Tilberinn 2016 var veittur 17.desember á jólaballi Myndhöggvarafélagsins á Laugardaginn var. Sú sem hlaut Tilberann að þessu sinni er Helga Óskarsdóttir ritstjóri artzine.is. Þetta var í annað sinn sem Tilberinn er veittur, fyrri handhafi og sá fyrsti sem fékk viðurkenninguna er Freyja Eylíf Logadóttir sem hefur unnið frábær störf í þágu myndlistar með rekstri listamennarekna sýningar og viðburðarýminu Ekkisens.
Á bak við Tilberann standa Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir og Sigrún Sirra Sigurðardóttir.
Um Tilberann:
Tilberinn er viðurkenning sem veitt verður árlega þeim sem þykja hafa sýnt útsjónarsemi, dugnað, hugrekki og staðfestu á sviði myndlistar og auðgað þannig menningar- og listalíf landsins. Honum fylgir jafnframt orða sem heiðursverðlaunahafinn er sæmdur til frambúðar.
Tilberinn sjálfur dvelur hjá verðlaunahafanum í eitt ár til hvatningar og innblásturs. Tilberann geta hlotið myndlistarmenn og aðrir sem starfa við fagið, þ.e. einstakir listamenn, sýningar, útgáfa eða sýningarstaðir. Sérstaklega er horft til þeirra sem hafa áorkað miklu af litlum efnum – þeirra sem tekist hefur að magna upp úr vanefnum seið í anda gullgerðarmanna.
Gripurinn sjálfur er framkallaður í þeim sama anda en Tilberinn er gerður úr endurunnum áldósum sem safnað var af listamönnum frá listamönnum, sýningarstöðum og listmenntastofnunum.
Um verðlaunin þessu sinni var þetta sagt um forsendur viðurkenningarinnar:
Helga Óskarsdóttir hlýtur Tilberann 2016 fyrir framlag sitt til myndlistar og miðlunar á myndlist.
Helga stofnaði myndlistarvettvanginn artzine í upphafi ársins 2016. artzine er vefrit um myndlist þar sem fjallað er um myndlist með fjölbreyttum hætti. Pistlahöfundar eru ýmist myndlistarmenn, listfræðingar, heimspekingar eða fólk sem þekkir til myndlistar með einum eða öðrum hætti. En er auk þess vettvangur fyrir skapandi skrif myndlistarfólks.
Helga hefur helgað sig myndlist í tvo áratugi, hún útskrifaðist frá Myndlista og handíðaskóla Íslands árið 1997 og með MA frá Chelsea College of Art and Design í London árið 1998. Hún á að baki næman og eftirtektarverðan feril í myndlist. Verk hennar sem eru látlaus og hafa fínlegt yfirbragð eru oft rannsakandi og virkja áhorfandann. Yfirbragð þeirra er fínlegt og einkennist af gjafmildi.
Hún hefur kennt myndlist og hannað heimasíður fyrir marga helstu listamenn landsins, félagasamtök, skóla og sýningarstaði. Árið 2013 stofnaði Helga ásamt Helenu Hansdóttur Aspelund, TÝS Gallerí sem þær ráku í tvö ár. Týs gallerí einbeitti sér að veita listamönnum tækifæri til einkasýninga. Þar varð til vettvangur virkra samtímalistamanna til sýningar og sölu á verkum sínum í litlu en afar fallegu rými.
Myndbandið hér að neðan er frá afhendingu Tilberans 2016.