Portraits of Pleasure – kyrralífsverk samtímans

29.10. 2021 | Umfjöllun, Viðtöl

Portraits of Pleasure er dionísk sýning Sindra Sparkle Freys sem birtist sem ákall til nándar eftir mánuði af sundrun og einangrun mannsins. Myndir Sindra eru opinberun á hinum innri þrám og nautnum. Það sem er yfirleitt hulið innan veggja einkalífsins, í skápum, kistum og skúffum er opinberað og birt á sýningarveggjum Gallerí Þulu á haustmánuðum þessa árs. Verk háns streyma sem ferskur andvari er litast af berskjöldun mannsins og fagurblæ raunsæis hið innra. Fjallað er um kynverund á einlægan hátt er stuðlar að kyntjáningu á hinseginleika innan íslensku listasenunar.

Sindri er með listmálaragráðu og fornám úr Myndlistarskólanum í Reykjavík. Þessa dagana er hán í BA námi í grafískri hönnun, innan veggja LHÍ. Hán vinnur einna helst með þau áhrif sem hán verður fyrir í menningarumhverfi sínu, ásamt sögum, fantasíum og kynhneigð. Sögur eru í grunninn það sem gerir okkur að manneskjum. Hán byrjaði að fjalla um kynferði snemma á listferli sínum, kveikjan varð í aðdraganda verks sem hán var að vinna að í skólanum sem snéri að sjálfsmyndinni. Í ferlinu varð hán pirrað á því að reyna áorka lendingu á einhverskonar afurð. Í flýti heftaði hán gardínu á viðarplötu, grunnaði hana og málaði svo sjálfsmynd af sjálfu sér bundnu útfrá ljósmynd. Í þessum erfiðleikum á því að skila af sér verkinu varð kveikjan til – á þeim tíma var hán komið alla leið út úr skápnum og gerði sér grein fyrir því hvernig þetta mótíf gæti verið sem kjörið leiðarstef í listsköpun sinni þar sem ekki margir eru að fjalla um þetta innan myndlistarsamfélagsins í dag. Þessar sjálfsmyndir héldu áfram að þróast í listsköpun háns. Þannig varð sameining þessarar rannsóknar um kynferðið og málverkið að drífandi afli í iðkun háns á sviði flatarins. Sem hluti af þeim áhrifaþáttum er urðu í aðdraganda sýningarinnar fór listamaðurinn til Hollands og varð þar ástfangin af kyrralífsverkinu.

Sársauki & unaður, Pain & pleasure. Olía á striga, 2021.

 „Þar kristallaðist vakning fyrir ástríðu minni gagnvart kyrralífsverkinu og varð það mér hugleikið sem samtal við samtímann í dag.”

Þar myndaðist einskonar samhljómur við hánið sjálft. Kyrralífsverkin voru oftast máluð af lágstéttafólki og konum. Samkvæmt boðum Meidici fjölskyldunnar voru þau verk höfð neðst í upphengi og sýndu lesti hins mannlega. Þessi verk endurspegluðu hina mannlegu nautn sem var ekki talin til dyggða. Svo tók við sýn vanitas verkana þar sem dauðinn litar verkin með meðal annars með hauskúpum og þar er áminningin sú að samfélagið ætti að auðga sínar andlegu auðlindir fremur en hinar veraldlegu. Í dag eru kyrralífsverkin fremur séð sem fínt punt inn á heimilum, á sama tíma eru kynlífsleikföngin í þessari neðstu röðun fyrirbæra innan samfélagsins. Holdgervingar nautna sem helst á að fela. Hán byrjaði að lesa um kynfræði snemma á kynþroskaskeiði sínu, skoðaði heim blætis með rannsakandi augum og forvitni. Það er vakandi drifkraftur innra með Sindra sem vill frelsa líkamann undan skömm þeirri sem hefur litað nautnina.

„Ég hélt lengi að kyrralífsverkin væru einskonar memento mori – mundu að þú munt einn daginn deyja, þannig þú þarft að gera lífið þitt gott.”

Fantasía og sögur. Aldrei numið staðar / Fantasy and Stories. Never in One Place Long. 2021

Þó liggur þetta mun dýpra þegar maður skoðar listasöguna. Í nálgun sinni á sögn kyrralífsmyndarinnar í samtímanum fór Sindri að hugsa um einskonar memento vivere (mundu að lifa). Að leyfa sér að njóta og lifa í nautnini, frelsa sig undan vissri skömm sem hefur verið alin upp í samfélaginu. Þaðan kemur hugmyndin um eftirlætissemi sem eitt af leiðarstefum sýningarinnar. Í grunninn voru kyrralífsverkin að miklu leiti til um nautnina – þó þau séu líka með aðra merkingu. Með því að sameina portrett myndina við kyrralífsverkin er endurspeglun mynduð af því kynferði sem vill sífellt fá meira rými á yfirborðinu í okkar samtíma. Listamaðurinn miðlar ólíkum persónum úr sínu umhverfi með því að festa kynlífsleikföng þeirra á flötinn. Þannig fangar hán endurspeglun á kynferði manneskjunnar, sem segir mikið um hið innra. Hlutirnir verða að portretti af því sem oftast er hulið. Kynferði þeirra er myndin og nöfn verkanna eru valin út frá því hvernig einstaklingurinn lýsir sínu eigin erosi.

Það tók tvö ár fyrir þessa málverkaseríu að mótast. Yfirleitt gef ég hugmyndum mínum góðan tíma til að verða, ég set yfirleitt ekki verkefnin af stað fyrr en ég er komin með nóg af efni til þess að þróa. Ég vill geta farið allar leið með þær. Sjálf serían var máluð á einu ári, ég vann fyrst að litlu myndinni (Sjálfsmynd #1) og byrjaði ekki á hinum myndunum fyrr en það upphafsstef var fullmótað.”

Það er fallegt að hugsa til þess hvernig þessir hlutir öðlast aukna merkingu í covid, þar sem þeir verða eins konar þjónar nándar okkar. Í samtölum við fyrirsæturnar um þeirra blæti talaði hán við nokkra gagnkynhneigða menn um hvaða dót þeir notuðu, þeir nefndu eiginlega allir hendi. Þannig varð til mynd af hendinni sem endurspeglun á því, aðrir nefndu ýmislegt annað. Manni þykir vænt um leikföngin sín, þau hafa tengingu við persónu manns, spegla hvern og einn. Snertingin á þessum hlutum hefur það mikið vægi að þau verða ekki notuð af öðrum en þér.

Þetta er covid sýning og undirstrikuðu þær aðstæður enn fremur áheyrslupunkt listamannsins á viðfangsefni sínu. Hán varð skipað í sóttkví í aðdraganda sýningarinnar, staðsett andspænis myndefni sínu og fengu þessir hlutir þá að miklu meira vægi án módelsins. Sindri var lokað inni heima hjá sér, í samtali við strigann og málaði kyrralífsmyndir af kynlífsleikföngum.

Einangrunarlosti, Private Escape. Olía á striga, 2021

„Þegar ég var að klæða mig upp fyrir sýninguna hugsaði ég með mér hvort ég ætti að vera í kjól. Er ég að fara selja verr ef ég verð í kjól? Ég endaði á því að vera ekki í kjól, ekki vegna þessarar spurningar endilega heldur fékk ég hugmynd um að vinna með blóm. Ég var með blóm í andlitinu, blómaskyrtu, í korseletti og málaði mig.”

Listamaðurinn kemur úr allt annarri átt en margir myndlistarmenn, hann er fjöllistamaður, nörd og hinsegin. Hann er að tala um bdsm í listsköpun sinni vegna þess að hann vill opna á samtal um þessa afkima samfélagsins. Það eru margir sem lifa huldu höfði innan þessa lífstíls, einstaklingar sem lifa í einskonar skáp. Þegar kemur að bdsm-hneigðu fólki er mjög frelsandi fyrir þá aðila að það sé einhver úti á almennum vettvangi að fjalla um þetta form af kyntjáningu. Það hefur slæm áhrif andlega á hinsegin aðila að geta ekki verið séðir fyrir það sem þeir eru. Það dregur vissan dilk á eftir sér að þurfa fela kynferði sitt í ótta um að geta misst vinnuna. Það eru til dæmi um það í íslensku samfélagi enn þann dag í dag. Það eru ákveðnar fraseringar frá vanillufólki (fólk sem stndar kynlíf án kynlífsleikfanga og hlutverkaleikja) sem eiga erfitt með þetta, þessar línur svipa mikið til þess hvernig fjallað var um samkynhneigða fyrir nokkrum árum. Eins og t.d. „ég vill ekkert vita um það sem þú gerir í rúminu.” En það er einmitt það sem Sindri vill opna á með sýningu sinni Portraits of pleasure – opið samtal um allskonar kynferði.

„Sýningin mín er til þess að geta fjallað um ákveðin fyrirbæri innan þessarar hneigðar. Maður sér barefli, ýmis blætismótíf, klæðnað, síðan er eitt dildo sem er xenomorph úr Aliens. Þannig miðla ég blætishneigð sem ég get get talað um – en það væri kannski annað ef manneskjan sjálf stæði þarna og væri að berskjalda sig.”

Sindri sótti um að vera hluti af samsýningu hjá galleríi á þessu ári, en honum var neitað. Sagt var að þetta væri flott hjá honum en að í næsta mánuði væru þau með hinsegin sýningu vegna Gay Pride og hvöttu hán til þess að sækja um að vera með á henni. Hán spyr sig hvers vegna það þurfi alltaf að vera sérstakar sýningar, sem regnhlífar fyrir jaðarhópa innan myndlistarsenunar á Íslandi.

„Ég er hinsegin listamaður en það er ekki það eina sem ég er – ég vill geta verið ég án þess að mín kynverund verði það eina sem ég er.”

Það sem lifir í glæðunum í framhaldi þessarar sýningar er bók sem verður gefin út með samantekt á þeirri hugmyndafræði og rannsókn sem átti sér stað í aðdraganda hennar en hún fjallar um kyrralífsverk og kynlífsleikföng. Það er heillandi fyrir Sindra að tvinna saman ólíka miðla og mun næsta sýning hans verða áframhaldandi umfjöllun um kyntjáningu einstaklingsins.

Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir


Ljósmynd af Sindra Sparkle Frey: Ásdís Þula Þorláksdóttir. Myndir af verkum birtar með leyfi listamannsins.

UA-76827897-1