Sorgin er kát
Mig langar að segja nokkur orð um ljóðabók Viðars Jónssonar Sikileiðina. Það má segja að hégómi liggi að baki þeirri ákvörðun minni að skrifa um þessa ljóðabók Viðars. Ég nefndi það strax við hann eftir að hafa lesið hana fyrst.
Ég hef gert nokkur uppköst og átt við hann samtöl. Ég grunaði ekki að það væri svona erfitt að setja saman texta um það sem maður dáist að, satt best að segja lýsi ég mig sigraðan. En ég ætla samt að koma einhverjum hugsunum á blað. Það verður vonandi hvatning til þess að lesendur þessara orða fái sér ljóðabókina og lesi hana. Hún er einfaldasta og besta umsögnin um sjálfan sig.
Eins og ég nefndi hef ég engar forsendur til að skrifa um hana aðra en þá að ég dáist að henni. Ég hef lesið hana margsinnis og sum ljóðanna hef ég lesið aftur og aftur.
En ég hef nefnt hégómann strax og það geri ég til að fella þann andstæðing. Ég er hégómlegur og það helgast af þeirri tilhneigingu að vilja hljóma gáfulega.
Þess vegna er Silkileiðin ögrandi, því hún krefst ekki gáfu, hún bókstaflega afþakkar gáfuna. Sikileiðin er gönguferð.
Árátta Viðars Jónssonar er sú að skapa ljóðinu eigið veðrahvolf og þyngdarsvið og heimur þessara mynda er samhverfa þeirrar venju að gefa fátækt ríkisfang í þriðja heiminum. Þannig eru þessi brot af sögum skýrt afmörkuð vegna myndanna og þess sem þær spegla. Þær eru alhæfingar en aðeins vegna skortsins, þær eru kátar og glaðværar en það er vegna sorgarinnar.
Ég nefni hér gönguferð en þeirri ferð er ekki ætlaður áfangastaður, ekkert frekar en ferðin byrji á neinum tilteknum stað. Ferð með hæfilegum slæpingjahætti er markmið en ekkert fer framhjá göngumanni nema því sé gefið nafn.
Silkileiðin er ekki einföld þó myndirnar séu skýrar. Ekkert sem þar kemur fram býður upp á sátt. Lýsingin er á einföldu máli sem virðist lestað af því sem gætin sögumaður sneyðir hjá.
Hann nefnir ekki óvættinn vegna hjátrúar heldur sérviskulegrar háttvísi. Hann umgengst dauðann eins og sort af dýru ilmvatni eða fágæddri tegund af skrautblómi. Hann óttast ekki dauðann en virðir söfnunargildi hans eins og frímerkis. Hann nefnir ástina því hún er farin, eða boðar komu sína en fer annað. Hann nefnir lækninn vegna þess að hann treystir sér ekki til að koma fyrir blásýruhylki ofan í jaxli.
Myndunum er oft raðað í kímna frásögn með undirtón þar sem ljóðskáldið lýsir sér sem áhugalausum jafnvel kaldhæðnum um eigin örlög. Í öðrum ljóðum eru myndirnar límdar saman eins og dýrt postulín þar sem týnd brot eru staðgengin ódýrari efnum.
Persónan er sputnik, hún á ekki afturkvæmt úr þyngdarleysi og lofttæmi en breytir um stellingu í þröngri vistarverunni tilbreytingarinnar vegna.
Myndirnar sem birtast eru farnar en liggja þó efstar, veðraðar og hreyfingarlausar. Það bil sem liggur á milli þessara mynda er sporbaugur ljóðanna samanlagður. ljóðin hafa langan umferðartíma og sum þeirra koma ekki aftur inn í þyngdarsvið hinnar kátu sorgar.
Upplausnarástandi er bægt frá með klaufshætti og orrustur sigrast vegna slembi. Í ljóðunum eru öll plön í miðri frásögn þegar þau skera hvert annað og stöðvast á hengiflugi.
Þannig er heimurinn ljóðanna bæði láréttur og lóðréttur. Það er eins og höfundurinn hafi fundið staði þar sem bæði saga og tími hafa hafa náð samkomulagi um að líta aldrei við. Ekki einu sinni móðirin lítur upp frá hannyrðum sem taka allan hennar tíma en bara í draumnum.
Frásögnin er eins og í setlögum, sem gætu verið niðurstaða úr læknaskýrslu um ástand sjúklings. Allt hefur verið reynt, sjúklingnum hrakar ekki en hann mun heldur ekki ná heilsu. Þegar honum hefur tekist að hverfa af sjúkraskrám er hann bæði dauður og lifandi, en kennir sér ekki meins. Hann er ekki jarðaður en þó heyrist þegar moldin skellur á kistulokinu.
Ljóð Viðars bregða upp leiftrum úr sögu og tíðaranda sem flest okkar þekkja sem alast upp eftir seinni heimstyrjöldina.
Myndirnar virðast líða skort því þær leita oftast samsvörunar í einfaldari speglunum og eru allt frá því að vera hversdagsleg yfir í margbrotin uppgjör.
Það sem gerði Silkileiðina áhugaverða fyrir mig sem myndlistarmann var hvernig sumar myndirnar sem ljóðin birta voru hispurslausar á meðan aðrar voru vandlega sniðnar að gætinni frásögn. Ég les þessa bók oft til að stilla hugsanir mínar ef ég ætla mér að vinna skapandi vinnu. Bókin fær mig til að slappa af og leyfa tímanum að líða hægt.
þokan
Ég vil að nóttin sé svört
þögnin svo djúp
að þegar hljóðin fljóta upp
séu þau eins og sjórekin lík
inni í sæþokunni
deyja þau svo út
en það kemur að því
að blásið sé í þokulúðurinn
…
Mjólk
Það er útilykt
af þvottinum
en það nægir ekki
náði ekki lengur andanum
þó allt væri svona hreint
adrenalínsprauta
í gegnum bringubeinið
dugði varla
en þó mýkist allt
smátt og smátt
eins og kringla
í óbrjótandi mjólkurglasi
eða tvíbaka