Þriggja ára ferðalag að hefjast
Þriggja ára ferðalag að hefjast
Eins og lesendur hafa fengið að heyra í fjölmiðlum þá hófst listahátíðin Cycle um síðustu helgi í Gerðasafni í Kópavogi. Hátíðin er með óhefðbundnu sniði í ár og í stað þess að leggja áherslu á sýningu er hátíðin í ár hugsuð sem röð af kveikjum þar sem hlúð er að skapandi ferli og tilraunastarfsemi með þátttöku gesta. Sýningastjórarnir Sara S. Öldudóttir og Guðný Guðmundsdóttir hafa leitast við að bjóða upp á form og atburði sem hvetja hinn almenna borgara til að koma í safnið og leggja fram sínar skoðanir og reynslu á jafningjagrundvelli með fræðimönnum og listamönnum.
Fyrstu helgina var kynnt til sögunnar fjölskylduhátið sem ekki var hugsuð út frá hoppuköstulum og kandíflosi heldur listasmiðju, raftónlist og skák þar sem öll fjölskyldan gat dansað saman við tónlist eins færasta plötusnúðs landsins. Á miðvikudeginum, rapptónleikar Josef Tarrak og Uyarakq. Það er ekki verið að draga undan á þeim bæ varðandi samskipti Dana og Grænlendinga og á Kex eru þeir í samstarfi við Vigdísi úr Reykjavíkurdætrum. Hátíðin er byrjunarpunktur á þriggja ára ferli sem kjarnast um fullveldisafmælið á næsta ári og er sérstök áhersla lögð á Grænland, Færeyjar og Ísland og samband þeirra við Danmörku. Málefni sem tengjast fullveldi og sjálfstæði eru miðlæg í hinu vestnorræna samhengi sem mikilvægt er að ræða með hinum ýmsu aðferðum og út frá mörgum sjónarhornum.
Á Sunnudeginum á helgi tvö er boðið upp á kvikaspuna (eða LARP) á vegum alþjóðlega samstarfshópsins Utopian Union en hópurinn leggur leggur áherslu á nám utan stofnana, þverfaglegt samstarf og listrænar aðferðir. Georgíska listakonan Anna Gzirishvili hefur þróað kvikaspunan ‘2031’ í samstarfi við einn af stofnendum Utopian Union, Söru Löve Daðadóttur. Utopian Union þekki ég sjálf frá vinnuviku sem haldinn var í Berlín í vetur þar sem prófessor Önnu í UdK, Hito Steyrl, var með í umræðum. Þar hlustaði ég einnig á afar áhugaverða kynningu KOW galleristans Alexander Koch á Bandamenn Listanna sem einnig er á dagskrá Cycle síðar í mánuðinum og verður komið að síðar að í þessari grein.
Utopian Union leggur áherslu á að nota list sem rými fyrir ímyndunaraflið og vera umgjörð þar sem ný fagurfræði, menningarhreyfingar og fyrirbæri geta þróast. Allir eru velkomnir að skrá sig til þátttöku í spunanum á vefsíðu Cycle en takmörkun er á hvað margir geta tekið þátt. Ég hitti Önnu í stuttu spjalli á Red Baron veitingastaðnum á Tegel flugvelli en Sara og Anna búa í Berlín. Anna hefur yfir sér yfirbragð vinsællar amerískrar söngkonu sem ég man ekki í svipinn hvað heitir. Hún segir mér frá því að hún og Sara Løve hafi fyrst hist í kvikspuna sessjóni sem bekkur Hito hafi skipulagt í Berlín. Fyrir Hito snúist listkennslan ekki um list heldur sé bekkur hennar frekar vettvangur fyrir fólk að hittast og gera hluti saman og eiga pólitískt og félagslegt samtal. Hún hugsi bekkinn sem eins konar miðstöð aðgerða þar sem hún sjálf sé í hlutverki móderator. Allir sem vilja geta komið á bekkjarfundi hjá Hito í UdK þegar þeir eru á dagskrá.
Það var hinsvegar á þriðja fundi Utopian Union í Danmörku nýlega sem Sara og Anna náðu saman og upp úr samtalinu kveiknaði áhugi á því að að vinna saman að kvikspuna í listrænu samhengi. “Það var síðan á kynningu Utopian Union á Grosses Treffen hittingnum í Norræna sendiráðinu í Berlín sem Cycle sýningarstjórarnir Sara og Guðný komu auga á okkur og buðu okkur að koma til Íslands. Kvikaspuninn sem við gerum á Íslandi er glænýr og sérstaklega gerður fyrir samhengið. Þetta er 2. kaflinn. Fyrsti var í Danmörku og þriðji verður í Screen City Biennial í Stavanger í Noregi í október“, segir Anna um leið og Sara Løve kemur hlaupandi inn á Barónsbarinn. Það tók hana víst aðeins lengur en 10 mínútur að pakka. “Gaman að við hittumst hér“, segir hún blaðaskellandi, “Barónsbarinn hefur einmitt mjög mikilvæga þýðingu fyrir mig þegar kemur að áhuga á kvikaspuna. Það eru akkúrat tvö ár síðan ég átti fund hérna við Jali Wahlsten sem eitt sinn var fagmaður í íshokkí í Finlandi. Við töluðum um að mér hafi lengi langað til að gera verk í listasamhengi sem blandar saman pólitík, samfélagsúrbótum og framtíðarsýn í hlutverkaleik. Ég hef lengi verið að vinna þannig í ‘raunveruleikanum’ en kom svo auga á að það væri hægt að leika sér miklu meira í samhengi listarinnar.“ Nú nokkrum árum síðar hafa þessar hugmyndir Söru fengið farveg.
Eins og minnst var á hér að framan er KOW galleristinn Alexander Koch á leiðinni til landsins þriðju helgi Cycle hátíðarinnar til að kynna verkefnið Bandamenn listanna. Nánar tiltekið sunnudaginn 17. september. KOW er eitt heitasta galleríið í Berlín í dag en listamenn gallerísins tóku þátt í Feneyjartvíæringnum bæði í ár og fyrir tveim árum. Það er ekki oft sem galleristar sem starfa á vettvangi listmarkaðar séu einnig virkir í samfélagslegri þátttöku og það er ein af mörgu ástæðum fyrir því að spennandi er að hlusta á það sem Alexander hefur fram að færa. Ég hlustaði á samskonar kynningu á Utopian Union vinnuvikunni í Berlín í vetur og þótti framtakið mjög merkilegt. Bandalagið snýst um lýðræðisvæðingu lista þar sem hver sem er getur nálgast listamann og haft frumkvæði að sköpun nýs listaverks. Ekki bara stofnun eða fagnefnd. Það geta verið til dæmis ýmis konar samfélagshópar sem taka sig saman. Samkvæmt kynningartexta á vefsíðu Cycle er bandalagið orðið að raunverulegu breytingarafli í menningarstefnu Evrópulanda.
Þessa vikuna stendur yfir vinnustofa um torf með sýningarstjóranum Annabelle von Girsewald og er öllum velkomið að koma við og taka þátt eins lengi og þeir hafa tök á. Þegar hingað er komið í greinakskrifum er ég einmitt nýkomin úr stuttu innliti á vinnustofuna þar sem líflegar samræður listamanna og fræðimanna áttu sér stað um torfið í fortíð og nútíð. Vinnustofan er þáttur í rannsóknarvinnu Annabelle fyrir sýningu á næsta ári í Nýlistasafninu sem mun snerta á sama þema.
Á fimmtudag verður haldið bíókvöld með grænlensku heimildarmyndinni Sumé: Hljómur byltingar sem fjallar um grænlensku hljómsveitina Sumé sem var fyrst til að hljóðrita lög á grænlensku árið 1973. Það var merkilegt einkum fyrir þær sakir að það var í fyrsta skipti sem orð eins og ‘bylting’ og ‘kúgun’ voru þýdd yfir á grænlensku og komust þannig inn í grænlenskan málheim og um leið umræðu. Það átti eftir að hafa afgerandi áhrif á pólitíska þróun á Grænlandi. Leikstjóri myndarinnar Inuk Silis Høegh er myndlistarmaður sem sýnt hefur myndir sínar á hátíðum út um allan heim.
Fyrr áhugasama er dagskráin hér í heild sinni: Dagskrá Cycle 2017
Matarsamsæti verða haldin með reglulegu millibili á hátíðinni. Þar er skipst á hugmyndum og skoðunum í hverju horni og gestir fá tækifæri til að tala við nýtt fólk. Sýningarstjórarnir leggja mikla áherslu á að brjóta upp formið og skapa sem flest tækifæri þar sem fólk getur kynnst hvert öðru og hver veit hvað á eftir að koma út úr því. Öllum er velkomið að skrá sig.
Gerðasafn er opið flesta daga og fyrir utan vinnustofur og umræður er hægt að sjá verk eftir Darra Lorenzen, Ólaf Ólafsson & Libu Castro, Ragnar Kjartansson, Andrew Ranville og Jeannette Ehlers. Myndirnar sem fylgja þessari grein eru frá opnunarkvöldi hátíðarinnar.
Hér að neðan eru ýmsir tenglar sem tengjast efni greinarinnar og hægt að fræðast um hátíðina á heimasíðu hennar www.cycle.is.
www.nouveauxcommanditaires.eu/en/home
Hulda Rós Guðnadóttir