Til viðtals: Brynjar Helgason um Hallstein Sigurðsson
EÞ: ‘Vísir að yfirliti á (6-7 áratuga) ferli listamannsins’… Auk þess að endurspegla nákvæmlega formlegt inntak sýningarinnar (eitt verk frá hverjum áratug) og ýja að næsta skrefi, þ.e. yfirgripsmeiri yfirlitssýningu? – sem þess til gerð stofnun gæti tekið að sér. Þá hefur þessi titill ópersónulegann blæ eins og t.a.m. bókin hans Joyce ‘Portrait of an artist as a young man’…
BH: Jú það er náttúrlega höfuðeinkenni svona andans manna að geta fjarlægst sig sjálfa og titillinn er í samræmi við það. Á bíltúrum okkar um svæði sem geyma verk þessa listamanns hefur hann bent mér á og spurt; ,,og hver skildi nú hafa gert þetta?’’,,…er það sami höfundurinn?’’ – það leynir sér ekki undrunin á honum. Og það er vert að spyrja í fúlustu alvöru: Er þetta allt eftir þann sama? Eða ef við orðum þetta öðruvísi; hvað sjálf eða hugvera framkvæmir svona frábrugðna hluti? Það var þá sem fæddist þessi hugmynd um Hallstein sem virtúós. Ég var lengst af ekki meðvitaður um þetta nafn, en við ákváðum að yfirheiti verkefnisins yrði; ‘Í Hallsteins nafni’ sem Café Pysja hefur haft frumkvæði að, með sýningunni (‘Vísir að yfirliti…’) í galleríinu, blaðaútgáfunni og öðru í framhaldinu. Ég upplifði það sem visst afrek og ég hef spurt aðra mér vitrari sem að hafa staðfest þetta að Hallsteinn sé ekki ‘nafn’ í ‘íslensku listasenunni’. Hann á talsvert tímaritasafn, sem kemur frá föður hans, og það varð okkur innblástur að hönnun og innihaldi blaðsins. Þannig að þetta er ‘retrospektíft’ en líka svona vangavelta um hvað geti falist í því. Og ég held að þetta sé líka í grunninn póst-módernískt móment – þessi sýning á svo sannarlega há-módernískum ‘myndhöggvara’. Þ.e. þegar listamaður af þeim gamla skóla er markvisst plöggaður inn í margslunginn vef tilvísana og ólíkra merkingarheima. Ég held að við þurfum á svona tímaskekkjum, eða tímaleysum réttara sagt, að halda og Hallsteinn hefur sjálfur leynt og ljóst verið meðvitaður um þetta.
EÞ: Afrek? – nafnleysi.
BH: Já ef þú tekur t.a.m. frægastann listamann sinnar kynslóðar eins og Sigurð Guðmundsson, þá kemur hann fram í viðtölum og skrifar bækur um sig og sínar ’tilfinningar’ – þetta er náttúrulega voða mikil hughyggja, sem að fjölmiðlarnir eru sólgnir í (þ.e. ‘hugarfar’ sbr. skoðanir einstaklinga). Hjá Hallsteini (sem er ekki ‘nafn’ vel á minnst) þá snýst þetta ekkert um hann – það eru verkin hans sem hafa verið þarna frá því ég man eftir mér og það án þess að þeim fylgdi einhver sérstakur merkimiði. Þetta eru listaverk – allt og sumt.
EÞ: Ástríðuþungi (la forza) svo ég vitni nú í texta úr ‘dagblaðinu’ sem Ólafur Gísla hefur þýtt eftir ítalskan sálgreinanda; Massimo Recalcati – hefur það ekki allt með hughyggjandi hugveru að gera?
BH: Nei, það er nafnið á hugveru í sambandi við atburð sem að viðkomandi kemst í snertingu við þannig að um sé að ræða hugveru þaðan af – verkfæri einhvers sannleika. Hallstein getum við nefnt móderníska hugveru eða ‘járnsmiðstetur’, ástríðuþrungnar athafnir hvers eru grundvallaðir í einhverju handan hans persónu eða sjálfi.
EÞ: En eins og sönnum listamanni sæmir næmur fyrir því táknræna og það þá sér í lagi á við um hans eigið nafn. Það er og annar álitinn risi á tuttugustu öldinni í íslensku listalífi með keimlíkt nafn sem Hallsteinn hefur fengið að láni titilinn frá: ‘Steinbarn’.
BH: Jú Steinbarnið virðist geta hafa komið frá Laxnesi en hjá honum var það í afar neikvæðri merkingu og tengdist hans tilvistarkreppu gagnvart pólitískri sannfæringu. Þetta verk Hallsteins aftur á móti skopskynið uppmálað og Hallsteinn hefur hugsað með sér: JÁ! – Við höfum aftur hugsað fyrir því á þessari sýningu að tefla fram tveimur steinbörnum; einu svörtu og hinu hvítu. Kannski til að sýna fram á margföldunaráhrif hinnar listrænu athafnar.
EÞ: Hvaða önnur verk eru á sýningunni?
BH: Ef að Steinbarnið hefur þótt þunglamalegt (sem er algjör vitleysa þar sem að það er mjög flottur hrynjandi í þessu verki – í sem kalla mætti; nýkubbastíl) þá eru þarna svifverk – tvö. Eitt leikandi létt, gult á lit frá um miðbiki ferilsins og annað frá seinasta áratug sem er hádramatískt verk af eins og splúndrandi hnetti með sínum mælieiningum, lengdar- og breiddarbaugum. Svo er þarna sívalningslaga verk fyrir miðju rýmisins – það gæti sómað sér vel meðal Brancusi og Duchamp, en líka í öðrum vísindaskáldskap. Þá er eiginlegt altaristöfluverk fyrir veraldlega kirkjur okkar tíma, þ.e. lífvísindastofnanir. Eða eru það ekki líka fagurfræðileg sjónarmið sem að koma til með að ráða því hvaða genum er splæst saman á næstu árum og áratugum? Að lokum skal upphafið skoða: ‘Maður og kona’ frá 68’ – hvaða túlkun sem maður vill leggja í þá góðu mynd.
EÞ: Þá eru upptaldir 6 áratugir. Hvað með þann 7unda?
BH: Sá 7undi er rétt að byrja og hann snýr að ekki ýkja gömlu verki reyndar; ‘Traktornum’ – sem er einn af nokkrum slíkum, og svo eru líka ‘Plógar’. Þetta verk hefur sjálfsævisögulega vídd (Hallsteinn var í sveit á þessum tækjum í Borgarfirðinum) en snýr líka að sögu Íslands og þeirri iðnbyltingu sem að varð í búskap landsmanna, en felur ennfremur í sér ákveðna abstraksjón eða ‘renderingu’. Þetta hugtak er þekkt úr hinum stafræna geira – þeirra sem teikna þrívíddarmódel eða vinna með hljóð og myndvinnslu. Með þessu móti, þ.e. að gera stafræna útgáfu af verkinu, sem getur ferðast í gegnum hin ólíklegustu umhverfi og um leið að ‘auð-kenna’ (tokenize) það, þá hrindum við af stað nýrri ‘byltingu’ með efni á vefnum sem er hægt að nálgast hvar sem er.
EÞ: Þú ert að tala um NFT, eiga verkin hans Hallsteins heima þar?
BH: Já, verkin hans eru ekki endilega bundin við ákveðinn stað, þó þeim hafi vissulega verið fundin ágætis staðsetning mörgum hverjum. Það er þessi staðleysa og sömuleiðis efnisleysa sem að hinn stafræni miðill bíður uppá. NFT snýst um að geta verðlaunað höfundinn fyrir sitt ‘efni’ en er ekki án ókosta eins og varðandi þann ‘námugröft’ sem býr að baki þessu kerfi. Að geta safnað í sína ‘portfolio’ listaverkum sem eru óhlutbundin rétt eins og fyrir þann sem á hlutabréf – sem að baki búa mis áþreyfanleg verðmæti.
EÞ: Talandi um steypu… Hallsteinn hefur unnið í steypu og ýmis önnur efni?
BH: Já það koma inn í hans praktík mjög skýr hagkvæmnissjónarmið – hann hefur t.a.m. ekki unnið í brons, marmara eða svoleiðis. Állinn hefur reynst honum góður og með þeim efnivið hefur hann náð að skala upp verkin sín til mikilla muna. Það hefur þýðingu að lesa í hans orð úr blaðaviðtali frá því snemma á ferlinum þegar hann segist ekki vera merkilegur suðumaður. Þ.e.a.s. hann er ekki fagmaður heldur ‘ævintýra’maður… Hann er að prufa sig áfram með tæknina og þann ‘orðaforða’ sem að þetta veitir honum. Þessar fáeinu aðferðir, steypan eða mótun og mótagerð, og svo suðan, stál og ál – hefur reynst honum drjúg uppspretta allan hans feril.
EÞ: En nú á að varpa honum inn í nýja tíma?
BH: Já það sér fyrir endan á hans jarðvist en gjafir hans halda áfram að gefa (af) sér. Eins og þessir einföldu ‘Traktorar’ að ekki sé nú minnst á hin ólíku farartæki (kosmísku – mundi kannski einhver kalla þau) sem að Hallsteinn hefur mótað. Þetta er mögulega það sem ég átti við með að kalla Hallstein ‘súrrealista’ – ekki síður en t.a.m. vin hans Jón Gunnar – hann er fær um að virkja ímyndunaraflið, svo sannarlega.
Já og við erum líka með afsteypurnar hans, þannig að fyrir áhugasama t.d. í jólapakkann – endilega kíkið á okkur!
Sýningin opnaði 17. september og stendur til 4. desember.
Café Pysja er í Grafarvogi, við Fjallkonuveg í verslunarkjarnanum Foldatorg og er opin fimntudag til sunnudags frá 14-18
Ljósmyndir birtar með leyfi sýningarstjóra.
upplýsingar um listamanninn: www.bit.is/hallsteinn/
Café Pysja er á Facebook og Instagram