviknar líf í heyinu
egg frjóvgast er sól skín og vermir sátuna
þá hefst hinn limalausi dans á milli litninga
og undir ormast ræturnar.
það brakar og brestur í heyinu
strá fyrir strá vaknar vitund,
von um betri tíð og bleika akra,
ómurinn af því sem koma skal.

Á ferli sínum hefur Gabríela oft kannað smásæjar veraldir á mörkum náttúru og ímyndunar, heima þar sem furðuverur búa, þar sem líf kviknar af engu og blómstrar rétt utan við skynsvið okkar. Lítilfjörleg heysáta er í rauninni heilt vistkerfi þar sem alls konar verur fæðast, fjölga sér og deyja. Hið eilífa og alltumlykjandi lífríki náttúrunnar er okkur hversdagslega að langmestum hluta hulið og fyrir vikið er það nátengt furðuveröld hugans, þjóðsögum, goðsögnum og heiminum sem við getum ekki skoðað nema í draumi.

Sýningin í Gallery GAMMA er innsetning þar sem heyið er í lykilhlutverki en Gabríela birtir okkur innra líf heysátunnar í teikningum og lifandi teiknimynd. Verurnar úr heysátunni líkamnast síðan í líkneskjum sem Gabríela mótar í lífræn efni og jarðefni.

Gabríela Friðriksdóttir hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum víða um heim. Árið 2005 var hún fulltrúi Íslands á tvíæringnum í Feneyjum og árið 2011 var haldin stór sýning á verkum hennar í Schirn Kunsthalle í Frankfurt í tilefni af kynningu Íslands á bókamessunni þar.

Gallery GAMMA
21. maí kl 16:00 opnun
21. maí — 27. ágúst

Mánudag til föstudags 13–17
Lokað um helgar

UA-76827897-1