Ástríðufull postulínsverk og óþægilegar staðreyndir

30.04. 2017 | Viðtöl

Hildigunnur Birgisdóttir opnaði nýverið sýninguna a) b) c) d) e) & f) í sýningarsal i8. Sýningin er fyrsta einkasýning hennar í galleríinu en hún gékk nýverið til liðs við þá listamenn sem i8 sýnir. Á sýningunni má sjá risastórt persónulegt verk, Óþægilegar staðreyndir, sem nær yfir stóran hluta rýmisins. Þetta er veggfóður sem býr yfir tveimur vandræðanlegum leyndamálum Hildigunnar en þau eru dulkóðuð í gömlu stafrófi frá árinu 1894. Að auki eru á sýningunni smágerð ástríðufull postúlínsverk, pappírsverk, litlir bronsskúlptúrar ásamt vídeóverki sem skoðar tilgang eða tilgangsleysi stöðugrar upplýsingasöfnunar mannkynsins. artzine skrapp í i8 rétt fyrir opnun og spurði Hildigunni út í sýninguna, listina og kerfisáráttuna.

Hildigunnur, hvað getur þú sagt mér um þína fyrstu sýningu í i8 og titil hennar: a) b) c) d) e) & f)?

Eins og oft áður er ég að vinna með kerfi og kerfisleysur og hvernig maðurinn er fastur í þeirri hugsun. Ég á í ástar- og hatursambandi við kerfi og mér finnst þau heillandi. Mér finnst gaman þegar kerfi eru berskjölduð og þegar það kemst upp um þau eða að þau ganga ekki upp og oft finnst mér það vera raunin. Umhverfið í kringum okkur er mjög sjálfhverft, þ.e. að við komumst ekki út úr þessu skynjanakerfi sem við sjálf erum, augu okkar, heilinn okkar, líkaminn okkar, maðurinn sem slíkur. Með verkum mínum er ég að reyna að toga mig í aðra átt og sjá eitthvað frá örlitlu öðru sjónarhorni en mér er ætlað. Sum kerfi eru náttúruleg kerfi, önnur eru eitthvað sem við búum til, samfélagsleg kerfi og eitthvað slíkt. Við getum alveg dregið tilvist þeirra í efa. Það er það sem liggur að baki eiginlega öllum verkunum hér á sýningunni. Birtingarmyndir verkanna á sýningunni eru ólíkar. Hér eru myndbandsverk, verk steypt í brons, postulínsverk, prentverk og einhverskonar hendingar eða lágmyndir. Titill sýningarinnar dregur nafn sitt af einni tegund verka á sýningunni. Það eru sex tegundir verka, sex viðfangsefni eða hráefni og ein tegundin, verkið c) heitir Flokkar a)-f) og þaðan kemur titillinn.

Í texta Tess Denman-Cleaver sem fylgir sýningunni er vísað í þessi hráefni sem þú notast við í sýningunni. Hvað meinar þú með hráefnum?

Textinn í sýningarskránni er eftir heimspekinginn Tess Denman-Cleaver og er unninn upp úr samtali sem hún átti við mig í tengslum við sýninguna. Textinn er í raun hennar verk og hluti af sýningunni. Varðandi hráefnin þá eru þau sex talsins og þau þurfa ekki að vera fleiri. Það voru þessir ákveðnu flokkar sem þurfti á þessa sýningu. Þetta er alltaf spurning um hvenær er sýning orðin sýning? Hvenær er verkinu lokið? Það er óþarfi að bæta við fleiri hráefnum ef uppskriftin er góð!

Þú hefur ekki bundið þið við einn listmiðil í gegnum tíðina heldur verið óhrædd við að prófa alls kyns miðla. Hvað veldur?

Ég er frekar nýjungagjörn og mér finnst gaman að finna upp leiðir. Ég fer ekkert endilega í mikla rannsóknarvinnu heldur fæ ég frekar yfirborðslega tilfinningu fyrir miðlinum og prufa mig áfram. Þegar ég geri grafík þá geri ég yfirleitt hallærislega grafík og ekki endilega til að fjöldaframleiða, þó grafíkverk hafi upphaflega verið hugsuð til fjöldaframleiðslu. Mér finnst þessi barnslega nálgun áhugaverð aðferð og þess vegna geri ég oft skrítnari hluti fyrir vikið. Svo get ég fengið leið á einhverri aðferð og þá geri ég það ekki aftur. Þegar ég er að reyna að bera kennsl á kerfi og kerfisleysur eða uppbrot á kerfinu og þegar hugmyndin sprettur fram, þá tekur hún stjórnina og tekur á sig mynd. Það er til dæmis eitt verk hérna sem varð að vera steypt í postulín og það var engin önnur leið!

Þú varst að tala um grafík áðan og hér í sýningarrýminu sjáum við heilmikila grafík, veggfóður upp um alla veggi. Er þetta kerfi?

Þetta er stafróf sem fundið var upp fyrir afmarkaðan hóp árið 1894. Ég gaf því þessa listfræðilegu liti, grunnlitina ásamt grænum. Ef maður hefur lykilinn að stafrófinu þá getur veggfóðrið ljóstrað upp vandræðalegum leyndarmálum um mig. Það eru tvö leyndamál. Þau eru á ensku og þau eru staðbundin, því þau gerðust í þessu rými. Ég er gamall starfsmaður i8 og ég hef séð hverja einustu sýningu sem hefur verið sett upp í þessu rými. Mig langaði að gera verk byggt á því og sem væri persónulega staðbundið þessu rými. Það er ekki nauðsynlegt að aðrir átti sig á leyndamálunum en þetta var mikilvægt fyrir mig.

Þú ert síspyrjandi í þinni listsköpun. Er það forvitnin sem drífur þig áfram?

Já, algjörlega!

Færðu einhvern tímann svar?

Stundum! Fyrir mig er það mikilvægt að róta upp þessum spurningum, vera forvitinn, rýna, pota og spyrja. Það víkkar sjóndeildarhringinn, þá verð ég fróðari. Svörin eru ekki endilega áþreifanleg. Svörin koma til mín sem meiri vitneskja og víðsýni. Þegar þú sérð eitthvað sem þú hefur aldrei séð áður, það er svar útaf fyrir sig.

Af hverju svona litlir hlutir og smágerð verk?

Mér finnst litlir hlutir oft virkja stærri svæði. Ég hef alltaf unnið með litla hluti og ég heillast af smáhlutum. Mér finnst ofsalega fallegt að vera með stóran tóman vegg og svo er ein rauð doppa, ég fell í stafi! Ef mikil natni og hugsun er lögð í þessa eina rauðu doppu, þá getur hún haft jafn mikið vægi og heilt veggfóður. Á tímabili voru verkin farin að stækka en síðan minnkuðu þau aftur því ég þurfti að geta flutt verkin með mér án mikilla vandræða. Verkin eru jafn stór og hugmyndin kallar á. Bronshillurnar eru litlar af því að hillur eru það að öllu jöfnu ekki. Hillur eru venjulegar stórar og stöndugar og eiga að þjóna sínu hlutverki sem bókahillur eða annað. Þessar hillur eru litlar, úr góðum málmi og einstakar.

Hvað viltu segja við fólk sem finnst samtímalist flókin og gefur sér ekki tíma í að rýna og spyrja?

Fólk heldur oft að það megi ekki halda það sem þeim finnst í upphafi. Þú kemur bara á sýningu eins og þú ert klæddur og eins og þín reynsla segir til um og það er þín leið til að skoða sýningu. Það er ekki til nein önnur leið en sú. Ef það er eitthvað sem kveikir í manni þá leitar maður frekari svara eða upplýsinga. Það er engin ein leið til að skoða sýningu.

Nú hefur þú fengist mikið við kennslu m.a við Listaháskólann og Myndlistarskólann í Reykjavík. Hefur kennslan mikil áhrif á þig sem listamann, er kennslan þér mikill innblástur?

Magnús Pálsson sagði að sjálfsögðu að kennslan væri klikkaðasta listgreinin. Að einhverju leyti finnst mér það líka. Ég hef kennt síðan ég var tvítug og ég hef þróast mikið sem kennari ásamt því að þróast sem manneskja og sem listamaður. Mér finnst æðislegt að kenna og mér finnst ég alltaf verða betri og betri kennari. Ég vona að það sé rétt! Ég er ekki kennaramenntuð og það hafa margir hjálpað mér í kennslunni, samkennarar og vinir. Það eru nokkrar leiðir til að læra og ein leið er að prófa sig áfram og læra af mistökunum. Í seinni tíð er ég er alltaf að kenna minna og minna, það er að segja því meira sem ég sleppi kennslunni og mæti fólki eins og ég er og mæti nemendum þar sem þeir eru því meira fæ ég út úr kennslunni og vonandi nemendurnir líka. Ég er alltaf að sjá það betur og betur hvað kennslan skiptir mig miklu máli.

Í blöðung sem fylgir sýningunni segir: „Verk Hildigunnar afhjúpa annmarka, sérvisku og fjarstæðukennd atriði sem finna má í sköruninni á milli hugsjónar og mannlegra skilningskerfa. Slíkur ágangur kemur sér ekki bara vel, heldur liggur hann til grundvallar verkum Hildigunnar, og gerir áhorfandann óvænt að miðju alheimsins.“ 

Hvernig gerir þessi ágangur áhorfandann óvænt að miðju alheimsins?

Við erum föst í þessum líkama og við erum búin að búa til öll þessi kerfi og þau þjóna okkur á hinn og þennan háttinn. Allt þetta finnst mér áhugavert og mér finnst ég öðlast meiri visku og meiri skilning á því hvað lífið er með því að skoða og grandskoða hvernig við vinnum úr þessum skynjunargögnum sem eru allt í kringum okkur. Það sem mér finnst svo skemmtilegt við myndlist, það er að víkka sjóndeildarhringinn og bjóða fólki upp á annað sjónarhorn eða nýja upplifun. Stundum er það bara eitthvað sáraeinfalt og stundum flóknana. Það að við komum út af sýningu aðeins fróðari heldur en þegar við löbbuðum inn. Það er það sem hefur alltaf heillað mig við myndlist og það er þess vegna sem ég er myndlistarmaður. Áhrifin sem myndlist getur haft eru svo mögnuð. Þetta augnablik þegar ég heillast af verki og það breytir einhverju inni í mér – það breytir því hvernig ég horfi á heiminn. Þannig finnst mér að myndlist ætti að vera. Maðurinn er fastur í sínum eigin heimi og verður óvænt að miðju alheimsins. Það er það sem er svo gaman. Að vera meðvitaður og verða fyrir áhrifum.

 artzine þakkar Hildigunni fyrir spjallið og óskar henni góðs gengis í framtíðinni.

Ástríður Magnúsdóttir


Ljósmyndir: Daníel Magnússon
Upplýsingar um listamanninn: i8.is

UA-76827897-1