Find Home /  Chandra Sen sýnir í Harbinger

Find Home / Chandra Sen sýnir í Harbinger

Á föstudaginn kemur, þann 13.maí kl 17 opnar sænska myndlistarkonan Chandra Sen sýningu sína Find Home í Harbinger, allir velkomnir!

Chandra (’86) lauk nýverið meistaranámi í myndlist frá Listaháskólanum í Osló og er málverkið hennar helsti miðill. Að námi loknu tók við árs löng residensía í Kunstnernes Hus í Osló og því næst hafði hún listamannaaðsetur í húsi Edvards Munch í Warnemunde, Þýskalandi. Chandra Sen býr og starfar í Stokkhólmi og er Find Home hennar þriðja einkasýning.

Málverk Chöndru eru upprunnin á vissum stað, en hann er óljós. Hugarrými sem byggir á tilfinningu, fleirum en einni og engri heilli. Þær umbreytast. Þær eiga sér ólíkan uppruna. Í persónulegri reynslu, sameiginlegri reynslu, eða í undirmeðvitundinni. Sumar eiga sér stað í tíma og rúmi, á ákveðnum áratugi eða ári. En aðrar eiga sér engan tíma, eða öllu heldur allan tímann. Þær tilheyra kringumstæðum, andvaranum, ljósinu, skýjamyndunum, sem endurtaka sig í sífellu en eru ávallt nýjar, og þó, kannski var einhver einhverntímann einhversstaðar sem horfði upp á einmitt sömu skýin í sömu birtunni og fann sömu lyktina.

Umgjörðin og inntakið er ekki bundið við nútímann. Er við skoðum verk Chöndru erum við bæði hér og nú og líka fyrir 1000 árum. En verkin hennar fást við nútímann, við nútíðina. Þá sem leið og þá sem er og þá sem kemur, og allar þær sem fylgja í hringrás á eftir þeim sem voru. Verkin eru afurð nútímans, meðvituð um frumþörf sem er erfitt að uppfylla í þess háttar lífi sem við lifum. Meðvitund sem einungis verður til við skort.

Harbinger er listamannarekið sýningarými sem hefur verið starfrækt í tæp tvö ár og á þeim tíma staðið fyrir 20 sýningum og viðburðum.

Opnunartímar Harbinger eru fim-lau frá 14-17 og eftir samkomulagi.
Sýningin stendur til 11. júní og er styrkt af Sænsk-íslenska samstarfssjóðnum.

Undirsjálfin vilja vel /  Arnfinnur Amazeen í D-sal Hafnarhússins

Undirsjálfin vilja vel / Arnfinnur Amazeen í D-sal Hafnarhússins

Arnfinnur Amazeen: Undirsjálfin vilja vel

12.05.2016 – 07.08.2016

Arnfinnur Amazeen (f. 1977) er þriðji listamaðurinn til að sýna í D-salnum árið 2016. Í verkum sínum fæst Arnfinnur við hversdagsleikann í samtímanum og mótsagnakennt hlutverk manneskjunnar innan hans.

Arnfinnur lauk MFA gráðu frá Glasgow School of Art árið 2006 og BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2001. Af nýlegum einkasýningum Arnfinns má nefna „Kollektive“ í Grafikernes Hus, „Self“ í Værelse 101 í Kaupmannahöfn og „Myrkrið borið inn (á ný)“ í Kling og Bang Reykjavík. Síðasta einkasýning Arnfinns hér á landi var „Gríman er andlitið“ í Kunstschlager árið 2014. Arnfinnur býr og starfar í Kaupmannahöfn.

Í D-sal Hafnarhússins eru að jafnaði sýnd verk eftir listamenn sem ekki hafa áður haldið einkasýningar í stærri söfnum landsins. Markmið sýningaraðarinnar er að gefa efnilegum listamönnum tækifæri til að vinna innan veggja safnsins og beina athygli gesta að nýjum og áhugaverðum hræringum innan listheimsins. Á árinu 2016 eru áætlaðar alls fimm sýningar í sýningaröðinni.

Sjónlýsing í Listasafni Íslands. Laugardaginn 14. maí kl. 14

Sjónlýsing í Listasafni Íslands. Laugardaginn 14. maí kl. 14

Sjónlýsing í Listasafni Íslands. Laugardaginn 14. maí kl. 14

Laugardaginn fyrir Hvítasunnu, 14. maí býður Listasafn Íslands upp á sérstaka leiðsögn um sýninguna: UDSTILLING AF ISLANDSK KUNST, Upphaf kynningar á íslenskri myndlist í Kaupmannahöfn. Á sýningunni er litið um öxl og sýndur hluti þeirra verka sem voru á tímamótasýningum í Kaupmannahöfn árin 1920 og 1927.

Blint og sjónskert fólk er boðið sérstaklega velkomið í þessa leiðsögn, en Listasafn Íslands hefur fengið Guðbjörgu H. Leaman og Þórunni Hjartardóttur, sjónlýsendur, til að semja sjónlýsingar á fjórum völdum verkum á sýningunni.

Guðbjörg og Þórunn sjá um þessa leiðsögn, en jafnframt sjónlýsingunum verður hægt að hlýða á lengri, listsögulegar lýsingar á umræddum verkum, á heimasíðu safnsins.
Listasafni Íslands er umhugað um að ná til áhugasamra listunnenda innan þessa hóps og bjóða þeim upp á þjónustu á því formi sem hentar þeim best.

Sjónlýsingarnar á þessum verkum munu síðan verða aðgengilegar sem hljóðskrár á heimasíðu safnsins, þar sem fjallað er um safneignina og vonir standa til að sjónlýstum verkum í safneigninni fjölgi á næstu misserum, eftir því sem kostur gefst.

STINGUR Í AUGUN nr2

STINGUR Í AUGUN nr2

STINGUR Í AUGUN nr2

Verksmiðjan á Hjalteyri, / 14.05 – 28.05 2016 / Neðst á Hjalteyri við Eyjafjörð / 601 Akureyri.
http://verksmidjanhjalteyri.com/

————————–————————–————————–—–

Verksmiðjan á Hjalteyri býður yður að vera við opnun sýningarinnar
STINGUR Í AUGUN nr2
14. maí kl. 15:00. og þiggja veitingar
————————–————————–————————–—–
Verksmiðjan in Hjalteyri cordially invites you to the exhibition opening
STINGUR Í AUGUN nr2
14th May at 3 pm, drinks served

Kaktus í Verksmiðjunni á Hjalteyri.
Anne Balanant, Áki Sebastian Frostason, Brák Jónsdóttir, Freyja Reynisdóttir, Hekla Björt Helgadóttir, Jónína Björg Helgadóttir og norðlenskir listamenn.

Opnun laugardaginn 14. maí kl. 15:00 / Opið alla virka daga kl. 14:00 – 17:00 en opnunartími og dagskrá um helgar verða auglýst sérstaklega.

“Stingur í augun” Opnun nr. 2

Laugardaginn 14. maí verður önnur opnunin í röðinni “Stingur í augun” – Kaktus á Hjalteyri. Hópurinn sem stendur á bak við listarýmið Kaktus í Listagilinu á Akureyri dvelur í Verksmiðjunni á Hjalteyri allan maímánuð og um síðustu helgi var fyrsta opnunin af fjórum sem þau standa fyrir þar. Í þetta skiptið fá Kaktusar til liðs við sig listamenn af Norðurlandi, bæði reynslubolta og nýgræðinga og munu þeir setja svip sinn á Verksmiðjuna. Opnunin verður kl. 15:00 – 19;00 laugardaginn 14. maí og opið verður milli 14:00 – 17:00 sunnudaginn 15. maí. Sérstakir viðburðir verða á laugardeginum kl. 16:00. Verksmiðjan er opin gestum og gangandi frá kl. 14 – 17 alla virka daga, en Kaktus meðlimir hafa flutt vinnustofur sínar tímabundið í Verksmiðjuna, svo gestir geta skoðað sýningar en einnig fylgst með framvindunni.

Dagskrá mánaðarins:

07. – 08. maí : Kaktus – Stingur í augun
14. – 15. maí: Norðlenskir listamenn í bland við Kaktus
21. – 22. maí: Kaktus fær til liðs við sig lokaársnema úr Listaháskóla Íslands
28. maí: Listahátíðin Ymur, sem er bland af tónlist, innsetningum, gjörningum og vídeólist.

Listahópurinn Kaktus samanstendur af sex ólíkum listamönnum, en það eru Anne Balanant, Áki Sebastian Frostason, Brák Jónsdóttir, Freyja Reynisdóttir, Hekla Björt Helgadóttir og Jónína Björg Helgadóttir. Þau stofnuðu saman lista- og menningarýmið Kaktus í mars árið 2015, en þau reka rýmið í sameiningu ásamt því að hafa sýnt saman.

Kaktus er styrktur af Akureyrarstofu, Norðurorku, Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Frekari upplýsingar veita: Jónína Björg Helgadóttir á kaktusdidsomeart@gmail.com eða í
síma 663-2443
Gústav Geir Bollason veroready@gmail.com verksmidjan.hjalteyri@gmail.com og í síma: 4611450 og 6927450

Koma listamannanna og sýningin eru styrkt af, Uppbyggingarsjóði, Myndlistarsjóði og Ásprenti. Bakhjarl Verksmiðjunnar er Hörgársveit. Verksmiðjan á Hjalteyri er handhafi Eyrarrósarinnar 2016

UA-76827897-1