Jakob Veigar

Línuleg óreiða í landslagi öræfanna – viðtal við Jakob Veigar Sigurðsson

29.07. 2022 | Viðtöl

Það er annar grár sumardagur í Reykjavík þegar ég hjóla upp Hverfisgötuna til þess að hitta Jakob Veigar í Portfolio Gallerí. Verkin njóta sín sem litasprengjur er minna einna helst á óreiðukenndan jazz, sem skapar alla sína eigin hrynjanda og strúktúra. Lífrænan í verkunum er jafn stjórnlaus og náttúran, hrá enn í senn svo malerísk og endalaus. Jakob hefur náð langt í málverkinu eftir að hann var kallaður aftur til Vínar á örlagakenndan hátt og ögrar nú sjálfum sér í sífellu á meðan hann fæst við nýja skala og miðla. Það var lag Billy Joel – Vienna sem kallaði hann aftur út fyrir um sex árum, og hafa allar götur leitt hann aftur til málverksins síðan þá. Hann var nýkominn heim úr skiptinámi í Vín og hafði verið lofaður af sínum prófessor og hvattur til að koma aftur þangað. Undir stýri, við þunga þanka og vangaveltur um hvort hann ætti að halda aftur til Vínar kom lag sem svar við hans hugsunum í útvarpinu. “But you know that when the truth is told, that you can get what you want. Or you can just get old. You’re gonna kick off before you even get halfway through. Oooh, when will you realize, Vienna waits for you?”

Jakob Veigar er byggingatæknifræðingur að mennt og hóf nám í myndlist 2011 eftir að hafa snúið við blaðinu og yfirgefið byggingargeirann. Hann útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands með BA gráðu árið 2016 og frá Academy of Fine Arts í Vínarborg sem „Herr Magister” árið 2019. Jakob starfar í Vínarborg þar sem hann er búsettur. Hans helsti miðill er málverkið þar sem gjörningurinn að koma málningu á striga hefur verið í hávegum hafður en einnig hefur hann verið að vinna við aðra miðla eins og video, textíl og hljóð.

Andrea: Hvernig var aðdragandinn að þessari sýningu hér í Portfolio Gallerí, Grettur, glettur og náttúrubarn?
Jakob: Ég var á þvælingi í eyðimörkinni í Íran þegar Sigþóra (Óðins) hefur samband við mig á Messenger og spyr hvort ég væri laus í sumar fyrir sýningu. Þau í Portfolio Gallerí höfðu áhuga, svo var náð saman um tíma. Ég hafði stuttan fyrirvara og var on the road. Þannig ég þurfti að plana þetta soldið á ferðinni. Þar sem ég er einnig að undirbúa aðra sýningu sem opnar snemma á næsta ári, sem er algjörlega byggð á þessum þvælingi mínum í Íran.

A: Ertu þá einnig að vinna skyssur að næstu sýningu í Íran?
J: Í Íran er ég að vinna aðrar skyssur já og prófa aðra miðla sem ég hef ekki notað áður. Ég er í samstarfi við fullt af fólki þar, sem eru að vinna hefðbundið handverk, vefa og annað. Þar er ég algjörlega að fara út úr mínum þægindahring, þannig það verður margt nýtt þar, þó það verði vissulega líka málverk. En öll þau verk eru gerð sérstaklega fyrir þá sýningu.

A: Hvernig urðu verkin til sem eru hér?
J: Flest af þeim eru mjög tengd náttúrunni, ég er alltaf að spegla sjálfan mig og maleríið í gegnum náttúruna. Ég kalla þetta oft landslagsportrett, af því að ég vinn með minningar úr landslagi. Allar þessar myndir eru meira og minna unnar úr íslensku landslagi, nema stóra myndin sem er eiginlega unnin beint frá Íran (Þetta var bara draumur, 2022). Ég horfi á sjálfa mig og þjóðfélagið í gegnum það hvernig ég upplifi náttúruna. Einhvernveginn er ég aldrei réttur sjálfur, svona persónulega, nema einhvers staðar í náttúrunni. Svo blandast þessi alkóhólíski hugur og mínar reynslur við þetta. Oft eru þetta stuttar sögur úr náttúrunni og þjóðfélaginu í rauninni líka. Þetta er mín sýn á sjálfan mig sem part af þjóðfélaginu.

Ég geri þetta í raun alls staðar þar sem ég er að þvælast. Ég var mikið á Indlandi í byrjun covid og svo aftur núna. Þær myndir sem ég vann á Indlandi urðu allt öðruvísi en samt sama pæling. Ég inni í einhverjum heim sem er mér algjörlega ókunnugur. Samt er ég alltaf staddur einhverneginn á þessum stað. Þessar myndir sem eru uppi hér eru ég og mín sýn, en ég nota minningar úr náttúrunni, staði, sögur. Ef ég er í Vín þá er Ísland alltaf mjög sterkt í mér, því lengra sem ég fer öskrar þessi partur af mér á mig. Ég hef ekki mikla þörf til að mála þegar ég er á Íslandi en þegar ég fer annað, fer landslagið að sækja á mig og ég finn aftur þörfina. Maður er alltaf að díla við það sem er að gerast í samtímanum og mín leið til þess er í gegnum þessar myndir, minn kaótíski hugur fer alltaf þangað til þess að tjá sjálfan sig. Það er svona mín hugmyndalega þróun.

Portfólíó galleríPortfólíó gallerí

A: Koma minningarnar þá til þín við gjörð málverksins eða hugsarðu þær fyrir fram?
J: Eiginlega bæði, ég byrja oft með sterka mynd en svo fer hún sinn veg. Hún fær alltaf að fara sína leið. Ef ég reyni að halda of mikið í upprunalegu myndina þá fer hún oft að verða hallærisleg. Performannsinn við það að mála er ótrúlega sterkur hjá mér í mínum myndum. Oft getur mynd leitt af sér aðra mynd. Ég held að sýningin sem verður í Listasafni Árnesinga hafi að miklu leiti orðið til út frá mér að performera og ég að búa til málverk sem allt í einu kallar á að ég þurfi að sækja í aðra miðla. Inntakið varð til í ferli málverksins, þar sem ég fékk hugmyndir er kölluðu á aðra miðla. Ég þurfti að sækja í þá til að tjá þessar upplifanir mínar og tengsl við Íran. Fyrst vegna þess að ég hafði tengsl þangað en komst ekki þangað, ég vildi vera þar vegna þess að kærastan mín þá, var þar. Þetta var skrítinn hugmyndaheimur sem varð til í covid, sem öðlaðist svo eigið líf og varð eitthvað annað.

Hugmyndirnar verða því mikið til í ferlinu, í þessum gjörningi sem málverkið er. Sem tekur mig svo í ólíkar áttir eftir því sem ég stíg lengra inn í það. Þetta er alltaf einhver spenna milli sterkra hugmynda og þess sem gerist í augnablikinu. Margar myndirnar mínar líta út fyrir að hafa orðið til mikið í momentinu en eru samt mikið unnar og skapaðar í raun úr baráttu hugmyndanna. Ég er alltaf að vinna. Ef ég er nálægt vinnustofunni minni þá vinn ég á hverjum degi, marga klukkutíma á dag. Þannig þetta er endalaust ferli þar sem hugmynd fæðir af sér hugmynd. Þetta er í rauninni líka alltaf gjörningur. Dagurinn í dag hefur alltaf áhrif, hvernig maður er stemmdur, hvað maður er að lesa í fréttum o.s.frv. Það kemur allt inn í stúdíóið, hvernig hausinn á manni er þann daginn ― er ég þunglyndur eða er ég glaður.

A: Þú útskrifast úr málarameistaranum í Vín rétt fyrir covid, hvernig var það tímabil fyrir þig sem listamann?
J: Ég var með allskonar plön á þeim tíma, en svo kom covid, sem var í raun alveg frábært því þá fékk ég alveg frið til þess að einblína á málverkið. Ég gat málað og málað, fullt af fólki birtist sem vildi kaupa myndlist. Þurfti ekki að hafa neinar fjárhagslegar áhyggjur, var bara að mála og hafði engar kvaðir um að sýna. Ég ætlaði að sýna á Indlandi en því var aflýst þannig ég rétt slapp til Austurríkis og var á fullu að mála bara. Var að vinna einhverjar tvær þrjár hugmyndir í sitthvora áttina og vann eiginlega bara 24/7. Þar var til þessi hugmynd um sýninguna um Íran og ég fékk sendan allskonar textíl þaðan sem var handunninn fyrir mig. Það stækkaði í sýninguna sem mun vera í Listasafni Árnesinga. Þá var öll þessi hugmyndavinna sem átti að tengjast öðrum sýningum, sem plön fyrir covid, orðin að engu. Þessar myndir sem eru hérna á þessari sýningu urðu í rauninni til í seinni hluta þess tímabils. Nema stóra myndin hún kemur úr Íranska verkefninu.

A: Núna ertu með vinnustofu í Vín er það ekki? Hvernig er lífið þitt þar?
J: Mitt athvarf er þar já, grunnbúðir 1 eru í þriðja hverfinu í Vín. Ég er ótrúlega heppinn með vinnustofu. Búinn að vera á sama stað síðan 2019 og er vonandi ekkert á leiðinni þaðan. Með risa rými á tveim hæðum. Sem er jafnvel með sýningarstöðu, ætla reyna að fara aðeins meira út í sýningar núna. Snorri Ásmunds ætlar til dæmis að sýna hjá mér í desember.

A: Hvernig varð stóra myndin til, Þetta var bara draumur, 2022?
J: Þessi mynd er byggð á hefðbundnum írönskum/persneskum arkítektur, þessi hús innihalda oft þá sérstæðu að þau hafa gat í loftinu þar sem þú sérð upp í himininn. Svo er svona þríhyrningamunstur sem er oft frekar abstrakt og skreytt, sem arkítektúrinn er unninn út úr. Ég er að vinna nokkrar myndir út frá þessu, mér fannst gaman að taka eina nýja mynd með inn á þessa sýningu þegar ég var að koma til Íslands. Hún passar samt líka inn á sama tíma, þar sem náttúran kemur alltaf inn. Þú sérð þríhyrningamunstrin í myndinni og þessa opnun ljóssins sem ég er að eiga við sem minningu frá þessu heimi. Þessi íslamska list sem er ótrúlega mögnuð og tengist abstrakt listinni. Af því að þeir máttu ekki hafa andlit, þannig þeir nota skrautskrift og allskonar heilaga geómetríu í skreytingar. Það er alveg geggjað finnst mér. Þetta er einn af þessum upphafspunktum abstraktlistarinnar, þó hún hafi ekki endilega verið hugsuð sem slíkt á þeim tíma. Það er hvergi tómur flötur í þessum húsum, þeim svipar mikið til málverkanna minna. Það er þetta fear of empty spaces sem einkennir allt og ég tengi við, þar sem þessi strúktúrar eru alls staðar. Ég eyddi mörgum dögum í að labba á milli svona húsa og taka myndir. Þetta er eina verkið af þessu myndum á sýningunni sem er hluti af því sem ég er að fást við akkúrat núna.

A: En geturu sagt mér frá verkinu Stundum fæ ég bara nóg, 2021?
J: Hún er gerð alveg á sama tíma og hinar eldri. Þú sérð ef þú skoðar betur að það eru alltaf andlit í myndunum, þessi svokölluðu landslagsportrett. Hérna er það mjög sterkt, maður sér tungu eða tittling. Ég var alveg brjálaður í hausnum á mér á þessum tíma og leið eins og ég myndi æla út úr mér tungunni. Svo áttaði ég mig á því eftir á að þetta er soldið eins og tittlingur, þetta er sjálfsportett þannig það er þetta alveg klárlega. Einhverskonar öskur út í heiminn. Þessar eldri myndir eru allar svolítið sama momentið. Hérna sérðu á í Skaftafelli, ég byrja yfirleitt mjög realískt með þessar myndir. Þetta  var vatn og grjót í ánni, svo mála ég í mörgum mörgum lögum þar sem margir hlutir brjótast út. Fyrstu lögin í verkunum eru frekar hefðbundin náttúruverk og svo hleðst mitt tilfinningalíf yfir á myndirnar. Mitt ég tekur yfir, ýmist er það góði drengurinn ég, eða alkóhólistinn ég, eða reiði ég, eða ánægði ég. Það er alltaf um það sem ég er að eiga við í samfélaginu á þeim tíma.

Svo er það þessi hérna mynd, Stúlka sem elskar bláber, 2021. Þessi mynd er mjög sterk minning úr Skaftafelli, þar sem þessi stúlka situr við á og borðar bláber. Ég byrjaði með mjög klassíska byrjun á henni, hún var frekar realísk – en ef ég leyfi ekki málverkinu að yfirtaka það þá verður eitthvað ekki rétt. Í ferlinu fær þessi gjörningur að yfirtaka myndina. Ég byrja í rólegri takti með hugmynd, jökulá og stórir steinar, gróðurinn og allt mjög sterkt í hausnum á mér, þessi stúlka sitjandi þar að borða bláber. Svo tekur þessi líkamlegi action gjörningur við og það er hann sem ræður. Hann segir við erum ekkert að fara þangað – við erum að fara hingað. Miðilinn verður að fá að vera hann sjálfur, maleríið skiptir mig mjög miklu máli.

Í mjög fotorealískum málverkum eru þau svo upptekin af sjálfum sér, þú gleymir alltaf myndinni og ferð að hugsa um tæknina. Fyrir mig verður það mjög leiðigjarnt. Það er svo oft sem þannig málarar gleyma sér í að vera show off, það er eins og leiðinlegt gítarsóló. Það getur verið vel spilað en bara svo innihaldslaust. Þetta er snúið, það eru alveg færir realískir málarar að gera góða hluti en svo líka alveg á hinn endann. Ég er frekar fastur í því sem mætti kalla painters painting, þrátt fyrir að þér líki ekki myndin sem slík þá er samt eitthvað áhugavert við maleríið og miðilinn.

Stundum fæ ég bara nógStundum fæ ég bara nóg, olía á striga, 155 x 120 cm, 2021

A: Geturu talað aðeins um tengingu þína við öræfin á Íslandi, minningar þínar af þeim birtast ætið áfram í verkum þínum:
J: Ég var þar í sveit með afa, hann hafði mjög sterka sýn á náttúruna og kenndi mér að horfa á hana, ekki bara sem einhverja risastóra sublime sýn, heldur líka að horfa niður. Það er alls staðar eitthvað sem er svo rosalega sterkt bara ef þú gefur því tíma. Ég sem málari sé sem svo að ef þú gefur því tíma að þá gefurðu því tilfinningar, það er mjög sterkt í málverkinu mínu. Það eru þessar sögur af öræfunum, ótrúlegt ströggl að lifa af í sveit, þetta var erfitt og þess vegna myndaðist fallegt samfélag þarna vegna þess að það varð að standa saman. Þetta hefur sterka tengingu inn í sálina á mér sama hvar ég er, ég leita alltaf þangað. Ég ætla að verða gamall í öræfunum, ég hef lofað mér því.

A: Hvernig sérð þú dauða málverksins og upprisu þess í dag?
J: Þetta er ótrúlega merkilegur miðill, hvernig hann nær alltaf að rísa aftur upp ferskur. En eins og hann er stór, því allir geta málað, er erfitt að gera eitthvað áhugavert. Það er svo langt frá því að gera eitthvað fínt og fallegt, þú getur lært að gera það. En að gera eitthvað áhugavert er annað. Fyrir mér er þetta þannig að mín persóna kemur fram í maleríinu. Í þessari enn einni upprisu málverksins er eitt, myndin – hvort þetta sé fallegt eða ljótt, sem allir hafa skoðun á. Svo er það þessi vídd sem er maleríið, persónan, þú skynjar listamanninn í því. Hérna er til að mynda Gunnar Örn (bak við okkur í herberginu sem viðtalið er tekið í), þú horfir á hann og finnur hann í því hvernig hann málar. Það er svo magnað að þessi miðill birtir það að þú finnir hann. Þú þekkir hann strax því að maleríið er hans, það er einstakt. Þetta er það sem er svo magnað við málverkið. Svo er það alltaf sagan á bak við verkin, konseptið. Sum verk geta verið leiðinleg að öllu leiti nema hafa ótrúlega spennandi konsept sem gera þau áhugaverð, eða á alveg hina hliðina líka. Þannig ef þetta harmónerar allt saman þá er komið eitthvað sem er spennandi.

Svo er alltaf þessi klassíska spurning um mörk málverksins. Hvað er málverk, og hvað ekki? Hvað er listaverk? Þú getur endalaust dílað við þá spurningu. Þetta er elsta form listarinnar. Það er alltaf hægt að nálgast það útfrá sjálfum sér og á ferskan hátt. Það mun alltaf gera málverkinu kleift að koma aftur og ögra sjálfu sér. Þó að auðvitað muni fullt af leiðinlegu efni koma til líka. Svo er annað, sem er tabúið – og það er peningaheimurinn. Það eru allir að fara að græða. Það er einhvernveiginn frekar sorglegt en líka ótrúlega áhugavert að fylgjast með því, hvernig eitthvað sem enginn vildi kaupa í gær er allt í einu milljóna virði í dag. Það hefur ekkert með myndlist að gera, heldur með samfélagið sem við lifum í. Það er áhugaverð pæling út frá listrænu sjónarmiði.

A: Hvernig er svo framhaldið, á sýningu þinni í Listasafni Árnesinga?
J: Þar tek ég málverkið og ögra minni aðkomu að því algjörlega. Konseptlega verður þetta heildstæð sýning þar sem ég byrja að vinna með hugmynd sem er stöðugt að breytast. Þetta byrjar út frá málverkinu sem þróast svo eitthvert annað sem verður mikil til í textíl – og aftur þá kemur þessi klassíska spurning um mörk málverksins. Er þetta málverk? Hvenær verður það að einhverju öðru? Hvenær verður textíll að teppi? Þannig ég er mjög spenntur fyrir þeirri sýningu, er búinn að vera vinna hana í ár og mun vinna hana rúmt ár í viðbót. Það er margt í vinnslu og heilt teymi á bak við hana, á þrem stöðum. Handverkskonur sem vefa á hefðbundinn hátt úr hör og ull mest. Þetta er í vinnslu og tekur sífellt breytingum þó það sé komin heildstæð mynd á þetta. Opnunin mun verða í byrjun September á næsta ári, 2023.

Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir


Vefsíða: www.jakobveigar.com
Sýning Jakobs Veigars  – Grettur, glettur og náttúrubarn stendur opin í Portfolio Gallerí til 06. ágúst, 2022.
Myndir af Jakobi og sýningarsal eru eftir Sigurgeir Sigurjónsson. Mynd af málverki er eftir listamanninn sjálfan.

UA-76827897-1