England
Guðný Guðmundsdóttir myndlistarkona hélt nýverið einkasýninguna ´England´ í ofurfallegum sýningarskála hins rúmlega aldargamla Overbeck listafélags í Hansaborginni Lübeck í Þýskalandi. Stofnað var til Overbeck félagsins undir lok fyrstu heimstyrjaldar vegna frumkvæði menningarsinnaðra íbúa borgarinnar en þeir trúðu á mikilvægi lista sem tæki lærdóms og lýðræðisvakningar. Frá upphafi hefur félagið staðið fyrir sýningum á samtímalist lifandi listamanna. Listafélög eins og Overbeck standa á gömlum merg í Þýskalandi og eru einstakt fyrirbæri í Evrópu. Þau eru í raun 18. aldar svar þýska menningarheimsins við hinni frönsku salon hefð þar sem lokaðir hópar hittast og ræða listir. Þessir hópar listunnenda úr efri stéttum samfélagsins þróuðust svo í það sem í dag heitir kunstverein eða listafélag. Í Þýskalandi má finna 300 slík félög og eru þau oftar en ekki miðpunktur umræðu samfélags á hverjum stað um samtímalist og það er í þessum félögum sem um 150.000 íbúar Þýskalands taka beinan þátt í samtímalistinni með sýningarhaldi, listsköpun og umræðu. Það er ekki lítil hefð að stíga inn í.
Guðný er búin að vera að vinna að sýningunni í eitt og hálft ár með hléum. Hún átti að opna í júní 2021 en var frestað fram í apríl 2022 vegna covid. Loksins þegar hún gerðist þá kom í ljós ákaflega vel unnin sýning. Hún hefur enda fengið verðskuldaða athygli bæði á landsvísu í Þýskalandi með listgagnrýni í Die Dagezeitung (taz) dagblaðinu en einnig hefur sýningin vakið athygli fjölmiðla í Lübeck. ‘Þetta kom þannig til að Oliver Zybock hefur verið að fylgjast með mér í nokkur ár. Hann er forstöðumaður sýningarskálans og listrænn stjórnandi. Félagið er þekkt fyrir framsækna dagskrá og sérstaklega eftir að Oliver tók við,’ útskýrir Guðný.
‘Svokölluð Kunstverein eru til í mörgum borgum í Þýskalandi en þau eru misjöfn og Overbeck er álitið eitt af þeim þekktari. Það er gaman að vera boðið að sýna þarna því salurinn er svona draumasalur listamannsins. Það er gríðarlegt veggjapláss og hann er svona sérkennilega lagaður, svona U lagaður og maður finnur svo vel fyrir því að hann er sérstaklega byggður fyrir myndlist. Birtan kemur úr þakgluggum. Það var þegar Oliver kom á sýninguna sem ég hélt í Gallery Gudmundsdottir í Berlín árið 2020 sem hann tekur lokaákvörðun að bjóða mér sýningu. Hann vissi af mínum verkum eflaust vegna sýningarinnar í Poolhaus í Hamborg fyrir fimm árum. Það var sýning sem olli ákveðnum straumhvörfum í ferlinum. Þetta er svona bolti sem vindur upp á sig. Oliver gaf mér algert frelsi. Hann vinnur þannig að listamanninum er algerlega í sjálfsvald sett hvað hann sýnir og hvernig hann setur það upp. Honum er sýnt traust.’
Þegar Guðný er spurð um hvað sýningin fjallar um heldur hún áfram: ‘Þegar þarna var komið við sögu leituðu á hugann hugsanir um andagiftina og hvaðan hún kæmi. Hvort hægt væri að staðsetja kjarna andagiftarinnar á einhverjum stað. Og þá horfði ég yfir ferillinn sem spannar aldarfjórðung og tók eftir því að hvað eftir annað koma upp hugmyndir sem varða England. Það er einmitt titill sýningarinnar. Ég tók eftir því að síendurtekið er ég að fjalla í og með um einhvers konar ensk fyrirbæri hvort sem það er úr enskri menningu eða enskt landslag. Þó er varla hægt að segja að ég hafi nokkurn tíma komið til Englands fyrir utan tvær stuttar heimsóknir til London. London er nú varla England.
Ég veit ekki hvaðan þetta kemur. Ég hef eiginlega engan áhuga á Englandi. Þannig gerist það samt að ég fer að bregða upp mynd af þessum stað sem uppsprettu andagiftarinnar og ég bara ákveð að það væri gefið að England væri staðurinn þaðan sem andagiftin kæmi. Síðan fer sýningin að hverfast um að þetta svæði sé einhvers konar ríki og svo fer þetta að snúast um varnarstöðu ríkis og ásælni, átök um yfirráð og hættu sem gæti hugsanlega staðið að þessu svæði og það kemur til dæmis inn í myndbandið í sýningunni af flugunni – hún er tákn fyrir einhvers konar höfðingja og stærðarhlutföll um hver er óvinur hvers. Ég komst að því að stærstu óvinir flugna eru fuglarnir sem okkur finnst litlir og sætir.
Svona fer þetta svona koll af kolli. Við erum með litla flugu sem í sínum veruleika er ekkert lítil. Hún er bara eins og hún er. Svo erum við með fugla sem eru litlir líka en á hennar mælukvarða eru risastórir. Í raun og veru endar þetta í manngerðum orrustuflugvélum sem á ljósmynd líta út eins og leikföng. Verkið fjallar mikið um kristöllun. Byrjar í stóra og ferð í það minnsta og byrjar í því minnsta og ferð upp í það stóra. Þannig byggðist upp heimur bara eins og við upplifum heiminn í kringum okkur. Spurningar vakna eins og hver er vinur? Hver er óvinurinn? Af hverju stafar hætta? Hver er sterkari? Hver er veikari? Hvað er styrkur? Hvað er veikleiki? Þegar maður fer að tala um England sem þetta svæði þá er það auðvitað ekki til. Þetta er bara ímyndun.
England er í raun og veru staðgengill. Sýningin er í raun og veru uppkast að stað sem er ekki til.’
Hulda Rós Guðnadóttir
Ljósmyndir: Hulda Rós Guðnadóttir