Án áhorfandans er listaverkið ekki til
Nú sýnir Listasafn Íslands þekkta myndbandsinnsetningu, Hafið eftir franska listamanninn Ange Leccia. Verkið hefur verið sett upp á risastórum skjá í öðrum enda sýningarsalarins, eins og kvikmynd á tjaldi. Þetta er vel við hæfi því Ange Leccia hefur frá upphafi ferils síns sótt áhrif til kvikmynda, en listamaðurinn kom sjálfur hingað til lands og tók þátt í uppsetningu sýningarinnar.
Myndbands/kvikmyndaverkið Hafið er upprunalega frá árinu 1991. Ange Leccia hefur sýnt verkið mörgum sinnum og á mismunandi hátt en framsetning þess tekur iðulega mið af aðstæðum. Verkið er tvískipt, annars vegar sýnir það hvítar öldur brotna í síbylju á svartri strönd. Sjónarhornið er líkt og áhorfandinn svífi í lausu lofti beint ofan við flæðarmálið og horfi niður, myndinni er síðan varpað upp á skjá eða tjald, þannig að öldurnar sem skríða inn á sandinn birtast lóðréttar, þær rísa og hníga og minna á fjallstoppa.
Þessi þöglu myndskeið eru síðan brotin upp með stuttum myndskeiðum sem eru annað hvort úr smiðju Leccia eða tekin úr kvikmyndum þekktra leikstjóra eins og t.d. Jean Luc Godard. Þessi myndskeið eru hljóðsett á ýmsan hátt, sumum fylgir suð Super-8 myndavélar, öðrum popptónlist frá unglingsárum listamannsins, eða hljóðmynd viðkomandi kvikmyndar þaðan sem brotið er fengið að láni. Leccia hefur líka sýnt eingöngu myndskeiðið af öldum á strönd sem sjálfstætt verk undir sama nafni. Saman mynda þessir þættir grípandi verk sem seiðir og laðar áhorfandann til sín.
Áhrif Japansferðar
Áhorfandanum er boðið til sætis í hálfrökkvuðum sal. Á tjaldinu brotna hvítar öldurnar í síbylju á svörtum sandinum, rísa og hníga á víxl, í þeim hæga, reglubundna takti sem hafinu er eiginlegur, náttúran andar. Hafið er gert á Korsíku, æskuslóðum listamannsins, eftir dvöl hans í Japan. Myndbandið er tekið upp á ströndinni sem hann heimsótti reglulega með foreldrum sínum í æsku. Í Japan kynntist Leccia Shinto-hefðinni, sem á rætur sínar að rekja allt aftur til 8. aldar, og hann hefur sagt að Hafið hefði ekki orðið til án Japansferðarinnar. Í Japan er Shinto ekki beinlínis trúarbrögð heldur hefð sem á sér sterkar rætur. Hún birtist í ótal hofum víðs vegar um landið sem Japanar heimsækja oft, þangað sækja þeir sálarró og hjálp á erfiðum stundum. Í Shinto-hofunum upplifir fólk sterka tengingu við náttúruna, frið og öryggi. Hofið upphefur náttúruna sem heilaga, og Shinto-hof þurfa ekki endilega að vera byggingar, þau geta líka verið foss, klettur, tré eða fjall. Þessi tilfinning gagnvart heilagleika náttúrunnar hafði sterk áhrif á Leccia. Í verkinu nálgast hann ströndina og náttúruna á vissan hátt sem heilagan stað og fyrir vikið verður listaverkið sjálft líkt og staður sem áhorfandinn gengur inn í og tengist.
Milli myndbandslistar og kvikmyndalistar
Í Hafinu birtast skýrt tengsl listamannsins við kvikmyndir. Að loknu listnámi með áherslu á málverk og ljósmyndun lagði Leccia stund á nám í kvikmyndafræði í París á áttunda áratug síðustu aldar, kvikmyndamiðillinn heillaði hann meira en málverkið. Á löngum ferli sínum hefur Ange Leccia gert ótal myndbandsverk sem einnig mætti kalla stuttmyndir, og hefur nefnt kvikmyndagerðarmenn á borð við Jean-Luc Godard, Paolo Pasolini og Michelangelo Antonioni sem áhrifavalda við upphaf ferils síns. Upp úr miðri 20. öld átti sér stað bylting í franskri kvikmyndagerð, kölluð Nýbylgjan. Stefna Nýbylgjunnar var sú að kvikmyndin yrði listrænn tjáningarmiðill á borð við málverkið og skáldsöguna, miðill þar sem listamaður tjáir tilfinningar sínar. Tækni Nýbylgjunnar fólst meðal annars í uppbroti frásagnarinnar, brotakenndum klippingum og löngum tökum, en þessir þættir eru einnig sýnilegir í Hafinu. Hér eins og í fleiri verkum er áherslan mjög sterk á sjónræna þætti, liti, birtu, stemningu frekar en línulaga frásögn, en þó segja sum verkanna sögur.
Myndbrotin sem brjóta upp síbylju öldurótsins eru nokkuð ólík innbyrðis. Þau eru bæði sköpun Ange Leccio og „fundin myndbrot“ úr kvikmyndum. Í mörgum þeirra leikur sólin stórt hlutverk, það má líka segja að verkið í heild sýni ekki hvað síst samspil hafs og sólar. Sólin varpar ýmist sterkum lit, glampa eða er blindandi. Nokkur innskotanna sýna andlit ungra kvenna eða stúlkna, þær tjá sig ekki heldur eru þöglar, áhorfandinn varpar sínum eigin hugsunum yfir á þær. Sum andlitin vísa skýrt til ákveðinna málverka. Til dæmis minnir andlit konu með lokuð augu undir vatnsyfirborði á málverk John Everett Millais af Opheliu, en Leccia hefur gert fleiri en eitt myndbandsverk af kvenandliti undir vatni. Myndskeiðið af öldurótinu tengist líka sögu málverksins, hér birtast öldurnar eins og fjöll sem rísa og hníga og minna á málverk frá rómantíska tímanum. Sú sterka mynd sem skapast þegar áhorfandinn horfir á Hafið tengist líka hugmynd rómantíkurinnar um sambandi manns og náttúru. En Leccia segir einmitt að listaverk verði til við áhorf; án áhorfandans er listaverkið ekki til.
Eilífðin er fundin
Ange Leccia notar oft kvikmyndabrot frá öðrum, í anda svokallaðrar „appropriation“-stefnu, þar sem listamenn ganga í smiðju annarra og endurnýta eitthvað af verkum þeirra, setja þau fram á nýjan hátt og í nýju samhengi. Hér notar hann m.a. brot úr kvikmynd Jean Luc Godard, Pierrot le Fou, frá árinu 1965, Leccia sýnir lokasprengingu myndarinnar endurtekna með hvelli í sífellu. Einnig notar Leccia brot úr hljóðsetningu sömu myndar, þar sem leikarar hvísla upphafserindi ljóðsins Eilífðarinnar eftir Arthur Rimbaud: „Elle est retrouvée. Quoi? – L´Eternité./C´est la mer allée.“ , en í ljóðinu segir Rimbaud eilífðina birtast þar sem sólin merlar á hafinu.
Ange Leccia hefur talað sérstaklega um þátt löðursins í Hafinu. Hvítfyssandi öldurnar birta mörk lands og sjávar, og þau eru síbreytileg, eins og landamæri sem færast til í sífellu. Í þessum síbreytilegu skilum milli lands og sjávar birtist starf listamannsins, segir Leccia, hann sækir fram og hörfar í list sinni. Hann lítur ennfremur á hvítt löðrið eins og auða blaðsíðu, hvítan skjá, móttækilegan fyrir hugsunum áhorfandans. Þannig má líta á Hafið sem eins konar rými, móttækilegt fyrir ahorfandann, stað til að láta hugann hvarfla og láta sig dreyma, um leið og verkið kemur á óvart með óvæntum myndum og hljóðmynd.
Ange Leccia er fæddur á Korsíku árið 1952. Hann býr og starfar í París og á Korsíku. List hans hefur verið sýnd á söfnum víða um heim, til dæmis í Guggenheim-safninu í New York, í Pompidou-safninu í París, í Musée d´art moderne de la Ville de Paris og á stórum alþjóðlegum sýningum á borð við Dokumenta í Kassel og Tvíæringnum í Feneyjum. Síðan 2001 hefur Ange Leccia verið forstöðumaður rannsóknarmiðstöðvarinnar Pavillon Neuflize OBC í Palais de Tokyo, París.
Sýningin í Listasafni Íslands stendur til 4. febrúar 2018.
Ragna Sigurðardóttir
Greinin er gerð í samstarfi við Listasafn Íslands.
Ljósmyndir: Helga Óskarsdóttir.