Eiga myndlistarmenn að fá greitt fyrir vinnu sína?

Eiga myndlistarmenn að fá greitt fyrir vinnu sína?

Eiga myndlistarmenn að fá greitt fyrir vinnu sína?

Samstaða er lykilorðið í baráttu myndlistarmanna fyrir því að fá greitt fyrir vinnu sína, og meirihluti þeirra er tilbúinn í fjöldamótmæli ef listasöfn hafa ekki byrjað að greiða samkvæmt drögum að framlagssamningi í byrjun árs 2018. Mikilvægt er að berjast áfram, enda er um mannréttindabrot að ræða að mati lögfræðings. Þetta er meðal þess sem fram kom á ráðstefnu á vegum Sambands íslenskra myndlistarmanna þann 21. apríl síðastliðinn.

Þar var farið yfir það hvaða árangur hefði þegar náðst í herferðinni Við borgum myndlistarmönnum, hvernig hægt væri að ná markmiðum hennar á næstu árum og hvað hægt væri að læra af sambærilegri baráttu í nágrannalöndum. Að auki fluttu Styrmir Örn Guðmundsson og Ásta Fanney Sigurðardóttir gjörninginn Afhjúpun sem endurspeglaði á sinn hátt hversu erfitt en mikilvægt getur verið að koma rödd sinni á framfæri, og Eirún Sigurðardóttir, myndlistarkona og varaformaður SÍM, las upp „Hversdagsævintýri um hugarfarsbyltingu“ þar sem hún sagði listamenn þurfa að stíga upp úr öskustónni.

Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, byrjaði á að fara yfir helstu niðurstöður könnunar um stöðu félagsmanna árið 2016. Það sem vakti athygli, líkt og í fyrri könnunum, var bágborin lífsafkoma myndlistarmanna og sú staðreynd að menntun tryggir ekki betri afkomu, en 50% þeirra sem svöruðu hafa lokið framhaldsnámi. „Þetta er hámenntuð stétt,“ sagði Jóna Hlíf og benti jafnframt á að 80% svarenda væru konur sem staðfesti þá sannfæringu hennar að um jafnréttismál væri að ræða. Aðeins rúm 20% svarenda gátu unnið að myndlist eingöngu árið 2016 og 30% höfðu myndlist að aðalstarfi, sem er reyndar lítilsháttar aukning frá síðustu könnun árið 2014 og einmitt sami fjöldi og fær listamannalaun. Yfir 50% fá minna en lágmarkslaun. Algeng röksemd gegn listamannalaunum er að listamenn geti selt verk sín, en staðreyndin er sú að ekki er mikil sala á listaverkum. Einungis 13% svarenda fengu 1,5 milljón eða meira fyrir sölu verka á árinu 2016.

Jóna Hlíf Halldórsdóttir formaður SÍM.

Þá fjallaði Jóna Hlíf um drög að framlagssamningi milli myndlistarmanna og opinberra safna sem sambandið hefur undanfarið barist fyrir. „Frá því herferðin hófst hefur málefninu verið gefinn meiri gaumur. Við erum ekki komin þangað sem við viljum en markmiðið er nær en við höldum,“ sagði Jóna Hlíf. Ljóst sé að kostnaður vegna launa hækki hjá söfnunum en þau séu þó nálægt því að geta greitt samkvæmt framlagssamningnum; það verði eftir fimm ár ef þróunin verður áfram sú sama.

Jóna Hlíf setti fram áætlun um hvernig ná mætti markmiðinu í fjórum skrefum: Fólk verði að halda áfram því sem þegar er hafið; greiðslur fyrir opinbert sýningarhald þurfi að koma úr opinberum, miðlægum sjóði með aðkomu ríkis og sveitarfélaga; söfnin þurfi að gera ráð aukakostnaði og biðja um aukafjárveitingar; og myndlistamenn þurfi að þora að biðja um að fá greitt. Í því samhengi benti hún á reiknivél á heimasíðunni www.vidborgummyndlistarmonnum.info.

Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur, sagði að það væri mannréttindabrot og möguleg lagabrot að greiða ekki listamönnum laun. „Ég skildi ekki erindi ykkar fyrst; að fólk fengi ekki greitt og væri jafnvel að borga með sér. Það er með slíkum ólíkindum að það fauk hreinlega í mig,“ sagði Katrín. Hún kynnti fundargestum nokkrar viðeigandi greinar í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og benti á að í þar sé tekið fram að mannréttindi á borð við sjálfsagða virðingu og rétt gagnvart þeim sem fara með völd eigi að vernda með lögum.

Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur.

Katrín sagði að staða myndlistarmanna gagnvart söfnunum snúist ekki einungis um jafnræðisregluna, að allir menn skuli jafnir fyrir lögunum og að ríki viðurkennir rétt sérhvers manns til þess að fá endurgjald fyrir vinnu sína – án nokkurrar aðgreiningar – heldur segi í 23. grein yfirlýsingarinnar: Hver maður á rétt á atvinnu að frjálsu vali, á réttlátum og hagkvæmum vinnuskilyrðum og á vernd gegn atvinnuleysi. Hverjum manni ber sama greiðsla fyrir sama verk án manngreinarálits.

„Því er það bæði sjálfsagt og augljóst að fólk eigi að fá laun fyrir vinnu sína,“ sagði Katrín. Að auki beri stjórnvöldum samkvæmt 27. grein skylda til að tryggja fólki rétt til að taka frjálsan þátt í menningarlífi og njóta lista. „Því er súrrealískt að opinberar stofnanir á einu listsviði viðhaldi hefð um að greiða tiltekinni tegund listamanna ekki laun fyrir vinnu sína.“ Ráðlagði hún myndlistarfólki að kynna sér vel hvað felist í ráðningarsambandi. Ráðningarsamningur verði að vera í samræmi við kjarasamning og ákvæði um lakari rétt launamanns eru ógild samkvæmt 1. gr. Laga um starfskjör launafólks. Ráðningarsamband getur stofnast með óformlegum hætti en Katrín ráðlagði fólki að gera kröfu um skriflegan samning og skilja alltaf eftir sig „slóð“, þó ekki væri nema með því að senda tölvupóst á vinnuveitanda þar sem munnlegt samþykki er skrifað niður. Svokölluð „gerviverktaka“ sé algeng en ef um hreinan verksamning sé að ræða eigi að biðja um sundurliðun á þóknun og rökstuðning fyrir upphæðum, þannig að fram komi hvort gert sé ráð fyrir launum fyrir vinnuframlag. Minnti hún einnig á „undurfagra lagareglu“ úr 36. grein Samningalaga þar sem segir að víkja megi til hliðar samningi ef hann sé ósanngjarn – og þá eigi m.a. að líta til þess hvort annar samningsaðilinn er í valdameiri stöðu en hinn, líkt og söfnin gagnvart einstaka listamönnum.

„Það fer fyrir brjóstið á mér þegar ég heyri að allir aðilar, þ.m.t. söfnin, segjast styðja málefnið einhuga. Er það raunin? Mér finnst það ekki. Ég skil stuðning þannig að menn geri eitthvað í málinu. Það þarf að gera meiri kröfu á þessa aðila fyrst þeir eru svona stútfullir af stuðningi. Þið þurfið að krefjast þess sem þið eigið lagalegan rétt á, það er kerfisbundið brotið á ykkur vegna þess hvaða starfi þið gegnið. Það er ekki hægt að sleppa því að taka slaginn, því þetta er slagur fyrir alla myndlistarmenn.“

Hilde Tørdal, formaður NBK, hagsmunasamtaka norskra myndlistarmanna, lagði einnig áherslu á samstöðu er hún sagði frá herferðinni Laun fyrir vinnu, og tilraunaverkefni norska ríkisins en í tvö ár, frá á árinu 2013, fengu 24 söfn og gallerí fjárveitingu upp á 500.000 NKR til þess að greiða myndlistarmönnum vegna sýningarhalds. Niðurstaða verkefnisins verður notuð sem grunnur að samningi sem felur í sér endurbætur á samkomulagi frá 1978 um þóknanir fyrir sýningar á listaverkum eins og um leigu væri að ræða. Frá árinu 2006 hafa NBK barist fyrir því að listamenn fái einnig greidd laun fyrir þá vinnu sem þeir leggja í sýningar.

Hilde Tørdal, myndlistarmaður og formaður NBK.

Fram kom í máli Hilde að þrátt fyrir aukið framlag norskra stjórnvalda til menningarmála minnkaði innkoma listamanna á árunum 2005 til 2013 og að myndlistarmenn hafi lægstu innkomuna. Menningarmálaráðuneytið hefur lagst í greiningu á málefninu og Hilde sagði að frá stjórnmálavettvanginum hafi komið hjálplegar yfirlýsingar, m.a. um að listamenn þurfi að geta lifað af list sinni til að tryggja fjölbreytta menningu og að myndlistarmenn þurfi að sitja við sama borð og listamenn í leikhúsi og tónlist. Hilde benti á að hugmyndin um að listamenn eigi að hagnast á sölu listaverka eigi ekki við í myndlistarumhverfi nútímans, þar sem gallerí og söfn setji fókusinn á miðlun áhugaverðrar og frumlegrar samtímalistar en ekki á sölu og markað. Mikilvægt sé að listamenn fái samt laun fyrir að vinna þannig að samfélagslegri velferð, en staðreyndin sé sú að sýningarstaðir sem fái opinbert fjárframlag séu yfirleitt undirfjármagnaðir og borgi listamönnum sjaldan viðunandi þóknun. „Við verðum að eyða hugmyndinni um að það sé í lagi að listamenn vinni frítt, að efnahagur myndlistarsenunnar byggi á frjálsu vinnuframlagi,“ sagði Hilde. „Það eru ekki næg rök að sýning gefi listamanni virðingarstöðu eða tækifæri seinna á ferlinum. Báðir aðilar ættu að græða jafn mikið á sama tíma, ekki gegnum hugsanlegan framtíðargróða. Markmiðið er að bæta afkomu listamanna, styrkja listasenuna almennt og fá stjórnmálamenn til að viðurkenna að setja þurfi meira fé í opinberar listastofnanir.“ Hér virðist nokkur árangur hafa náðst því fram kom hjá Hilde að allir stjórnmálaflokkar Noregs styðji áðurnefnt tilraunaverkefni og skilji mikilvægi þess að listamenn ættu að geta lifað af vinnu sinni. Þá benti hún einnig á að hægt sé að sækja hvatningu í sambærilega baráttu í öðrum löndum, t.d. á Englandi, í Svíþjóð, Skotlandi og á Íslandi.

Eirún Sigurðardóttir, myndlistarkona og varaformaður SÍM.
Í almennum umræðum í lok ráðstefnunnar kom m.a. fram að stuðningur stjórnmálamanna væri ekki jafn almennur á Íslandi og að þar væri verk að vinna. Fordæmi Noregs sé mikilvægt; þar gangi menn lengra og leggi m.a. áherslu á að þetta sé ekki spurning um lágar fjárhæðir heldur verði átakið dýrt.

Í spurningum úr sal komu fram áhyggjur af því að kröfur um greiðslur gætu skaðað einstaka myndlistarmenn og feril þeirra. Þegar listamenn sýna t.d. sem hluti af hópi er ekki hægt að banna öðrum að gefa vinnuna sína, og erfitt er að vera sá eini sem gerir launakröfur. Allir ræðumenn lögðu áherslu á að spyrja um greiðslur, óska eftir að fá að minnsta kosti greitt samkvæmt framlagssamningi og fá skriflegt samkomulag.

Eftir ráðstefnuna fór fram námskeið um grunnatriði í samningatækni.

Upp kom sú hugmynd að fara í prófmál. Katrín Oddsdóttir sagði vissulega möguleika að taka svo augljóslega óréttlátt mál og fara með það fyrir dómstóla – jafnvel fá gjafsókn því listamenn séu á mjög lágum launum – en enginn vissi dæmi þess að farið hefði verið í slíkt mál, hér eða erlendis. Hilde sagði að sem talsmaður samtaka vilji hún frekar reyna að fá fólk til að sameinast um að núverandi fyrirkomulag sé fáránlegt. Þá kom líka fram að myndlistarmenn hafi litla þekkingu og tíma til að setja sig inn í lagaleg atriði við samningagerð – og að jafnvel þyki ekki fínt að tala um peninga í listheiminum. Eftir ráðstefnuna fór fram námskeið um grunnatriði í samningatækni.

Höfundur: Auður Aðalsteinsdóttir


Ljósmyndir: Með leyfi SÍM

Sköpum betri umgjörð um myndlist

Sköpum betri umgjörð um myndlist

Sköpum betri umgjörð um myndlist

Listamenn á Íslandi eru öflugur, hæfileikaríkur og fjölbreyttur hópur og innan hans eru ólíkir aðilar með ólíkar þarfir. Þeir skapa fjölbreytt verk, vinna með ólíka miðla og afla sértekna. Sumir afla þeirra erlendis frá, aðrir innanlands, sumir frá opinberum aðilum og aðrir frá einkaaðilum.

SÍM eru heildarsamtök listamanna sem vinna að bættum kjörum, berjast fyrir hagsmunum listamanna, m.a. sem málsvari  gagnvart sýningaraðilum hvort sem þeir eru söfn eða einkaaðilar. Formaður SÍM hefur það hlutverk að leiða samtökin, eiga stöðugt í samtali við stjórn og félagsmenn, forgangsraða og koma hlutum í verk.

Á undanförnum árum hafa ýmis framfaraskref verið stigin hjá SÍM, en betur má ef duga skal. Mér finnst satt best að segja að það hafi myndast gjá milli SÍM og myndlistarmanna og þessa gjá þarf að brúa. Of mörg mikilvæg verkefni hafa beðið ókláruð undanfarin ár, sem þýðir að annað hvort þurfum við að taka upp skilvirkari vinnubrögð eða skerpa á forgangsröðun.

Myndlist er verðmætasköpun og mikilvægur hluti af hagkerfinu

Svona er staðan í ársbyrjun 2014:

Myndlistarsjóður hefur verið skorinn niður um helming.
Kynningarmiðstöð íslenskra myndlistarmanna sá sér ekki annað fært, vegna bágrar fjárhagsstöðu, að lækka ferða- og verkefnastyrki úr 15 prósentum í 8 prósent af heildarupphæð rekstrastyrkja sem það fær frá ríkinu. Menningarráðin á landsbyggðinni hafa enn ekki getað úthlutað styrkjum fyrir árið 2014 þar sem menningarsamningar við sveitafélögin hafa ekki verið endurnýjaðir. Þetta hefur í för með sér að fjölmörg verkefni eru í bið.

Á árinu mun Rannsóknarsjóður úthluta 214 milljónum til að auka verðmæti sjávarfangs, en Myndlistarsjóður úthlutar 25 milljónum til að auka verðmæti í listsköpun.

Á sama tíma og niðurskurður er í hámarki er kortavelta ferðamanna á Íslandi að aukast. Samkvæmt nýlegum tölum frá Höfuðborgarstofu yfir erlenda kortaveltu eru erlendir ferðamenn í sívaxandi mæli að sækja menningarviðburði. Erlend kortavelta tengd menningu nam í janúarmánuði
115 milljónum króna og jókst um 38% milli ára. Af einstökum menningarliðum má nefna að velta í söfnum og galleríum hefur aukist um 64% prósent milli ára. Á síðasta ári komu tvö hundruð og þrjú þúsund gestir á Listasafn Reykjavíkur og er það aukning upp á 32 þúsund gesti á milli ára. Samkvæmt könnun frá Ferðamálastofu frá árinu 2012 um áhrifaþætti á ákvörðun að ferðast til Íslands, sækja flestir ferðamenn hingað til lands vegna náttúrunnar. Í öðru sæti var  menning og saga landsins.

Mér finnst þetta vera umhugsunarverðar tölur. Þær sýna óvissu og alvarlega stöðu núverandi forgangsröðunar í ríkisrekstri. Þær benda á að aukin ferðamennska felur  í sér að fleiri sækja söfn og menningarviðburði. Tölurnar veita vísbendingar um framtíðina og um að myndlist muni áfram vera mikilvægur hluti af hagkerfinu og ímynd Íslands. Á sama tíma og opinberir aðilar halda að sér höndum, hver er þá staða listamanna?

Meiri árangur og bætt upplýsingagjöf vegna MU samningsins

Á sama tíma og söfnin laða til sín gesti sem borga aðgangseyri til að upplifa, skynja og njóta fá myndlistarmenn sem eru að sýna í söfnunum enn ekki greidda þóknun fyrir vinnu sína. Af eigin sýningarreynslu í opinberu safni get ég fullyrt að það var niðurlægjandi að vera fyrst á svæðið og seinust út en sú eina sem var ekki á launum. Það er löngu orðið tímabært að koma á launasamningi milli opinberra safna og listamanna.

Undanfarin þrjú ár hefur SÍM unnið að samningi milli listamanna og opinberra aðila, til að tryggja að listamenn fái laun þegar þeir sýna í opinberum söfnum. Vinnan hefur grundvallast á svokölluðum MU samningi sem sænsk stjórnvöld og listamenn gerðu sín á milli. Ef vel tækist til með slíkan samning getur hann orðið listamönnum hér á landi til hagsbóta. Hins vegar er þörf á skilvirkum vinnubrögðum til að tryggja að þessum samningi verði náð. Á þeim tíma sem liðinn er hefði mér fundist eðlilegt að íslensk stjórnvöld, stjórnendur opinberra safna og SÍM hefðu komið sér saman um launaviðmið sem ættu að liggja til grundvallar samningnum. Slík viðmið verða ekki þýdd úr sænskum samningi, um þau þarf að semja: koma auga á hvar menn eru sammála, finna út hvar menn eru ekki sammála og reyna á endanum að jafna ágreining. Listamenn verða að fara að sjá árangur af þessu verkefni og því þarf að skipta því upp í viðráðanlega tíma- og verkáætlun, og gera upplýsingar um framgang þess opinberar.

Að standa á okkar rétti

Með nýjum myndlistarlögum virðist kominn skýr rammi utan um ýmis hagsmunamál myndlistarmanna. Samt heyri ég óánægjuraddir. Í lögunum stendur að verja eigi 1% af kostnaði við opinberar nýbyggingar til listaverka, en það skilar sér ekki til myndlistarmanna. Hvers vegna ekki? Erum við, myndlistarmenn og samtök okkar SÍM, að sitja aðgerðalaus hjá á meðan farið er á svig við lög?

Ég þekki marga listamenn sem eru meira en til í að taka þátt í kröfugöngum og mótmælum, en virðast ekki alltaf vera til í að berjast fyrir eigin hagsmunum, og það er þversögn. Ég væri meira en til í að drífa saman hóp af listamönnum í kröfugöngu þann 15. april, á alþjóðlegum degi myndlistar. Áður en til þess kemur langar mig hins vegar að benda á það augljósa: okkur vantar betri gögn, betri upplýsingar og meiri greiningu. Það vantar tölur og það vantar samantektir sem sýna hversu mikið hefur verið byggt, hvaða byggingar um ræðir og hversu mikið fór eða fór ekki í myndlist. Á þessum grunni getum við gert hluti, en við verðum alltaf að undirbyggja. Við verðum að fara að skipuleggja okkur og kafa betur ofan í hlutina.

Ef hægt er að sýna fram á með staðreyndum og upplýsingum að verið sé að hlunnfara myndlistarmenn, þá á SÍM að krefjast úrbóta. Þá á SÍM að fara fram á að ráðuneyti menningarmála beiti sér fyrir því að farið verði að myndlistarlögum eða ganga þannig frá lögunum að eftir þeim verði farið.

SÍM verður að efla upplýsingagjöf

Ég hef heyrt marga listamenn tala um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og atvinnuleysistryggingasjóði. Sumir eru óánægðir með réttindaleysi, aðrir óánægðir með upplýsingaleysið og enn aðrir óánægðir með þjónustuleysið og að vita ekkert hvert þeir eiga að leita. Að mínu mati er ekkert eitt rétt svar vegna þessara mála því innan raða myndlistarmanna eru svo ólíkir einstaklingar. En að mínu mati mætti stórbæta upplýsingaþjónustu til starfandi sjálfstæðra myndlistarmanna, bæði með SÍM sem miðstöð fyrir slíkar upplýsingar en einnig með því að SÍM hjálpi til við að miðla upplýsingum milli sjálfstæðra myndlistarmanna. Það á ekki að vera feluleikur eða frumskógur að komast í gegnum skrifræðið á Íslandi. Á vefsíðu SÍM og í gegnum SÍM ætti að vera hægt að nálgast þessar upplýsingar með aðgengilegum hætti.

Mér finnst reyndar að skerpa mætti hressilega á heimasíðu SÍM og gera hana að aðgengilegri uppýsingaveitu fyrir starfandi listamenn.

Jóna Hlíf Halldórsdóttir

Fyrirlestur um fjárfestingar í myndlist

Fyrirlestur um fjárfestingar í myndlist

Fyrirlestur um fjárfestingar í myndlist

Hvernig fjárfesti ég í myndlist?

Kári Finnsson, listfræðingur og hagfræðingur og Börkur Arnarson, eigandi i8 Gallery, ræða um listmarkaðinn á fræðslufundi VÍB.
Kári fer yfir stutta greiningu á alþjóðlegum mörkuðum með listaverk og ræðir í kjölfarið við Börk.

UA-76827897-1