Rótarskot í Berlín

17.02. 2021 | Viðtöl

Gunnhildur Hauksdóttir spjallar við Guðnýju Guðmundsdóttur um nýtt gallerí í Berlín

 

Gallerí Guðmundsdóttir er nýtt gallerí sem er að festa rætur í miðborg Berlínar, þar eru sýndir alþjóðlegir listamenn, en Íslendingar í meirihluta og þá sérstaklega konur. Guðný Guðmundsdóttir stendur galleríinu að baki og er að stíga sín fyrstu skref sem miðlari lista á þennan máta, þó hún sé síst nýgræðingur í því að veita myndlist brautargengi. Eftir töluverðar ráðagerðir um form og aðferðir opnaði Guðný dyr sínar í júlí á síðasta ári með einkasýningu alnöfnu sinnar og hefur haldið tvær sýningar hingað til. Yfirstandandi er sýning Katrínar Ingu Jónsdóttur sem opnaði í haust. Fleiri eru í vinnslu þó farsóttin hafi sett strik í reikninginn.

Guðný er klassískt menntaður fiðluleikari og tónlistarfræðingur en brennur fyrir því að veita myndlist vettvang og hefur gert í nokkur ár. Hún ólst upp í kringum myndlist og var teymd á sýningar alla sína æsku, sem hún elskaði að hata en var sátt (við að mæta á opnun) ef hún fékk gos. Hún er m.a. prímus mótór í Listahátíðinni Cycle sem var sett á laggirnar 2015 og þar á undan hafði hún verið með tónlistarhátíð unga fólskins í Kópavogi. Cycle var upphaflega tilraun til að gefa fólki rými til að prufa sig áfram með að blanda saman myndlist og tónlist, en fljótlega leitaði hugurinn meira að myndlistinni og leiðum hennar til að vekja samfélagsumræðu, sem auðveldara er að gera í krafti myndlistarinnar að hennar mati.

Guðný vann t.a.m. með Steinunni Gunnlaugsdóttur við að koma hinu alræmda verki Hafpulsan upp á tjörninni í Reykjavík og hefur unnið lengi með Líbíu Castro og Ólafi Ólafssyni, nú síðast í vetur við að gera risastóran og fjölþættan gjörning um Stjórnarskrártillögu Íslendinga frá 2012 í Listasafni Reykjavíkur. Þetta var sennilega verkið sem hún var að bíða eftir fyrir Cycle þar sem allt fléttaðist saman tónlistin, myndlistin og samfélagsumræðan. Nú hefur Guðný breytt nálgun sinni á því hvernig hún vill meðhöndla myndlist, það hefur hún gert með því að opna sölugallerí og mér lék hugur á að vita hvernig það kom til og spurði hana fyrst hvernig hugmyndin fæddist.

GG: Ég veit ekki hvort hugmyndin hafi beint fæðst, ætli hún hafi ekki frekar vaxið og þroskast úr þeim jarðvegi sem ég hef verið að vinna í undanfarin ár. Þetta er nokkurs konar línulegt ferli þar sem hvorki er hægt að finna einhvern ákveðinn upphafspunkt né endi. Maður viðar að sér þekkingu í gegnum árin og veit ekki endilega hvert ferðinni er heitið. Að minnsta kosti hefur það reynst mér vel hingað til að vera ekki að setja mér markmið sem eiga að nást á einhverjum sérstökum tímapunkti, frekar treysta á ferlið sjálft, eigið innsæi og vera reiðubúin að hlusta og hreyfast með umhverfinu.

Ég fór til Þýskalands í klassískt tónlistarnám fyrir tvítugt og hef búið þar síðan meira og minna. Undanfarin ár hef ég mest unnið með myndlistar- og tónlistarfólki í gegnum Listahátíðina Cycle á Íslandi og hef ferðast með hana til Berlínar, Hong Kong og Buenos Aires. Ég hef fengið tækifæri til að kynnast starfsumhverfi listafólks beggja vegna borðsins og get í raun flakkað á milli hlutverka allt frá listamanninum sjálfum til skipuleggjanda og umboðsaðila.

Þegar ég var svo heppin að fá afnot af gömlum kjallara, Bunker, á besta stað í Berlin langaði mig að söðla um úr hátíðabransanum yfir í það að reka verkefnarými þar sem hægt væri að vera með sýningar, lista- og fræðimannaspjöll, gjörninga og jafnvel tónleika. Ég sá það sem farsæl skipti úr því ofboðslega vinnuálagi sem fylgir hátíðaskipulagi. Hugmyndin um að geta dreift álaginu betur yfir árið og ekki ganga síendurtekið sér til húðar í vinnu var mjög lokkandi tilhugsun.

En þegar ég var að skilgreina tilgang og gildi þess að reka verkefnarými komu upp áleitnar spurningar sem ekki var hægt að líta framhjá, eins og hver er raunverulegur ávinningur fyrir listafólkið. Að halda einkasýningu tekur langan tíma að undirbúa og þróa, það þarf að safna fyrir því með styrkjum og þetta er full vinna í marga mánuði. Styrkir eins og listamannalaun eða verkefnastyrkir brúa bilið á milli hugmyndavinnu og framkvæmdar en þegar verkin eru tilbúin ætti næsta batterí sem sér um miðlun, kynningu og sölu að taka við. Það er í verkahring gallerísins.

Íslenskt samfélag er lítið og getur ekki haldið uppi stóru myndlistarhagkerfi og það eru margir um hituna. Á einhverjum tímapunkti sá ég að betra væri fyrir alla aðila að stofna sölugallerí, það myndi betur nýtast því listafólki sem ég hef verið að vinna með. Í stað þess að koma hingað til Berlínar eftir margra mánaða vinnu og halda sýningu sem fer svo beint á lífshlaupsupptalningarlistann þá eigum við í langvarandi samstarfi og vinnum áfram og úr þeirri frumsköpun sem á sér stað í sýningunni sjálfri. Sýningin er fyrsta skrefið og með henni fer næsta tannhjól af stað. Ég, sem galleríisti, á í skapandi samtali við listafólkið mitt, ber þeirra hag fyrir brjósti, miðla verkum þeirra til safnara, sýningarstjóra og listasafna. Við berum því sameiginlega ábyrgð á þessu ferli og það er beggja hagur að vel gangi.

Ég man að þú varst mikið að velta fyrir þér nafninu á galleríinu þegar hugmyndin var að gerjast hjá þér, hvernig kom það til að Gallerí Guðmundsdóttir varð fyrir valinu?

Þegar fljótt er litið yfir alþjóðlega sviðið þá bera langflest gallerí nöfn eigenda sinna. Ég veit ekki af hverju það er ekki hefðin á Íslandi en efalaust er hægt að finna einhverjar hógværar ástæður fyrir því. Eftir að hafa mátað mörg nöfn á galleríið fannst mér það eiginlega passandi að nefna það eftir mér sjálfri en síðustu 20 árin hef ég staðið í ströngu við að stafa þetta langa eftirnafn hér í Þýskalandi, nafn sem mér samt þykir svo vænt um. Fólk man eftir löngum og skrýtnum nöfnum þótt það taki kannski aðeins lengri tíma fyrir það að læra að stafsetja þau.  Ég verð þó að viðurkenna að það tók tíma að standa algerlega með þessari ákvörðun. Því um leið og mér fannst þetta geggjuð hugmynd var ég hrædd um að þetta væri of frekt. Síðan leið sú tilfinning hjá og ég er hæst ánægð með þessa ákvörðun í dag.

Hverjir eru með þér í þessu?

Minn samstarfsmaður í lífi og leik heitir Jochen Steinbicker og án hans hefði ég nú sennilega strandað einhvers staðar í þýsku skriffinnskunni með þetta verkefni. Við erum í þessu saman þótt að ég fari fyrir skipi og beri ábyrgð á listrænum ákvörðunum. En síðan á ég auðvitað í miklu samtali við þá listamenn sem ég hef valið að vinna með nú í byrjun. Ég hef ekki verklega reynslu af því að reka gallerí þótt ég þekki listheiminn frá ýmsum sjónarhornum, þannig að að einhverju leyti erum við að læra saman hvernig við viljum haga þessu samstarfi, það hefur verið og mun halda áfram að vera mjög áhugavert ferli.

Cold Man’s Trophies | Pure Maid’s Garlands Mynd: Gallery Gudmundsdottir.

Frá gjörningi Katrínar Ingu á sýningunni Land Self Love.

Land Self Love Myndir: Gallery Gudmundsdottir

Listrænar áherslur í galleríinu? Hvernig velurðu samstarfsaðila hver er þín sýn?

Málefni kvenna eru mér mjög hugleikin, hvort sem það eru réttindamál eða almennt hið kvenlæga þegar kemur að smekk og fagurfræði. Öll réttindabarátta tekur tíma og á þeirri vegferð þarf að snúa við hverjum steini. Til þess að breyting geti átt sér stað þarf fólk að endurtengja hugsanaferla sína og vera í stöðugri sjálfskoðun, það er mjög krefjandi ferli. Stærsti þröskuldurinn er þó að mínu mati tungumálið, því við miklar breytingar þarf einnig ný orð og orðin þarf að prófa, æfa og skerpa.  Áhugi minn á þessum málum mun koma skýrt fram í galleríinu og ég vonast til að leggja mitt af mörkum við að æfa og skerpa orðfærið um kvenlegt fagurferði. Best væri að hafa jákvæð áhrif á það hvernig við hugsum um hið kvenlæga og kvenlíkamann þegar kemur að listum. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég hef valið að vinna nánast eingöngu með konum.

Já áhugavert þetta með tungumálið, og þú ert þá einsog þáttakandi í að búa til orðræðu um kvenlæga myndlist, því sú orðræða er kannski varla til eða er að minnsta kosti barnung, sérstaklega í ísenskri orðræðu um myndlist?

Já, og önnur ástæða er að ég hef fylgst með framgangi karlkyns vina minna hér í Berlín, hvernig þeir hafa verið teknir undir verndarvængi karlkyns galleríista beint eftir skóla, rétt einsog af færibandi, og vígðir inn í söluhagkerfi hins hyper-karllæga listheims á meðan ég sé skólasystur þeirra bíða, vinna og vona. Er það vegna þess að list strákanna er betri?  Eða höfðar karllægur reynsluheimur þeirra frekar til karlkyns sýningarstjóra og safnara sem enn eru í meirihluta alþjóðlega?

Ég hef leyft mér að draga mjög einfaldaða ályktun af þessum upplýsingum. Skilningur okkar á fegurð og fagurfræði mótast að miklu leyti af okkar kynbundna reynsluheimi.  Það er því deginum ljósara að list kvenna, kynsegin eða annarra jaðarsettra hópa sem eiga annan reynsluheim eigi erfiðara uppdráttar í listheimi sem er mótaður af karllægri fagurfræði. Kvenlæg og karllæg fagurfræði eru orð sem ekkert endilega eru bundin við kyn, en hvað þýða þau?  Ég hlakka til kryfja merkingu þeirra sérstaklega vegna þess að innan lærðra lista hefur umræðan um kynbundna fagurfræði verið tabú!

En þegar öllu er á botninn hvolft þá eru raddir listafólksins sem ég vinn með það sem skiptir mestu máli, en ekki mitt persónulega feminíska ferðalag. Þeirra sýn, meðhöndlun og túlkun á tíma, efni og rými og skynjun á samfélaginu er það sem stendur í forgrunni og mitt hlutverk er að styðja við, miðla og finna verkum þeirra farveg sem þau annars gætu ekki sjálf.

Það hljómar einsog tónlist í eyru mín, því tíma listafólks er best varið í sköpun og betra að láta aðra um miðlun. Hvernig sérðu svo framhaldið?

Stefnan er að halda áfram í hægfara hreyfingu. Mig langar til að vera vakandi í hverju skrefi, ekki hoppa yfir neitt, eiga í auðgandi samtali við listina, skapendur og unnendur hennar samtímis og miðla henni á nýja staði. Vonandi í ekki of fjarlægri framtíð vil ég fara með galleríið á sölumessur. Það mun koma að því og ég hlakka til en svo er líka með öllu óvíst hvernig sölusena myndlistar kemur undan þessum Covidvetri. Kannski eru sölurýmin hvort eð er að færast meira yfir á alnetið! Það væri líka skemmtileg áskorun að kljást við, en fyrst er það bara hversdagurinn í gallerírekstri sem ég er upptekin af.

Viltu tala aðeins um þær sýningar sem þegar hafa verið í galleríinu og hvað er næst á dagskrá, þ.e.a.s. þegar við komum undan þessu kóvi?

Við opnuðum galleríið í sumar með sýningunni Cold Man’s Trophies | Pure Maid’s Garlands eftir nöfnu mína Guðnýju Guðmundsdóttur. Guðný hefur einsog ég búið mjög lengi í Þýskalandi en hún nam myndlist í Hamborg og flutti svo til Berlínar upp úr 2000. Að mínu mati er Guðný meðal áhugaverðari konum, með hárbeittan húmor, einstakan smekk og innsæi. Verkin hennar eru líkt og frjáls spuni sem hún vinnur á ótrúlega agaðan og yfirvegaðan hátt, auk þess býr hún yfir stórkostlegri næmni fyrir formi, efni og lit. Efnistök og fagurfræði endurspegla samtímann frá mismunandi sjónarhornum, raunhyggju, skáldskapar eða jafnvel dulúðar en þó skín hennar verkfræðilega hugsun alltaf í gegn.

Sýningin sem nú stendur yfir heitir Land Self Love og er eftir Katrínu Ingu Jónsdóttur Hjördísardóttur. Katrín lauk framhaldsnámi í myndlist í New York og hefur verið með annan fótinn í Berlín undanfarin ár. Mér finnst Katrín búa yfir kjarnorku og sýningin ber þess svo sannarlega vott. Hennar útgangspunktur er gjörningurinn sjálfur og gjörningurinn er að einhverju leyti samtvinnaður hennar daglega lífi. Það væri jafnvel hægt að segja að allt sem Katrín snertir er list og loftið sem hún andar er líka list. Gjörningurinn er grunnurinn að sýningunni og átti hann sér stað inn í gallerí rýminu fyrir luktum dyrum. Segja má að verkin sem við sýnum séu afrakstur þess gjörnings en þau eru unnin í mismunandi miðla bæði stór málverk, steypuverk, vídeó, ljósaverk og prent. Efnistök Katrínar Ingu er sjálfið og sjálfsástin, hún vinnur á hispurslausan en magnaðan hátt með líkama sinn og áhorfandinn er liggur við knúinn til þess að mynda sér skoðun á því sem fyrir augu ber. Hún er gott dæmi um listakonu sem leikur sér samtímis að myndmáli hins kvenlæga og þess karllæga. Það sem kveikir hvað mest í mér í verkum Katrínar er að hún er að reyna að finna leið til að gjörningurinn hennar – lífsgjörningurinn sjálfur ef kalla mætti haldi áfram í verkunum eftir að hún skilur við þau. Oft skrifar hún nokkurs konar handrit fyrir kaupandann um hvað hann skuldbindi sig til að gera eftir að verkið er keypt. Kaupsamningurinn er samningur  en samtímis líka hluti listaverksins sjálfs. Hún er þar að sækja á mjög spennandi mið og ég hlakka til að fylgja henni inn í næstu lotu hennar ferils.

Guðný segir mér ekki hvaða sýning er næst á dagskrá hjá henni, en eftir að hafa spjallað við hana finn ég að hún sér þetta sem langhlaup, hún er ekkert að flýta sér, vandvirk og fer sér hægt, leyfir sýningum að lifa og vinnur úr þeim. Nógur tími til að leyfa einu stykki galleríi að dafna og vaxa.

Sýningu Katrínar lýkur í apríl.


www.gallerygudmundsdottir.com

Ljósmynd af Guðnýju Guðmundsdóttur: Cormac Walsh

UA-76827897-1