Versatile Uprising: Lifandi formleysa
Versatile Uprising: Lifandi formleysa
Undanfarinn mánuð hefur Wind and Weather Gallery, að Hverfisgötu 37, hýst sýninguna Versatile Uprising (ísl. Margræð uppreisn) sem er samvinnuverk frönsku listamannana Claire Paugam og Raphaël Alexandre, en þau hafa búið og starfað á Íslandi í rúm fimm ár. Í listsköpun sinni leggur Claire mikla áherslu á formleysi; hvar það má finna í náttúrunni eða líkamanum og hvar það gæti leynst í borgarumhverfinu – þar sem konkret form og beinar línur virðast ráða ríkjum. Á hinn bóginn er efniviður Raphaëls oftar en ekki rafmagnstengdur: ljós, hljóð og skynjun sem hægt er að forrita á kerfisbundinn og samræminn hátt. Bakgrunnur listamannanna er nokkuð frábrugðinn hvor frá öðrum.
Claire útskrifaðist með MFA úr Listaháskóla Íslands árið 2016 en Raphaël er menntaður tölvunarverkfræðingur. Leiðir þeirra lágu saman í gegnum starfsemi Listastofunnar sem leiddi í kjölfarið til frekara samstarfs. Claire bauð Raphaël að vinna með sér að sýningunni í Wind and Weather Gallery og úr þeirri samvinnu spratt sýningin sem blasir við augum ef gengið er upp Hverfisgötuna. Niðurstaða samvinnunnar er gagnvirk innsetning sem dregur fram mynd af dulrænum, slímkenndum, skúlptúrískum og formlausum massa. Dökkur massinn dreifist smátt og smátt yfir þrjá sýningarglugga gallerísins og virðist hafa það fyrir stafni að leggja rýmið undir sig. Sýningin dregur titil sinn úr því hvernig innsetningin breytist og stigmagnast með hverjum glugga, líkt og verið sé að segja frá ákveðnu ferli eða frásögn.
Versatile Uprising er fyrsta gagnvirka innsetningin sem sett hefur verið upp í Wind and Weather Gallery. Hún minnir, á margan hátt, á þrívíðar uppstillingar sem eru tíðir þættir í bæði sögu- og náttúruminjasöfnum, en í stað þess að lýsa sögulegum atburði eða varpa ljósi á virkni tiltekins hlutar, vísar innsetningin til þess ókunnuga eða óskiljanlega. Formlausi massinn getur ýmist minnt á landslag, hraun eða sjaldgæfar, glitrandi steindir. Hann er alsettur díóðum sem gefa frá sér daufan bjarma og speglast í gljáandi yfirborðinu. Ef eyrun eru vel sperrt, heyrist í lágum drunum sem stafa frá aðal sýningarglugganum. Glugginn virkar að mörgu leyti eins og gátt inn í annan heim sem er rétt utan seilingar.
Gestir og gangandi geta haft áhrif á innsetninguna og rýmið sem liggur handan rúðunnar, með því að leggja hönd á glerið þar sem við á. Þegar það er gert verða ljósin skærari og virðast dansa á lífljómalegan máta um innsetninguna alla. Snertingin við glerið hefur einnig áhrif á hljóðið. Drunurnar dýpka og breyta um tón, því meir sem glerið titrar. Allt er þetta gert með hjálp næmra skynjara sem hafa verið forritaðir til að sýna samspil ljósanna á tilviljanakenndan hátt í hvert skipti sem þau eru virkjuð. Á þann hátt er innsetningin í stöðugri breytingu og er aldrei fullkomlega eins og hún var áður. Wind and Weather Gallery, sem hefur verið rekið af listakonunni Kathy Clarke síðan 2014, er einstakt sýningarrými vegna þess að það snýr beint út til almennings. Það þarf því ekki að ganga meðvitað inn í sýningarrýmið til að verða aðnjótandi listarinnar sem þar fer fram. Með því að horfa inn um gluggann eru gangandi vegfarendur Hverfisgötunnar umsvifalaust orðnir að áhorfendum.
Þessi vettvangur hentaði því hugmyndum Claire og Raphaël fullkomlega. Að sögn listamannana svipar gagnvirki þáttur innsetningarinnar til þess þegar farið er í dýragarð. Fólk horfir inn um gluggann sem aðskilur það frá dýrunum. Kannski bankar einhver á glerið til að sjá hvort hann fái viðbrögð; reynir eflaust að tengjast dýrinu á einn eða annan hátt, speglar sjálfið í andliti þess, fyllist hræðslu eða væntumþykju og reynir eflaust að finna til einhvers konar skilnings með dýrinu.
Innsetningunni er ætlað að vekja svipaðar tilfinningar hjá áhorfendum; barnslega forvitni í bland við tortryggni, jafn vel skliningsskort. Fólk hefur oft þá tilhneigingu að afmarka hluti, troða þeim í ákveðið form eða hugtak svo það geti öðlast betri skilning – en ef það mistekst eru þessi hlutir afskrifaðir. En með Versatile Uprising gera Claire og Raphaël vel heppnaða tilraun til að fanga fegurðina í formleysunni og í því sem nær handan lógískra skilningarvita. Heimurinn handan glersins er skáldaður heimur. Þegar aðnjótendur listaverksins snerta glerið tengjast þeir skáldheiminum og með því að mynda einstaklingsbundin áhrif á virkni hans með hjálp skynjaranna. Á sama tíma verður sá sem snertir glerið fyrir áhrifum skáldaða heimsins sem liggur fyrir innan.
Sólveig Eir Stewart
Síðasti sýningardagur Versatile Uprising er á þriðjudaginn, 26. febrúar í Wind and Weather Gallery.
Aðalmynd: Claire Paugam ogRaphaël Alexandre. Allar myndirnar eru birtar með leyfi listafólksins.
Heimasíður listamannanna:
Claire Paugam: http://www.clairepaugam.com
Raphaël Alexandre: http://www.facebook.com/raphael.alexandre.art