Eltir eigin tilfinningu og leyfir ferlinu að leiða sig áfram: viðtal við Elínu Hansdóttur

Eltir eigin tilfinningu og leyfir ferlinu að leiða sig áfram: viðtal við Elínu Hansdóttur

Eltir eigin tilfinningu og leyfir ferlinu að leiða sig áfram: viðtal við Elínu Hansdóttur

Elín Hansdóttir hefur fengið töluverða umfjöllun síðastliðna mánuði, annars vegar út af verkinu Himinglæva (e. Aeolian Harp) fyrir utan Hörpuna og fyrir sýningu sína Eigenzeit í Künstlerhaus Bethanien í Berlín. Himinglæva er viðamikill skúlptúr úr ryðfríu stáli, einskonar vindharpa sem framkallar hljóma þegar rok blæs í gegn. Eigenzeit er völundar-rými þakið örþunnum slæðum, efni þeirra er gegnsætt og marglit mynstrið dregur innblástur af ólæsilegu mynstri (e. Guilloche patterns). En slík mynstur er að finna til dæmis á peningum, vegabréfum og ýmsum skjölum, til að koma í veg fyrir falsanir. Annað verkið leikur á tóneyra gesta meðan hitt leikur sér að sjónarhorni þeirra. Elín hefur ekki einskorðað sig við ákveðinn miðil innan listsköpun sinnar, hún virðist draga innblástur allstaðar að og þess vegna er sérstaklega áhugavert að kafa í sköpunar- og vinnuferli hennar.

Eyja: þú nefndir í eldra viðtali að þú öðlist stundum ekki fullum skilningi á eigin verkum fyrr en nokkrum árum seinna, getur þú nefnt dæmi um verk sem þér finnst þú hafa betri skilning á núna?

Elín: Einmitt já, mín upplifun er sú að skynjun manns á eigin verkum verði ekki skýr fyrr en að minnsta kosti fimm árum seinna. Það getur verið svolítið snúið þegar þú ert að vinna verkið því eina haldreipið sem að maður hefur er þá að treysta ferlinu og stundum ganga hlutirnir upp og stundum ekki, þetta er ákveðinn vinnu-prósess sem er áhættusamur. En þessi áhætta er líka forsenda fyrir því að halda vinnunni spennandi fyrir mig. Þannig að ég verð bara að taka því þegar hlutir ganga ekki upp.“ (segir Elín og hlær) En þau verk sem sem ég er ánægðust með eru þau þar sem það opnast á túlkunarmöguleika þeirra með tímanum. Þá veit ég að það hafi eitthvað gott verið í gangi. Til dæmis þykir mér rosalega vænt um fyrsta stóra eða umfangsmikla verkið sem ég gerði á Ísafirði á listahátíð árið 2005, Long Place.

Það var eins og ég hefði látið draum rætast með því að byggja þetta monster sem þetta verk var. Verkið tók mig, ásamt teymi sem ég setti saman, 6 vikur að byggja. Á þeim tíma sem ég var að byggja verkið, þá vissi ég ekki nákvæmlega hvað það væri sem ég var að byggja. Ég var einfaldlega forvitin og það var þessi forvitni sem knúði okkur áfram. Það var smá eins og við værum að elta verkið, við unnum bara og byggðum og byggðum þar til verkið öðlaðist á einhvern hátt sitt eigið sjálf. Það er þessi sjálfstæða orka sem lætur mér þykja vænt um verkið. Með því að sleppa tökunum á því að plana frá upphafi hvaða áhrif verkið eigi að hafa, gef ég rými fyrir sjálfstæðri framvindu verksins. Mér finnst það mjög spennandi, þegar maður tekur sénsinn, eltir eigin tilfinningu og leyfir ferlinu að leiða sig áfram. Ég held að það hafi heppnast vel í þessu verki. 

Ég meina, þetta var fáránleg hugmynd – að byggja eitthvað svona rosalega stórt – og á þeim tíma var þetta líka mjög dýrt. Ég hafði selt litla íbúð á þeim tíma og ég eyddi ágóðanum af því í þetta verk (segir Elín hlæjandi) og þetta hljómar svo fáránlega í dag að gera þetta – en ég sá svo sannarlega ekki eftir því, þetta var algjört ævintýri og forréttindi að hafa getað gert þetta.

Long Place er greinilega verk sem situr enn með Elínu og setti mark á hvernig hún starfar sem listakona í dag, en Elín ásamt Anne Kockelkorn og Björn Quiring gaf út sjálftitlað bókverk um Long Place í fyrra og Elín fjallar einnig um verkið í nýlegu viðtali sem var tekið við hana í Berlín. Eyja: Mig langaði út frá þessu að skjóta inn spurningu um konsepti og listsköpun. Hvenær kemur konseptið inn í sköpunarferlið þitt og hversu stóran part spilar það í verkinu sjálfu?

Elín: Þetta er mjög góð spurning, því ég man eftir því þegar ég var í námi að þá er maður þjálfaður á þann hátt að leggja mjög mikið upp úr því að vera með einhverskonar concept. Líklegast af því það er svo mikið lærdómsferli í því að hugsa í konsepti – því maður þjálfar upp gagnrýna hugsun á því að leggja upp með að skapa ákveðna hugmyndafræði í kringum verkið.

En ef ég lít til baka, því nú eru 20 ár síðan ég kláraði nám, þá fór af stað algjör andstæða þess eftir ég fór að vinna sjálfstætt – þá varð einhver svona af koncept-afvæðing hjá mér. (við hlæjum báðar) Þar sem að ég áttaði mig á því að ég væri hamingjusamari þegar ég gæfi mér meira frelsi í hugsun og leyfði innsæinu að ráða meiri ríkjum. En þessi hugmynd, að fólk vildi ekki tala um vinnuna sína og gæti ekki rökstutt listina sem það var að gera, var eitthvað sem ég fyrirleit og fannst alveg fáránlegt þegar ég var í námi. En svo með aldrinum þá er eins og ég hafi vísvitandi farið að gefa skít í þessa áherslu á konsept, sem ég hélt að væri heilagur sannleikur. Og það var rosalega frelsandi.

Þetta gæti einnig verið kynslóðabundið. Því þegar ég er að klára nám þá er vægi sýningarstjóra að verða rosalega mikið og það voru að koma fram stjörnu sýningarstjórar sem að voru að móta ákveðin konsept. Þetta varð til þess að sýningarstjórar voru að hafa samband við listamenn með eitthvað ákveðið konsept í huga fyrir stóra samsýningu og í rauninni var maður beðin um að vinna verk út frá conceptum sýningarstjóranna. Ég fann það mjög sterkt, eftir einhver nokkur ár af því að vinna svona, hvað mér fannst það heftandi – að vera boðið að vinna innan ákveðins fyrirframgefins ramma sem að var ekki sprottinn frá mér. En þetta er svolítið snúið því auðvita vill maður taka þátt í sýningum en það er fín lína að hlusta á hugmyndir konsept sýninga án þess að leyfa þeim gjörsamlega að stýra öllu ferlinu. En nú lít ég svo á að það er verkefni sýningarstjórans að láta verkin passa inn í þeirra konsept – en ekki öfugt. 

í gömlu viðtali þá talar þú um að leggja áherslu á að skapa rými og upplifun frekar en sögu. Fyrst þú notar ekki framvindu sem leiðarljós er eitthvað annað sem þú notar fyrir beinagrind eða drifkraft fyrir eigin verk?

Elín: Já… það hefur alltaf verið mikið áhugamál hjá mér að skoða hvernig við sem mannverur skynjum umhverfi okkar á annan hátt heldur en með hausnum. Mér leiðist myndlist sem er þannig að maður þarf að lesa ritgerð sem fylgir sýningunni til þess að fá aðgang að verkinu. Ég er meira hrifin af verkum þar sem ég veit lítið, nánar tiltekið þegar að myndlist hefur þau áhrif að hún tali beint til annarra skynfæra heldur en einhvers hugvits. Mér líður eins og það sé á 20 öld búið að byggja upp hýrarkíu, hýrarkíu skynfæra, þar sem ofuráhersla hefur verið lögð á sjónina frekar en snertingu eða hljóð eða síkólógísk rými. Ég hef alltaf haft áhuga á þessum beinu áhrifum, sem eru meira síkólógísk heldur en föst í konsepti eða texta.

Síminn hringir og Elín spyr hvort hún megi svara, mamma hennar sé að hringja. Þær mæðgur spjalla um verkefnin sem þær eru með fyrir hendi og skiptast á áliti, þær velta fyrir sér ólíkum nálgunum og möguleikum. Það er mikið hlegið og að símtalinu loknu spyr blaðamaður hvort það séu ákveðnar manneskjur sem hún leitar gjarnan til fyrir álit á eigin verkum?

Elín: Minn nánasti fjölskyldu og vinahringur, eru mín stoð og stytta. Ég treysti öllum mjög vel og við höfum það að venju að viðra hugmyndir okkar á milli. Því það er oft einmitt í gegnum samræður sem ég leysi úr sköpunar-flækjunum. Sérstaklega fyrir mig, sem vinn mikið ein, nema þegar ég er að setja upp verkefni, þá líða stundum nokkrir dagar án þess að ég noti raddböndin (við hlæjum báðar). Þá finn ég sérstaklega hvað það er gott að fá sjónarhorn þeirra sem maður treystir. Það er ómetanlegt, þótt að manneskjan sé með aðra skoðun þá styrkist samt manns eigin í gegnum samtal. Það er eins og samræðan leiði mann alltaf að „réttri“ ákvörðun – eins fáránlegt og það hugtak hljómar í þessum bransa.

Þegar viðtalið heldur áfram ræðum við um hvernig það er að vera kona í listheiminum, veltum fyrir okkur hvort eitthvað hafi breyst. Í uppeldi Elínar var lögð áhersla á að hún gæti gert allt og að kyn kæmi málinu ekki við. Hún rifjar svo upp skellinn að uppgötva að raunveruleikinn samræmdist ekki því uppeldi sem hún hlaut. Þar nefnir hún meðal annars mun á verðlagi verka eftir “stóru meistarana” og kyni þeirra. Elín talar út frá eigin reynslu þess að verða mamma og listakona, hún talar um það sem ákveðið spark í rassinn og að hún hafi orðið afkastameiri í kjölfarið. 

Elín:  Að vera mamma og listakona er alveg frábært og afsannar þá klisju sem ungum konum í myndlist hefur verið sagt, kannski ekki á Íslandi en til dæmis hérna í Þýskalandi þar sem ég fór í mastersnám, að ef konur eignuðust börn að þá gætu þær ekki átt starfsferil. Það var mjög ógnvekjandi umræða sem maður fann fyrir og komandi frá Íslandi fannst manni þetta brenglaður hugsunarháttur en þetta er því miður svona á mörgum stöðum. Foreldrahlutverkið er allavega ekki ofarlega í umræðunni hjá körlum í sama bransa. 

Ég kveð Elínu Hansdóttur full orku og bjartsýni. Um þessar mundir er Elín að vinna að samsýningu í Berlín sem verður haldin núna í september (Stadt Land Dance, sýningarstjóri: Julia Wirxel), auk þess að hanna leikmynd fyrir sýninguna Síðustu Dagar Sælunnar í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur, frumsýnt á litla sviðinu í Borgarleikhúsinu núna í október. Það er margt spennandi framundan hjá Elínu auk einkasýningar hjá Schering Stiftung í lok mars 2023. Fyrir mér enduróma verk Elínar og viðhorf hennar til listarinnar svo fallega aðrar samræður sem ég hef sjálf átt með mínum vinum sem sitja nú eða eru nýútskrifuð úr Listaháskólanum heima. Orð Elínar undirstrikuðu fyrir mér vægi þessara viðhorfa og ég er skilin eftir með þá tilfinningu að það séu breytingar til hins betra í vændum innan myndlistarsenunnar, bæði hér heima og víða.

Eyja Orradóttir

 

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest