Verðlaunalistamaðurinn Guðný Guðmundsdóttir
Guðný Guðmundsdóttir er myndlistarkona í Berlín. Ég hitti Guðnýju á hverfisbar í Mitte hverfi Berlínarborgar sem er leynistaður þeirra sem búið hafa lengi í borginni. Það er vel við hæfi. Guðný hefur búið í Mitte hverfi í næstum áratug og þar áður í Hamborg í tólf ár þar sem hún lærði myndlist í HfbK. Tilefni hittingsins er að nýlega vann Guðný myndlistarverðlaun í fyrrverandi heimaborg sinni. Meira um það síðar.
Guðný ólst upp á 8. áratugnum í Seljahverfinu en var með annan fótinn á Baldursgötunni og miðbænum þar sem amma hennar bjó. Guðný hefur ekki sýnt mikið á Íslandi en minnistæðar eru einkasýningar í Listasafni ASI árið 2003 og ári síðar í Ásmundarsafni og árið 2009 í Hafnaborg og núna síðast í Týsgallerí árið 2014.
Guðný gerir list sem yfirleitt frekar efnislega viðkvæm og krefst líkamlegrar nærveru frekar en að vera gerð fyrir instagram. Hver lína á sitt andartak á blaðinu og skúlptúrar eru oft úr pappír, plastfilmum og öðru léttu efni. Þegar haft er í huga að upphaflega útskrifaðist Guðný úr keramikdeild Myndlista- og handíðaskólans kemur ekki á óvart að leir kemur við sögu í mörgum verkanna.
Allar myndirnar í greininni eru frá sýningunni „Swing by 2“ í Poolhaus gallery, Hamborg, Þýskalandi. Nafn innsetningarinnar er „Der ewige Tee“. Ljósmyndari: Jan Bauer.
‘Það var þannig að Bernd og Ingeborg Kahnert fluttu frá Sviss til heimaslóðanna í Hamborg til að eyða ævikvöldinu og flytja til Blankenese sem er gamalt fiskiþorp á jaðri Hamborgar. Þorpið stendur við Elfurá. Þarna býr mikið af fólki sem veit ekki aura sinna tal en veit kannski ekki mikið um myndlist eða menningu yfir höfuð. Þetta er það sem er sagt í Hamborg um þá sem búa í Blankenese. Kahnert hjónin langaði að fá líf í kringum sig og höfðu keypt húsnæði sem er sundlaug og tehús, upphaflega frá 3. áratugnum. Það hafði verið semsagt yfirbyggt og tengt saman í japönskum stíl á 8. áratugnum. Á tímabili hafði sundlaugin meira að segja verið í eigu hins goðsagnakennda Axels Springer. Hann var svo langur að hann gnæfði yfir alla. Svo gekk hann helst um á háum herrahælum til að sýnast ennþá hærri. Hann lét sig samt hafa það og fór stundum úr skónum og synti í lauginni sinni. Ekki löngu eftir að Springer seldi eignina frá sér, um miðjan 9. áratuginn, féll staðurinn í niðurníðslu en fyrir nokkrum árum létu svo Kahnert hjónin gera þetta upp með það fyrir augum að þarna gæti verið sýningarhald og ýmislegt annað menningartengt.’
Kahnert hjónin byrjuðu nýlega að safna myndlist og komust þannig í glæsilegan hóp safnara í Þýskalandi. Það eru fleiri myndlistarsafnarar í Þýskalandi en í nokkru öðru Evrópulandi.
‘Það eru skiptar skoðanir um það af hverju fólk byrjar að safna. Mörgum finnst sem myndlistin hafi verið tekin hálfpartinn í gíslingu af auðkýfingum og fólki af aðalsættum sem kannski fyrir svona tíu, fimmtán árum vissi hvorki haus né sporð á samtímamyndlist eða listasögu yfir höfuð, sérstaklega eftir stríð.’
Hvað sem því líður þá hafa Kahnert hjónin tekið upp á því að safna og sýna myndlist. Þau buðu Guðnýju að vera með einkasýningu sem átti sér stað í desember síðastliðnum. Boðið kom með ársfyrirvara og var vandað vel að öllum undirbúningi.
‘Þjóðverjar taka hlutina föstum tökum og vilja gera vel. Það er ekki kastað til á síðustu stundu. Virðing fyrir verkinu sem og hugsmíðum á sér svo langa sögu. Myndlist er svo hátt metin og vinna og tími myndlistarmanna ekki tekinn sem sjálfsögðum hlut.’
Það er skemmtilegt við þetta verkefni hjónanna er að þau skipuðu tvískipta óháða dómnefnd sem velur listamann ársins og hlýtur hann verðlaunapeninga. Í dómnefnd er hópur fagfólks og svo er líka hópur nágranna og allir hafa jafnt atkvæðavægi. Það myndast ákeðinn núningur og samtal á milli lærðra og leikra. Þannig vill Kahnert fólkið virkja nágranna sinna og vekja á myndlist og skapa stemmingu í hverfinu. Þetta hefur heppnast vel enda vanda þau sig mjög til verka. Það vill svo vel til að Guðný vann þessi verðlaun fyrir bestu sýningu í ‘Poolhaus’ árið 2016 og verkin því náð að sannfæra báða hópana um hversu framúrskarandi hennar verk séu. Vissulega eru listasöfnun einkaaðila stór og mikilvægur hluti í stuðningskerfi listamanna. Margra alda hefð er fyrir þessu meðal borgara- og yfirstéttarinnar og mikil þekking hefur safnast fyrir sem hefur skilað sér í stórkostlegum einkasöfnum. Ingvild Götz safnið í München og Harald Falkenberg safnið í Hamborg eru ágætis dæmi.
‘Þetta eru virkilega vel ígrunduð söfn sem hafa líka byggst upp á frekar löngum tíma.‘, segir Guðný.
Það er samt ekki alltaf það sem er í gangi.
‘Gestir á verðlaunafhendingunni voru bland af fólki úr hverfinu og myndlistarsenunni í Hamborg. Við sátum þarna ég og sá sem deildi með mér verðlaununum [innskot: á listamannaspjallinu]og það spunnust upp umræður um það hvort gestunum þætti mikilvægt að fá útskýringar á verkunum. Sumum þótti það mjög mikilvægt en mér fannst það koma skemmtilega á óvart að það var þarna sérstaklega einn maður sem tók til máls og fleiri menn með honum sem vildu helst ekki kynnast listamanninum eða hans upphaflegu hugmynd. Þeim fannst meira varið í að njóta listaverksins augliti til augliti án útskýringa frá listamanninum sjálfum. Maður skynjaði þarna smá von þegar hann sagði það þessi maður vegna þess að það hefur aukist svo mikið að fólkið sem er allt í einu komið upp á dekk í listheiminum að það þarf sumt mikla persónulega athygli frá listamanninum. Hún eykst jafnt og þétt krafan um tíma listamannsins, félagsskap og í raun og veru er þessi tilhneiging að skreyta sig út á við með listinni. Listamaðurinn er stundum orðinn að einhverju svona sirkusdýri og listin að einskonar leiktjöldum í veislum hjá ríku fólki. Þetta var ekki alveg svona ýkt fyrir um svona tuttugu árum í Þýskalandi en frá því um 2000 hefur orðið mikill uppgangur hjá yfirstéttinni og aðlinum í Þýskalandi. Þetta fólk er farið að láta bera meira á sér og gera kröfur.’
Guðný hefur margt til málana að leggja enda þekkir hún senuna vel. Við höfum lokið við ´Schinekenkäsertoast’ sem barþjónninn bjó til fyrir okkur af mikilli kostgæfni og virðingu fyrir eigin starfi. Nokkrum mánuðum síðar þegar viðtalið er fullklárað höfum við komist að því að barþjóninn hafi skyndilega orðið bráðkvaddur. Heimurinn er hverfull. Við yfirgefum leynistaðinn og höldum út á vit borgarinnar.
Hulda Rós Guðnadóttir
Vídeóið með greininni er verk Huldu Rósar. Meira um það: www.whiterabbitonline.org
Vefsíða Guðnýjar: www.gudnygudmundsdottir.com/visual-artist
Ljósmyndir með grein: Jan Bauer / Courtesy Gudny Gudmundsdottir