Eitthvað smá óöryggi – eitthvað viðkvæmt

Eitthvað smá óöryggi – eitthvað viðkvæmt

Elín Hansdóttir

Eitthvað smá óöryggi – eitthvað viðkvæmt

Viðtal við Elínu Hansdóttur um sýninguna Uppbrot, Ásmundarsafni

 

Í Ásmundarsafni er nú sýningin Uppbrot, á verkum Ásmundar Sveinssonar (1893-1982) og Elínar Hansdóttur undir sýningarstjórn Dorothée Kirch. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg listaverkum og húsum sínu við Sigtún á sínum tíma og þar rekur Listasafn Reykjavíkur nú Ásmundarsafn. Safnið er tileinkað verkum Ásmundar og undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á sýningar samtímalistamanna sem unnar eru inn í safnið og safneignina. Sýningin Uppbrot er ein slík og okkur lék forvitni á að fá að vita meira um tilurð sýningarinnar. Hlín Gylfadóttir tók því viðtal við Elínu Hansdóttur.

Um aðdraganda sýningarinnar segir Elín:

Dóró (Dorothée) var boðið að koma með tillögur að sýningu og var að velta fyrir sér hvernig hún ætti að nálgast Ásmund. Það er hægara sagt en gert að sýna verk sem margir þekkja í nýju ljósi. Hún ákvað að vera svolítið drastík og valdi að spegla einn samtímalistamann og Ásmund.

Hún var ekki með fastmótaða hugmynd sem hún nálgast mig með, heldur byrjuðum við eiginlega báðar frá grunni. Þetta var hrein og bein samvinna að því leyti að hún nálgast mig ekki með fastmótað konsept, sem mér er boðið að vinna með en það er mjög algengt. Ég tek því alltaf fagnandi ef það er vilji til að byrja frá grunni í samræðu. Oft er verið að velja listamenn miðað við það sem þeir hafa gert áður og, án þess að ég vilji alhæfa, þá er sýningarstjórinn oft að leita eftir einhverju sem er „eins og þetta, sem þú gerðir fyrir sjö árum síðan.“ Það eru auðvitað mjög erfiðar aðstæður fyrir listamann að vera í. Ég er bogamaður og mér leiðist að gera það sama tvisvar. Oftast langar mig til að prófa eitthvað nýtt í hvert skipti. Það getur verið ákveðin áhætta því það þýðir að maður er amatör í mjög mörgu og verður aldrei sérfræðingur í einhverju einu. Það er ekki fyrr en maður súmmar út mörgum árum seinna að þá sést tenging í því sem maður hefur verið að gera. En mér líður alltaf eins og ég sé að prófa nýja hluti og það er ákveðið óöryggi sem felst í því. Ég trúi því að það sé skapandi að vera ekki öruggur með það sem maður er að gera. En auðvitað er það hrikalegt á sama tíma.

En ef ég kem aftur að vinnuferlinu okkar Dóró, þá byrjuðum við á því að skoða alla safneignina og lesa viðtöl við Ásmund. Við ákváðum að skoða þetta sín í hvoru lagi og velja út það sem hafði áhrif á okkur. Það kom svo í ljós að við höfðum áhuga á mjög svipuðum hlutum. Það var skemmtilegt að útgangspunkturinn æxlaðst af sjálfu sér út frá sameiginlegum áhuga okkar beggja.

Áhugi okkar beindist sérstaklega að verkum sem eru skráð inn í kerfið sem verk, en hafa ekki verið sýnd vegna þess að það ríkir einhver óvissa um þau. Það eru nokkur verk eins og t.d. rifan (Án titils, án ártals) sem hefur verið skráð sem verk en það hefur ekki endilega verið ætlun Ásmundar. Við fengum leyfi hjá safninu að sýna rifuna, sem mér fannst mjög ánægjulegt.

Okkur fannst þetta vera spennandi útgangspuntur út af því að þetta er hluti úr heild sem maður veit ekki hver er. Það er svo lýsandi fyrir vinnuferli listamannsins. Þú ert með eitthvað í höndunum, en þú sérð ekki stóru myndina fyrr en kannski löngu síðar og jafnvel aldrei. En það er eitthvað þarna og þú veist að það tilheyrir einhverri heild. Þú finnur fyrir heildinni og það er þess vegna sem þú heldur áfram að leita, óviss um hvað þú finnur.

Það var eitt sem Ásmundur sagði í viðtali sem mér fannst svo ótrúlega fallegt. Það var að íþróttamenn væru með takmark og þeir ná takmarki sínu en listamaðurinn nær aldrei takmarkinu sínu vegna þess að takmarkið ferðast miklu hraðar en hann sjálfur. Í þessari leit opnast alltaf nýjar og nýjar víddir. Vinnuferlið er endalaus prósess sem getur teygt sig í allar áttir.

Það er svo gott við Ásmund hvað maður hefur greiðan aðgang að honum og hans hugsunum því hann var greinilega mjög duglegur að tjá sig.

Hann virðist ekki hafa verið hræddur að viðurkenna veikleika og tala um óstöðugleika listræns ferlis. Eins fannst mér gaman að sjá hvað hann var óhræddur við að prófa ólík efni og endurnýta eins og t.d baðkarið sem er í verkinu Upprisan. Dóttir hans sagði okkur að þetta hafi verið baðkarið hjá þeim, sem hún baðaði sig í þegar hún var lítil. Baðkarið bilaði og því var skipt út og þá endurnýtti Ásmundur það í þetta verk. Við héldum að litla baðkarið í verkinu Upprisan – skissa væri módel af stóra verkinu en hún sagði okkur að hann hafi gert það eftir að hann gerði stóra baðkarið, sem einhverskonar eftirmynd, en ekki fyrirmynd. Það hlýtur að hafa þótt frekar róttækt á hans tíma að fara í öfuga átt við hefðina.

Það hefur alltaf heillað mig að horfa á eitthvað í mismunandi skala. Baðkarið er skýrt dæmi um slíka hugsun og það má segja að þetta hafi verið útgangspunkturinn fyrir stærsta verkið á sýningunni, dómínóborgin sem fellur (Kollsteypa). Skalinn í videóinu er óræðari en skúlptúrinn í sýningarsalnum. Annar útgangspunktur er sýndarveruleiki versus víddin sem við upplifum og skynjum án hjálpartækja. Það var mjög mikilvægt að vídeóið og skúlptúrinn væru aðskilin og ekki í sama rými til þess að upplifunin spili á minni okkar.

Vinnuferli mitt fyrir þessa sýningu var ekki þannig að ég hafði ákveðið að bregðast við verkum Ásmundar á beinan hátt. Heldur frekar að skoða það sem hann hefur gert og lesa hans hugmyndafræði samhliða því að vinna mín eigin verk. Óneitanlega hefur það sem ég er að taka inn, lesa og skoða, áhrif á mig hverju sinni, en ég hef minni áhuga á því að bregðast við verkum annarra, heldur en að skapa eitthvað nýtt sem er svo sett í samhengi. Samtalið við Dóró hafði áhrif á hvernig hlutir geta breyst með því að vera settir í nýtt samhengi. Það voru einmitt einhverjir sem komu á sýninguna og sögðust aldrei hafa séð þetta verk eftir Ásmund áður. Líklega hafði fólk séð verkin oft áður, en samhengið hefur varpað nýju ljósi á þau.

Viðtalið við Elínu tók Hlín Gylfadóttir

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest