Að nýta sér styrkleika andstæðingsins

8.06. 2018 | Viðtöl

Fjórir listamenn eiga verk á sýningunni Við hlið sem nú stendur yfir í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Það eru þau Baldur Geir Bragason, Erwin van der Werve, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Magnús Helgason sem jafnframt er sýningarstjóri. Verkin eru ólík en öll eiga þau í samtali við húsið sjálft – enda eiginlega ekki annað hægt þegar Verksmiðjan er annars vegar. 

„Ég laumaðist fyrst inn í Verksmiðjuna fyrir um 20 árum síðan þegar þáverandi tilvonandi kærastan mín bauð mér hingað í bíltúr. Ég hef fylgst með þessu húsi og haft listrænar taugar til þess síðan þá,“ segir Magnús Helgason sem tekur á móti blaðamanni í Verksmiðjunni. Úti er sól og blíða en inni í þessum stóra steinkumbalda er hrollkalt – og þótt áratugir séu liðnir síðan síldin flæddi um salina er lyktin enn á sínum stað. Þetta hús hefur næstum því óþægilega mikla nærveru. 

Ljósmynd: Magnús Helgason.

„Ég var sko logandi hræddur við að sýna hérna. Þetta rými er svo yfirþyrmandi,“ segir Magnús sem var hálfpartinn narraður til þess að stýra þessari sýningu af verksmiðjustjóranum Gústaf Geir Bollasyni. Þá var Erwin van der Werve þegar kominn að borðinu og Magnús valdi tvo aðra listamenn í hópinn, þau Ingunni Fjólu Inþórsdóttur og Baldur Geir Bragason. „Þetta eru allt listamenn sem vinna verk sem mér fannst henta þessu húsi,“ segir Magnús en flest verkin eru ný og unnin sérstaklega fyrir sýninguna með rýmið sem útgangspunkt. 

Hluti af verki Ingunnar Fjólu. Ljósmynd: Magnús Helgason.

Hluti af verki Baldurs Geirs. Ljósmynd: Magnús Helgason.

Hluti af verki Erwin Van Der Werve. Ljósmynd: Magnús Helgason.

Verk Magnúsar Helgasonar Ariel. Ljósmynd: Magnús Helgason.

Verk Baldurs Geirs, Megin, tekur á móti okkur þegar við göngum inn í salinn. Þetta er skúlptúr innsetning í nokkrum hlutum. Hvítar járngrindur sem mynda línur og form í rýminu og minna einhvernveginn samtímis á hindranir og grindverk sem eiga að stýra manni í rétta átt. Svolítið eins og borðarnir sem afmarka raðir á flugvöllum. Hér breytir sjónarhornið upplifuninni ört. Þegar horft er inn í salinn virðast grindurnar óyfirstíganleg hindrun, þegar nær er komið sést að þær afmarka reiti í rýminu og séð að ofan verða þær að léttum og leikandi formum. 

Verk Ingunnar Fjólu. Video tók: Gústaf Geir Bollason.

Innar í sama sal er verkið Augnablik. Þar hefur Ingunn Fjóla málað litríka fleti á súlurnar og sett upp stóra rólu sem hægt er að róla sér í. Þetta er leikur með hreyfingu og liti þar sem síbreytilegt sjónarhorn áhorfandans úr rólunni, breytir skynjun hans á rýminu. Hreyfing er líka þungamiðjan í verkinu Streymi en þar lætur Ingunn Fjóla litla mótora draga bönd á milli hæða. Þegar þau ferðast upp og niður teikna þau mynstur í rýmið og minna um leið á fyrri starfsemi hússins þegar síldin streymdi um Verksmiðjuna á færiböndum.

Hluti af verki Magnúsar Helgasonar. .Ljósmynd: Magnús Helgason.

Hluti af verki Erwin Van Der Werve. Ljósmynd: Magnús Helgason.

Hluti af verki Baldurs Geirs. Ljósmynd: Baldur Geir Bragason.

Hluti af verkum Baldurs Geirs og Ingunnar Fjólu. Ljósmynd: Magnús Helgason.

Erwin van der Werve sýnir fjölmörg málverk og teikningar sem unnin eru á pappír og striga með blandaðri tækni. Þau hanga um allt rýmið, í öllum sölum og á öllum hæðum og halda þannig utan um sýninguna líkt og húsið sjálft. Þetta eru óhlutbundin og óræð form sem minna á arkítektúr Verksmiðjunnar. Maður veit stundum varla hvar þau enda og veggirnir taka við. 

Verk Magnúsar eru í austursalnum. Hann er þekktur fyrir málverk sem hann setur saman úr fundnum efnivið en kveðst fljótt hafa áttað sig á því að hér, í þessu húsi, þyrfti hann að vinna á annan hátt en hann er vanur. „Mér hafði verið ráðlagt að reyna ekki að yfirvinna rýmið heldur beygja mig undir það. Þetta líkist pínu hugmyndafræðinni á bak við júdó þar sem maður notar styrk andstæðingsins til þess að sigra hann, kannski ekki alveg sambærilegt en samt,“ segir Magnús sem leitaði aftur í grunninn, í leikinn og sköpunargleðina sem hann segir að hafi einkennt vinnu sína þegar hann var nýútskrifaður úr listnámi og tók sig ekki of alvarlega. 

Ljósmynd: Magnús Helgason.

„Ég kom hingað inn með verkfæri, efnivið og ómótaðar hugmyndir sem duttu smám saman upp á veggina. Ég held ég hafi aldrei skemmt mér svona vel við að setja upp sýningu. Þetta eru alls konar vondar hugmyndir. Eins og til dæmis lyktarverkið Ariel,“ segir hann og bendir á silfurlitann þurrkara sem stendur á miðju gólfinu og hamast við að þurrka bleikt handklæði með lágværum drunum meðan hann dælir út úr sér millistéttarilminum Ariel eins og Magnús kallar þessa vinsælu þvottaefnislykt.

„Svo er ég líka með nokkur segulstálverk sem eru ný af nálinni,“ segir Magnús og um leið áttar blaðamaður sig á því að ýmsir hlutir sem hún hélt í fljótu bragði að héngu niður úr loftinu eða væru festir með glæru snæri svífa hreinlega um í lausu lofti. Gaffall laðast kröftuglega að sterku segulstáli en nær ekki alla leið því hann er tjóðraður í spotta. Tómarúmið, þessir örfáu sentimetrar sem upp á vantar, er hlaðið spennu. Þetta eru skemmtileg verk og manni finnst að þau hljóti líka að vera þrungin merkingu. „Nei. Ég fékk bara dellu fyrir segulstáli. Það er ekkert dýpra á bak við þetta,“ segir Magnús. „Þetta eru augnablik eða einhverskonar dægurflugur. Svo finnst mér þetta líka bara fallegt. Það er kannski það mikilvægasta. Að búa til eitthvað fallegt.“

Sýningunni Við hlið lýkur sunnudaginn 10. júní. Verksmiðjan á Hjalteyri er opin þriðjudaga til sunnudaga milli kl. 14:00 og 17:00. 

Þórgunnur Oddsdóttir


Aðalmynd með grein er af Magnúsi Helgasyni myndlistarmanni og sýningarstjóra sýningarinnar. Þórgunnur Oddsdóttir tók myndina.

Vefsíður listamannana:
Erwin van der Werve:  www.erwinvanderwerve.nl
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir: ingunnfjola.net
Magnús Helgason: magnushelgason.com
Baldur Geir: Kemur síðar.

Verksmiðjan: verksmidjanhjalteyri.com

UA-76827897-1