Sjónlýsing í Listasafni Íslands. Laugardaginn 14. maí kl. 14

Laugardaginn fyrir Hvítasunnu, 14. maí býður Listasafn Íslands upp á sérstaka leiðsögn um sýninguna: UDSTILLING AF ISLANDSK KUNST, Upphaf kynningar á íslenskri myndlist í Kaupmannahöfn. Á sýningunni er litið um öxl og sýndur hluti þeirra verka sem voru á tímamótasýningum í Kaupmannahöfn árin 1920 og 1927.

Blint og sjónskert fólk er boðið sérstaklega velkomið í þessa leiðsögn, en Listasafn Íslands hefur fengið Guðbjörgu H. Leaman og Þórunni Hjartardóttur, sjónlýsendur, til að semja sjónlýsingar á fjórum völdum verkum á sýningunni.

Guðbjörg og Þórunn sjá um þessa leiðsögn, en jafnframt sjónlýsingunum verður hægt að hlýða á lengri, listsögulegar lýsingar á umræddum verkum, á heimasíðu safnsins.
Listasafni Íslands er umhugað um að ná til áhugasamra listunnenda innan þessa hóps og bjóða þeim upp á þjónustu á því formi sem hentar þeim best.

Sjónlýsingarnar á þessum verkum munu síðan verða aðgengilegar sem hljóðskrár á heimasíðu safnsins, þar sem fjallað er um safneignina og vonir standa til að sjónlýstum verkum í safneigninni fjölgi á næstu misserum, eftir því sem kostur gefst.

UA-76827897-1