SAMAN í SOE Kitchen 101
Í Marshallhúsinu úti á Granda hefur stórt teymi frá vinnustofu listamannsins Ólafs Elíassonar hreiðrað um sig undanfarna mánuði. Ólafur, systir hans og kokkurinn Victoría Elíasdóttir ásamt föruneyti tóku yfir jarðhæð hússins, sem venjulega hýsir veitingastaðinn Marshall Restaurant + Bar í eigu Leifs Kolbeinssonar. Þann 11. ágúst síðastliðinn opnuðu þau tímabundið rými sem bar heitið SOE Kitchen 101. Fram til 28. október var þar boðið upp á fjölbreyttan mat úr íslenskum lífrænum hráefnum og breiða gjörningamiðaða viðburðadagskrá unna í samvinnu við Mengi, Listaháskóla Íslands, Kling & Bang, i8 og fleiri lista- og menningarfrumkvöðla og stofnanir. Ég settist niður með Victoríu, sem þróaði réttina á matseðli, og Christinu Werner, viðburðastjóra verkefnisins. Við spjölluðum saman um undanfarnar vikur.
Á pappír var verkefnið helgað matargerðarlist en þótt máltíðin hafi ávallt verið í brennidepli beindi SOE Kitchen 101 þó aðallega, í huga undirritaðs blaðamanns artzine, sjónum okkar að matmálstímanum og öllum þeim athöfnum, samræðum og upplifunum sem sú afmarkaða stund hefur upp á að bjóða. Það er nefnilega ekki bara hungrið sem við seðjum þegar við njótum góðrar máltíðar, sérstaklega þegar við deilum þessum augnablikum með öðrum.
„Svona tengjumst við hvert öðru innan vinnustofunnar… af hverju ekki að deila þeirri reynslu?“ Sagði Victoría en í vinnustofu Ólafs borðar starfsfólkið alltaf saman. Það má því segja að SOE Kitchen 101 hafi leitast við að skapa tengsl milli vinnustofunnar í Berlín og vinnustofunnar hér í Marshallhúsinu. Þó var að ýmsu að huga þegar eldhúsi á vinnustað var umturnað í veitingastað í öðru landi: „Við þurftum til dæmis að finna leiðir til að fá gestina okkar til að sitja við sama langborðið eða deila réttum sín á milli.“ Það er nefnilega oft þannig að við kunnum ekki alveg að umgangast fólk í nálægð. Við búum við það mikið öryggi að við þurfum ekkert endilega að þekkja nágranna okkar en hér spilaði viðburðadagskráin stórt hlutverk. Þegar eitthvað á sér stað fyrir framan hóp fólks skapast sameiginlegt augnablik, þó fólk sitji ekki saman. Gjörningarnir og verkefnin komu úr ýmsum áttum og snertu á nánast öllum listformum en samkvæmt Christinu var það meðvituð ákvörðun: „Í staðinn fyrir að takmarka okkur við eitt afmarkað listform vildum við reyna að halda viðburðunum eins fjölbreyttum og hægt yrði svo þeir myndu henta breiðum hópi fólks. Við reyndum líka gagngert að losa aðeins um fjötrana hjá gestum okkar. Til dæmis með hljóðverkinu hans Valdimars Jóhannssonar.“
Rave for your senses. Fischer workshop. Ljósmynd: Lilja Birgisdóttir
Rave for your senses. Fischer workshop með Lilju Birgisdóttur. Ljósmynd: Timothée Lambrecq
Verk Valdimars heitir A Mouth for Dinner og samanstendur af þeim hljóðum sem við framleiðum þegar við borðum en skömmumst okkur þó fyrir í krafti mannasiða og kurteisisreglna í samfélaginu. Smjatt og kjams, smellir í góm, gaul í görnum og ánægjustunur ómuðu yfir matargestum kvöldsins 19. september síðastliðinn áður en matur var borinn fram. Að sögn Victoríu var teymið í SOE Kitchen 101 dálítið spennt fyrir viðbrögðum gestanna. „Flestir tóku þessu samt afskaplega vel,“ sagði hún og hélt áfram: „Andrúmsloftið á staðnum þetta kvöldið var mjög afslappað og við munum spila verkið í vinnustofunni í Berlín yfir hádegismatnum.“
Það er ekki sama upplifun að hlusta á verk Valdimars ein heima í stofu eða heyra það yfir kvöldmat með öðrum. Smám saman fer athyglin að beinast að hvernig fólkið í kring borðar og hvaða hljóð þú sjálf gefur frá þér út í umhverfið. Aðspurð nánar um val á viðburðum svaraði Christina: „Við reyndum að vera með einhvers konar sambræðing af list, skynjun og þekkingu. Eftir að við komum til landsins kynntumst við svo hæfileikaríku og kláru fólki og lærðum svo mikið sjálf að það var algjör synd að deila því ekki með öðrum. Lilja Birgisdóttir úr Fischer var til dæmis með tilraunakenndan tónlistargjörning um lykt, liti og bragðskynið. Með gjörningnum sýndi hún gestum hvað skynfærin spila stórt hlutverk í upplifun okkar á umheiminum.“
Gjörningur Lilju ber titilinn A rave for your senses og fór fram í Fischer. Bæði verk Valdimars og Lilju eru nokkurs konar inngrip í hversdaginn og hvernig við lifum og hrærumst í honum. Þau benda á skynfærin og hvernig líkami okkar flestra virkar, fyrirbærum sem við tökum oft sem sjálfsögðum hlut. Gjörningur Katrinu Jane Perry Routine Ritual, sem átti sér stað miðvikudaginn 24. október, tókst einnig á við venjubundinn hversdaginn. Með handskornum verkfærum úr marmararestum sem annars hefðu farið til spillis bauð hún gestum að endurhugsa venjur okkar við matarborðið. Borðshaldið breyttist allt í einu í hátíðlega athöfn.
Þannig rannsakaði SOE Kitchen 101 veitingastaðinn sem félagslegt rými til fulls. Að sögn Victoríu var matargestum ekki skylt að taka þátt í viðburðunum: „Við vorum aðallega að reyna að opna huga fólks. Ekki prédika eða þvinga gesti í ákveðnar aðstæður. Það var líka allt í lagi að koma bara til þess að borða, eða bara til þess að vera viðstödd viðburðina.“ Einnig er mismunandi hversu mikillar þáttöku hver viðburður krafðist af hálfu áhorfenda. Christina benti til dæmis á að „gestir hlustuðu öðruvísi þegar það var ljóðagjörningur í rýminu en þegar Mengi kom inn með raftónlistarfólk.“ Í gegnum allt tímabilið sem verkefnið á sér stað, stóð Mengi fyrir tónlistargjörningum á fimmtudagskvöldum sem einnig voru teknir upp. Á síðasta kvöldinu, 25. október, komu allir tónlistarmennirnir saman. Það má segja að í þeirri upptöku hafi allir fyrri tónleikarnir mæst.
Katrina Jane Perry. Routine Ritual. Ljósmynd: Katrina Jane Perry
Ljósmynd: Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson. Mariner’s Oubliette. Filmstill
Tónleikar með Robert Lippok. Ljósmynd: Christina Werner
Í raun voru fjölmargir snertifletir fólgnir í SOE Kitchen 101. Tengingin milli vinnustofa Ólafs hefur þegar verið nefnd en í þessu fjölþætta verkefni leyndust einnig ákveðin tengsli við starfssemina í húsinu. Þann 24. október stóðu Sara Riel listamaður og tónlistarkonan Ólöf Arnalds fyrir gjörningi undir yfirskriftinni Graphic Score en í Kling & Bang stendur nú yfir einkasýning Söru, Sjálfvirk/Automatic. Þar leiddu tónarnir Söru í sjálfvirka teikningu og úr varð sjónræn túlkun á lögum Ólafar. Einnig var tengingin við íslenskt umhverfi alltumlykjandi. Victoría nefndi að hráefnið í réttina hafi verið alíslenskur fiskur og grænmeti, sem var nokkuð stór áskorun í ljósi þess að sumarið kom í raun aldrei til landsins. „Verkefnið þróaðist áfram á mjög lífrænan hátt. Í raun reyndum við að halda því eins opnu og hægt var í upphafi. Það var vegna þess að við vildum koma hingað til landsins, vera í rýminu, upplifa umhverfið og kynnast senunni hér. Komast að því hvaða element væri í raun mögulegt að vinna með.“ Listaverk Ólafs Elíassonar héngu hér og þar í veitingastaðnum og þegar stigið var inn á vinnustofuna á annarri hæð blasti, efniviðurinn við gestum og gangandi, og gerir reyndar enn í dag. Verkin eru unnin úr íslenskum rekavið og öðrum fundnum hlutum hér við strendur landsins og eru í raun áttavitar, tæki til að vísa okkur í réttar áttir. Christina benti á að líkt og áttavitarnir teygði verkefnið sig út fyrir veggi hússins. Hér má nefna heimildarmynd Huldu Rósar Guðnadóttur Keep Frozen, sem sýnd var 23. október. Myndin einblínir á hafnir Reykjavíkur og þá vinnumenn sem vinna þar. Líkamleg erfiðisvinna og rútínuverk eru í brennidepli en einnig er bent á vandamál eins og ódýrt vinnuafl og umbreytingu hafnarsvæðanna yfir í íbúðar- eða verslunarhverfi. Þar á meðal svæðið úti á Granda sem umlykur Marshallhúsið.
Það eru svo ótalmörg atriði við SOE Kitchen 101 sem hægt er að draga fram í ljósið og endalaust hægt að telja upp viðburði sem kölluðust á eða sköpuðu tengingar á þvers og kruss. Öll endurspegluðu þeir á einhvern hátt hugmyndafræði eldhússins í vinnustofu Ólafs í Berlín: Umhverfismeðvitund. Á vinnustofunni er ávallt framreiddur grænmetismatur úr lífrænum hráefnum ræktuðum í nágrenninu en viðburðadagskráin nálgaðist umhverfið þó á örlítið annan hátt. Sem dæmi má nefna vídjóverkið Mariner’s Oubliette eftir Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson sem fjallar um þarfir manna og dýra og muninn þar á. „Það eru til dæmis upptökur undir vatni af hvali á sundi. Myndin fer svo nálægt hvalnum að húðin virðist stundum vera landslagsmynd,“ sagði Christina og heldur áfram: „Hljóðin sem hvalurinn gefur frá sér umlykja líkamann. Þegar ég sá myndina leið mér nánast eins og ég væri að horfa inn í annan heim.“
Nú er SOE Kitchen 101 liðið undir lok í Marshallhúsinu og Leifur Kolbeinsson er aftur tekinn við keflinu á veitingastaðnum. Aðspurðar um framhald verkefnisins svarar Christina: „Þessi kafli af SOE Kitchen var eins og sýning. Hann átti sér ákveðið tímabil.“ Og Victoría bætir við: „Verkefnið mun aldrei verða endurtekið í nákvæmlega sama formi. Það er í stöðugri þróun.“
Sunna Ástþórsdóttir
Á heimasíðu Ólafs Elíassonar má kynna sér verkefnið í heild sinni: Vefsíða
Aðalmyndir með grein: Ljóða & hljóð gjörningar með Rike Scheffler & Angela Rawlings. Ljósmynd: Christina Werner
Rave for your senses í Fischer með Lilju Birgisdóttur. Ljósmynd: Lilja Birgisdóttir