Listrænt Rorschach-próf í Port.

Listrænt Rorschach-próf í Port.

Listrænt Rorschach-próf í Port.

Upptaka / Unboxing er titill einkasýningar Fritz Hendriks sem var til sýnis í Gallery Port frá 2. Febrúar til 14. febrúar. Titillinn Upptaka / Unboxing nær nánast að lýsa öllum verkum sýningarinnar, sem eru 11 talsins, en í ofureinföldu máli sýnir Fritz áhorfandanum endurtekið kassa sem eru í þann mund að vera opnaðir. Þrátt fyrir takmarkaða sjónræna fjölbreytni og lítið sýningarrými þá er úr miklu að moða frá sýningu Fritz.

Við það að ganga inn í sýningarrýmið fylltist ég strax ánægju við að sjá að rýmið hafði verið endurmálað frá hvítu yfir í fremur pappakassalegan ljósbrúnan sem myndaði góða hliðstæðu við verk sýningarinnar sem eru flest drapplituð og vona ég að fleiri sýningar Gallery Port í framtíðinni geri slíkt hið sama.

(Verk talin frá hægri til vinstri) Fritz Hendrik IV, Upptaka, myndbandsverk, 6:43 mín á lengd. Yfirborð 2, Olía á striga. Kassar, 3D prent, Krossviðarhilla. Leiðarvísir 1 & 2, Olía á striga, 3D prent.

Sýningarskráin er skrifuð af Jóhannesi Dagssyni og setur hún tóninn fyrir heimspekilegu hlið sýningarinnar. Jóhannes nefnir m.a. hugmyndafræði endurtekningar, neysluhyggju samfélagsins og hlutveruleika (objective reality) málverksins sem dæmi um þemu sem Fritz tekst á við.

Fritz notar þrjá mismunandi miðla til takast á við þessi þemu sem eru málverkið, myndband og löng runa af þrívíddar prentuðum kössum. Verkin og miðlar þeirra tala sín á milli og maður finnur fyrir því þegar maður hefst við að skoða sýninguna.

Augu mín leituðu strax til myndbandsverksins sem sýnir í byrjun hendur sem leggja gráan kassa ofan á gráan flöt sem leiðir að upptöku kassans sem stendur yfir í þónokkrar mínútur. Það var áhugavert að byrja áhorfið þegar myndbandið var þegar byrjað þar sem hægra megin við skjáinn standa í enda rýmisins þrívíddar prentuðu kassarnir. Að geta fylgst með kassanum minnka á skjánum og í raunveruleikanum á sama tíma gefur verkinu frekara vægi. Ennfremur, þá eru málverkin á móti skjánum máluð í hálfgerðum trompe l’oeil stíl svo þau líta mjög raunverulega út. Þessi sniðuga heild skapar þetta áðurnefnda tal milli verkanna.

Fritz Hendrik IV, Leiðarvísir 2, Olía á striga, 3D prent.

Þegar ég horfði yfir sýningarrýmið þá leið mér eins og ég væri genginn inn í dystópískan heim þar sem öll menning hefur verið þurrkuð út. Þessi tilfinning skapaðist vegna þeirrar tengingar sem ég geri milli þeirri illsku sem fylgir neysluhyggju og pappakassa sem neysluvöru þ.e.a.s. vörusendingar frá t.d. stórfyrirtækinu Amazon. Það eru jafnframt myndrænar leiðbeiningar fyrir því hvernig eigi að opna kassana á verkunum Leiðarvísir 1 & 2 sem gefa þessum dystópíska heim hálf trúarleg markmið í anda boðorðanna tíu.

Þú skalt opna kassann aftur og aftur þar til hann verður að engu og síðan opna nýjan kassa. Það er tilgangur lífsins. Sýsifos í nýjum búningi neysluhyggjunnar.

Mér var þarnæst hugsað til auglýsingar[1] sem Baldvin Z gerði um jólin 2013 fyrir Bandalag íslenskra listamanna og var hugsuð sem stuðningur við listamannalaunin. Í auglýsingunni eru mjög svipaðir drapplitaðir kassar og í sýningunni nema í formi jólapakka. Einn jólapakki er opnaður sem inniheldur „iPad“ sem virkar ekki sökum þess að enginn smáforrit hafa verið búin til fyrir hann þar sem engin skapandi menning er til.

Ádeila Baldvins Z var sú að án menningar höfum við ekkert til að njóta og því þurfi að styrkja við þá sem skapa hana. Nú 5 árum seinna glímir menning við annarskonar vandamál, aukins hraða sjónmenningar. Aðgengi að sjónmenningu í gegnum internetið hefur aldrei verið meira og nýtt efni er skapað á sekúndu fresti og tiltækt nánast öllum aldurshópum.

Í mjög áhugaverðri grein[2] eftir James Bridle sem nefnist „Something is wrong on the internet,“ er óhugnarlegur afkimi Youtube, stærstu myndbanda gagnaveitu heimsins, skoðaður en það eru myndbönd sem beint er að börnum. Það sem Bridle skoðar fyrst er fyrirbrigði sem kallast „surprise egg videos“ sem sýna manneskju sem opnar mismunandi Kinder Egg fyrir áhorfandann. Eins og margir vita innihalda Kinder súkkulaði egg lítið leikfang úr plasti sem er óvænt fyrir þann sem opnar eggið og vegna þess er eggið eins vinsælt og það er.

Þessi myndbönd standa yfir í þónokkrar mínútur þar sem mörg egg eru opnuð til þess að svipta hulunni af innihaldi þeirra og eru þau til í þúsunda tali og hafa milljónir áhorfenda. Þetta er í raun ekki afkimi heldur spegilmynd af stöðu samtímans þar sem internetið er orðið staðgengill raunveruleikans fyrir marga þar sem hægt að sjá nánast hvaða hlut sem manni dettur í hug á internetinu.

Myndbandsverk Fritz inniheldur nákvæmlega sömu fagurfræði og sjá má í áðurnefndum Youtube myndböndum nema kassinn inniheldur ekkert óvænt heldur er einungis endurtekning af sjálfum sér.

Fritz Hendrik IV, Upptaka, myndbandsverk, 6:43 mín á lengd.

Að sjá kassana fyrir framan sig er því sterk áminning á tækninni sem við búum yfir í dag. Þrívíddar prentun er orðin algeng í listheimi nútímans og fullkomnun þeirrar tækni skín í sýningunni. Það er afar hnyttið og viðeigandi að sjá þessa tækni vera notaða í sýningu sem hæðist að neysluhyggju samtímans.

Fritz Hendrik IV, Kassar, 3D prent, Krossviðarhilla.

Upptaka / Unboxing er mjög persónubundin sýning sem er það sem heillar mig við hana. Skrifin hér eru einungis út frá þeim hugsunum sem komu upp á sýningunni sjálfri en ég ímynda mér að persónulegar upplifanir áhorfandans spili stórt hlutverk í mati á sýningunni. Mér leið því eins og ég væri að taka einhverskonar listrænt Rorschach-próf við að skoða sýninguna þar sem verkin ýttu undir einstaklingsmat og ímyndunarafl.

Nú á dögunum var Fritz tilnefndur til Hvatningarverðlauna ársins hjá Íslensku myndlistarverðlaununum fyrir sýninguna Draumareglan sem var sýnd í Kling og Bang. Það verður því spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni.

 

Steinn Helgi Magnússon


Myndir: Fritz Hendrik IV

[1] https://www.youtube.com/watch?v=CJh_U6Wx2Ms

[2] https://medium.com/@jamesbridle/something-is-wrong-on-the-internet-c39c471271d2

UA-76827897-1